Vegna manneklu var farið í átaksverkefni hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands í að breyta afgreiðslu lyfja. Verkefnið hefur skilað góðum árangri því allt bendir til þess að notendum sterkra eftirritunarskyldra lyfja hafi fækkað um 20-25% frá því reglunum var breytt fyrir tæpum tveimur árum.
Vegna manneklu var farið í átaksverkefni hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands í að breyta afgreiðslu lyfja. Verkefnið hefur skilað góðum árangri því allt bendir til þess að notendum sterkra eftirritunarskyldra lyfja hafi fækkað um 20-25% frá því reglunum var breytt fyrir tæpum tveimur árum.
Vegna manneklu var farið í átaksverkefni hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands í að breyta afgreiðslu lyfja. Verkefnið hefur skilað góðum árangri því allt bendir til þess að notendum sterkra eftirritunarskyldra lyfja hafi fækkað um 20-25% frá því reglunum var breytt fyrir tæpum tveimur árum.
Linda Kristjánsdóttir, yfirlæknir í Borgarnesi og sviðsstjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, kynnti á Læknadögum átaksverkefni HVE sem miðar að því að fylgjast betur með ávísunum ávana- og fíknilyfja hjá heilsugæslustöðvum umdæmisins.
Verkefnið hefur skilað góðum árangri þar sem þeim einstaklingum sem nota sterk verkjalyf hefur fækkað. Þeim sem notuðu eftirritunarskyld verkjalyf fækkaði úr 1.245 árið 2017 í um það bil 900 árið 2019.
Meðal annars voru settar mjög skýrar leiðbeiningar varðandi lyfjaafgreiðslur þannig að hægt væri að ganga inn í starfið á öllum starfsstöðvum og allir gengju í takt. Á þessum tíma var mjög mikið um dauðsföll af völdum ópíóða og ávanabindandi lyfja þannig að ákveðið var að nýta tækifærið til að sporna við þessari þróun.
Með þessum reglum er í rauninni verið að hvetja lækna til að vera vandvirkir, segir Linda. Það getur verið auðveldara að klára vinnudaginn með því að ýta á „senda“ á öllum lyfseðlunum sem koma inn í lyfjaendurnýjun en þegar unnið er eftir þessum reglum er það ekki í boði og óheimilt, segir hún.
Þeir sem afgreiða lyf hjá HVE þurfa að skoða vel hvenær viðkomandi fékk síðast lyf, hvenær hann kom síðast á stöðina og hvort rætt var um lyfin við hann þegar hann kom síðast, segir Linda en þær reglur voru settar að ef fólk notar svefnlyf eða róandi lyf verður það að koma í viðtal út af lyfjanotkuninni á þriggja mánaða fresti. Það þýðir að það fær ekki lyf afgreidd aftur fyrr en búið er að koma í viðtal.
Ef um sterk eftirritunarlyf er að ræða, til dæmis ópíóða, þarf fólk að koma í viðtal í hverjum mánuði. Þar er farið yfir notkunina og hvort þörf er á henni; hvernig sé hægt að breyta henni og draga úr. Að öðrum kosti fær viðkomandi ekki afgreidd lyf og fær höfnun um endurnýjun lyfjaávísunar.
Linda segir að þetta hafi verið mikil vinna í upphafi og gríðarlegur höfuðverkur að vinna allar lyfjaávísanir. „Okkur fannst það hins vegar þess virði,“ segir hún. „Því á endanum græða allir á þessu. Ef þú hefur ekki tíma til að sinna þessu getum við þá verið að nota þessi lyf?“
Þetta eru ekki lyf sem á að ávísa út í loftið og það þarf að hugsa þetta því þetta eru lyf með alvarlegar aukaverkanir, segir Linda. „Þau auka líkur á dauða og þeim fylgir gríðarleg fíkniáhætta. Við eigum að kenna skjólstæðingum okkar að þetta eru lyf sem við þurfum að hugsa okkur tvisvar um áður en við endurnýjum,“ segir Linda og leggur áherslu á mikilvægi þess að benda skjólstæðingum á leiðir til að hætta.
Hún segir að álagið minnki þegar á líður því margir séu alveg til í að hætta á þessum lyfjum. Að sögn Lindu þykur læknum gott að hafa reglur sem þessar. Að þeir hafi skýran ramma til að vinna eftir. Jafnframt verða aðrir starfsmenn heilsugæslustöðvanna meðvitaðir um að þetta eru hættuleg lyf. Þetta smitast út til þeirra sem nota lyfin og verða reiðubúnir til að reyna aðrar leiðir en að nota þessi lyf.