Enn er unnið í rústum Notre Dame og verður ekki hafist handa við endurbyggingu kirkjunnar fyrr en á miðju næsta ári. Hart er hins vegar deilt um hvernig að endurreisninni skuli staðið.
Enn er unnið í rústum Notre Dame og verður ekki hafist handa við endurbyggingu kirkjunnar fyrr en á miðju næsta ári. Hart er hins vegar deilt um hvernig að endurreisninni skuli staðið.
Enn er unnið í rústum Notre Dame og verður ekki hafist handa við endurbyggingu kirkjunnar fyrr en á miðju næsta ári. Hart er hins vegar deilt um hvernig að endurreisninni skuli staðið.
Þeir voru einnig með grímur fyrir vitum sér vegna blýmengunar, sem fylgdi brunanum og er slík að enn veldur áhyggjum. Talið er að mörg hundruð tonn af blýi úr þaki kirkjunnar hafi losnað við brunann og valdið mengun.
Þegar eru hafnar miklar umræður um hvernig skuli staðið að uppbyggingu Notre Dame og sýnist sitt hverjum. Nokkuð er þó í að hægt verði að hefjast handa við að gera kirkjuna upp. Nú snýst vinnan um að tryggja öryggi í kirkjunni.
Í úttekt, sem dagblaðið The New York Times birti fyrir nokkrum dögum, kemur fram að engu hefði mátt muna að kirkjan hryndi til grunna og það hefði aðeins verið fyrir snarræði slökkviliðsmanna, sem hættu lífi sínu þegar mest lá við, að það skyldi ekki gerast.
Enn er talið að hætta sé á að hluti kirkjunnar geti hrunið og á ákveðnum svæðum er aðeins unnið með þjörkum eða vélmennum. Gulir þjarkarnir tína upp brak úr kirkjunni, viðarsperrur og bita, hluta úr þakinu og hleðslusteina úr turnspírunni, sem féll í eldinum. Hver einasti hlutur er lagður á bretti og síðan flokkaður, hreinsaður og greint hvaðan hann kom úr kirkjunni. Steinarnir verða rannsakaðir og þeir, sem ekki eru of skaddaðir, verða notaðir við endurreisn kirkjunnar.
Taka muni marga mánuði að tryggja öryggi kirkjunnar og því verður sennilega ekki lokið fyrr en um mitt næsta ár.
Þá tekur við gríðarleg vinna og tímapressan verður mikil vegna yfirlýsingar Macrons um að henni eigi að vera lokið innan fimm ára. Macron sagði einnig að nútímaarkitektúr myndi koma við sögu við endurreisn kirkjunnar og hefur það vakið miklar umræður um framtíð hennar.
Augnablikið þegar turninn féll í eldinum festist í minni flestra, sem fylgdust um allan heim með brunanum 15. apríl. Þetta táknræna augnablik var síðan mikið notað í fréttum og frásögnum af brunanum.
Notre Dame var reist á árunum 1163 til 1345 í gotneskum stíl. Markmiðið var að vítt yrði til lofts og veggja. Kirkjuskipið er 130 metrar á lengd og þar geta allt að 10 þúsund manns komið saman. Turnspíruna reisti arkitektinn Eugene Viollet-de-Duc síðan árið 1859.
Aðeins nokkrum dögum eftir brunann lagði franski arkitektinn Jean-Michel Wilmotte til að þakið yrði reist með nútímalegu málmburðarvirki. Yfir það yrði lagt títanlag og gamli turninn endurreistur úr gleri. Vildi Wilmotte með því sýna að menn létu ekki bugast.
Ítalski arkitektinn Massimiliano Fuksas hefur gert teikningar þar sem turninn er úr kristal, sem verði upplýstur að neðan og ljóminn sjáist um alla París. Á kristallinn að vera til marks um hvað sagan er brothætt.
Breski arkitektinn Norman Foster, sem meðal annars teiknaði glerþakið á þinginu í Berlín, segir að í aldanna rás hafi dómkirkjur aldrei verið gerðar upp í upprunalegri mynd þegar þær hafa eyðilagst. Hann sér fyrir sér að nýtt þak verði létt, eldhelt og gagnsætt.
Franska arkitektastofan NAB vill að gróðurhús verði undir þakinu og býflugnabú í nýrri útgáfu turnsins til að leggja áherslu á fjölbreytni náttúrunnar.
Einnig hafa heyrst raddir um að sleppa turninum þegar kirkjan verði endurreist vegna þess að hann hafi verið seinni tíma viðbót.
Greinina í heild má lesa í sunnudagsblaði Morgunblaðsins