„Geri ráð fyrir að við öll höfum átt einhvers konar draum um lífið og tilveruna. Í pistlinum ætla ég, á eins heiðarlegan einlægan hátt og ég get, að fjalla um hvað gerðist með drauminn minn,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
„Geri ráð fyrir að við öll höfum átt einhvers konar draum um lífið og tilveruna. Í pistlinum ætla ég, á eins heiðarlegan einlægan hátt og ég get, að fjalla um hvað gerðist með drauminn minn,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
„Geri ráð fyrir að við öll höfum átt einhvers konar draum um lífið og tilveruna. Í pistlinum ætla ég, á eins heiðarlegan einlægan hátt og ég get, að fjalla um hvað gerðist með drauminn minn,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
Átti mér þann draum að verða atvinnumaður og helst í fótbolta. Vera eins og Ásgeir Sigurvinsson, Arnór Guðjohnsen, Atli Eðvaldsson o.fl. Alls ekki óraunæfur þótt á þeim tíma væri erfiðara að komast í atvinnumennsku en nú.
Ég ólst upp í boltaíþróttum. Varð ungur efnilegur í fótbolta, handbolta og körfubolta. Allar lausar stundir fóru í æfingar og enn fleiri í að spila úti í hvaða veðri sem var.
Átti tilfinningalega mjög erfiða æsku og oft sagt að íþróttirnar björguðu mér. Draumurinn var gulrótin sem hélt mér gangandi.
Þegar ég gekk upp úr 3. flokki, 16 ára, var ég tekinn strax inn í meistaraflokk hjá liði í efstu deild. Ég hafði skipt úr uppeldisfélaginu í þetta lið fyrir þetta sumar. Það er saga sem er ekki rúm fyrir hér! Þetta þóttu svik á þessum árum!
Sama sumar er ég valinn í unglingalandslið. Fékk mikla athygli. Í minningunni var þetta sumar fótbolti og skemmtun. Eg sveif í sæluvímu. Hápunkturinn var þegar ég spilaði á móti Manchester United. Spilaði í sama liði og George Best og hetjan mín Arnór Guðjohnsen. Fjögur þúsund manns á Akureyrarvelli. Þetta var og er stórkostleg minning. Mér gekk frábærlega í leiknum og fékk mikla athygli í kjölfarið.
Á þessum tímapunkti stóðu mér allir vegir færir að láta fótboltadrauminn minn rætast. Ég var í hæstu hæðum! Get enn upplifað tilfinninguna dagana eftir leikinn. Náttúruleg víma.
Skemmst er frá því að segja að leikurinn á móti Manchester United varð hápunkturinn á fótboltaferlinum. Ég flaug hátt upp en það var stutt í lækkunina og að lokum brotlendingu.
Á þessum velgengnisárum í fótbóltanum var ég á mótunarskeiði sem unglingur. Þá byrjuðu tveir „persónuleikar“ að takast á!
Ég kynntist áfengi 14 ára og það í gegnum íþróttir! Dálítið kaldhæðnislegt. Vá! Mér leið svo vel. Enginn kvíði. Enginn ótti. Ég var aðaltöffarinn í bænum á nóinu. Meiriháttar uppgötvun fyrir mig að átta mig á að áfengi væri þetta fína deyfilyf.
Í fótboltanum skemmtum við okkur við hvert tækifæri. Þetta sumar á sælu sem ég minntist á var engin undantekning. Ógleymanleg ferð á Akranes í leik á móti ÍA í efstu deild. Flugum til Reykjavíkur en urðum að keyra upp á Skaga. Búið að ræða fyrir ferðina að taka með sér „nesti“. Svo mikil var fíknin að ég (undglingurinn) var sendur út í sjoppuna á vellinum til að kaupa bland! Já þetta fljótt. Ekki einu sinni búið að loka vallarsjoppunni. Svo var bara dottið í það. Beðið á bar í Reykjavík þar til við áttum flug til Akureyrar um kveldið. Beint í partí og í Sjallann. Bara mjög eðlilegt allt saman. Draumur í dós!
Ég kynntist líka öðrum vímuefnum og fannst það í lagi. Ég lék mér að eldinum án þess að gera mér grein fyrir því. Mér fannst ég vera töffari þegar ég var undir áhrifum! Mig rámar í að einhver hafi haft orð á þessu við mig en ég varð hinn fúlasti út af afskiptaseminni.
Í lok þessa sumars fóru dökk ský að myndast. Ég skipti aftur yfir í uppeldisfélagið eftir að ég reiddist á æfingu. Ég kom úr landsliðsferð á föstudegi, liðið átti leik á laugardegi og venjulega varstu boðaður með símtali. Það var ekki og ég fór á djamm um kvöldið. Áttaði mig á því daginn eftir að ég átti að spila. Þjálfarinn las mér pistil á þessari æfingu fyrir framan allan hópinn. Ég þoldi ekki mótlætið, brjálaðist og skipti um félag! Dauðsá eftir því! Svona var ég. Uppi eða niðri. Þoldi ekkert mótæti og réð ekki við skapið í mér.
Stuttu síðar fór ég að missa flugið og fótanna.
Á mettíma tókst mér að klúðra hugsanlegum glæstum fótboltaferli. Það var brotlending! Hörð!
Ég reyndi að spyrna við fótum fram undir tvítugt, en áfengi og vímuefni tosuðu í mig og með minnkandi sjálfstrausti hvarf áhuginn.
Að klúðra fótboltanum, miðað við drauma og væntingar, varð mér áfall. Ég ákvað það ekki né vildi. Fíknin náði tökum á mér. Ég hef milljón sinnum velt þessu fyrir mér. Hvers vegna þessi deyfiefni náðu að fanga mig og klúðra draumnum. Það heitir að vera haldinn sjúkdómnum alkóhólisma.
Ég varð þunglyndur og svakalega paranojaður. Læddist á milli veggja þegar ég var ekki undir áhrifum. Tvö sumur í röð réð ég mig út á land til að spila fótbolta. Í fyrra skiptið lenti ég í fyrsta stóra „bömmernum“. Lenti á löngum túr og rankaði við mér í Reykjavík. Fór þaðan með skottið á milli lappanna! Hitt sumarið var allt í lagi en þá meiddist ég fyrst í bakinu.
Á þessum tímapunkti var ég stefnulaus, ábyrgðarlaus, háður áfengi og vímuefnum án þess að vita það. Ég forðaðist gömlu vinina úr fótboltanum því þeir voru „að slá í gegn“ og ég þoldi það ekki. Skömmin stýrði mér. Fyrir mér var lífið búið fyrst fótboltinn var farinn!
Á 2-3 árum klúðraði ég lífinu og var ótrúlega heppinn að lifa það af.
Ég leit í spegil og sá alltaf einhvern flottan fótboltatöffara. Spegillinn sýndi það ekki. Hann sýndi ungan mann í tómu tjóni.
Eftir 2-3 ára rugl fór ég fyrst í meðferð. Man tímasetninguna því þá varð liðið sem ég lék með á móti Manchester United Íslandsmeistari í fótbolta. Ég kominn á slopp og félagarnir að fagna titli.
Það fannst mér niðurlægjandi. Stútfullur af fordómum. Núna er ég orðinn algjör aumingi. Aðdragandinn að meðferðinni var hræðilegur. Ég fór því ég gat hvorki réttlætt né logið. Loks stóll fyrir dyr. Engin meðvirkni. Ég kláraði meðferðina og fór að reyna að lifa án vímuefna.
Eftir meðferð komst ekkert annað að en sýna að ég gæti komist í fótboltann aftur! Varð þráhyggja. Ég fór að mæta á æfingar. Var langt á eftir hinum strákunum og var að gefast aftur upp! Þá meiðist ég í hnénu og beint undir hnífinn í uppskurð. Nokkrum mánuðum síðar var hitt hnéð á mér skorið upp. Og mér sagt að einbeita mér bara að því að lifa venjulegu lífi en gleyma öllu sem heitir keppnisíþróttir!
Þetta varð mér annað áfall sem ég réð ekki við og gat ekki sætt mig við þessa staðreynd. Ef hægt er að tala um ég hefði haft sjálfsvirðingu þá var það fótboltinn. Ég datt í það aftur.
Ég varð enn þunglyndari og dró mig í skel. Ég stóð frammi fyrir enn einu valinu. Að horfast í augu við staðreynd og vinna úr málunum? Eða að þrjóskast og berja hausnum við stein?
Í þessu tilfelli valdi ég það síðarnefnda. Svo mikil „skömm“ í mér að hafa klúðrað ferlinum þrátt fyrir úrskurð lækna um hnén.
Ég reyndi margt, alltaf í von um að ég gæti skellt mér á æfingu og byrjað að spila í efstu deild! Það var engin rökrétt hugsun á bak við þetta. Dómgreindarleysi. „Afneitun“. Léleg „sjálfsvirðing“. Ég þorði ekki og vildi ekki horfast í augu við „staðreynd“. Rúmlega tvítugur. Útbrunninn. Lúser! Þannig leið mér. Ég var aftur kominn í „rússnesku rúllettuna“.
Þótt mér liði illa var ég mjög „aggressívur“ í framkomu og sumt fólk forðaðist mig! Í edrúmennskunni gat ég ekki horfst í augu við mínar tilfinningar eða líðan. Ég reyndi samt!
Byrjaði í háskólanámi sem ég varð að hætta í. Fór í mína fyrstu sambúð með góðri konu sem var sterkur persónuleiki. Ég var himinlifandi en fann um leið að ég hafði ekki þroska til að vera í sambúð. Hún átti sex ára skottu sem ég náði góðum tengslum við. En að bera orðið ábyrgð sem maki og stjúpfaðir var miklu meira en ég gat þótt ég vildi.
Ég var edrú á þessum tíma en réð ekkert við tilfinningalíf mitt. Í neyslunni kom ég illa fram við allt of margar konur. Gat ekki bundist tilfinningalega. Ef einhver varð yfir sig hrifin af mér þá fraus ég. Ég var drullusokkur. Hafnaði öllum konum því ég var svo skíthræddur um að mér yrði hafnað. En hafnaði ekki á fallegan hátt. Þessi hegðun sat lengi í mér og ég var lengi að vinna úr henni.
Hvað gerðist svo? Jú, kom að því að sambýliskona mín sleit sambúðinni. Hafnaði mér! Mér leið eins og ég hefði verið stunginn og væri að blæða út. Gerði allt og lagðist lágt í að reyna að fá hana aftur. Því meira sem ég reyndi gerði illt verra. Við skildum sem engir vinir.
Hvað gerði ég? Datt í það. Var að vori til og allt það sumar var ég meira og minna edrú en með hugann á spinni og úti á túni. Vissi ekkert hvert ég var að stefna. Að rita þessi orð finn ég hvernig mér leið. Ég var, að mér fannst, niðurlægður eftir höfnunina. Eins og ég nefndi var hrokinn mín gríma. Ekki af ásetningi heldur kunni ég ekkert annað.
Hér stóð ég frammi fyrir valinu að lifa eða ... deyja! Mér leið það illa. Gat ekki verið edrú og ekki heldur í neyslu. Fastur. Fyrst vildi ég deyja. Losna við þjáninguna. En með góðra manna hjálp valdi ég betri kostinn.
Hér komum við aftur að vonleysinu, uppgjöfinni og vanmættinum! Ég gafst upp. Ekki átakalaust! Vanmáttugur þáði ég útrétta hjálparhönd. Ég fór enn og aftur í meðferð haustið 1993. Langaði það ekki en ákveðinn maður sem ég ber mikla virðingu fyrir ýtti á mig
Þótt ég hefði ekki verið í langri neyslu mánuðina á undan var ég svo illa farinn á taugum að ég var ekki í neinu jafnvægi. Paranojan að drepa mig og ég með hrokagrímuna á lofti. Á Vogi hefði ég átt að vera hefðbundna 10 daga og svo í eftirmeðferð. Mér var ekki treyst til að fara í eftirmeðerð fyrr en eftir mánuð. Þá fór ég í eftirmeðferð á Staðarfelli sem átti eftir að bjarga lífinu mínu og gefa mér tækifæri til að eignast nýtt líf. Fullt af sögum þaðan í samskiptum mínum við einn ágætan ráðgjafa sem ég hataði í og eftir meðferð.
Þessi endurkomumeðferð þýddi að ég átti að sækja hópfund einu sinni í viku í heilt ár á göngudeild SÁÁ. Ég gerði það á Akureyri. Þessir hópfundir og mörg viðtöl við ráðgjafann á staðnum hjálpuðu mér gríðarlega. Ég fór að ná jafnvægi og að renna upp fyrir mér ljós hver þroski minn var.
Ég varð að gjöra svo vel að læra að skilgreina tilfinningar. Læra samskipti. Hemja skapið ef einhver sagði eitthvað við mig og hoppa ekki í vörn. O.s.frv.
Sáttin náðist samhliða því að ég sættist við „sjálfan mig“ sem manneskju. Ekki flókið nei en erfitt, já. Að geta horft í augun á mér í spegli og sjá réttu spegilmyndina. Tala og hlusta. Vera tilbúinn að bjarga sér. Hélt dagbók og jafnt og þétt fór ég að komast í bata og jafnvægi sem ég hafði aldrei upplifað á ævinni.
Í stuttu máli þá eignaðist ég líf. Fór í háskóla og lauk námi með glans. Verðlaun fyrir besta námsárangur. Fór svo á vinnumarkaðinn. Eignaðist konu og börn og var farinn að lifa eðlilegu lífi. Gekk vel í lífi og starfi. Var búinn að útiloka að þetta lægi fyrir mér. Lifði þessu lífi næstu 20 árin þar til draugar barnæskunnar brutust fram. Fer ekkert í það hér.
Fyrsta skrefið í reynslusporunum 12 er að viðurkenna vanmátt og gefast upp. Andstæðan við hrokann sem ég hafði doktorsgráðu í. Andstæðan heitir auðmýkt. Hugtak sem ég skildi ekki en lærði. Læra að leita mér hjálpar og þykjast ekki vita allt. Hef svo sem alltaf átt í basli með það.
Mín reynsla er að sigurvegarinn er sá sem sýnir auðmýkt í að leita sér hjálpar!. Enda fóru kraftaverkin að gerast. Engin flugeldasýning heldur hægt og rólega. Ég þurfti að læra manngang lífsins frá grunni og fór að feta hann. Eignaðist, eins og ég nefndi, gott líf. Kraftaverk!
Draumurinn sem aldrei rættist. Viðurkenni að ég var lengi að sætta mig við það. Tók mig mörg ár. En það tókst með því að horfast í augu við staðreyndir. Því voru aðstæður þannig að þessi draumur átti aldrei að rætast. Ég trúi ekki á tilviljanir heldur örlög.
Særir mig ekki og stjórnar ekki minni líðan í dag. Ég horfi jákvætt á þetta og er stoltur að hafa þó fengið að spila á móti Manchester United og með George Best. Mér tókst alla vega þetta. Í dag er ég stoltur að hafa fengið að upplifa þetta sem 16 ára pjakkur!
Að sætta sig við það sem ég get ekki breytt en breyta því sem ég get breytt. Það hef ég náð að gera gagnvart hvaða mótlæti sem er. Lífið er ekki bein lína. Það koma óvænt upp erfið verkefni sem ég átti alltaf val um að takast á við eða ekki. Ég vissi að ef ég sleppti því þá breyttist ekkert.
Ég hef átt við hrikalega erfið veikindi að stríða síðan 2013 sem má segja að séu afleiðing af alkóhólisma annarra. Ég fæ því ekki breytt. Hef glímt hart við þessi veikindi og reynslan, sem ég lýsi í pistlinum, hefur hjálpað mér mikið. Og mun alltaf gera.
Í lokin. Smá ráðlegging ef þú lendir í mótlæti.
Stopp. Líttu í eigin barm. Spáðu í hvað þú getur gert til að takast á við það á heiðarlegan hátt. Henda út réttlátri reiði gagnvart fólki. Ná sátt í eigin skinni. Þá þarf oft að kyngja stoltinu. Réttlát reiði er skiljanleg en stórhættuleg. Eitur. Ég breyti mér en ekki öðru fólki. Punktur og basta.
Hljómar einfalt? En fjandanum erfiðara að framkvæma. Þannig er lífið. Engar skyndilausnir. Þú, eins og ég, verður að framkvæma. Ekkert gerist af sjálfu sér. En hægt að biðja um hjálp!
Hjartans þakkir þið sem lásuð. Guð blessi ykkur.
Gott að eiga góðar minningar eins og þetta sumar í sælunni.