„Okkur langaði ekki heim“

Heimsreisa | 31. mars 2020

„Okkur langaði ekki heim“

Vinkonurnar Birta Birgisdóttir og Tanya Rós Jósefsdóttir lentu í Keflavík rétt fyrir helgi. Þegar þær flugu frá Íslandi fyrir mánuði sáu þær fram á nokkurra mánaða dvöl erlendis. Allt breyttist hins vegar skyndilega vegna kórónuveirufaraldursins og var ekkert annað í stöðunni en að kaupa rándýrt flug heim. 

„Okkur langaði ekki heim“

Heimsreisa | 31. mars 2020

Vinkonurnar Birta og Tanya ferðuðust í fjórar vikur.
Vinkonurnar Birta og Tanya ferðuðust í fjórar vikur. Ljósmynd/Aðsend

Vinkonurnar Birta Birgisdóttir og Tanya Rós Jósefsdóttir lentu í Keflavík rétt fyrir helgi. Þegar þær flugu frá Íslandi fyrir mánuði sáu þær fram á nokkurra mánaða dvöl erlendis. Allt breyttist hins vegar skyndilega vegna kórónuveirufaraldursins og var ekkert annað í stöðunni en að kaupa rándýrt flug heim. 

Vinkonurnar Birta Birgisdóttir og Tanya Rós Jósefsdóttir lentu í Keflavík rétt fyrir helgi. Þegar þær flugu frá Íslandi fyrir mánuði sáu þær fram á nokkurra mánaða dvöl erlendis. Allt breyttist hins vegar skyndilega vegna kórónuveirufaraldursins og var ekkert annað í stöðunni en að kaupa rándýrt flug heim. 

„Okkur langaði ekki heim. Þetta var rosalega erfið ákvörðun. Við spjölluðum um þetta í einhverja daga en það var ekki fyrr en við hittum íslenska vinkonu okkar úti í Bangkok að við fengum svokallað „reality check“. Við áttuðum okkur á því að það var ekkert annað í stöðunni þrátt fyrir að við værum virkilega þrjóskar og ætluðum okkur halda okkar striki. Við vorum orðnar hræddar um að festast inni á hostelherbergi í Taílandi, jafnvel veikar og einar,“ segir Birta um ákvörðunina að koma heim. 

Tanya og Birta sáu fyrir sér töluvert lengra ferðalag á …
Tanya og Birta sáu fyrir sér töluvert lengra ferðalag á leiðinni út. Ljósmynd/Aðsend

Birta segir að ferðalagið heim hefði mátt ganga betur. 

„Við vorum heppnar að engu flugi var aflýst en þetta var samt sem áður mjög mikið bras. Við vorum fastar í meira en sólarhring á flugvelli og þurftum að sofa þar. Við höfðum takmarkað svæði á flugvellinum en þar var ein búð sem hafði takmarkað upp á að bjóða. 

Nánast allt flug sem boðið var upp á var rándýrt. Við þurftum eiginlega bara að segja „fokkit“ og kaupa þessar rándýru flugferðir þar sem við hefðum annars verið fastar í margar vikur á flugvellinum.“

Vinkonurnar nutu þess að skoða Dubai, Japan og Taíland.
Vinkonurnar nutu þess að skoða Dubai, Japan og Taíland. Ljósmynd/Aðsend

Birta og Tanya voru búnar að skipuleggja allt ferðalagið en náðu þó aðeins að ferðast í fjórar vikur. 

„Við vorum með allt ferðalagið planað fyrirfram. Við vorum búnar að borga allt flug og panta næstum allar gistingar. Planið var að byrja í Dubai og skoða svo Asíu, þar á meðal Japan, allt Taíland, Malasíu, Balí, Indland og fleira. Þar á eftir áttum við flug til Afríku en þar ætluðum við að eyða tíma í Kenía í dýrabjörgunarstarfi, Tansaníu og Suður-Afríku. Frá Afríku áttum við svo flug til Katar og þaðan til Ameríku.

Á okkar fjórum vikum náðum við að skoða Dubai, Japan og Taíland en á meðan við vorum í Bangkok fóru málin versnandi með hverjum deginum.“

Vinkonurnar Tanya og Birta.
Vinkonurnar Tanya og Birta. Ljósmynd/Aðsend

Í fyrstu stefndu þær Birta og Tanya á að halda áfram að ferðast. Þær höfðu undirbúið sig fyrir að eitthvað myndi koma upp á í langþráðri heimsreisu sinni en ekkert í líkingu við það sem gerðist. 

„Við vorum ekki hræddar við veiruna. Okkur datt ekki í hug að þetta yrði svona alvarlegt. Þessi ferð átti bara að vera ævintýri og við vorum alveg búnar undir að eitthvað kæmi upp á. Okkur datt í hug að flugferðum yrði aflýst eða hostelin sem við vorum búnar að panta yrðu skelfileg en okkur datt aldrei í hug að eitthvað svona alvarlegt myndi gerast, hvað þá akkúrat þegar við vorum á leið í heimsreisuna okkar. Ferðalagið sem við höfum unnið okkur inn fyrir og planað í tvö ár.

Útbreiðsla veirunnar skemmdi auðvitað ferðalagið í heild sinni en samt sem áður vorum við heppnar að fá að skoða þrjá áfangastaði. Við áttum æðislegar stundir saman þessar fjórar vikur og við kynntumst svo rosalega mörgum. Við náðum að sjá allt sem okkur langaði í Dubai en þegar komið var til Japans þá var byrjað að loka musterum og söfnum. Það var meira að segja byrjað að snjóa í Tókýó en við svekktum okkur ekki heldur höfðum það bara mjög skemmtilegt uppi á hosteli með nýja fólkinu okkar sem var hvaðanæva úr heiminum.“

Birta Birgisdóttir er komin heim til Íslands.
Birta Birgisdóttir er komin heim til Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Birta segir þær vinkonur vera jákvæðar þrátt fyrir að draumurinn um ævintýri á fjarlægum slóðum bíði betri tíma að sinni. 

„Nú erum við komnar heim til Íslands. Við erum í sóttkví og höfum það bara frekar notalegt hérna saman. Mamma keypti inn mat fyrir okkur og gaf okkur púsl, litabækur og perlur til að stytta okkur stundir. Á þessum tveimur vikum ætlum við einnig að vinna í því að fá sem allra mest endurgreitt þar sem við ætlum klárlega út aftur eins fljótt og auðið er. Við erum hvorugar búnar að missa vinnuna þannig við getum jafnvel unnið okkur enn meira inn fyrir næstu ferð.

Við erum óvenjujákvæðar og hressar yfir þessu öllu saman, þó að ég segi sjálf frá. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að við erum alls ekki einar í þessari stöðu.  Það eina sem við misstum vegna veirunnar var eitt tækifæri til að skoða heiminn en það var bara eitt tækifæri af svo mörgum öðrum. Við erum 19 ára og eigum framtíðina fyrir okkur. Við getum gert allt sem við viljum, skoðað allt sem við viljum. Þetta gæti verið svo miklu verra. Við erum þakklátar fyrir að hafa fengið að skoða heiminn og upplifa þetta ævintýri. Nú erum við komnar heim, öruggar í „faðmi“ fjölskyldu og vina.“

mbl.is