Framtíð sýrlenskra barna og fjölskyldna í Tyrklandi er óljós eftir að forseti landsins, Recep Tayyip Erdogan, greindi frá hugmyndum sínum um að senda allt að þrjár milljónir flóttamanna yfir landamæri Sýrlands inn á „öruggt“ svæði. Flestir efast um hversu öruggt þetta svæði er á sama tíma og enginn efast um að fáir eða engir hafi tekið jafn vel á móti flóttafólki og Tyrkir hafa gert undanfarin ár.
Framtíð sýrlenskra barna og fjölskyldna í Tyrklandi er óljós eftir að forseti landsins, Recep Tayyip Erdogan, greindi frá hugmyndum sínum um að senda allt að þrjár milljónir flóttamanna yfir landamæri Sýrlands inn á „öruggt“ svæði. Flestir efast um hversu öruggt þetta svæði er á sama tíma og enginn efast um að fáir eða engir hafi tekið jafn vel á móti flóttafólki og Tyrkir hafa gert undanfarin ár.
Rúmlega 3,6 milljónir Sýrlendinga eru í Tyrklandi og ekkert ríki hefur tekið á móti jafn mörgum flóttamönnum á sama tíma og mörg ríki gerðu lítið sem ekkert til að aðstoða fólk sem var að flýja átök í Sýrlandi og Írak. Kostnaðurinn vegna flóttafólks í Tyrklandi nemur 35 milljörðum Bandaríkjadala sem svarar til 4.390 milljarða króna og kemur langstærstur hluti þess úr ríkissjóði Tyrklands. Flest þeirra ríkja sem hýsa flesta flóttamenn myndu seint teljast til efnuðustu ríkja heims fyrir utan Þýskaland. Samkvæmt tölum Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna eru 1,4 milljónir flóttamanna í Pakistan, 1,2 milljónir í Úganda, 1,1 milljón í Súdan og Þýskalandi.
Í tyrkneska landamærabænum Kilis bjuggu 150 þúsund Tyrkir áður en stríðið braust út í Sýrlandi. Nú eru þar um 250 þúsund Sýrlendingar. Bretland, þar sem 65 milljónir búa, hefur tekið við innan við 20 þúsund Sýrlendingum.
Fjöldi þeirra sem flúði stríð, ofsóknir og átök fór yfir 70 milljónir árið 2018. Þetta er mesti fjöldi sem Flóttamannastofnun SÞ hefur séð á þeim næstum 70 árum sem hún hefur starfað.
Samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru 25,9 milljónir flóttamanna (refugees) í heiminum. Árið 2018 var annar hver flóttamaður barn, mörg þeirra (111.000) voru ein og án fjölskyldu sinnar.
Annar hópurinn er hælisleitendur (migrants) — fólk sem er utan heimalands síns og nýtur alþjóðlegrar verndar, en bíður niðurstöðu umsóknar sinnar um stöðu flóttamanns. Í lok árs 2018 voru 3,5 milljónir hælisleitenda í heiminum.
Þriðji og stærsti hópurinn, 41,3 milljónir, er fólk sem er á vergangi á öðrum svæðum innan síns eigin heimalands, hópur sem gjarnan er vísað til sem vegalauss fólks innan eigin lands eða IDP (Internally Displaced People).
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, styður við 1,8 milljónir flóttabarna í Tyrklandi. Flest þeirra eru frá Sýrlandi. Aðstoðin fer oft fram í samstarfi við önnur hjálparsamtök, þar á meðal ASAM-hjálparsamtökin. Samtökin voru stofnuð árið 1995 í Ankara sem sjálfstæð samtök sem hafa jafnrétti og mannúð að leiðarljósi í stuðningi sínum við flóttafólk og hælisleitendur í Tyrklandi. Samtökin eru stærstu sjálfstætt starfandi mannúðarsamtökin í Tyrklandi.
Mikilvægt að ná til þeirra sem eru í viðkvæmastri stöðu
Sezen Yakin starfar hjá UNICEF í Gaziantep og Şuheda Kipri stýrir Al Farah-miðstöðinni fyrir börn á flótta og fjölskyldur þeirra.
mbl.is/Gúna
Í borginni Gaziantep er rekin barna- og fjölskyldumiðstöðin Al Farah (mín hamingja á arabísku). Miðstöðin er rekin af ASAM í samstarfi við UNICEF í Tyrklandi.
Sezen Yakin sem starfar hjá UNICEF í Gaziantep, segir afar mikilvægt að ná til þeirra sem eru í viðkvæmastri stöðu og eru oft ekki í þeirri aðstöðu að geta leitað sér hjálpar. Hún segir að UNICEF sé í samstarfi um rekstur fimm slíkra miðstöðva í Tyrklandi; í Adana, Ankara, Izmir og Istanbúl auk Gaziantep. Yfir 135 þúsund börn og ungmenni hafa fengið aðstoð í gegnum þessar sex miðstöðvar.
Skrifstofa UNICEF í Gazaintep hefur yfirumsjón með öllu starfi UNICEF í suðausturhluta landsins, í fimmtán héruðum. Jafnframt sinnir skrifstofa UNICEF í Gaziantep starfi samtakanna hinum megin landamæranna, það er í Sýrlandi.
Sezen segir að ábendingar berist víða að um börn og ungmenni sem þurfi að fá aukinn stuðning án þess að þau hafi óskað eftir honum. „Við reynum að grípa inn hvenær sem við getum. Til að mynda er mikilvægt að vera í góðu samstarfi við samtök kvenna þegar kemur að fræðslu varðandi kynbundið ofbeldi, heilbrigðismál, barnahjónabönd og fleiri málefni sem snerta oft konur og stúlkur beint. Þrátt fyrir að við séum með fjölmarga sérfræðinga starfandi hjá okkur er gott að virkja þá sem hafa persónulega reynslu.“
mbl.is/Kristinn Garðarsson
UNICEF starfar með fleiri mannúðarsamtökum en ASAM og eins með sveitarstjórnum á svæðinu. Sezen segir að eitt mikilvægasta svið UNICEF sé menntasviðið því aðgangur að menntun er grundvallarréttindi allra barna.
Í Tyrklandi hefur verið lögð áhersla á samlögun barna sem eru á flótta og að þau gangi í almenna skóla. Árið 2016 var þeim áfanga náð að fleiri sýrlensk börn voru í skóla í Tyrklandi en ekki. „Eftir að sérskólum fyrir sýrlensk börn hefur verið lokað höfum við fært stuðning okkar inn í almenna skólastarfið. Til að mynda fyrir börn sem þurfa á miklum stuðningi að halda,“ segir Sezen.
Şuheda Kipri hefur starfað hjá ASAM í eitt og hálft ár og hefur stýrt Al Farah-miðstöðinni í fjóra mánuði en áður var hún hjá SADA-miðstöðinni sem fjallað hefur verið um í greinum á mbl.is og í Morgunblaðinu að undanförnu.
Tyrknesk yfirvöld vilja flytja sýrlenskt flóttafólk aftur yfir landamærin.
AFP
Al Farah-miðstöðin var sett á laggirnar fyrir fjórum árum og eru starfsmennirnir 60 talsins. „Okkar helstu verkefni eru vernd barna á ýmsan hátt. Meðal annars starfa hér félagsráðgjafar, sálfræðingar, fjölskylduráðgjafar, kennarar, næringarfræðingar auk sérfræðinga á ýmsum sviðum. Börnin sem koma til okkar eru hvött til þess að sækja skóla og við bjóðum meðal annars upp á kennslu í tyrknesku og öðrum greinum til þess að gera þau hæfari til að takast á við verkefni sem bíða þeirra í almenna skólakerfinu,“ segir Şuheda.
Markmiðið að gera líf fólks betra
Þegar börn og fjölskyldur koma í fyrsta skipti í Al Farah-miðstöðina fara þau í viðtöl þar sem þarfir þeirra eru metnar. Í samræmi við þær fá þau þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. „Eins erum við með starfsmenn sem fara heim til þeirra sem eiga erfitt með að komast til okkar af ýmsum ástæðum. Við vinnum með starfsfólki félagsþjónustunnar og barnaverndar hér í Gaziantep og förum með þeim í slíkar heimsóknir. Við vinnum náið með yfirvöldum og öðrum mannúðarsamtökum enda mikilvægt að vinna saman því markmið okkar er sameiginlegt – að gera líf fólks betra,“ segir Şuheda.
Hún segir að flest þeirra barna sem komi í Al Farah-miðstöðina séu sýrlensk en einnig er tekið á móti börnum frá öðrum löndum. Einhver tyrknesk börn sæki þangað en þau eru fá. „Okkar skjólstæðingar eru börn í afar viðkvæmri stöðu og því kemur aðeins brotabrot þeirra barna sem þurfa aðstoð hingað og flest börn fara í aðrar miðstöðvar á vegum ASAM hér í Gaziantep,“ segir hún.
Öryggisverðir hjá Al Farah-miðstöðinni.
mbl.is/Gúna
Á hverjum degi koma um 50 fjölskyldur að meðaltali í Al Farah-miðstöðina. Þannig að yfirleitt eru þetta um 120-150 einstaklingar sem leita þangað á hverjum degi. „Við vitum af börnum sem aldrei fara í skóla og búa við ömurlegar aðstæður hér í Gaziantep. Það getur verið mjög erfitt að nálgast þau en starfsfólk okkar er mjög duglegt að finna þá sem þurfa á aðstoð að halda og fara heim til þeirra. Sérstök áhersla er lögð á fötluð börn og valdeflingu þeirra. Að gera þau færari um að taka þátt í daglegu lífi en annars væri,“ segir Şuheda.
Ömer Takak, félagsráðgjafi í Al Farah-miðstöðinni, segir að nánast allir skjólstæðingar miðstöðvarinnar séu í afar viðkvæmri stöðu og búið sé til teymi um hvert mál. Ömer hefur starfað í miðstöðinni í tvö ár og segir að verkefnin hafi breyst á þessum tíma. Vinna barna er orðið eitt helsta viðfangsefni félagsráðgjafa auk barnahjónabanda og þolenda ofbeldis, neyslu vímuefna og barna sem eru utanvelta í skólakerfinu.
„Okkar starf felst í að veita þeim stuðning og valdefla þau með stuðningi félagsráðgjafa, sálfræðinga, lögfræðinga og fleiri sérfræðinga sem geta stutt við þau. Við byggjum upp stuðningsnet í kringum fjölskyldurnar og gerum þeim kleift að takast á við þau vandamál sem steðja að. Á námskeiðum fræðum við bæði börn og fullorðna um að það er bannað með lögum að gefa börn í hjónabönd og það sé heldur ekki talið eðlilegt að börn séu þvinguð í hjónabönd,“ segir Ömer.
Þau segja mjög algengt að börn vinni og stundum allt að 12 tíma vinnudag fyrir smánarlaun. Stundum er þetta vegna þess að neyðin er slík að það er ekki annað í boði en börn taki þátt í framfærslu fjölskyldunnar. Eins þegar börn ná ákveðnum aldri telja margir foreldrar rétt að þau hætti námi þar sem námið sé tilgangslaust og nær að afla tekna. Mikil vinna lögð í það hjá starfsfólki Al Farah að breyta þessum hugsunarhætti, segir Sezen. Því miður skili það oft litlum árangri.
Börnin sem koma í Al Farah-miðstöðina eru öll í afar viðkvæmri stöðu.
AFP
„Í þeim tilvikum þar sem mæður eru einar með börn, annaðhvort ekkjur eða fráskildar, er yfirleitt ekkert annað í boði en að börnin verði að vinna þrátt fyrir að það sé ólöglegt og slæmt fyrir heilsu barnanna,“ segir Sezen.
„Síðan er þetta alltaf spurning um framboð og eftirspurn,“ segir Ömer. Vinnuveitendur sækjast eftir ungu fólki í vinnu þar sem það gerir litlar kröfur og er á lægri launum. Reynslumikið eldra fólk á rétt á hærri launum og því oft erfitt fyrir eldra fólk að fá vinnu.
Talsverður fjöldi ofbeldismála kemur til kasta félagsráðgjafanna hjá Al Farah. Ofbeldi getur átt sér mörg andlit segja þau og nefna líkamlegt, andlegt og kynferðislegt. Eins sé það af ólíkum stærðargráðum. Fyrst eru tekin viðtöl við barnið og fjölskyldu þess til að sjá um hvaða tegund ofbeldis er að ræða og hversu alvarlegt það er. Að finna út hver brýtur gegn barninu og ef hann er í fjölskyldu barnsins verður að tryggja öryggi barnsins. Annaðhvort með því að taka ofbeldismanninn út af heimilinu eða að koma barninu í öruggt skjól. Eins er að sjálfsögðu, í samræmi við tyrknesk lög, tilkynnt um málið til barnaverndar og lögreglu, segja þau. Fagmenntaðir starfsmenn Al Farah fylgja barninu á lögreglustöð og eru viðstaddir upplýsingagjöf þar sem og hjá barnavernd.
Friðardúfa gerð úr mósaík í Al Farah.
mbl.is/Gúna
Sezen segir að jafnvel þó svo að það sé hlutverk opinberra aðila að fylgja slíkum málum eftir er það oft fyrir mannúðarsamtök eins og ASAM og fleiri sem slík mál koma upp á yfirborðið og þeim er fylgt eftir.
Í Tyrklandi byggir þjónusta barnaverndar oft á því að ábendingar berast um brot á börnum. Mjög erfitt er fyrir barn að hafa samband við slíkar stofnanir af sjálfsdáðum því börnin kunna oft eðlilega ekki á kerfið frekar en fjölskyldur þeirra. Starfsmenn mannúðarsamtaka gera það aftur á móti auk þess sem þeir eru sérþjálfaðir í að starfa með fólki í viðkvæmri stöðu.
Ekki síst hér hjá Al Farah því eins og áður hefur komið fram eru það börn og fjölskyldur sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem leita þangað, segir Ömer.
Málin ólík og oft margslungin
Málin sem koma til kasta starfsmanna Al Farah eru ólík og oft margslungin. Til að mynda er meðal skjólstæðinga þeirra stúlka sem var gift 16 ára gömul í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Ástæðan fyrir því að foreldrar hennar ákváðu að gefa hana í hjónaband var að verja hana fyrir hermönnum stjórnarhersins því stúlkur sem eru ógiftar eru í miklu meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi eða að vera þvingaðar í nauðungarsambönd við hermenn.
Starfsfólk Al Farah segir mjög erfitt að eiga við barnahjónabönd og fræðsla sé gríðarlega mikilvæg, að fræða fólk um skelfilegar afleiðingar sem þeim geta fylgt og áhrif á bernskuna. Þrátt fyrir að það sé refsivert lætur fólk það ekki stöðva sig. Foreldrarnir vita oft ekki betur þar sem þeir hafa sjálfir verið gefnir í hjónaband á barnsaldri, jafnvel niður í 10 til 11 ára aldur.
Þegar börn og fjölskyldur koma í fyrsta skipti í Al Farah-miðstöðina fara þau í viðtöl þar sem þarfir þeirra eru metnar. Í samræmi við þær fá þau þá aðstoð sem þau þurfa á að halda, segir Şuheda Kipri.
mbl.is/Gúna
Beghan Bilgiy, sálfræðingur í Al Farah-miðstöðinni, sinnir hópastarfi þar sem sálgæslu er sinnt meðal annars í gegnum leik. Börnin sem hún sinnir eru frá fjögurra ára til 18 ára og þeim skipt í hópa eftir aldri. Helstu vandamálin sem börnin glíma við eru áfallastreituröskun og sum eru að takast á við margþætt áföll. „Enda erum við að tala um börn sem eru að koma frá stríðshrjáðu landi. Mörg hafa misst nákomna í stríðinu og flest þekkja einhvern sem ekki lifði af. Börnin gráta mikið og eru hrædd við óvæntan snöggan hávaða. Svo hræðast þau flest flugvélar því þau eru með minningar frá loftárásum í Sýrlandi,“ segir Beghan.
Hún segir að mörg þeirra séu hrædd við ókunnuga og eigi erfitt með að treysta. Þau upplifa streitu foreldra sinna og það hefur mikil áhrif á þau. Stundum koma áföllin ekki fram fyrr en síðar. Alls konar smáatriði verða stór og stundum nánast óyfirstíganleg fyrir þau, til að mynda smáatriði eins og að gleyma kennslubók heima.
Sezen segir að það hafi alls ekki verið auðvelt fyrir tyrkneska skólakerfið að taka við þessum mikla fjölda barna frá Sýrlandi. Ekki síst vegna þess að það vantaði þjálfun starfsfólks í að takast á við þau vandamál sem mörg þeirra glíma við. Miklu skipti líka að þau hafi mörg hver ekki gengið í skóla í langan tíma og kunni jafnvel ekki tungumálið, það er tyrknesku.
İhlas elskar að búa til mat og hennar draumur er að verða kokkur þegar hún er orðin stór.
mbl.is/Gúna
Ekkert mál að vakna á morgnana
İhlas er tólf ára og býr með fjölskyldu sinni í Gaziantep. Foreldrar hennar eru á fimmtugsaldri og eiga sex dætur, auk Íhlas og tvíburasystur hennar eiga þau tvítuga dóttur, 16 ára, 14 ára og átta ára. Dæturnar ganga allar í skóla nema sú elsta sem er gift en býr samt hjá foreldrum sínum þar sem eiginmaður hennar vinnur í Istanbúl. Fjölskyldan, sem kom frá Aleppo, hefur verið í Gaziantep í sjö ár.
İhlas byrjaði að koma í Al Farah-miðstöðina í nóvember 2017 og hefur sótt margvísleg námskeið þar, svo sem tölvukennslu og myndlist. Hún kemur í Al Farah-miðstöðina alla laugardaga ásamt tvíburasystur sinni og syngur þar í kór og lærir á trommur.
Hún segist eiga fullt af vinum og margir þeirra eru með henni í tómstundastarfinu í Al Farah-miðstöðinni. „Ég vona að ég fái tækifæri til þess að koma hingað áfram. Kem eins oft og ég get en það fer líka eftir því hvað er mikið að gera í skólanum,“ segir hún og bætir við að það hafi skipt hana miklu máli að fá sálrænan stuðning hér í Al Farah-miðstöðinni.
Íhlas var fyrst í sérstökum skóla fyrir sýrlensk börn en hefur undanfarin þrjú ár verið í skóla í hverfinu sem hún býr í. Þar sem hún kemur af svæði þar sem tyrkneska er töluð og var svo ung þegar hún kom til Tyrklands hefur hún aldrei lært að tala eða skrifa arabísku heldur tyrknesku. Íhlas hefur mjög gaman af því að teikna og er mjög góð í tyrknesku. Þrátt fyrir það hefur ekki alltaf verið auðvelt að verða hluti af bekknum, segir hún. „Krakkarnir tala stundum við mig og stundum ekki.“
Þetta er svipað og margir starfsmenn mannúðarsamtaka í Gaziantep tala um. Einelti gagnvart flóttabörnum hefur aukist í skólum á sama tíma og þeim hefur fjölgað. Hafa verði í huga að fleiri hundruð þúsund flóttabörn hafa bæst inn í almenna skólakerfið í Tyrklandi og til þess að takast á við þessa gríðarlegu fjölgun eru skólar tvísetnir. Kennarar eru flestir ekki þjálfaðir í að takast á við vandamál sem þessi börn glíma við og þau hafa mörg hver ekki gengið í skóla í langan tíma.
Skólinn hennar Íhlas byrjar klukkan 6:30 á morgnana og er búinn klukkan 12 á hádegi. „Eftir hádegi eru aðrir krakkar í skólanum því það komast ekki allir fyrir á sama tíma,“ segir hún. Þegar blaðamaður hváir og hugsar til umræðunnar á Íslandi um hversu erfitt er fyrir börn að vakna á morgnana til að fara í skólann segir İhlas að henni finnist ekkert erfitt að vakna á morgnana enda vön því. Hún vaknar klukkan 5 á hverjum morgni og líkt og mörg barnanna í Al Farah-miðstöðinni getur hún varla beðið eftir því að komast í skólann því þeim finnst svo gaman að læra. Sama á við um laugardaga þegar þau bíða eftir að komast í miðstöðina.
„Mér finnst mjög gaman í skólanum því kennararnir mínir eru svo góðir,“ segir Íhlas. Þegar blaðamaður spyr hana hvort það séu notaðar spjaldtölvur eða tölvur í skólanum segir hún að svo sé ekki því það sé allt of dýrt. Sumir eiga svoleiðis heima en alls ekki allir, segir Íhlas.
Hún vonast til þess að geta klárað menntaskóla en hún veit að það er ekki öruggt og hún viti að það er ekki möguleiki á að hún geti farið í frekara nám ekkert frekar en eldri systur hennar áttu möguleika á langskólanámi. Íhlas dreymir um að fara í nám í matreiðslu. Hún hjálpar oft til í eldhúsinu heima og pasta er eftirlætismaturinn hennar. „Spagettíið mitt er frábært. Það finnst öllum það hrikalega gott,“ segir hún og hlær.
Bræðurnir Cuma og Muhammed Ali. Cuma elskar fótbolta og Muhammed langar að verða kennari þegar hann er orðinn stór.
mbl.is/Gúna
Dreymir um frekara nám
Bræðurnir Muhammed Ali 10 ára og Cuma Ali 13 ára komu til Tyrklands fyrir fimm árum ásamt foreldrum sínum og þremur systkinum. Systir þeirra er 15 ára og síðan eiga þeir yngri bræður, 6 og 8 ára. Fjölskyldan hefur notið þjónustu Al Farah frá árinu 2016. Þeir segja stundum erfitt að komast í miðstöðina þar sem þeir búa langt frá. Þeir vilja ekki biðja foreldra sína um pening í strætó enda þurfa þau að velta hverjum eyri fyrir sér. Cuma hjálpar pabba sínum oft í vinnunni um helgar og ef Cuma kemst ekki með systkinum sínum í Al-Farah-miðstöðina geti þau ekki farið. Of hættulegt er fyrir systur þeirra að ganga ein langa leið í bílinn sem sæki börnin og Muhammed er of ungur.
Þeir eiga báðir marga vini og finnst gaman í skólanum. „Okkur finnst heimanámið oft dálítið mikið en við verðum að leggja hart að okkur því við viljum standa okkur vel og fá háar einkunnir. Til þess að geta haldið áfram námi og farið í menntaskóla alveg eins og stóra systir okkar,“ segja þeir. Cuma finnst skemmtilegast í fótbolta í skólanum en Muhammed í tónlistartímum. Hann spilar á hljóðfæri og syngur í kór í Al Farah-miðstöðinni. Auk þess hafa þeir báðir farið á myndlistarnámskeið. Cuma spilar á gítar og hefur farið á námskeið í flugdrekagerð.
Uppáhaldslið Cuma í Tyrklandi er Beşiktaş en í enska boltanum heldur hann með Liverpool. Ronaldo er í miklu eftirlæti hjá honum og dáist hann mjög að leikni hans við boltann. Draumurinn er að verða atvinnumaður í fótbolta eða lögreglumaður þegar hann er orðinn stór. Mamma hans tekur undir með syni sínum og segir að hann sé mjög góður í fótbolta og eigi framtíðina fyrir sér.
„Við þökkum guði fyrir að hafa fengið tækifæri til að komast til Gaziantep heil á húfi. Fyrir okkur skiptir miklu að hafa aðgang að þjónustu eins og í Al Farah,“ segir hún en öll þjónusta Al Farah-miðstöðvarinnar er endurgjaldslaus sem er skiptir öllu fyrir þau og flesta flóttamenn á þessu svæði.
Systkinin Esma og Muhammed eru afar ólík. Hún hefur mikinn áhuga á námi ólíkt Muhammed.
mbl.is/Gúna
Hafa átt erfitt uppdráttar
Systkinin Esma og Muhammed hafa bæði átt frekar erfitt uppdráttar í Tyrklandi en þau búa ásamt afa sínum og ömmu og langömmu í Gaziantep. Pabbi þeira lést í stríðinu í Sýrlandi og móðir þeirra er enn í Sýrlandi. Amma þeirra er 56 ára og var ung gefin afa þeirra sem er miklu eldri.
Esma er 14 ára og Muhammed er tæplega 16 ára. Þau hafa verið rúm sex ár í Tyrklandi og byrjuðu fyrst í almennum skóla í haust. Þau tóku bæði þátt í sérstöku 16 mánaða námskeiði á vegum Al Farah þar sem þau voru búin undir almenna skólakerfið. Þar er lögð mikil áhersla á tyrknesku og eins stærðfræði. Esma er með jafnöldrum sínum í bekk en Muhammed er talsvert á eftir og flestir bekkjarfélagar hans einu til tveimur árum yngri.
Esma eyðir miklum tíma í heimanámið en hann ekki. Amma hans segir að hann sé áhugalaus um námið og eyði mest hálftíma á dag í að læra heima. Hún segir að þau hafi átt erfitt með námið og að aðlagast lífinu í Gaziantep. Esma tekur undir þetta með ömmu sinni og segir að enskan sé bara of erfið fyrir hana og nánast vonlaust fyrir hana að vinna upp forskot bekkjarsystkinanna þar. Þau fái aðstoð í skólanum með þær námsgreinar sem þau eiga erfiðast með og hún voni að það dugi til þess að vinna upp forskot hinna.
Hvorugt þeirra kemur lengur í Al Farah-miðstöðina þrátt fyrir að búa rétt við hjá og að Esma hafi mikinn áhuga á að fara þangað. Amma þeirra segir að Esma sé í tímum í Kórarninum og það sé mikilvægara fyrir hana en að læra myndlist líkt og hún gerði áður í miðstöðinni. Spurð hvort Muhammed fari einnig í tíma í Kóraninum neitar amma þeirra því enda séu þeir tímar bara fyrir stúlkur.
Esma er í skólanum frá 7:45 til 15:45. Skóladagurinn er styttri hjá Muhammed þar sem hann er kominn styttra á veg með námið. Áður en þau fóru í skóla var Muhammed að vinna í plastverksmiðju með frændum sínum. Vinnan er erfið og vinnudagurinn langur eða tólf tímar. Nú vinnur hann í verksmiðjunni á laugardögum, yfirleitt 10-12 tíma.
Rúmlega sjö milljónir barna eru á flótta. Af þeim eru 3,7 milljónir ekki í skóla, samkvæmt skýrslu UNHCR. 63 prósent flóttabarna á grunnskólaaldri njóta menntunar, miðað við 91 prósent á heimsvísu. Um 84 prósent barna á gagnfræða- og menntaskólaaldri fá menntun í heiminum á meðan aðeins 24% barna á flótta gera það. Aðeins þrjú prósent barna á flótta fara í háskólanám miðað við 37 prósent ungmenna á heimsvísu.
Filippo Grandi, framkvæmdastjóri UNHCR, segir nauðsynlegt að fjárfesta í menntun flóttabarna. Annars alist upp kynslóð sem geti ekki fundið vinnu við hæfi eða orðið fullgildir samfélagsþegnar í framtíðinni.
Í skýrslu UNHCR kemur fram að börn sem eru í skóla séu ólíklegri til að hafna í barnaþrælkun eða leiðast út í glæpi. Ólíklegra sé að stúlkur séu gefnar í hjónaband og eignist börn þegar þær eru sjálfar á barnsaldri. Skólar eiga að vera öruggur griðastaður fyrir börn. Þeir eru það ekki á meðan skotmark stríðandi fylkinga eru skólabyggingar en samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum voru gerðar 14 þúsund árásir á skóla í 34 löndum á árunum 2014-2018.
Eitt það mikilvægasta sem hvert samfélag getur boðið börnum og ungmennum er tækifæri til að afla sér menntunar og það á að vera réttur allra barna — alltaf.