Anna Mínerva Kristinsdóttir ferðaðist með kærasta sínum Arnari Má Kristinssyni um Asíu fyrir áramót. „Við höfum verið saman í meira en fjögur ár og hafði planið alltaf verið að fara saman í reisu um Asíu. Við höfum bæði lengi verið mjög hrifin af asískri menningu og því þurftum við ekki að hugsa okkur tvisvar um þegar kom að því að velja áfangastaði reisunnar,“ segir Anna Mínerva.
Anna Mínerva Kristinsdóttir ferðaðist með kærasta sínum Arnari Má Kristinssyni um Asíu fyrir áramót. „Við höfum verið saman í meira en fjögur ár og hafði planið alltaf verið að fara saman í reisu um Asíu. Við höfum bæði lengi verið mjög hrifin af asískri menningu og því þurftum við ekki að hugsa okkur tvisvar um þegar kom að því að velja áfangastaði reisunnar,“ segir Anna Mínerva.
Anna Mínerva Kristinsdóttir ferðaðist með kærasta sínum Arnari Má Kristinssyni um Asíu fyrir áramót. „Við höfum verið saman í meira en fjögur ár og hafði planið alltaf verið að fara saman í reisu um Asíu. Við höfum bæði lengi verið mjög hrifin af asískri menningu og því þurftum við ekki að hugsa okkur tvisvar um þegar kom að því að velja áfangastaði reisunnar,“ segir Anna Mínerva.
Anna Mínerva og Arnar Már fóru til níu landa á 14 vikum. Í fyrstu ætluðu þau að heimsækja sjö lönd en áttuðu sig á því á ferðalaginu að þau vildu bæta tveimur löndum við.
„Fyrsti áfangastaðurinn sem við völdum var Japan. Okkur hefur alltaf langað að fara til Japans, aðallega því við erum svo heilluð af menningunni þar og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þar heimsóttum við Tókýó, Kyoto, Kanazawa, Nara, Osaka, Hiroshima og Fukuoka.
Svo ákváðum við að auðveldast væri að ferðast frá Japan yfir til Suður Kóreu þar sem löndin liggja nánast hlið við hlið. Í Suður Kóreu heimsóttum við Busan og höfuðborgina Seoul. Við ætluðum upprunalega að fljúga frá Seoul til Hanoi í Víetnam en þar sem við þyrftum hvort sem er að fljúga yfir litlu eyjuna Taívan ákváðum við að bæta við nokkrum dögum í höfuðborginni Taípei.
Eftir nokkra daga í Taípei flugum við til Hanoi, en þó ekki án vandræða þar sem í fljótfærni okkar gleymdum við að sækja um vísa til að komast inn í Víetnam svo við urðum að gista auka nótt í Taípei þar sem við gátum ekki fengið vísað okkar fyrr en degi eftir. Í Víetnam heimsóttum við Hanoi, Sapa, Hoi An og Ho Chi Minh City (Saigon). Við fórum einnig í þriggja daga siglingu um Ha long Bay sem var svo sannarlega hápunktur ferðarinnar.
Eftir rúmar tvær vikur í Víetnam flugum við yfir til Kambódíu og heimsóttum höfuðborgina Phnom Penh, sigldum svo yfir á litla eyju sem heitir Koh Rong og flugum svo til Siem Reap þar sem við nutum þess að skoða fallegu hofin á Angkor Wat svæðinu. Við eyddum tíu dögum í Kambódíu sem og í Laos þar sem við heimsóttum höfuðborgina Vientiane, partýbæinn Vang Vieng og svo Luang Prabang.
Til að komast til Taílands ákváðum við að sigla í staðinn fyrir að fljúga. Siglingin tók tvo daga, við stoppuðum eina nótt á leiðinni í litlum bæ sem heitir Pakbeng. Þegar við komum svo að landamærunum gistum við eina nótt í Chiang Khong í Taílandi. Ferðinni var svo haldið áfram til Chiang Mai, Kanchanaburi og Bangkok.
Við ætluðum okkur alltaf að klára ferðina í Taílandi, við ætluðum að heimsækja Suður-Taíland og eyða seinustu tveimur vikum ferðarinnar á ströndum Taílands en breyttum þeim plönum þegar við vorum í Víetnam. Við áttuðum okkur á því að okkur langaði að heimsækja fleiri staði í Asíu og ákváðum því að bæta við Kuala Lumpur í Malasíu og Balí í Indónesíu. Við gistum þrjár nætur í Kuala Lumpur og heimsóttum svo þrjá staði á Balí á tíu dögum, Seminyak, Ubud og Canggu.“
Var allt ákveðið fyrirfram eða tóku þið einhverjar skyndiákvarðanir?
„Við vorum búin að setja upp beinagrind af ferðinni, til hvaða landa við vildum fara og hvaða borgir og bæi okkur langaði að heimsækja en við pössuðum okkur samt að panta ekkert með of miklum fyrirvara. Við vorum aðeins búin að bóka flugið út, gistinguna í Tókýó og Japan Rail Pass, lestarmiða sem gilda um allt Japan áður en við flugum út. Við bókuðum svo allar gistingar og flug með sirka viku fyrirvara ef ekki styttra. Við tókum ekki mikið af skyndiákvörðunum, þó ákváðum við nokkrum sinnum á seinustu stundu að lengja einhverja ferð eða stytta, en gerðum það þó alltaf með allavega viku fyrirvara.“
Hvaða upplifun situr mest eftir?
„Menningarsjokkið að fara frá litla Íslandi til Japans var rosalegt. Enda eru engin líkindi á milli þessara tveggja menningarheima. Siglingin um Halong Bay situr ofarlega í huga okkar þar sem við vorum á æðislegu skipi með góðum mat inniföldum og búið var að plana marga skemmtilega hluti að gera, eins og kajakferðir, smokkfiskaveiði, gönguferðir á nálægum eyjum og margt fleira. Okkur fannst einnig mikil upplifun að gista á litlu eyjunni Koh Rong í Kambódíu. Við gistum í litlum kofa á fallegri strönd ásamt nokkrum öðrum túristum. Við vorum svo sannarlega á paradísareyju. Í Chiang Mai í Taílandi heimsóttum við verndunarsvæði fíla þar sem við fengum að gefa þeim banana, baða þá upp úr leðju og svo að lokum skola þá í nærliggjandi á. Sú upplifun var mögnuð, þar sem hvorugt okkar hafði áður fengið að sjá fíla á svo stuttu færi og hvað það að fá að klappa þeim og eyða deginum með þeim.“
Hvað kom mest á óvart?
„Hvað flestir íbúar Asíu, ef ekki allir sem við hittum, voru almennilegir, gestrisnir og alltaf til í að hjálpa manni ef maður lenti í einhverjum vandræðum. Japan kom líka mikið á óvart. Við vorum alveg búin að gera okkur grein fyrir því að Japan væri mikið öðruvísi menningarheimur en Ísland og flestar aðrar þjóðir en maður gerir sér ekki grein fyrir mismuninum fyrr en maður er kominn út. Allt er svo ótrúlega hreint og Japanir eru gríðarlega kurteisir, stundum einum of. Svo er allt svo rosalega skilvirkt þarna, jafnvel í einni stærstu stórborg heims finnur maður ekki fyrir neinni ringulreið eða varla fyrir fólkinu.“
Olli einhver staður vonbrigðum?
„Það fylgir held ég öllum ferðalögum að væntingar séu stundum aðeins of miklar og því kemur það fyrir að maður verði fyrir vonbrigðum. Í okkar tilfelli voru nokkrir staðir sem ollu vonbrigðum, hvort sem það var út af veðurfari, of miklum túrisma, eða hreinlega út af því að staðurinn var óspennandi þegar komið var á leiðarenda. Í Japan fannst okkur Kanazawa og Fukuoka ekki standa undir væntingum. Í Laos urðum við líka fyrir ákveðnum vonbrigðum þar sem við höfðum of miklar væntingar eftir að hafa heyrt góða hluti fá vinum og vandamönnum sem höfðu heimsótt staðinn en okkur fannst Laos ekki standa undir þeim væntingum.
Í Taílandi gerðum við þau mistök að eyða tveimur nóttum í litlum bæ rétt fyrir utan Bangkok sem heitir Kanchanaburi, sem er þekktastur fyrir brú yfir Kwai-fljótið. Við komumst þó fljótt að því að það eina merkilega við bæinn var þessi blessaða brú og fóru því tveir heilir dagar í vaskinn. Að lokum fannst okkur Balí, sá áfangastaður sem margir telja eftirsóknarverðan, ekki standa undir væntingum og verðum að játa að okkur fannst Balí frekar ofmetin. Ekki er þó hægt að draga úr fegurð Balí, þar sem þar er gríðarlega mikil náttúrufegurð og mikið af gömlum og fallegum hofum sem erfitt er þó að skoða. En túristabylgjan sem hefur plagað Balí síðastliðin ár er farin að bitna á eyjunni litlu. Þegar við heimsóttum Balí í desember átti að vera „low season“ en jafnvel þá fannst okkur við vera umkringd sólbrenndum túristum á bikiníinu á leið á ströndina.“
Lentuð þið í einhverju hættulegu?
„Þegar við vorum í fjallaþorpinu Sapa í Víetnam þurftum við að komast aftur að lestarstöðinni í Lào Cai til að taka næturlestina aftur til Hanoi. Þegar við stóðum í strætóskýlinu að bíða eftir strætóinum sem átti að koma hálftíma seinna, þá spurði konan sem stóð við hliðina á okkur í strætóskýlinu hvort við myndum vilja fara með henni til Lào Cai. Hún sagði okkur að vinur hennar væri að fara að sækja túrista á lestarstöðina og gæti því skutlað okkur þangað. Við vorum auðvitað mjög efins með þetta þegar vinur hennar á smárútunni kom. Konan sagði þá við okkur að þau myndu rukka okkur fyrir það sama og ef við myndum taka strætóinn og að hún mælti ekki með að taka strætóinn þar sem hann væri mjög skítugur og sjaldan á réttum tíma. Við ákváðum að taka boði hennar, þó að við hugsuðum ekki of mikið út í það, og þegar við komum upp í smárútuna vorum við farin að hugsa hvort það væri verið að fara að ræna okkur eða svindla á okkur. Á leiðinni úr bænum Sapa, sóttu þau fleiri „vini“ sem voru einnig á leiðinni til Lào Cai. Við vorum þá allt í einu tveir ferðamenn í fullri rútu af heimamönnum sem töluðu litla sem enga ensku. Þrátt fyrir áhyggjur okkur var þetta hið almennilegasta fólk sem kom okkur á leiðarenda fyrir sama pening og kostaði í strætóinn. Þetta undirstrikar bara það sem ég nefndi áðan, að það fólk sem við hittum í Asíu er upp til hópa ekkert annað en almennilegt.
Anna Mínerva segir að parið hafi safnað í um níu mánuði fyrir ferðinni en þegar upp var staðið eyddu þau ekki öllum sparnaðinum.
„Við ákváðum að safna frekar meiri peningum en minni. Við enduðum á að safna 1,6 milljónum á mann þó að við notuðum ekki meira en sirka 1,1 á mann. Við söfnuðum þessum peningum á sirka níu mánuðum, lögðum fyrir alltaf frá um 200 þúsundum á mánuði.“
Stefnir þú á frekari ferðalög á næstunni?
„Eftir heimkomu hefur okkur dreymt um næstu ferð, og erum við að stefna á að ferðast um Evrópu á næsta ári.“