Stríðið í Sýrlandi kostaði þrjú barna hennar lífið og sorgin dró eiginmann hennar til dauða. Hún er ásamt 13 ára gömlum syni sínum í tyrknesku borginni Gaziantep. Þau eru algjörlega réttlaus þar sem þau eiga ekki skilríki. Þau búa í tómri íbúð án rafmagns.
Stríðið í Sýrlandi kostaði þrjú barna hennar lífið og sorgin dró eiginmann hennar til dauða. Hún er ásamt 13 ára gömlum syni sínum í tyrknesku borginni Gaziantep. Þau eru algjörlega réttlaus þar sem þau eiga ekki skilríki. Þau búa í tómri íbúð án rafmagns.
Stríðið í Sýrlandi kostaði þrjú barna hennar lífið og sorgin dró eiginmann hennar til dauða. Hún er ásamt 13 ára gömlum syni sínum í tyrknesku borginni Gaziantep. Þau eru algjörlega réttlaus þar sem þau eiga ekki skilríki. Þau búa í tómri íbúð án rafmagns.
Fatima er tæplega fimmtug og kemur frá Aleppo. Mæðginin hafa verið í Tyrklandi í sjö mánuði. Fyrst voru þau í landamærabænum Kilis og þaðan fóru þau til Istanbúl þar sem dóttir hennar býr ásamt fjölskyldu sinni. Mæðginin bjuggu hjá þeim í nokkra mánuði en að sögn Fatimu gátu þau ekki fengið skilríki í Istanbúl og þeim hótað af yfirvöldum að vera vísað úr landi. Því var ekkert annað í boði en að fara til Gaziantep í þeirri von að fá skilríki þar og um leið landvistarleyfi. „Ef ég hefði verið lengur í Istanbúl hefði ég verið send til baka til Sýrlands,“ segir hún þegar blaðamaður heimsækir hana.
Sýrlenska borgin Aleppo hefur ítrekað ratað í fréttir frá því stríðið hófst í Sýrlandi árið 2011 og orrustan um borgina þykir minna mjög á orrustuna um Stalíngrad í seinni heimsstyrjöldinni. Þrátt fyrir að mest hafi verið fjallað um umsátur stjórnarhersins með stuðningi Rússa um borgina seinni hluta árs 2016 geisuðu bardagar um Aleppo allt frá árinu 2012.
Húsið sem Fatima bjó í ásamt eiginmanni og börnum gjöreyðilagðist árið 2013 þegar sprengju var varpað á það. „Við fluttum annað og koll af kolli. Við héldum áfram að flytja á milli húsa en loftárásir hers Assads héldu bara áfram. Ég missti ekki bara tvo syni og dóttur heldur hvarf tengdasonur minn líka og við vitum ekkert hvað varð um hann,“ segir Fatima.
Hún segir að þau hjónin hafi reynt að komast yfir landamærin til Tyrklands fyrir tveimur árum ásamt yngsta syni sínum, dóttur, tengdasyni og börnum þeirra. Sú tilraun mistókst þar sem þau áttu enga peninga til þess að greiða smyglurum. „Maðurinn var orðinn svo veikur á þessum tíma og dóttir mín var með berkla. Við biðum á landamærunum í tvo mánuði án árangurs þannig að við fórum aftur til Aleppo og þar lést maðurinn minn,“ segir Fatima. Spurð út í hvað hafi dregið hann til dauða segir hún að það hafi verið veikindi sem voru afleiðing þeirrar sorgar að missa börnin þeirra. „Hann vaknaði blindur einn morguninn og fljótlega eftir það lést hann,“ segir hún en Fatima var gefin í hjónaband þegar hún var 14 ára gömul. Þau eignuðust sjö börn og af þeim eru fjögur á lífi, þrjár dætur og einn sonur.
Fatima og sonur hennar eru einnig veik. „Ég er með verki alls staðar og þetta er rakið til áfallastreituröskunar. Sonur minn glímir einnig við veikindi en er samt að vinna. Þar sem hann er ekki með skilríki getur hann ekki gengið í skóla og við eigum ekki rétt á neinni aðstoð. Ekki neinu. Hann grætur mikið. Hann langar að vera í skóla en það er ekki hægt,“ segir Fatima.
Líkt og fram kom í viðtali við Írisi Björgu Kristjánsdóttur, sem starfar fyrir UN Women í Tyrklandi, er orðið erfiðara fyrir Sýrlendinga að skrá sig inn í landið en áður. Þeir þurfa, eins og flóttamenn annars staðar frá, að skrá sig inn í landið hjá opinberum aðilum, sem getur tekið langan tíma. Áður önnuðust tyrknesku hjálparsamtökin SGDD-ASAM (Association for Solidarity with Asylum Seekers and Migrants) skráninguna ásamt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR. Þetta þýðir að fólk þarf að bíða mun lengur eftir skráningu og um leið eftir aðstoð.
ASAM-samtökin voru stofnuð árið 1995 í Ankara sem sjálfstæð samtök sem hafa jafnrétti og mannúð að leiðarljósi í stuðningi sínum við flóttafólk og hælisleitendur í Tyrklandi. Samtökin eru stærstu sjálfstætt starfandi mannúðarsamtökin í Tyrklandi. Fatima hefur fengið aðstoð frá ASAM og SADA-miðstöðinni eftir að hún kom til Gaziantep. Þau hafa til að mynda aðstoðað hana við að greiða húsaleigu og kaupa mat, veita henni ráðgjöf og lögfræðiaðstoð við skráningarferlið. Ekki hefur tekist að fá rafmagn á íbúðina þar sem eigandi hennar hefur ekki heimild til þess nema hún framvísi skilríkjum. Hann bauð henni jafnvel að sýna skilríki frá einhverjum ættingja í Gaziantep en þau mæðgin eiga enga að þar í borg. Þau eru ein.
„Ég þekki engan hér, við erum bara tvö og ég er orðin svo þreytt. Það er svo erfitt að lifa, ekki bara í Sýrlandi heldur líka hér í Tyrklandi. Stundum langar mig bara að gefast upp eftir þessi átta skelfilegu ár,“ segir Fatima.
Að sögn Fatimu gengur hún alls staðar á veggi. „Sama hvert ég fer þá fæ ég alltaf sama svarið, þú verður að taka persónuskilríki með. En hvernig á ég að geta það þegar ég er skilríkjalaus? Ég fer aftur og aftur á skráningarskrifstofuna og er alltaf lofað einhverju en ekkert gengur. Annaðhvort er ég of snemma eða of seint. Alltaf eitthvað sem kemur í veg fyrir að umsóknin sé afgreidd og á meðan höfum við ekkert,“ segir hún.
Fatima og sonur hennar komu ólöglega til Tyrklands með aðstoð smyglara. Þau áttu að greiða 1.500 Bandaríkjadali, sem svarar til 187 þúsund íslenskra króna, en hann gaf þeim afslátt þannig að þau greiddu 1.200 dali fyrir að fara yfir landamærin til Kilis. Aleppo er í 68 km fjarlægð frá tyrkneska landamærabænum. Síðan greiddu þau honum þúsund tyrkneskar lírur, 21 þúsund krónur, fyrir farið til Istanbúl.
Fatima hefur búið í Aleppo síðan stríðið braust út og hún segir ástandið þar skelfilegt. „Þú ert aldrei öruggur. Veist aldrei hvenær þú ert hnepptur í varðhald. Ég var lokuð inni í þrjátíu sólarhringa og ástæðan var sú að þeir vildu yfirheyra mig vegna búsetu minnar í þessu ákveðna hverfi borgarinnar. Það er í austurhlutanum þar sem ég er fædd. Þetta var húsið sem ég fæddist í. Eftir fangelsunina var ég gjörsamlega búin andlega og missti minnið. Ég var í meðferð hjá geðlækni í hálft ár á eftir. Þegar þeir lokuðu mig fyrst inni í klefanum var ég nánast rænulaus í sex daga af hræðslu. Ég óttaðist um hvað myndi gerast en þeir spurðu mig bara spurninga. Allt sem við áttum var tekið af okkur. Ég á ekkert, engar minningar eða neitt um fyrra líf annað en það sem ég er með í huganum,“ segir hún.
Viltu snúa aftur til Aleppo þegar stríðið er búið?
„Ég veit það ekki. Ég á ekkert þar lengur. Ekki fjölskyldu eða neitt. Ég hugsa að það yrði ekkert líf fyrir drenginn minn en Sýrland er landið mitt. Ég er fædd þar og bjó þangað til allt var tekið frá okkur. Maðurinn minn og hluti barnanna okkar eru grafin þar,“ segir Fatima.
Hún vonast til þess að skráningin inn í Tyrkland fari að ganga því Fatima vill fara til Istanbúl að aðstoða dóttur sína. Hún á þrjú börn en eiginmaður hennar er atvinnulaus og sinnir ekki fjölskyldunni og ætlar að yfirgefa hana.
Hún á tvær dætur til viðbótar. Önnur þeirra býr með tveimur börnum sínum í Sýrlandi en eins og kom fram hér að framan hvarf eiginmaður hennar í stríðinu. Þriðja dóttirin hefur búið lengi í Jórdaníu. Þá dóttur hefur Fatima ekki séð í átta ár.
Ef Fatima og sonur hennar fá ekki skilríki og tímabundna vernd í Tyrklandi verða þau væntanlega send aftur yfir landamærin líkt og forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, stefnir að. Erdogan telur rétt að koma á „öruggu svæði“ í Sýrlandi og senda þangað allt að þrjár milljónir flóttamanna sem nú eru í Tyrklandi.
Yfir 3,6 milljónir Sýrlendinga eru í Tyrklandi en undanfarna mánuði hefur staða þeirra versnað til muna þar sem afstaða almennings til þeirra hefur farið versnandi. Meðal annars vegna versnandi efnahagsástands í Tyrklandi.