Feng Tie, sendiherra Kína í Danmörku, hótaði æðstu ráðamönnum Færeyja því að ekki yrði gerður fríverslunarsamningur á milli Kína og Færeyja ef svo færi að kínverska fyrirtækið Huawei myndi ekki hreppa samning við færeyska símafyrirtækið Føroya Tele um uppbyggingu 5G-fjarskipta í eyjaklasanum.
Feng Tie, sendiherra Kína í Danmörku, hótaði æðstu ráðamönnum Færeyja því að ekki yrði gerður fríverslunarsamningur á milli Kína og Færeyja ef svo færi að kínverska fyrirtækið Huawei myndi ekki hreppa samning við færeyska símafyrirtækið Føroya Tele um uppbyggingu 5G-fjarskipta í eyjaklasanum.
Feng Tie, sendiherra Kína í Danmörku, hótaði æðstu ráðamönnum Færeyja því að ekki yrði gerður fríverslunarsamningur á milli Kína og Færeyja ef svo færi að kínverska fyrirtækið Huawei myndi ekki hreppa samning við færeyska símafyrirtækið Føroya Tele um uppbyggingu 5G-fjarskipta í eyjaklasanum.
Frá þessu greindi danska blaðið Berlingske í gærkvöldi. Fréttin sem Berlingske sagði er sú sem Kringvarpið, færeyska ríkisútvarpið, mátti ekki segja á mánudaginn í síðustu viku, en lögbann fékkst á fréttaflutning Kringvarpsins um tuttugu mínútum áður en fréttin átti að fara í loftið og var það byggt á því að upptakan sem fréttin byggðist á hefði verið fengið með ólögmætum hætti.
Upptakan er um það bil einnar mínútu langt samtal á milli Helga Abrahamsen viðskiptaráðherra Færeyja og ráðuneytisstjóra hans, sem átti sér stað 15. nóvember. Abrahamsen var á leiðinni í viðtal við Kringvarpið, einmitt um Huawei og 5G, þegar hann fór afsíðis með ráðuneytisstjóranum. Búið var að festa hljóðnema við jakka Abrahamsen og því fór leynilegt samtal þeirra, þar sem rætt var um fundi sendiherrans og ráðamanna, inn á fréttastofu Kringvarpsins.
Færeyska landstjórnin hefur beitt sér gegn því að fjallað sé um málið í rúma viku, en nú hefur verið greint frá efni upptökunnar. Á henni er auðheyrt, að sögn Berlingske, að kínverski sendiherra setti 5G-samninginn sem Huawei sækist eftir í samhengi við viðskiptahagsmuni Færeyinga.
Á upptökunni kemur fram, að sögn Berlingske, að Feng Tie gerði færeyskum ráðamönnum það alveg ljóst að Kína myndi ekki gera fríverslunarsamning við Færeyjar ef Huawei fengi ekki 5G-samninginn. Ef Huawei hins vegar fengi samninginn væru allar dyr opnar.
Sendiherrann er sagður hafa gert æðstu ráðamönnum Færeyja þetta ljóst á tveimur fundum 11. nóvember, fyrst á fundi með utanríkisráðherranum Jenis av Rana og síðar sama dag á fundi með Jørgen Niclasen fjármálaráðherra og Bárði Nielsen lögmanni eða forsætisráðherra Færeyja.
Einnig kemur fram að Bárður Nielsen svaraði því til að færeysk yfirvöld myndu ekki með neinum hætti skipta sér af því við hverja Føroya Tele semur um uppbyggingu 5G-netsins.
Fram kemur í kínverska miðlinum Global Times í dag að kínverska utanríkisráðuneytið hafni uppljóstrunum Berlingske. Huga Chunying, talsmaður ráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi í dag að Kína og Færeyjar ættu gott samstarf og fundirnir á milli sendiherrans og ráðamanna hefðu verið venjulegir fundir sem fjölluðu um gagnkvæma vináttu og samtarf.
Auk þess skaut talsmaðurinn á fréttaflutninginn og sagði að fréttamenn ættu að kynna sér hvað orðið „hótanir“ þýði með því að horfa á hegðun bandarískra ráðamanna, sem hóti ríkjum sem vilji vinna með ákveðnum kínverskum fyrirtækjum.