Írönsk yfirvöld segja að úkraínsku farþegaþotunni, sem brotlenti skammt frá Teheran, hafði verið snúið við eftir að flugmennirnir hafi orðið varir við að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Allir um borð, 176 manns, fórust.
Sérfræðingar frá Úkraínu koma að rannsókninni á flugslysinu ásamt írönskum sérfræðingum. Bæði Kanada og Bandaríkin hafa farið fram á að ítarleg rannsókn fari fram til að greina hvað olli slysinu sem varð skömmu eftir að Íranar skutu eldflaugum á bandarísk skotmörk í Írak.
Samkvæmt upplýsingum frá flugmálayfirvöldum í Íran var flugvélin á leið í vesturátt frá flugvellinum þegar henni var snúið við og var á leið aftur á flugvöllinn þegar slysið varð. Farþegaþotan hvarf af ratsjám um leið og hún náði 8 þúsud feta hæð. Flugmaðurinn sendi engin skilaboð í fjarskiptakerfinu um að eitthvað óvenjulegt væri í gangi.
Að sögn sjónarvotta var sýnilegur eldur um borð í þotunni og jókst hann mjög hratt. Búið er að ræða við bæði vitni á jörðu niðri sem og um borð í annarri flugvél sem flaug fyrir ofan Boeing 737-þotu úkraínska flugfélagsins þegar slysið varð.
Aðstæður á slysstað eru skelfilegar þar sem líkpokum var raðað upp og persónulegum munum farþega svo sem farangri, fatnaði, jólasveinadúkku og boxhönskum svo fátt eitt sé nefnt.
Samkvæmt upplýsingum frá úkraínskum yfirvöldum voru 82 Íranar, 63 Kanadabúar, tíu Svíar, 4 Afganar, þrír Bretar og þrír Þjóðverjar um borð auk 11 Úkraínubúa, þar af 9 úr áhöfn vélarinnar.