Kevin, hvað gerðist?

Talandi um tónlist! | 22. febrúar 2020

Kevin, hvað gerðist?

Ástralski sýruprinsinn Kevin Parker sendi frá sér á dögunum sína fjórðu hljóðversplötu undir nafninu Tame Impala. Í stafrænni veröld þar sem bókstaflega allt fram streymir er frekar fátítt að beðið sé með eftirvæntingu eftir plötum en það var tilfellið með The Slow Rush.

Kevin, hvað gerðist?

Talandi um tónlist! | 22. febrúar 2020

Kevin Parker við gerð Currents-plötunnar frá árinu 2015.
Kevin Parker við gerð Currents-plötunnar frá árinu 2015. Skjáskot

Ástralski sýruprinsinn Kevin Parker sendi frá sér á dögunum sína fjórðu hljóðversplötu undir nafninu Tame Impala. Í stafrænni veröld þar sem bókstaflega allt fram streymir er frekar fátítt að beðið sé með eftirvæntingu eftir plötum en það var tilfellið með The Slow Rush.

Ástralski sýruprinsinn Kevin Parker sendi frá sér á dögunum sína fjórðu hljóðversplötu undir nafninu Tame Impala. Í stafrænni veröld þar sem bókstaflega allt fram streymir er frekar fátítt að beðið sé með eftirvæntingu eftir plötum en það var tilfellið með The Slow Rush.

Fyrir tæpum níu árum benti ég lesendum pappírsútgáfunnar af mbl.is á fyrstu plötu Tame Impala í nokkrum málsgreinum þar sem niðurlagið var: 

Ein af þeim frábæru plötum sem komu út í fyrra án þess að mikið væri með hana látið var platan Innerspeaker með áströlsku sýrurokkurunum í Tame Impala. Á plötunni er að finna vel samin melódísk lög skreytt smekklegum spilaköflum. Útkoman hljómar svolítið eins og sýrutrippið hans Johns Lennons hafi aldrei klárast. Allt er svo hljóðblandað af snillingnum Dave Fridmann (Flaming Lips, Mercury Rev o.fl.). Skotheld plata.“ 

Síðan þá hef ég fylgst með Parker og sveitinni verða að einu stærsta nafninu í indí-popprokk senunni. Hápunktinum var líklega náð með ópusnum „Let it happen“ af Currents (2015). Tæplega átta mínútur af framúrstefnulegri poppsnilld sem er á valdi afar fárra að fullkomna. Smellirnir eru auðvitað fleiri „The Less I Know The Better“ af sömu plötu, „Elephant“ og „Feels Like We Only Go Backwards“ af Lonerism (2012) hafa rakað inn streymunum og vafalaust tryggt væna sjóði fyrir erfingja Parkers.   

Hæfileikarnir eru miklir en hann leikur á öll hljóðfæri sjálfur inn á Tame Impala-plöturnar og þar er margt frábærlega gert en melódískur bassaleikurinn er í mínum bókum það sem helst stendur upp úr. Parker er fæddur árið 1986 og var því um þrítugt þegar hann var almennt álitinn eitt helsta poppséní sinnar kynslóðar. Því fylgdu langdvalir í Los Angeles þar sem hann býr hluta árs og misáhugverð samstarfsverkefni með poppurum á borð við Lady Gaga og Mark Ronson.

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá Parker að störfum við upptökurnar á Currents. Alvöruséní þarna á ferð. Það hringlar reglulega í klökunum í drykknum hjá honum en það virðist ekki hafa komið að sök við gerð plötunnar sem er ein sú besta sem gefin var út á áratugnum.

Hvort Kaliforníudvölin hafi haft áhrif á sköpunarferlið er erfitt að spá í en fimm ára meðgöngutími er ansi vel í lagt. Enginn nær að leysa poppjöfnuna á þessum skala án þess að vera fullkomnunarsinni og það virðist hafa leitt Parker út á hálan ís þegar hann byrjaði að breyta „Borderline“, fyrsta laginu sem heyrðist af nýju plötunni, eftir að það kom fyrst út. Lagið var gefið út snemma á síðasta ári en er í breyttri útgáfu á plötunni. Í viðtali um ákvörðunina segir Parker að hann hafi m.a. fallið á tíma við gerð þess sem er náttúrulega ein leið til að koma ofhugsun í orð.

Hvort það hafi eitthvað gera með viðtökurnar á laginu er erfitt að segja til um annað en það að plötufyrirtækið hefur eflaust gert meiri væntingar til gulldrengsins. Það sem ég las var frekar hófleg hrifning fólks þótt auðvitað hafi margir verið ánægðir. Sjálfum fannst mér og finnst það enn alger hörmung. Sálarlaus flatneskja sem hljómar eins og hún sé samin á vindsæng... eða að þráðurinn hafi tapast á ströndinni.

View this post on Instagram

Eventually terrible memories turn into great ones

A post shared by Tame Impala (@tameimpala) on Jan 12, 2020 at 8:58pm PST

Eftir nokkur rennsli á The Slow Rush virðist það því miður vera raunin. Frekar tilþrifalítil en umfram annað köld og fjarlæg plata þar sem fáir sprettir jafnast á við fyrri verk. Textinn í „It Might Be Time“ er nokkuð lýsandi: 

„It might be time to face it. It ain't as fun as it used to be. You ain't as young as you used to be. It might be time to face it. You ain't as cool as you used to be.“

Þetta er alvöruótti, og ég sem hélt að það væri búið að fresta hefðbundnum sálarkreppum miðaldra manna til fimmtugs!? Auðvitað gerist það að frábærir músíkantar gera vonda tónlist og að sjálfsögðu fyrirgefst okkar manni, vonandi lætur hann mig samt ekki bíða í fimm ár eftir því næst.     


    

mbl.is