Kennitölur gjaldgengar í öðrum ríkjum

Norðurlandaráðsþing 2019 | 29. október 2019

Kennitölur gjaldgengar í öðrum ríkjum

Fólk á að geta flutt á milli landa á Norðurlöndum án hindrana líkt og þegar flutt er á milli sveitarfélaga á Íslandi. Þannig er það ekki í dag en eitt af því sem nú er rætt um er að kennitölur hvers lands gjaldgengar í öðrum norrænum löndum, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. Hann er staddur á Norðurlandaráðsþinginu sem hófst í Stokkhólmi í dag.

Kennitölur gjaldgengar í öðrum ríkjum

Norðurlandaráðsþing 2019 | 29. október 2019

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, stýrði síðasta fundi samstarfsráðherra á …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, stýrði síðasta fundi samstarfsráðherra á formennskuári Íslands í norrænu ráðherranefndinni í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk á að geta flutt á milli landa á Norðurlöndum án hindrana líkt og þegar flutt er á milli sveitarfélaga á Íslandi. Þannig er það ekki í dag en eitt af því sem nú er rætt um er að kennitölur hvers lands gjaldgengar í öðrum norrænum löndum, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. Hann er staddur á Norðurlandaráðsþinginu sem hófst í Stokkhólmi í dag.

Fólk á að geta flutt á milli landa á Norðurlöndum án hindrana líkt og þegar flutt er á milli sveitarfélaga á Íslandi. Þannig er það ekki í dag en eitt af því sem nú er rætt um er að kennitölur hvers lands gjaldgengar í öðrum norrænum löndum, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. Hann er staddur á Norðurlandaráðsþinginu sem hófst í Stokkhólmi í dag.

Eins og staðan er í dag er erfiðara að flytja á milli Norðurlandanna en á milli sveitarfélaga og við höfum verið að leggja áherslu á að opna Norðurlöndin eins mikið og hægt er. Þannig að í raun verði það þannig eins og að flytja á milli sveitarfélaga að flytja til annarra ríkja á Norðurlöndunum, segir hann. 

Sigurður Ingi segir að um 65 þúsund íbúar á Norðurlöndunum flytji á milli landanna á Norðurlöndunum og ef horft er til Íslands búi 7-8% Íslendinga í öðru norrænu landi. „Þetta er mjög stór hópur og þetta skiptir okkur hlutfallslega miklu máli. Eitt af því sem verið er að vinna í núna er að kennitölur hvers lands verði gjaldgengar í öðrum norrænum löndum. Það mun þýða að þegar þú flytur, eins og þú sért að flytja um hverfi, sértu strax kominn inn í kerfið og enginn biðtími eftir bankareikning eða öðru eins það er í dag,“ segir Sigurður Ingi. Því þrátt fyrir að það eigi ekki að vera þessar hindranir þá eru þær engu að síður til staðar.

Enn hindranir hvað varðar háskólamenntun 

Sigurður Ingi segir að hindranirnar séu fleiri. Til að mynda þegar kemur að háskólanámi. Eystrasaltsríkin þrjú hafa þegar gefið út sameiginlega yfirlýsingu um að menntun á háskólastigi í ríkjunum eigi að vera jafngild og svipað er uppi á teningnum hvað varðar Benelúx-löndin. „Norðurlöndin, sem við segjum að eigi að vera samþættustu lönd í heimi, eru ekki búin að þessu,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að þetta sé eitt af því sem verið er að skoða innan norrænu ráherranefndarinnar.  

Ísland hefur í ár gegnt formennsku norrænu ráðherranefndarinnar og stýrði Sigurður Ingi í morgun fimmta og síðasta fundi samstarfsráðherra á formennskuári Íslands í norrænu ráðherranefndinni. 

Hann segir að það hafi verið gefandi að stýra norrænu ráðherranefndinni á þessu ári með samstarfsráðherrum Norðurlandanna. „Okkar helsta verkefni hefur verið að búa til framtíðarsýn um að Norðurlöndin eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Á okkar síðasta fundi, á okkar formennskuári, kom skýr vilji annarra ráðherra að unnið yrði að verkefnum sem gera Norðurlöndin sterkari saman.“

Frá fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í dag.
Frá fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í dag. Magnus Fröderberg/norden.org

Framtíðarsýn norræns samstarfs – um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims – var meginumræðuefnið á fundi samstarfsráðherranna sem fór fram í Stokkhólmi. 

Rætt var um hvernig norrænt samstarf ætti í stórauknum mæli að snúast um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hvernig tryggja megi að samfélög og efnahagslíf á Norðurlöndunum séu sem sjálfbærust. 

Markmiðið er að vinna saman á þeim sviðum þar sem Norðurlöndin eru sterkari saman, þannig að norrænt samstarf verði raunveruleg viðbót við aðgerðir einstakra landa s.s. varðandi kolefnishlutleysi, með því að styðja við vöxt hringrásarhagkerfisins og efla grænan hagvöxt sem tryggir samkeppnishæfni til framtíðar. Gert er ráð fyrir að samnorræn verkefni sem styðji við græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd liggi fyrir á næsta ári. 

Á síðustu fimm árum hefur á sjötta tug hindrana milli Norðurlandanna verði rutt úr vegi, sem gerir Norðurlöndin að einu samþættasta svæði heims og gerir þannig íbúum Norðurlandanna auðveldara með vinna, stunda nám og stofna fyrirtæki í hinum löndunum. Siv Friðleifsdóttir, formaður norræna Stjórnsýsluhindranaráðsins, gaf ráðherrunum skýrslu um starf ráðsins en að draga úr landamærahindrunum er ekki síst mikilvægt fyrir okkur, þar sem hlutfallslega flestir Íslendingar búa í öðru norrænu landi, eða 7-8%, segir í frétt á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Vestnorræn málefni voru einnig til umfjöllunar en eitt af markmiðum formennsku Íslands hefur verið að auka norrænt samstarf á Norður-Atlantshafssvæðinu þ.m.t. við Færeyjar og Grænland. Samþykkt var að styrkja framkvæmd NAUST sem er ný stefnumótun um málefni svæðisins. 

Markmiðið að bæta lífsgæði hins venjulega manns

Að sögn Sigurðar Inga hefur verið lögð mikil áhersla á það í starfi norrænu ráðherranefndinni að auka hlut stafrænna auðkenna. Það gæti leyst mjög margt. Það gætu hugsanlega komið upp ný vandræði varðandi kennitölurnar en mun klárlega einfalda hlutina. Meðal annars fyrir ferðamenn, segir hann í samtali við blaðamann mbl.is í Stokkhólmi í dag. 

Að vera með rafræna lyfseðla og fylgiblöðin rafræn gerir hlutina einfaldari og ódýrari. Þetta er kannski það sem eru bestu dæmin um það hvað Norðurlöndin og norrænt samstarf skiptir miklu. Í norrænu ráðherranefndinni erum við að auka og bæta lífsgæði hins venjulega manns. Að líta á Norðurlöndin sem sitt heimasvæði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

mbl.is