„Ég segi bara loksins“

Loftslagsvá | 3. nóvember 2019

„Ég segi bara loksins“

„Ég segi bara loksins eru loftslagsmálin og umhverfismálin orðin að meginstefnumáli ekki bara í íslenskri pólitík heldur norrænni og eru einnig að verða það, að mínu mati, í alþjóðlegri pólitík,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hann tók þátt í þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í vikunni en umhverfis- og loftslagsmál voru meginþema Norðurlandaráðsþingsins í ár. 

„Ég segi bara loksins“

Loftslagsvá | 3. nóvember 2019

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra fagnar því hvað umhverfismál og loftslagsmál …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra fagnar því hvað umhverfismál og loftslagsmál fá mikla athygli í alþjóðlegum stjórnmálum enda löngu tímabært. Magnus Fröderberg/Norden.org

„Ég segi bara loksins eru loftslagsmálin og umhverfismálin orðin að meginstefnumáli ekki bara í íslenskri pólitík heldur norrænni og eru einnig að verða það, að mínu mati, í alþjóðlegri pólitík,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hann tók þátt í þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í vikunni en umhverfis- og loftslagsmál voru meginþema Norðurlandaráðsþingsins í ár. 

„Ég segi bara loksins eru loftslagsmálin og umhverfismálin orðin að meginstefnumáli ekki bara í íslenskri pólitík heldur norrænni og eru einnig að verða það, að mínu mati, í alþjóðlegri pólitík,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hann tók þátt í þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í vikunni en umhverfis- og loftslagsmál voru meginþema Norðurlandaráðsþingsins í ár. 

„Þetta er gríðarlega mikilvægt því hluti af stærstu áskorunum 21. aldarinnar felst í því hvernig okkur tekst til þegar kemur að þessum málum. Við getum þar horft á loftslagið og þær breytingar sem þar eru að verða. Þá hamfarahlýnun sem er að eiga sér stað og líka allar þær breytingar sem eru að verða á lífríkinu. Þar erum við að sjá þróun sem okkur verður að takast að snúa við,“ segir Guðmundur Ingi er blaðamaður ræddi við hann í Stokkhólmi í vikunni. 

AFP

Á árinu 2018 birti milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) skýrslu um áhrif 1,5°C hlýnunar, „Special Report Global Warming of 1.5ºC“.

Niðurstöður skýrslunnar eru meðal annars eftirfarandi:

  • Jörðin verður fyrir óafturkræfum skaða ef hnattræn hlýnun fer yfir 1,5°C.
  • Samkvæmt lögmálum efnafræðinnar og eðlisfræðinnar er enn hægt að halda meðalhita í heiminum undir 1,5°C og takmarka hlýnun við 1,5°C. 
  • Það mun kalla á skjótari, áhrifameiri og víðtækari aðgerðir og mun hraðari umskipti en við höfum séð fram til þessa.

Skýrslan birtir nokkrar sviðsmyndir um minnkun koldíoxíðs. Allar sviðsmyndirnar eiga það sameiginlegt að grípa þarf til róttækra aðgerða til að draga úr losun koldíoxíðs í heiminum svo og magni þess koldíoxíðs sem nú er í andrúmsloftinu.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að árið 2030 verður hnattræn losun koldíoxíðs af manna völdum að hafa minnkað um 45% miðað við losun ársins 2010.

Á árinu 2050 á losunin að vera hlutlaus, það er að jafn mikið koldíoxíð er fjarlægt úr andrúmsloftinu og það magn sem losað er.

Næsta skref er neikvæð losun, þ.e.a.s. þegar meira koldíoxíð er fjarlægt en það sem losað er. Samkvæmt The Global Carbon Budget frá árinu 2018 er aukinn hagvöxtur í heiminum orsök þeirrar ógnvekjandi aukningar sem orðið hefur á losun koldíoxíðs. Á árinu 2018 varð mesta aukning á losun í heiminum um áraraðir sem bendir til þess að þróunin stefni í þveröfuga átt miðað við loftslagsmarkmið Parísarsáttmálans.

Atkvæðagreiðsla á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
Atkvæðagreiðsla á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Magnus Fröderberg/norden.org

„Eitt af ljósunum í myrkrinu er að sumar af þeim lausnum sem við höfum takast á við  loftslagsmálin, eyðingu búsvæða og eyðingu á náttúrulegum vistkerfum sem við erum að horfa upp á. Þannig að það eru til lausnir sem fela í sér samlegð og samlegðaráhrif,“ segir Guðmundur Ingi.

Að hans sögn er þar horft til náttúrumiðaðra lausna sem er atriði sem Ísland hefur lagt áherslu á lengi. „Til að mynda með landgræðslu. Á sama tíma og þú endurheimtir náttúruleg vistkerfi sem voru horfin ertu að binda kolefni. Ert að auka líffræðilega fjölbreytni og jafnvel að koma í veg fyrir eyðingu á búsvæðum á landi. Það er verið að fást við mörg markmið í umhverfismálum á sama tíma,“ segir Guðmundir Ingi. Hann segir tækifærin gríðarlega stór á þessu sviði og alþjóðasamfélagið sé að koma auga á það. 

Umhverfisráðherra segir mikilvægt að fá atvinnulífið með í þetta verkefni og mikill áhugi sé hjá atvinnulífinu að taka þátt. Að koma inn í það verkefni að verða kolefnishlutlaust, en það er markmið stjórnvalda að svo verði í síðasta lagi árið 2040.

Jafnframt hefur Ari Trausti Guðmundsson lagt fram frumvörp á Alþingi um að veita skattaafslátt til fyrirtækja sem grípa til aðgerða á þessu sviði. „Maður finnur það á þessum norræna vettvangi að við umhverfisráðherrarnir erum mjög samstíga. Hvort sem það eru loftslags- eða lífríkismálin sem og samspil þeirra,“ segir Guðmundur Ingi.

mbl.is/Helgi Bjarnason

Hringrás í stað línu

Hann segir að norrænu umhverfisráðherrarnir hafi meðal annars rætt um hið svokallaða hringrásarhagkerfi á fundum sínum í Stokkhólmi og þar hafi það verið rætt út frá sviði loftslagsmála. Hvernig það er að reka virðiskeðjuna í hring í stað þess að hún sé línuleg. Þar sem virkilega er pælt í því hvernig framleiðslan er áður en hráefnið er sett inn í hana. Hvað með hönnunina? Tekur hún tillit til þess að það verði lítill úrgangur sem myndist við framleiðsluna? Að það séu notuð efni sem eru umhverfisvæn? Að nýta auðlindir með skynsamlegri hætti,“ segir umhverfisráðherra.

„Síðan þegar kemur að þætti neytenda og að lokum úrganginum,“ segir Guðmundur Ingi. Að hægt sé að nýta úrganginn aftur og aftur. „Við ákváðum að ráðast í úttekt á því hvað hringrásarhagkerfið þýðir í raun efnahagslega fyrir Norðurlöndin. Rannsóknir annars staðar hafa verið að sýna að þessu fylgja oft ný störf og aukin framleiðni. Þannig að það eru ný tækifæri fólgin í hringrásarhagkerfinu,“ segir Guðmundur Ingi. 

Norrænir umhverfis- og loftslagsráðherrar undirrituðu á þinginu yfirlýsingu um sjálfbærni í hafmálum á Norðurlöndum og nauðsyn þess að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga á hafið.

Við þurfum líka að auka þekkingu okkar á þessum breytingum með aukinni vöktun á hafinu og áhrifum hennar á lífríki sjávar. Á það hefur Ísland lagt áherslu alþjóðlega auk þess að stórauka vöktun á súrnun sjávar við strendur Íslands í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, segir Guðmundur Ingi og segir að norrænu ráðherrarnir séu þarna að sammælast um að það þurfi að gera betur á þessu sviði. „Þetta eru allt atriði sem verður mjög spennandi að fara í nánara samstarf um á Norðurlöndunum.“

AFP

Losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum eykst samfara vaxandi ferðaþörf og spurn eftir vörum um allan heim. Ef svo fer fram sem horfir mun losun í vöruflutningum til dæmis hafa aukist um 160% á árinu 2050. Á sama tíma munu æ fleiri jarðarbúar sækjast eftir betra aðgengi að menntun, atvinnu og heilsu. Þetta ásamt stækkandi borgum sem kalla á sveigjanlegri samgöngulausnir mun tvöfalda bílaeign einstaklinga á næstu 30 árum.

Á næstu 15 árum mun losun koldíoxíðs í flugsamgöngum aukast um meira en 50% þrátt fyrir að flugvélar noti mun minna eldsneyti en áður. Lægri flugfargjöld, hagvöxtur í þróunarlöndum og ferðatími munu gera það að verkum að flugsamgöngur aukast um 3—6% árlega fram til ársins 2030, í Asíu allt að 10%.

AFP

Í samgöngugeiranum felst ein tækniáskorun í því að gera rafbíla og önnur ökutæki með lítilli losun að hagstæðari kosti fyrir bifreiðaeigendur. En græn umskipti duga ekki ein og sér, er niðurstaða ITF (International Transport Forum). Ef einhver von á að vera til þess að stöðva þróunina krefst það aðgerða á ýmsum vígstöðvum samtímis. Breiða þarf út almenningssamgöngur og bjóða upp á sveigjanlegan valkost við bíla á sama tíma og dreifðar borgir auka vegalengdir. Stöðva ber óþarfa samgöngur og með efnahagslegum hvötum, eins og sköttum, verðlagsákvæðum og betri innviðum mun fólk læra að velja lausnir í daglegu lífi sem fela í sér koldíoxíðsparnað, að því er fram kom í umræðu um loftslagsmál á þingi Norðurlandaráðs.

Fremst er Ok, sem var jökull en er það ekki …
Fremst er Ok, sem var jökull en er það ekki lengur. Í baksýn er horft til Þórisjökuls, sem gæti einnig horfið líkt og fleiri íslenskir jöklar ef loftslag heldur áfram að hlýna eins og spáð er. mbl.is/RAX

Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir afar ánægjulegt hvað allir eru samstíga á þessu sviði á Norðurlandaráðsþinginu og engin rödd sem segi að það eigi að doka við. Samgöngumálin voru rædd á fundum forsætisráðherranna sem og umhverfisráðherra, að hans sögn.

Í þeim geira geta norrænu ríkin hjálpast meira að en nú er gert. „Það er margt jákvætt að gerast á því sviði,“ segir Guðmundur Ingi og bendir á hversu framarlega lönd eins og Noregur og Ísland standa þegar kemur að umhverfisvænum bílaflota. 

„Það eru áskoranir þegar kemur að fiskiskipaflotanum og fluginu. Þetta eru stórar áskoranir þar sem tæknin er ekki komin eins langt. Þannig að þar eru einnig tækifæri til þess að vinna meira saman og meðal annars kanna með íblöndun á lífeldsneyti. Að fara blandaða leið á meðan við erum ekki komin með fullkomnari leið. Eins vetnið. Ég held að norræn samvinna fari að líta meiri á þessi atriði,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Norden.org/Magnus Fröderberg

Hafið, sjálfbær ferðamennska og ungt fólk

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði ásamt sjö öðrum forsætisráðherrum með níu fulltrúum norrænna ungmennahreyfinga í Stokkhólmi í gær þar sem umræðuefnið var sjálfbærni og loftslagsmál.

Umræðufundurinn var skipulagður að frumkvæði íslensku formennskunnar í norrænu ráðherranefndinni. 

„Við vorum með þrjá þætti í okkar formennskuáætlun, hafið, sjálfbæra ferðamennsku og ungt fólk. Þetta var hugmynd sem við keyrðum á. Að fá unga fólkið til okkar á fund og ég held að þau hafi verið mjög ánægð með að taka þátt í þessu með okkur. Við fengum utanaðkomandi stjórnanda til þess að stjórna fundi ráðherranna og fulltrúa unga fólksins og það tryggði eðlilegt samtal. Við fengum öll erfiðar spurningar frá þessu unga fólki. Fengum tækifæri til að tjá okkur og hlusta. Ég vona að þetta verði ekki bara í þetta skiptið heldur verði það fastur þáttur að fá ungt fólk á fund forsætisráðherra Norðurlandanna,“ segir Katrín.

Katrín segir að þau hafi verið mjög meðvituð um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, samfélagslegum og efnahagslegum þáttum og ekki síst hvað varðar norðurskautið. „Þau vilja beinar aðgerðir varðandi félagslega þætti og sérstaklega varðandi norðurskautið sem er mörgum ofarlega í huga og þar erum við í formennsku núna.“

Að sögn Katrínar er hún mjög ánægð með að sjá í lok formennskuárs Íslands í norrænu ráðherranefndinni hversu hratt og vel var unnið á árinu. Ekki aðeins hafi verið unnið með áætlunina sem kynnt var á Norðurlandaráðsþinginu í fyrra heldur náðist fram framtíðarsýn til ársins 2030 með umhverfismálin í miklum forgangi.

„Stóra sýnin er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.  Á báðum fundunum okkar á þessu ári var mjög mikið rætt um loftslagsmál og hvaða áskoranir þessi vá skapar fyrir okkar samfélagsgerð þar sem er mjög mikið samfélagslegt traust,“ segir Katrín. „Velferðarríki þar sem okkur er umhugað um réttindi launafólks svo dæmi séu tekin,“ segir hún.

Katrín segir að meðal annars hafi ráðherrarnir velt upp þeim áskorunum sem loftslagsváin er fyrir ríki sem þessi. Hvernig getum við tryggt að okkar lýðræðislegu leikreglur séu nýttar? Við erum að sjá að yfirvöld eru að ráðast í alls konar aðgerðir og mæta jafnvel mikilli andstöðu, segir Katrín og að það verði að vera félagsleg hugsjón á bak við þær aðgerðir sem gripið er til og að sjálfsögðu efnahagsleg.

Ekki einkamál umhverfisráðherra

„Þetta er ekki einkamál umhverfisráðherra,“ segir Katrín og að hennar sögn voru allir flokkahópar á Norðurlandaráðsþinginu sammála þegar kom að loftslagsmálum og mikilvægi þeirra þrátt fyrir að, líkt og eðlilegt er, kringumstæður séu ólíkar í norrænu löndunum. Þrátt fyrir ólíka hagsmuni eru stefnumálin svipuð, til að mynda eru öll löndin að stefna að kolefnishlutleysi. „Við erum öll meðvituð um þessa félagslegu vídd og sömuleiðis að það þurfa allir að vera með. Að vera þátttakendur,“ segir Katrín.

Hún segir að heildarsýn hafi verið ofarlega í huga ráðherra í umræðunni um loftslagsmál og hún hafi verið rædd töluvert á fundi forsætisráðherranna í Stokkhólmi. „Þegar við erum að tala um loftslag þá erum við líka að tala um líffræðilegan fjölbreytileika og aðra þætti í kringum okkur. Ég talaði sérstaklega um súrnun sjávar sem hefur hrikaleg áhrif á lífkerfið og grænlenski ráðherrann talaði um plastmengun í hafinu,“ segir Katrín.

Fundurinn var þriðji samræðufundurinn með ungmennum sem skipulagður er af hálfu formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni, en jafnframt sá fyrsti þar sem fulltrúar ungmenna fá tækifæri til þess að eiga samtal við norrænu forsætisráðherrana og tjá sig um með hvaða hætti hægt sé að ná markmiðum nýrrar framtíðarsýnar norrænu ráðherranefndarinnar og hver forgangsröðun loftslagsaðgerða ætti að vera. Niðurstöður fundarins verða nýttar í vinnu norrænu ráðherranefndarinnar sem snýr að framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar fyrir Our Vision 2030.

Greta Thunberg afþakkaði verðlaun Norðurlandaráðs.
Greta Thunberg afþakkaði verðlaun Norðurlandaráðs. AFP

Kom Katrínu ekki á óvart

Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í ár en afþakkaði verðlaunin. Spurð út í ákvörðun Gretu um að taka ekki við verðlaununum segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að það hafi ekki komið henni á óvart.

„Greta er aðgerðasinni sem hefur verið að setja mál á dagskrá með mjög afgerandi hætti og ég held að við ættum að fagna því hvað hún hefur gert fyrir þessa umræðu í heiminum en ég var ekkert hissa að hún skyldi afþakka verðlaunin því þau standa fyrir ákveðið kerfi sem hún hefur talað mjög ákveðið gegn. Mér fannst hún vera samkvæm sjálfri sér; hún hefur staðsett sig sem harðan gagnrýnanda kerfisins,“ segir hún.

mbl.is