Lífið í Sýrlandi er nánast óbærilegt og það getur verið erfitt fyrir þá sem ekki þekkja til að ímynda sér aðstæður fólks þar. Á sama tíma og svipaður fjöldi fólks er á hrakhólum innanlands hafa sjö milljónir Sýrlendinga flúið land. Flestir til Tyrklands. Gayed Sened er ein þeirra en hún kom ásamt fjölskyldu sinni yfir landamærin árið 2016 eftir að hafa verið á hrakhólum innanlands í fjögur ár. Þegar skera átti tunguna úr litlum syni hennar fyrir að mæla á ólögmætri tungu, ensku, að mati vígasamtakanna Ríkis íslams [Gayed talar alltaf í viðtalinu um Daesh sem er Ríki íslams á arabísku], gáfust þau endanlega upp og fóru.
Lífið í Sýrlandi er nánast óbærilegt og það getur verið erfitt fyrir þá sem ekki þekkja til að ímynda sér aðstæður fólks þar. Á sama tíma og svipaður fjöldi fólks er á hrakhólum innanlands hafa sjö milljónir Sýrlendinga flúið land. Flestir til Tyrklands. Gayed Sened er ein þeirra en hún kom ásamt fjölskyldu sinni yfir landamærin árið 2016 eftir að hafa verið á hrakhólum innanlands í fjögur ár. Þegar skera átti tunguna úr litlum syni hennar fyrir að mæla á ólögmætri tungu, ensku, að mati vígasamtakanna Ríkis íslams [Gayed talar alltaf í viðtalinu um Daesh sem er Ríki íslams á arabísku], gáfust þau endanlega upp og fóru.
Lífið í Sýrlandi er nánast óbærilegt og það getur verið erfitt fyrir þá sem ekki þekkja til að ímynda sér aðstæður fólks þar. Á sama tíma og svipaður fjöldi fólks er á hrakhólum innanlands hafa sjö milljónir Sýrlendinga flúið land. Flestir til Tyrklands. Gayed Sened er ein þeirra en hún kom ásamt fjölskyldu sinni yfir landamærin árið 2016 eftir að hafa verið á hrakhólum innanlands í fjögur ár. Þegar skera átti tunguna úr litlum syni hennar fyrir að mæla á ólögmætri tungu, ensku, að mati vígasamtakanna Ríkis íslams [Gayed talar alltaf í viðtalinu um Daesh sem er Ríki íslams á arabísku], gáfust þau endanlega upp og fóru.
Gayed Sened er fertug að aldri og er frá Damaskus. Hún og maðurinn hennar gengu í hjónaband fyrir fimmtán árum og eiga þrjá drengi, 14, 11 og þriggja ára. Sá yngsti fæddist í flóttamannabúðum í Tyrklandi. Búðunum var lokað í fyrra og þá fluttu þau sig um set til borgarinnar Gaziantep þar sem blaðamaður hitti hana að máli nýverið. Flóttamannabúðirnar voru í landamærabænum Islâhiye sem einnig er í Gaziantep-héraði.
„Við komum hingað til þess að flýja stríðið. Fyrst vorum við í flóttamannabúðum í rúm tvö ár en þá ákváðu tyrknesk stjórnvöld að breyta reglunum og loka búðunum. Það er alltaf verið að breyta reglum. Við urðum því að koma okkur fyrir á nýjum stað og þess vegna erum við hér í Gaziantep,“ segir Gayed.
Eiginmaður hennar missti heilsuna eftir búsetu í stríðshrjáðu landi og er óvinnufær. Hann fékk heilablæðingu og eins hefur hann þurft að fara í aðgerð á baki og bíður nú eftir annarri skurðaðgerð. Gayed segir að líkami hans hafi einfaldlega gefist upp en hún hafi sjálf haldið líkamlegri heilsu. Hún hefur aftur á móti glímt við sálræna kvilla líkt og nánast öll sýrlenska þjóðin.
Að sögn Gayed var ákvörðunin um að yfirgefa heimilið í Damaskus tekin í skyndi árið 2012. „Við gátum ekki annað því þeir komu á skriðdrekum inn í hverfið okkar og hófu að skjóta á okkur. Við gátum ekki tekið neitt með okkur. Við hlupum bara af stað í því sem við vorum í,“ segir hún. Þaðan fóru þau til bæjarins Maden sem í Raqqa-héraði. Raqqa varð síðar höfuðvígi vígasamtakanna Ríkis íslams en á þessum tíma taldi Gayed og fjölskylda hennar sér betur borgið þar en í Damaskus.
Árið 2014 gerðu vígasamtökin Raqqa að höfuðvígi sínu og eftir það voru stöðugar loftárásir gerðar á borgina og nágrenni af hálfu sýrlenska hersins, Rússa, Bandaríkjanna og fleiri ríkja. Gayed og fjölskylda hennar flúðu eftir að hafa búið í Maden í átján mánuði.
„Ríki íslams eru skelfileg samtök.Yfirleitt tel ég mig heppna konu. Ég fékk tækifæri til náms og var við nám í háskólanum í Damaskus á sínum tíma. Í Maden starfaði ég við hárgreiðslu en þegar Ríki íslams kom þangað lokuðu samtökin hárgreiðslustofunni, því slíkar stofur eru bannaðar samkvæmt þeirra lögum. Ég varð að hylja mig alla og klæðast svörtu frá toppi til táar. Það skipti engu hvort ég var andsnúin því eða ekki. Ég varð. Synir mínir áttu að ganga í skóla á vegum Ríkis íslams en ég vildi það ekki því á þeim stöðum þar sem Ríki íslams ræður ríkjum beinir sýrlenski herinn loftárásum sínum einkum að stofnunum eins og skólum. Eins er kennsla í skólum Ríkis íslams ekki sú fræðsla sem ég vildi fyrir þá. Því Ríki íslams snýst um svo miklu meira en fólk sem ekki þekkir til gerir sér grein fyrir. Þeir stjórna öllu samfélaginu og jafnvel orð fá nýja merkingu. Saklaus arabísk orð verða í innprentun þeirra að einhverju öðru og skelfilegu. Ég er kannski ekki trúuð í bókstaflegri merkingu þess orðs en ég trúi á það góða í manneskjunni. Í návígi við Ríki íslams getur það reynst erfitt,“ segir Gayed.
Þegar ljóst var að þau gætu ekki verið lengur í Maden hélt fjölskyldan í austurátt að landamærum Íraks. Næsti áfangastaður var landamærabærinn Bukmal (sem heitir öðru nafni Abu Kamal) sem liggur við Efratfljót í Deir ez-Zor-héraði. Eftir að hafa búið þar í á annað ár voru þau hrakin af stað að nýju af vígamönnum Ríkis íslams því fljótlega eftir að fjölskyldan kom þangað náðu vígasamtökin yfirráðum yfir bænum líkt og öllu svæðinu til Raqqa. Sýrlenski herinn, með stuðningi íranskra hermanna, náði bænum á sitt vald að nýju í árslok 2017 eftir harða orrahríð við vígamenn Ríkis íslams.
„Í Bukmal gengu drengirnir mínir í hefðbundinn skóla en þegar Ríki íslams náði svæðinu á sitt vald var bundinn endi á skólagönguna. Við þurftum að fara af heimilum okkar þar sem vígamennirnir fluttu inn í húsin okkar en okkur var gert að búa í skólahúsnæðinu. Sonur minn talaði smá ensku en það er álitið guðlast af Ríki íslams. Hann gætti ekki að sér og sagði eitthvað á ensku og einn vörðurinn spurði hver á þennan dreng? Ég svaraði að hann væri sonur minn. Þessi maður var frá Bukmal en hafði gengið til liðs við vígasamtökin. Ég óttaðist um líf drengsins míns,“ segir Gayed.
„Hann sagði við mig að drengurinn hefði brotið lögin og örvænting greip mig því refsingin við þessu broti er að skera tunguna úr þeim sem mælir á bannaðri tungu,“ segir Gayed. En það varð drengnum til bjargar að vörðurinn var heimamaður. „Hann sagði: þú skalt þakka Guði þínum fyrir að ég er einn hér og að félagar mínir heyrðu þetta ekki. Forðið ykkur, og við flúðum,“ segir Gayed.
Hún hafði unnið fyrir lækni í Bukmal og hann skrifaði upp á pappíra um að eiginmaður Gayed yrði að komast í aðgerð sem ekki væri hægt að framkvæma þarna.
Gayed fór með skjölin á skrifstofu æðsta stjórnanda Ríkis íslams á svæðinu og hann kvittaði upp á heimild fyrir þau að yfirgefa bæinn. Með þessa staðfestingu upp á vasann komumst þau að mörkum Raqqa-héraðs og þaðan til Afrin, skammt frá Aleppo.
Að sögn Gayed áttu þau að fara þaðan til Aleppo-borgar en forðuðu sér þess í stað yfir landamærin til Tyrklands. Ekki vegna þess að þau vildu yfirgefa heimalandið heldur vegna þess að það var ekkert annað í boði.
„Við neyddumst til þess að yfirgefa Sýrland þegar þarna var komið. Sýrland er skelfilegur staður og við gátum ekki lengur flutt á milli svæða í okkar eigin landi. Þrátt fyrir að vilja fara heim til Damaskus var það ekki í boði vegna stríðsins. Þessir flutningar okkar á milli staða í Sýrlandi voru allt annað en auðveldir og ég held að fólk eigi oft erfitt með að skilja hvers vegna við getum það ekki. Þú veist aldrei hvað bíður þín, allir innviðir landsins eru lamaðir. Til að mynda ef við hefðum ætlað að fara frá Bukmal til Damaskus hefðum við þurft að fara um Raqqa. Sú leið var undir yfirráðum Ríkis íslams. Síðan tóku aðrir við, Free Syrian Army [þ.e. hernaðarbandalag stjórnarandstæðinga] og svo sýrlenski herinn. Hvar sem er og hvenær sem er getur þú átt von á skothríð, sprengjum, að vera handtekinn. Því var ekkert annað í stöðunni fyrir okkur en að leggja af stað til Tyrklands,“ segir Gayed. „Við áttum ekkert val.“
Ástandið var oft mjög erfitt í flóttamannabúðunum segir hún, einkum vegna þess að þau voru allslaus. Áttu enga peninga og fengu engar greiðslur frá stjórnvöldum. „Þannig að við áttum ekki fyrir lífsnauðsynjum,“ segir Gayed.
„Þegar við komum til Gaziantep hafði ég samband við Al Farah-miðstöðina sem rekin er af ASAM (Association for Solidarity with Asylum Seekers and Migrants). Þar fengum við aðstoð til að greiða húsaleigu og helstu nauðsynjar. Ég fékk líka aðstoð við allskonar atriði, meðal annars var mér bent á SADA-miðstöðina. Hún hefur breytt öllu fyrir mig. Þar fékk ég sálrænan stuðning auk verkþjálfunar í hárgreiðslu og kennslu í tyrknesku.
Í Sýrlandi áttum við fjölskyldu og vini en enginn þeirra er hér í Gaziantep. Við erum ein. Þess vegna hefur verið svo gott að kynnast öllum þessum konum hér í SADA-miðstöðinni og uppgötva að ég er ekki ein. Við erum svo margar sem eigum svipaða sögu. Eins hefur skipt miklu máli að kynnast tyrkneskum konum og finna vinsemd þeirra,“ segir Gayed.
Spurð um líðan eldri drengjanna segir hún að þeir hafi átt afar erfitt í flóttamannabúðunum. Hafi verið eins og fuglar í búri.
„Enda eru flóttamannabúðir hræðilegur staður til að búa á. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Þú ert læstur inni og þú hefur ekki möguleika á að hitta neina sem ekki búa þar. Islâhiye-búðirnar voru læstar þannig að það fékk enginn að koma þangað og þess vel gætt að hleypa engum blaðamönnum inn til þess að fjalla um ástandið.
Fyrir okkur var það því mikil og góð breyting að koma til Gaziantep en það sem er erfiðast fyrir okkur í borginni er húsaleigan og hversu dýrt það er að lifa í borginni. Ekki síst fyrir fólk eins og okkur þar sem maðurinn minn er óvinnufær vegna veikinda og við erum með þrjú börn,“ segir Gayed.
Spurð út í það hvort hún sé á vinnumarkaði svarar Gayed neitandi en hún taki þátt í verkefnum á vegum SADA. Vinnudagurinn er langur á þessu svæði, 12 tímar, frá 8-20, og hún geti ekki unnið svo langan vinnudag. Bæði vegna drengjanna og veikinda eiginmannsins sem hún verði að sinna.
Gayed segir að elsti drengurinn hafi átt erfitt með að aðlagast og sé í stöðugum vandræðum í skólanum. Hann er ekki í skóla sem stendur en það er verið að reyna að finna nýtt úrræði fyrir hann. Aftur á móti gengur allt vel hjá þeim yngri. Fjölskylda Gayed er dreifð út um allan heim. Sjö ár eru síðan hún sá þau síðast og enginn veit hvort fjölskyldan eigi einhvern tíma eftir að sameinast að nýju, segir Gayed Sened.