Réttur barna til menntunar og markmið menntunar

Barnaheill | 31. mars 2020

Réttur barna til menntunar og markmið menntunar

„Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinaranar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is,“ segir í nýjasta pistli frá Barnaheillum:

Réttur barna til menntunar og markmið menntunar

Barnaheill | 31. mars 2020

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinaranar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is,“ segir í nýjasta pistli frá Barnaheillum:

„Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinaranar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is,“ segir í nýjasta pistli frá Barnaheillum:

Greinarskrifin eru liður í fræðslu um Barnasáttmálann, en til að tryggja megi að börn njóti mannréttinda sinna til fulls er mikilvægt að sem allra flestir þekki réttindi þeirra og lifi samkvæmt bestu getu eftir reglum Barnasáttmálans.

Í þessari grein er fjallað um rétt barna til menntunar og um markmið menntunar eins og þau birtast í Barnasáttmálanum.

Í 28. gr. sáttmálans er réttur barna til menntunar útlistaður. Samkvæmt henni eiga öll börn rétt til menntunar og skulu aðildarríkin tryggja öllum börnum sömu tækifæri til menntunar með aðgerðum sem hér verða nefndar. Í 28. gr. er aðallega fjallað um aðgengi að menntun og því sem lýtur að utanumhaldi menntunar.

Í 29. gr. sáttmálans eru hins vegar markmið og væntingar aðildarríkja Barnasáttmálans til menntunar rakin. Það er að segja innihalds menntunar og hverju hún skal ná fram eða stuðla að. Markmiðin styðja öll við, vernda og hvetja til ástundunar og virðingar gagnvart grunngildum sáttmálans; að hvert og eitt barn eigi að njóta jafnra og óafsalalegra réttinda sinna og meðfæddrar mannlegrar reisnar. Markmiðin byggja öll á að sérhvert barn fái tækifæri til að rækta persónu sína á heildstæðan og besta mögulega hátt, í raun þannig að hvert barn geti öðlast færni og tækifæri til að blómstra og leyfa draumum sínum að rætast.

Aðgerðir þær sem ríki þurfa að uppfylla til að menntun verði aðgengileg öllum börnum eru þessar, taldar upp í 28. gr.:

  • Ríki skulu koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis. Mikilvægt er í þessu sambandi að taka sérstaklega fram að til þess að grunnmenntun sé raunverulega ókeypis og aðgengileg öllum í raun, þarf ekki einungis að tryggja að menntunin sjálf, þ.e. kennslan og aðgengi að aðstöðu sé gjaldfrjáls, heldur þarf líka að tryggja öllum börnum nauðsynleg námsgögn gjaldfrjálst. Barnaréttarnefndin hefur gefið það út að það þjóni bestu hagsmunum barnsins að það hafi aðgang að endurgjaldslausri menntun, formlegri eða óformlegri. Við mat á því sem er barninu fyrir bestu þarf því alltaf að virða rétt barns til menntunar.
  • Ríki skulu stuðla að þróun ýmiss konar og fjölbreyttrar framhaldsmenntunar sem öllum börnum verði gert kleift að njóta, svo sem með því að bjóða ókeypis framhaldsmenntun og fjárhagsstuðning til þeirra sem þurfa á að halda. Jafnframt skulu ríki veita öllum tækifæri til háskólamenntunar eða annarrar æðri menntunar, eftir hæfileikum hvers einstaklings og með hverjum þeim ráðum sem við eiga. Það er vert að veita orðalagi þessu athygli, að börnum skuli veitt þessi tækifæri með hverjum þeim ráðum sem við eiga. Það má skilja þannig að ríki skuli gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja jafnan aðgang allra barna og ungmenna að slíkri menntun án mismununar. Það þarf samkvæmt þessu að skoða allar leiðir, jafnvel óhefðbundnar leiðir, til að uppfylla þessa skyldu ríkis til að veita börnum og ungmennum jafnan aðgang að námi, við þeirra hæfi og eftir þeirra áhugasviði, vilja og hæfileikum, á öllum skólastigum.
  • Mikilvægt er að öll börn hafi aðgang að upplýsingum og ráðgjöf um úrval náms og möguleika til náms og starfa sem þeim bjóðast. Því þurfa ríki að tryggja að upplýsingum þar um sé haldið til haga og sé dreift á markvissan og skilvirkan hátt. Einnig þurfa börn að hafa aðgang að þjónustu til að lesa úr og skilja það sem í boði er, svo sem í gegnum námsráðgjöf og á tungumáli sem þau skilja.
  • Ríki skulu gera ráðstafanir til að koma á reglulegri skólasókn og vinna gegn brotthvarfi frá námi. Á Íslandi er mikilvægt að gera úrbætur hvað þetta varðar, því hér á landi er brotthvarf úr framhaldsskólum með því mesta sem gerist í Evrópu. Margt bendir til að brotthvarf einstaklinga úr framhaldsskóla, eigi í raun uppruna sinn í vanda sem rís mun fyrr en þegar í framhaldsskóla er komið. Börn sem einhverra hluta vegna ekki fá viðunandi þjónustu eða stuðning í leik- og grunnskóla, eru líklegri til að hverfa frá framhaldsskólanámi en önnur börn. Því er mikilvægt að tryggja samfelldan stuðning og eftirfylgni fyrir sérhvert barn eftir þörfum hvers og eins.
  • Ríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að námsaga sé haldið uppi í samræmi við gildi sáttmálans og sem samrýmist mannlegri reisn hvers barns. Mikilvægt er að hafa í huga heildarsamhengi Barnasáttmálans við lestur þessa ákvæðis, sérstaklega um vernd barna gegn ofbeldi og vanvirðandi meðferð, sem og reglunni um að hverja ákvörðun sem varðar barn skal taka með það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi.
  • Að endingu ber ríkjum að taka þátt í alþjóðasamvinnu og þróunarstörfum um menntamál.

Til að viðhalda gæðum og þróun menntunar barna þurfa stjórnvöld að sjá til þess að kennarar og annað fagfólk sem vinnur að menntun barna, fái góða þjálfun og símenntun. Jafnframt þarf skólaumhverfið að vera barnvænt og beita þarf viðeigandi kennsluaðferðum, með jákvæðri, hvetjandi og styrkjandi nálgun.

Í 29. gr. Barnasáttmálans má segja að draumsýn aðildarríkjanna birtist. Orðalag hennar er gríðarlega þýðingarmikið og undirstrikar framsækna og heildræna hugsun sáttmálans. Það er auðséð við lestur greinarinnar að menntun sé, að mati aðildarríkjanna, mikilvægt að nýta til að innræta sjónarmið friðar og jöfnuðar með hverju og einu barni og að það verði gert með því að þau fái sjálf tækifæri til að rækta persónuleika sína, hæfileika og andlega og líkamlega getu.

Hér fær 1. mgr., 29. gr. Barnasáttmálans að birtast óbreytt:

Aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli beinast að því að:

Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess.

Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða.

Móta með því virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs.

Undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa og fólks af frumbyggjaættum.

Að móta með því virðingu fyrir náttúrulegu umhverfi mannsins.

Barnaréttarnefndin leggur áherslu á að menntun sé ekki einungis fjárfesting til framtíðar heldur hafi menntun einnig félagslegt gildi þar sem börn læra t.d. mannleg samskipti, virðingu gagnvart öðrum og þátttöku í samfélaginu.

Því má halda fram að í 29. gr. felist aðferðarfræði til að leysa öll verkefni samtímans; að mennta börn þannig að skilningur ríki á milli allra og að fordómum verði eytt, að þau beri virðingu fyrir öllu fólki og þar með rétti allra til jafnra tækifæra, og síðast en ekki síst að þau beri virðingu fyrir náttúrulegu umhverfi mannsins og þar með geri allt sem þau frekast geta til að viðhalda lífi á jörðinni.

Það er fallegt og afar áhugavert að áhersla Barnasáttmálans er öll á að mennta börn til samræmis við sáttmála Sameinuðu þjóðanna, í anda friðar og virðingar gagnvart mannréttindum allra. Öll réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum skulu svo túlkuð heildrænt, þannig að börnum sé ekki mismunað, að þau njóti þess að lifa og þroskast á besta mögulega hátt, að virðing sé borin fyrir skoðunum þeirra og þeim séu gefin tækifæri til að tjá skoðanir sínar, og að síðustu, að allar ákvarðanir og framkvæmdir séu í samræmi við það sem þeim eru fyrir bestu. Uppfylli ríki öll framangreind ákvæði um rétt barna til menntunar stuðla þau að því að börn verði ábyrgir þátttakendur í samfélaginu, sem geti sigrast á eigin takmörkunum, hverjar svo sem þær kunna að vera. Slíkt er barni fyrir bestu.

Nú á tímum Covid 19 faraldursins og allra þeirra áskorana sem honum fylgja, er mikilvægt að árétta rétt allra barna til menntunar og jafnræðis til náms. Því er fagnaðarefni að stjórnvöld virðast gera allt sem í þeirra valdi stendur til að viðhalda skólastarfi og hvetja foreldra til að halda áfram að senda frísk börn sín í skólann. Þau börn sem af einhverjum ástæðum geta ekki sótt skólann eiga rétt á stuðningi til að geta stundað sitt nám við bestu mögulegu aðstæður og í samræmi við það sem þeim er fyrir bestu.

mbl.is