Búin að gleyma því að þau eru börn

Á leið til lífs | 23. október 2019

Búin að gleyma því að þau eru börn

„Við erum tveir kennarar með þennan hóp og það er mjög sorglegt þegar hingað koma börn sem eru búin að gleyma því að þau eru börn. Sem leikskólakennari áttu ekki von á því að hitta börn sem vita ekki hvað það er að leika sér. Að þau hafi búið við þannig aðstæður að vera svipt æskunni.“ Þetta segir leikskólakennari í Aþenu sem starfar með flóttabörnum í menntaveri á vegum mannúðarsamtakanna ELIX sem rekið er með stuðningi frá UNICEF.

Búin að gleyma því að þau eru börn

Á leið til lífs | 23. október 2019

AFP

„Við erum tveir kennarar með þennan hóp og það er mjög sorglegt þegar hingað koma börn sem eru búin að gleyma því að þau eru börn. Sem leikskólakennari áttu ekki von á því að hitta börn sem vita ekki hvað það er að leika sér. Að þau hafi búið við þannig aðstæður að vera svipt æskunni.“ Þetta segir leikskólakennari í Aþenu sem starfar með flóttabörnum í menntaveri á vegum mannúðarsamtakanna ELIX sem rekið er með stuðningi frá UNICEF.

„Við erum tveir kennarar með þennan hóp og það er mjög sorglegt þegar hingað koma börn sem eru búin að gleyma því að þau eru börn. Sem leikskólakennari áttu ekki von á því að hitta börn sem vita ekki hvað það er að leika sér. Að þau hafi búið við þannig aðstæður að vera svipt æskunni.“ Þetta segir leikskólakennari í Aþenu sem starfar með flóttabörnum í menntaveri á vegum mannúðarsamtakanna ELIX sem rekið er með stuðningi frá UNICEF.

Blaðamaður mbl.is og Morgunblaðsins heimsótti menntamiðstöð ELIX í Aþenu nýverið og ræddi við starfsfólkið um stöðu barna á flótta í Grikklandi. Það hefur áhyggjur af framtíð þessara barna og ekki síst unglinganna. Hvað verði um þennan hóp barna sem býr við ótryggar aðstæður nánast alla barnæskuna. Eru svipt möguleikanum á að vera börn.

Langdregin stríðsátök, hamfarahlýnun, versnandi geðheilbrigði og rangar upplýsingar á netinu eru meðal helstu ógna sem steðja að börnum veraldar í nánustu framtíð. Þetta kemur fram í opnu bréfi Henriettu Fore, framkvæmdastjóra UNICEF, til barna heimsins í tilefni af þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fore segir að enn ógni skortur á aðgengi að menntun, fátækt, ójafnrétti og fordómar velferð barna en heimsbyggðin þurfi að vera vakandi gagnvart nýjum og aðkallandi hættum.

100 ár eru liðin frá því að Eglantyne Jebb, stofnandi Save the Children, skoraði á heiminn að stöðva stríð gegn börnum, hún sagði öll stríð vera stríð gegn börnum. Meira en 420 milljónir barna búa við stríð, það gerir 1 af hverjum 5 börnum í heiminum í dag, segir á vef Barnaheilla. 

Á leið frá Lesbos til hafnar í Piraeus, skammt frá …
Á leið frá Lesbos til hafnar í Piraeus, skammt frá Aþenu. AFP

Ómannúðlegar aðstæður, segir Flóttamannamiðstöð Sameinuðu þjóðanna um yfirfullar  flóttamannabúðir í Grikklandi og ástandið versnar dag frá degi. Í september komu yfir tíu þúsund flóttamenn, einkum afganskar og sýrlenskar fjölskyldur, frá Tyrklandi til grísku eyjanna í Eyjahafi og er það mesti fjöldi frá því 2016 er Evrópusambandið gerði samkomulag við Tyrki um að koma í veg fyrir að fólk héldi flóttanum þaðan áfram.

Talið er að yfir 26 þúsund flóttamenn séu nú á grísku eyjunum og hafast þeir við í búðum sem svo sannarlega voru ekki byggðar fyrir nema brot af þeim fjölda. Skortur á hreinlæti og ítrekuð átök valda því að margir þeirra sofa í tjöldum fyrir utan búðirnar og bíða klukkustundum saman á hverjum degi í biðröð eftir mat, salerni og sturtu. 

Margir Grikkir segja að Tyrkir geri ekki nóg til þess að koma í veg fyrir að fólk reyni að komast yfir Eyjahaf með aðstoð smyglara þrátt fyrir að hundruð farist á þeirri leið á hverju ári. En fólk sem starfar fyrir mannúðarsamtök á Grikklandi segja að skýringin sé miklu frekar sú að margir flóttamenn óttist að vera handteknir í Tyrklandi og vísað úr landi, ekki síst Afganar. Þrátt fyrir að margir þeirra viti hversu slæmar aðstæðurnar séu í grískum flóttamannabúðum geti þeir ekki ímyndað sér að þær séu verri en þeir eru í nú þegar. 

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Ný ríkisstjórn tók við völdum í Grikklandi í sumar og ætlar hún sér að taka harðar á hælisleitendum en sú fyrri. Meðal annars á að senda aftur til Tyrklands 10 þúsund manns sem hefur verið synjað um hæli í Grikklandi. Verið er að flytja fjölmarga flóttamenn úr yfirfullum búðum á grísku eyjunum til meginlandsins, þar á meðal börn, en talið er að yfir 1.100 fylgdarlaus börn séu á eyjunum. Þau hafa ekki verið jafn mörg síðan árið 2016. UNICEF hefur hvatt grísk stjórnvöld og ESB til þess að sinna þessum börnum vel því þau eru í ákaflega viðkvæmri stöðu. 

Í september voru 32 þúsund börn á flótta í Grikklandi og af þeim voru yfir 4 þúsund fylgdarlaus. Á síðustu þremur árum hefur UNICEF veitt yfir 60 þúsund flóttabörnum og fjölskyldum þeirra aðstoð í Grikklandi. UNICEF starfar meðal annars með grísku hjálparsamtökunum ELIX en þau voru stofnuð árið 1987 af Eleni Gazi og ætlað að koma góðu skipulagi á sjálfboðaliðastarf í Grikklandi.

Frá Olive Grove við Moria-flóttamannabúðirnar.
Frá Olive Grove við Moria-flóttamannabúðirnar. mbl.is/Gúna

Þegar Grikkland stóð á barmi hyldýpis í efnahagskreppunni árið 2008 ákváðu samtökin að aðlaga starf ELIX nýjum aðstæðum og beina sjónum sínum einkum að samfélagslegum verkefnum tengdum viðkvæmum hópum, sérstaklega börnum og ungu fólki. 

ELIX, með stuðningi frá UNICEF og framkvæmdastjórn ESB (DG ECHO), hefur undanfarin tvö ár rekið menntaver fyrir flótta- og innflytjendabörn á aldrinum 3-17 ára. Með þessu er ætlunin að auðvelda þeim að sam­lagast (e. in­tegrati­on) almenna skólakerfinu í Grikklandi. 

Eldur kom upp í Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos í lok september. …
Eldur kom upp í Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos í lok september. Yfir 13 þúsund voru þá í búðunum sem rúma 3 þúsund. AFP

Í miðborg Aþenu er slíkt menntaver rekið og eru börnin þar á aldrinum þriggja til fimmtán ára. Marianna Matziri er leikskólakennari hjá ELIX og þegar blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is heimsótti skólann nýverið var nóg um að vera enda alls 36 börn á aldrinum 3-5 ára í skólanum. Hún segir að hluti hópsins sé aðeins eldri, það fari eftir því hvort þau séu fær um að fara á næsta stig í náminu. Sum þeirra hafi einfaldlega gleymt því á flóttanum hvernig á að leika sér.

„Flest börn kunna undirstöðuatriði í lífinu, svo sem að leika sér með bolta, en hjá okkur eru börn sem vita ekki hvað á að gera við bolta eða önnur leikföng. Börn sem kunna ekki að nota salerni eða annað sem flestum börnum á þessum aldri þykir eðlilegt og sjálfsagt. Okkar fyrsta hlutverk er að láta þeim líða vel, að þau finni að þau eru örugg hér og óhætt sé að treysta okkur,“ segir Marianna.

Lögreglan gerði rassíu í tveimur húsum í miðborg Aþenu í …
Lögreglan gerði rassíu í tveimur húsum í miðborg Aþenu í september en þar bjuggu um 200 hælisleitendur, þar á meðal tugir barna. AFP

Í gegnum leik er þeim hjálpað við að finna bernskuna að nýju. „Eðlilega er þetta oft erfitt en það er ekki hægt að vera sorgmæddur því þau gefa þér svo mikið. Um leið og þau læra að þekkja mig og treysta læra þau fljótt ferlið hjá okkur, að leika, sitja í hring og eiga samskipti sín á milli,“ segir Marianne. 

Spurð út í hvernig kennararnir eigi samskipti við börnin segir hún þau að mestu fara fram á grísku enda börnin fljót að læra hana í samskiptum við önnur börn. Hún segir að starfið sé erfitt og saga barnanna oft átakanleg um leið og hvert barn eigi sér einstaka sögu. 

Marianna Matziri er leikskólakennari í ELIX-námsverinu í Aþenu.
Marianna Matziri er leikskólakennari í ELIX-námsverinu í Aþenu. mbl.is/Gúna

„Það er nauðsynlegt að þekkja sögu þeirra því við verðum að vita úr hvaða aðstæðum þessi börn eru að koma. Við eigum afar góð samskipti við foreldra þeirra með aðstoð túlka. Stundum eiga mæðurnar erfitt með að sleppa takinu af börnum sínum sem þær hafa kannski ekki litið eða sleppt hendi af frá því flóttinn hófst. Foreldrarnir eiga oft mjög erfitt með að yfirgefa börn sín þegar þeir koma með þau hingað í fyrsta skipti og óttast hvað geti gerst ef þeir sleppa takinu. Margir foreldrar bíða fyrir utan stofuna þar sem þeir eiga ekki í önnur hús að venda. Ekkert annað í boði fyrir þau en að bíða. Við leggjum mikla áherslu á að foreldrarnir geti treyst okkur og að við munum hafa samband um leið og eitthvað bjátar á. Ef eitthvað kemur upp, jafnvel í miðjum tíma, læt ég foreldrana vita,“ segir Marianne. 

Það tekur á fyrir kennara að sjá myndir af nemendum …
Það tekur á fyrir kennara að sjá myndir af nemendum sínum þar sem verið er að flytja þá á brott. Þeir koma aldrei aftur í skólann. AFP

Frá því nýja ríkisstjórnin tók við völdum í Grikklandi hefur lögreglan í Aþenu farið og tæmt hús sem flóttafólk hefur búið í. Um er að ræða hús sem stóðu auð og horfðu yfirvöld fram hjá því í einhver ár að flóttafólk og hælisleitendur tóku sér þar búsetu. Nokkur hundruð manns, einkum fjölskyldur, búa í þessum húsum og segir Marianne að eftir slíkar hreinsanir komi þau börn, sem eru hjá þeim og bjuggu þar, ekki aftur í skólann. 

„Það er svo erfitt þegar börnin hverfa sporlaust. Ég óttast um þau og þær skelfilegu aðstæður sem þau eru sett í. Þetta fólk hefur náð ákveðnu jafnvægi í lífinu þótt það búi ekki við bestu aðstæður í heimi. Það er búið að koma sér fyrir, börnin farin í skóla og einhverjir hafa fengið vinnu. Svo er þeim smalað upp í rútur og flutt út úr borginni í einhverjar búðir annars staðar. Við sem störfum hér gefum allt í að aðstoða þessi börn. Þegar svona gerist líður mér eins og ég sé að ljúga að þeim þegar ég segi þeim að þau séu örugg hjá mér. Við erum að tala um líf barna, ekki hluti sem er hægt að færa til eins og húsgögn. Ég vona að þetta eigi eftir að breytast aftur því án vonar eiga þessi börn ekkert og við eigum að hafa í huga að þau eru framtíðin og þar á ég við öll börn,“ segir Marianne.

Aliki Tzatha, Tatiana Katsina og Alexandra Kameretsou eru kennarar í …
Aliki Tzatha, Tatiana Katsina og Alexandra Kameretsou eru kennarar í ELIX-námsverinu í Aþenu. mbl.is/Gúna

Aliki Tzatha, Tatiana Katsina og Alexandra Kamaretsou kenna grísku í námsverum ELIX í  Aþenu. Þær segja að engir tveir dagar séu eins og að kennararnir hittist daglega með félagsráðgjöfum og sálfræðingum til að bera saman bækur sínar um hvernig eigi að taka á vandamálum sem blasa við. 

„Við veltum stundum fyrir okkur starfinu okkar. Við vitum að flestir nemendur okkar vilja fara frá Grikklandi til þess að eignast framtíð og við veltum fyrir okkur hvað verði um það sem við kennum þeim, það er grísku. Á sama tíma vitum við að allt sem þú lærir er hluti af einhverju stærra. Námið er ekki endilega bara tungumálið heldur einnig málfræði og setningafræði. Allt er þetta hluti af miklu stærra ferli sem mun nýtast þér í framtíðinni. Svo sem menning og að bera virðingu fyrir öðrum eru hæfileikar sem þú lærir og hjálpar þér með allt annað á lífsleiðinni. Við teljum að þó svo þau læri ekki grísku nema í skamman tíma og fari héðan frá Grikklandi höfum við stutt við þau á lærdómsferli lífsins,“ segja þær.

Oft hafa börnin ekki gengið í skóla í langan tíma …
Oft hafa börnin ekki gengið í skóla í langan tíma þegar þau koma í skólann í Aþenu. mbl.is/Gúna

Tatiana segir að það geri öllum gott að njóta menntunar. Ekki síst ef fólki líður illa. Margir nemenda þeirra hafa aldrei áður verið í skóla áður og aðrir hafa ekki verið í skóla í langan tíma. Bara að læra að vera innan um önnur börn, hegða sér og læra alls konar hluti skiptir miklu máli, segir hún. 

Að sögn Aliki skiptir ólíkur bakgrunnur litlu máli hjá þeim þar sem flest þeirra eru svo vön því að búa þröngt, vera í nánu samneyti við aðra og velta ekki fyrir sér bakgrunni bekkjarfélaganna. Hvort sessunauturinn kemur frá Afganistan, Erítreu, Sýrlandi eða Írak. 

Hjá ELIX er krökkum skipt upp í bekki eftir aldri og reynt að vera með tvo bekki í hverjum aldurshópi, 6-8 ára, 9-12 og 13-15 ára. Sum hafa litla sem enga reynslu af skóla á meðan önnur eru komin lengra og því erfitt að blanda öllum hópnum saman í eina skólastofu.

Lögreglan stendur vörð við húsið á meðan það er rýmt.
Lögreglan stendur vörð við húsið á meðan það er rýmt. AFP

„Okkar hlutverk er að tryggja að þeim líði betur en annars væri. Það er erfitt á sama tíma og sérstaklega þegar þau hverfa. Við vonum alltaf að þau hafi haft ánægju og gagn af því sem við kenndum þeim þrátt fyrir að við vitum ekki hver afdrif þeirra verða,“ segir Alexandra.

Um 15-20 nemendur eru í hverjum bekk. Alls eru 10 bekkir í skólanum sem blaðamaður heimsótti og nemendurnir 150-200 talsins.

„Það sem við erum að gera hér er að veita fólki, og sérstaklega börnum, á flótta stuðning og ekki gleyma því að við Evrópubúar eigum sameignlegra hagsmuna að gæta og okkar sameiginlega hlutverk er að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda. Sama hvar við stöndum í pólitík. Stundum finnst okkur að það sem við gerum sé lítið miðað við það sem þyrfti að gera.

AFP

En það sem er alvarlegt er að aðeins 20% af þeim börnum sem eru á flótta og eru í Grikklandi þessa stundina eru í skóla. 80% þeirra fá því enga menntun. Þetta er skelfilegar tölur og við teljum að það þurfi að breyta hugsunargangi stjórnmálamanna. Ekki bara hér í Grikklandi heldur í allri Evrópu. Við sem kennarar gerum okkar besta en þetta er allt of lágt hlutfall. Allir reyna sitt besta en það er ekki nóg. Það verður ekki bara að fá fleiri ríki til þess að taka þátt heldur líka að huga að þessu – að menntun er lykillinn að öllu öðru. Ef við veitum þeim ekki menntun getum við ekki ætlast til þess að þeim vegni vel,“ segja þær Aliki Tzatha, Tatiana Katsina og Alexandra Kamaretsou.

Börnin koma víða að en flest þeirra eru frá Sýrlandi …
Börnin koma víða að en flest þeirra eru frá Sýrlandi og Afganistan. mbl.is/Gúna

Unglingarnir og framtíð þeirra er helsta áhyggjuefni kennaranna. Þær segja að unglingarnir hafi flestir farið á mis við menntun á flóttanum og margir þeirra séu án foreldra og systkina. Fæstir þeirra fá menntun þegar þeir eru komnir til Evrópu og segja þær Alexandra, Aliki og Tatiana það ekki bara alvarlegt fyrir ungmennin heldur samfélagið í heild. 

„Það á að vera hlutverk okkar Evrópubúa að tryggja öllum menntun. Sama hvaðan börnin koma. Staða þeirra er oft slæm í grunnskóla en hún versnar þegar á líður í námi þar sem þau hafa ekki þann bakgrunn sem er nauðsynlegur til þess að takast á við námsefnið.“ Þær segja  nógu erfitt fyrir ungmenni sem hafa alltaf búið í Grikklandi að vita það sem þarf að vita um gríska menningu og fleira, hvað þá fyrir ungmenni sem hafa kannski búið í skamman tíma í landinu.

mbl.is/Gúna

„Skól­ar gefa flótta­fólki ný tæki­færi,“ seg­ir Fil­ippo Grandi, fram­kvæmda­stjóri UN­HCR: „Við erum að bregðast flótta­fólki með því að veita því ekki tæki­færi til að bæta við hæfni sína og þekk­ingu sem það þarf á að halda til þess að fjár­festa í framtíð sinni.“

Grísk stjórnvöld hafa boðað neyðaraðgerðir vegna þess mikla fjölda hælisleitenda sem þangað hafa komið undanfarnar vikur frá Tyrklandi og óttast að sagan frá 2015 endurtaki sig á ströndum landsins þegar fjöldi fólks drukknaði á leið sem það taldi til lífs.

Leitað að Íslandi í tíma í ELIX-námsverinu í Aþenu.
Leitað að Íslandi í tíma í ELIX-námsverinu í Aþenu. mbl.is/Gúna

Á hverjum degi  koma bátar drekkhlaðnir flóttafólki yfir Eyjahaf á sama tíma og farið er að hausta með versnandi veðri. Grískir ráðherrar segja að smyglarar standi á bak við flutningana og þeir noti til verksins betri og hraðskreiðari báta en áður. 

5,6 milljónir Sýrlendinga eru landflótta. Flestir þeirra eru í Tyrklandi eða 3,6 milljónir. Yfir 6,2 milljónir eru á vergangi í eigin landi. Nokkur hundruð þúsund eru í bráðri hættu í norðurhluta Sýrlands vegna aðgerða Tyrkja þar og óvíst er hversu margir þeirra freista þess að komast úr landi. Í dag eru 3.146 dagar frá því stríðið í Sýrlandi hófst, eða átta ár, 7 mánuðir og tíu dagar. Algjörlega óvíst er hvenær eða hvernig því lýkur. Á meðan þjáist heil þjóð og kynslóð ungmenna vex úr grasi sem hefur aldrei upplifað frið í eigin landi. 

Er sagan að endurtaka sig? Frá Skala Sykamias á grísku …
Er sagan að endurtaka sig? Frá Skala Sykamias á grísku eyjunni Lesbos í október 2019. AFP
Frá Lesbos fyrr í mánuðinum.
Frá Lesbos fyrr í mánuðinum. AFP
mbl.is