Hjónin Hjördís Ýrr Skúladóttir og Þórarinn Þórarinsson ákváðu að halda á vit ævintýranna haustið 2018. Þau keyptu húsbíl, fóru með honum til meginlands Evrópu með Norrænu og hófu ferðalagið. Þau eru enn á ferðalagi en nú búa þau í Slóveníu. Hún segir að það breyti viðhorfi til lífsins að búa í húsbíl í 12 mánuði eins og þau gerðu. Hjördís er með MS-sjúkdóminn og segir að fólk eigi að njóta lífsins meðan það lifir.
Hjónin Hjördís Ýrr Skúladóttir og Þórarinn Þórarinsson ákváðu að halda á vit ævintýranna haustið 2018. Þau keyptu húsbíl, fóru með honum til meginlands Evrópu með Norrænu og hófu ferðalagið. Þau eru enn á ferðalagi en nú búa þau í Slóveníu. Hún segir að það breyti viðhorfi til lífsins að búa í húsbíl í 12 mánuði eins og þau gerðu. Hjördís er með MS-sjúkdóminn og segir að fólk eigi að njóta lífsins meðan það lifir.
Hjónin Hjördís Ýrr Skúladóttir og Þórarinn Þórarinsson ákváðu að halda á vit ævintýranna haustið 2018. Þau keyptu húsbíl, fóru með honum til meginlands Evrópu með Norrænu og hófu ferðalagið. Þau eru enn á ferðalagi en nú búa þau í Slóveníu. Hún segir að það breyti viðhorfi til lífsins að búa í húsbíl í 12 mánuði eins og þau gerðu. Hjördís er með MS-sjúkdóminn og segir að fólk eigi að njóta lífsins meðan það lifir.
„Húsaskipti finnast okkur vera notalegur sumarfrísmáti sem kemur manni nær því hvernig heimamenn hafa það. Svo er það sérstaklega þægilegt með lítil börn að skipta um hús við fólk sem líka á börn á svipuðum aldri því þá eru leikföng til staðar,“ segir hún.
Eftir að hafa prófað húsaskipti blundaði það í þeim að prófa að búa erlendis. Þau gátu bara ekki ákveðið hvaða land myndi henta þeim öllum en eftir miklar vangaveltur ákváðu þau að byrja að ferðast.
„Á endanum keyptum við okkur húsbíl hér heima á Íslandi og svo var lagt í hann á haustdögum 2018,“ segir Hjördís. Með í för voru börnin þrjú, Rán sem er 11 ára og hefur gaman af því að föndra, spilar á klarínett og er dugleg að eignast nýja vini. Næstur í röðinni er Breki sem er 14 ára unglingur sem hefur haldið tryggð við íslenska vini sína í gegnum uppáhaldstölvuleikinn sinn. Hann spilar á trompet og elskar skóginn í Recica þar sem fjölskyldan býr nú. Elstur er Úlfur sem er víðsýnn unglingur sem hefur áhuga á öllu mögulegu og hlakkar mikið til að læra á bíl en hann er á 16. ári.
Þegar Hjördís er spurð að því hvort þau hafi selt allar eigur sínar áður en þau héldu af stað á húsbílnum kemur í ljós að þau losuðu sig við mikið af drasli.
„Við seldum kannski ekki mikið en Sorpa og Góði hirðirinn fengu ansi mikið. Við leigjum svo húsið okkar út með megninu af húsgögnunum. Það er samt svo merkilegt hvað hlutir geta verið þrúgandi, óþarfir og binda mann niður. Í raun skipta þessir hlutir okkur ekki máli. Því komumst við að í 10 fm húsbílnum á flakki í 12 mánuði,“ segir hún og hlær.
Hjördís og fjölskylda byrjaði á því að keyra hálfan hring um Ísland til að ná Norrænu en nokkrum dögum síðar fóru þau til Danmerkur. Þaðan lá svo leiðin suður í gegnum Evrópu.
Eruð þið hagsýn í eðli ykkar?
„Já, við erum hagsýn í eðli okkar. Höfum til dæmis aldrei keypt okkur nýjan bíl, notum föt frekar lengi, þiggjum föt sem við fáum gefins og nýtum allan mat sem keyptur er inn til heimilisins. Allir svona hlutir skipta máli. Við höfum heldur aldrei átt tvo bíla þrátt fyrir að vera að vinna sitt í hvorum borgarhlutanum. Við áttum reyndar heima lengi úti á landi, lengst af í Hrísey. Þar lærir maður líka að láta ekki glepjast af lífsgæðakapphlaupinu, njóta lífsins án þess að borga fúlgur fjár fyrir,“ segir hún.
Þótt það hafi blundað í þeim lengi að búa erlendis þá voru þau ekki mjög lengi að skipuleggja ferðalagið þegar á hólminn var komið.
„Varðandi ferðalagið sem slíkt þá bara kom það til okkar. Svona eiginlega eins og ferðin sjálf er búin að vera. Allt mjög „spontant“,“ segir hún.
Fjölskyldan var á ferðalagi í heilt ár en býr þessa stundina í Slóveníu. Þegar Hjördís er spurð að því hvers vegna þau hafi valið Slóveníu segir hún að það hafi eiginlega gerst óvart.
„Það var í sjálfu sér ekki á áætlun að setjast hér að. Við vorum orðin spennt fyrir Norður-Ítalíu, en svo komum við hingað og það bara gerðist eitthvað. Fegurðin hér er engu lík. Árnar eru svo tærar, fjöllin tignarleg, skógar úti um allt og fólkið sérlega gestrisið auk þess sem flestallir tala ensku. Allir eru einhvern veginn boðnir og búnir til að hjálpa til, en síðast en ekki síst eru allir innviðir hér í mjög góðu lagi og stjórnsýslan laus við allt vesen, eitthvað sem verður því miður seint sagt um Ítalíu til dæmis,“ segir hún. Um leið og þau komu til Slóveníu fóru börnin í skóla.
„Breki og Rán fóru í grunnskólann í þorpinu okkar og Úlfur í menntaskóla í næsta bæ, Velenje, en hér byrja krakkar í menntaskóla ári fyrr en á Íslandi. Það sem Breka og Rán hefur fundist samt skrítnast er að skóladagurinn byrjar korter fyrir átta á morgnana og það eru engar frímínútur. Þau eru öll ótrúlega dugleg og auðvitað hálfgerðar hetjur að setjast á skólabekk án þess að kunna stakt orð í slóvensku. Þau hafa samt verið að taka próf og fengið meira að segja fimm í sumum þeirra. Það finnst kannski sumum ekkert merkilegt, en þegar við komumst að því að fimm er hæsta einkunnin hér þá fylltumst við foreldrar stolti. Hér er mikið lagt upp úr prófum og einkunnum og nemendur hiklaust látnir sitja bekkinn aftur ef einkunnir eru ekki nógu góðar. Við foreldrarnir erum heimavinnandi en ég þarf að vinna í að byggja mig upp, styrkja mig líkamlega til að fást við MS-ið mitt. Ein af ástæðunum fyrir því að við drifum okkur af stað var einmitt að njóta þess meðan við getum. Hvort sem við erum með MS eða ekki þá vitum við ekki framtíðina og því mikilvægt að láta draumana ekki „renna út á dagsetningu“ ef svo má segja,“ segir hún.
Er planið að vera þarna næstu árin?
„Við værum til í að vera lengur, en einhvern veginn kallar klakinn á okkur. Lofa börnunum að klára skólana, vera nær ættingjum þannig að við stefnum nú ekki á að ílengjast hér.“
Hvað hafið þið lært af því að ferðast um heiminn?
„Auðvitað er Evrópa ekki allur heimurinn, þrátt fyrir að hafa skoppað í nokkra daga yfir til Marokkó. Evrópa er samt allskonar. Maður lærir að njóta litlu hlutanna sem okkur finnast svo sjálfsagðir, eins og það að komast í sturtu, komast á snyrtileg klósett (klósett geta sko verið allskonar!) og hafa aðgang að rafmagni svo eitthvað sé nefnt. Í húsbílnum voru krakkarnir í heimakennslu og reyndum við að læra eitthvað um sögu, landafræði og samfélagsfræði þeirra landa sem við ferðuðumst um. Stærsta lexían er samt sennilega sú að þó við mannfólkið séum með misjafna siði, menningu, trúarbrögð og annað slíkt þá byggjum við öll á sama grunni. Velvild og almennilegheit er eitthvað sem hefur alls staðar mætt okkur og þrátt fyrir það hve ólík við getum virst hið ytra, þá er svo miklu meira hið innra sem sameinar okkur. Það var kannski ekki síst það sem við vildum til dæmis leyfa börnunum okkar að upplifa og kynnast af eigin raun.“
Hvað drífur ykkur áfram í lífinu?
„Hvað skal segja? Forvitni, vera opin fyrir því óþekkta, vera mátulega kærulaus og róleg. Láta lífið svolítið gerast án þess að reyna um of að hafa alltaf stjórn. Á ferðalaginu var aðalplanið það að hafa ekkert plan. Gera bara það sem okkur datt í hug, dag frá degi. Það var líka ótrúlega frelsandi að komast út úr norminu, hætta að búa í húsi, þurfa að stóla hvert á annað í einu og öllu og verða öll fimm ótrúlega góðir vinir. Við fórum af stað með það í huga að við erum saman í liði. Það er mikilvægt að vera sátt en líka sammála um að við þurfum ekki alltaf að vera sammála. Margir skilja ekki hvernig er til dæmis hægt að kúldrast fimm saman í húsbíl í svona langan tíma og án þess að þetta hafi verið stöðugur dans á rósum, systkini eru jú alltaf systkini og allt það, þá hefur þetta gengið alveg ótrúlega vel fyrir sig.“
Hvernig er lífið öðruvísi þarna en heima á Íslandi?
„Fyrir utan það þá að hér hreyfir nánast aldrei vind og rigningin er lóðrétt? Það er alveg einstakt að búa á stað eins og sveitaþorpinu Recica ob Savinji í Slóveníu. Hér er maður 5 mínútur upp í fjöll, klukkutíma frá höfuðborginni, hálftíma í næsta land en samt er eitt allra allra best. Hér er eiginlega alltaf logn. Að skreppa í hjólatúr eða setjast út á verönd án þess að vera með vindinn í fangið eru frábær lífsgæði. Hér er lífið líka öðruvísi, meira „gamaldags“. Fjölskyldur búa saman, amman, afinn, börn og barnabörn. Húsin eru mjög stór og byggð með það í huga að allir geti búið saman. Þannig hefur það lengi verið. Fólk ræktar mjög mikið sjálft ávexti, grænmeti og er með skepnur. Við urðum auðvitað að vera með í því og erum með þrjár hænur, Gógó, Hrímgerði og Harald (jú, hán er hæna). Þær gefa okkur nóg af eggjum og krakkarnir elska að vera með dýr í garðinum.“
Er eitthvað sem þið saknið að heiman?
„Í sjálfu sér er það ekki mikið, allavega ekki veðursins. En auðvitað söknum við fjölskyldu og vina.“
Á þessu ársferðalagi um Evrópu hefur fjölskyldan upplifað margt skemmtilegt.
„Við vorum á Spáni um jól. Þeir fagna með mikilli skrúðgöngu eða karnivali 6. janúar. Þá er börnum gefið sælgæti þar sem þau standa hjá og horfa á skrúðgönguna. En það sem krökkunum fannst merkilegast að sjá var hvernig fullorðna fólkið gjörsamlega tapaði sér yfir örfáum sælgætismolum. Það jafnvel sló hvað til annars til að ná í einn lítinn mola til viðbótar, hirti mola upp af götunni upp úr drullupollum og hrifsaði þá jafnvel af börnunum. Þetta var hegðun sem þau skilja ekki að fullorðið fólk láti sjá til sín.
Í Portúgal skipa kirkjuklukkur stóran sess og það gat verið þreytandi að hlusta á sama lagið í þeim á klukkustundarfresti í öllum þorpum, bæjum og borgum sem við fórum til.
Í Slóveníu vorum við ekki búin að vera í marga daga þegar fyrsta ævintýrið bankaði upp á. Við elskum að svamla í öllum ám sem við getum en á heitum sumardegi þennan dag vorum við að synda í ánni Soèa þegar Rán fann eitthvað öðruvísi á botninum. Þegar betur var að gáð reyndist þetta vera forláta ítölsk handsprengja úr fyrri heimsstyrjöld. Við settum hana strax aftur í vatnið og gerðum lögreglu viðvart. Eftir drjúga bið mætti svo sérfræðingurinn á svæðið og tók við rannsókn málsins. Við kvöddum hann en fylgdumst vel með úr fjarska. Hann gaumgæfði gripinn í stutta stund áður en hann stakk sprengjunni í buxnavasann og kveikti sér í sígarettu, væntanlega til að verðlauna sig fyrir vel unnin störf þann daginn. Frekar kómískt á að líta og mátulega kæruleysislegt fyrir okkar smekk,“ segir Hjördís.
Fjölskyldan fór til Marokkó í nokkra daga og skildi bílinn eða heimilið sitt eftir á Spáni.
„Ferðalagið til Marokkó var engu líkt. Menningin allt önnur og ómurinn í hátölurunum sérstakur. Það að sitja á skítugum veitingastað og allt í einu kemur hver starfsmaðurinn á fætur öðrum með mottuna sína og leggst á bæn, bara þarna á miðju gólfinu. Sérstakt. En það var samt eitt sem gerir ferðina enn eftirminnilegri. Þegar við vorum komin til baka uppgötvuðum við að bíllykillinn gleymdist í öryggishólfi hótelsins. Þrátt fyrir mikinn velvilja Afríkumegin töldu staðkunnugir agentar Spánarmegin mjög áhættusamt að láta hinum fyrrnefndu það verk í hendur að senda lyklana yfir með næstu ferju og úr varð að Þórarinn skrapp aftur til Afríku að sækja lykilinn. Þar varð hins vegar uppi fótur og fit þegar vaskir landamæraverðir ráku augun í að í vegabréfinu voru þá þegar stimplar frá téðum degi. Þurfti að kalla til yfirmann og því næst yfirmann hans, þeir skömmuðu hvor annan, landamæravörðinn og auðvitað heimska ferðalanginn, fyrir eitthvað sem bara sumir vissu hvað var, aldrei þó téður ferðalangur. Honum tókst þó að halda andlitinu þó hann væri við það að springa úr hlátri yfir þessum fyrirgangi og fyrir rest var honum heimil förin til baka,“ segir hún.
Er eitthvað sem stendur upp úr?
„Skemmtilegast hefur okkur þótt að kynnast heimamönnum og þar með landi, þjóð og menningu á annan hátt en almennt gerist við hefðbundin sumarfrí. Við fórum til dæmis nokkrum sinnum á bóndabæi í sjálfboðavinnu og þótti okkur það mjög gaman. Þar fengum við ýmist hýsingu, næringu eða rafmagn fyrir vinnuframlag okkar. Gengum við auðvitað vasklega fram enda alin upp við það að engir séu jafn duglegir til vinnu og Íslendingar, en sáum auðvitað fljótt að það er reginfirra líkt og allar „best á Íslandi“ mýturnar. Evrópskar sveitir eru að sjálfsögðu smekkfullar af harðduglegu fólki sem margt er alið upp við hörkuvinnu sex daga vikunnar allt frá blautu barnsbeini.“
Hafið þið einhvern tímann orðið hrædd?
„Nei, en til að byrja með vorum við auðvitað oft óörugg, sér í lagi þegar við hættum að nota alltaf tjaldstæði til næturveru og fórum að leggja bílnum hvar sem okkur datt í hug, í stórborgum, sveitaþorpum, djúpt í dimmum skógi eða lengst uppi á fjöllum. Þetta gerðum við samt allt vísvitandi til að fara út fyrir þægindarammann og þar með stækka hann. Óttinn við hið óþekkta er ríkur í okkur en ef við látum alltaf undan honum þá þroskast hann aldrei af okkur, versnar jafnvel þegar fram í sækir. Auðvitað þarf maður að hafa vit á að passa sig hæfilega mikið og gera ekki hvað sem er, en óttinn má samt ekki verða ráðandi afl í lífinu. Þá er ekki mjög bjart framundan.“