Elsku Vogin mín,
Elsku Vogin mín,
í öllu álagi er styrkur þinn fólginn því að álagið fær þig til að taka ákvörðun. Þetta leiðir þig áfram og þegar það gerist sleppir þú tökunum. Það færir þér frelsi og þú endurraðar upp lífspúslinu á ótrúlegum hraða því þú ert svo fljót að hugsa þegar þú þarft á því að halda.
Tíminn vinnur með þér akkúrat núna, þó ýmsar ákvarðanir geti verið erfiðar eða særandi fyrir aðra. Þær munu samt á endanum koma öllum vel. Að sjálfsögðu finnurðu fyrir því þú sért þreytt, en þú verður bara þreytt ef það er ekki nóg að gera. En þú átt eftir að vera á tánum og sjá miklu lengra en hinir sem gleymdu að teygja sig upp.
Þú gætir stofnað fyrirtæki eða eflt upp það sem þú ert að gera á annan máta; hugmyndirnar flæða til þín eins og eldingar. Þú skalt læra það að þegar þú færð góða hugmynd skaltu framkvæma eitthvað strax, helst innan fimm mínútna, annars dofnar hún niður og verður að engu.
Ég dró eitt spil fyrir þig úr fallega spáspilabunkanum mínum og því fylgir talan sex. Þessi tala táknar fjölskyldu, ást og stöðugleika og á því spili er mynd af auga. Þetta þýðir að þú fáir meira en augað sér eða meira en þú býst við. Í þessari útkomu kemur meira jafnvægi, traust og góðar tengingar við Alheiminn.
Þú verður lánsöm í ástinni því þú sérð hvað virkar, svo ef þú ert á lausu skaltu ekki láta útlitið blekkja þig. Sjáðu heldur stóra pakkann, það mun veita þér blessun. En vertu staðföst á því sem þú vilt og segðu það skýrt við þann sem á að heyra það. Erfiðleikarnir þínir eru englar í dulargervi og allt endar með friði.
Kossar og knús,
Sigga Kling