Elsku Ljónið mitt,
Elsku Ljónið mitt,
þú ert svo mikil ævintýramanneskja og miðpunktur tilverunnar. Einn daginn finnst þér allt vera 1000% jákvætt en daginn eftir gæti verið 2000% í mínus.
Þú ert eins og sjórinn, maður verður svo heillaður að horfa á hann, alveg sama hvernig hann lætur. Þú hefur hafsjó af fylgjendum, hvort sem þú ert á samfélagsmiðlum eður ei. Þó þér finnist það sé stríðsástand í kringum þig þá muntu bara eins og sannur herforingi taka þær aðstæður og virka þér í vil. Þú færð góðar hugnymdir og verður fljótur að redda þér, hvort það er tengt vinnu, staðsetningu á heimili eða öðru sem þú hefur sérstakan áhuga á.
Breytinga er þörf, þú veist það og ef þú hefur ekki hug til að breyta þá verður fólk sent til þín. Eða þú lendir í atburðum sem opna hringrásina þína og útkoman er hamingjan. Ég hef áður sagt að þetta sé Ljóna sumarið svo þú þarft að taka þátt í bardaganum því það er enginn sigur ef ekkert er gert.
Ég ætla að draga eitt spil til mín úr töfrabunkanum mínum og þar er mynd af manneskju sem er búin að loka hurðinni á bakvið sig. Hún er með tákn lífslykilsins um hálsinn á sér og horfir á Alheiminn.
Þetta spil segir að þú verðir ofurnæmur gagnvart öllu sem þú þarft að takast á við svo hlustaðu vel á þína innri rödd. Skoðaðu draumana og það er enginn leið að muna það sem mann dreymir almennilega nema að vakna hægt og rólega og fara yfir drauminn. Það eru líka til vökudraumar, en þá allt í einu sérðu fyrir þér eitthvað sem þú varst alls ekki að hugsa um, en þú þarft að taka til þín að það eru skilaboð frá veröldinni til sálar þinnar.
Ástin er þér hliðholl, þú þarft að gefa henni tíma og þolinmæði og hugsa um þann sem þú elskar eins og þú værir að hugsa um sjálfan þig og þetta tengist líka fjölskyldu og vinum því ástin sigrar allt.
Knús og kossar, Sigga Kling
Frægir í Ljónsmerkinu:
Cara Delevingne, fyrirsæta, 12. ágúst
Ágústa Eva Erlendsdóttir, leik- og söngkona, 28. júlí
Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona, 12. ágúst
Birgitta Haukdal, söngkona, 28. júlí
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, 4. ágúst
Ásdís Rán Gunnarsdóttir, athafnakona og fyrirsæta, 12. ágúst
Geir Ólafsson, söngvari, 14. ágúst
Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, 5. ágúst