Sögulegt samkomulag í Brussel

Evrópusambandið | 21. júlí 2020

Sögulegt samkomulag í Brussel

Leiðtogar Evrópusambandsríkja komust nú undir morgun að sögulegu samkomulagi um tilhögun 750 milljarða evra björgunarsjóðs sambandsins sem ætlað er að koma efnahagslífinu í gang eftir kórónukreppuna. 

Sögulegt samkomulag í Brussel

Evrópusambandið | 21. júlí 2020

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, Ursula von …
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, og Emmanuel Macron Frakklandsforseti nú undir morgun. AFP

Leiðtogar Evrópusambandsríkja komust nú undir morgun að sögulegu samkomulagi um tilhögun 750 milljarða evra björgunarsjóðs sambandsins sem ætlað er að koma efnahagslífinu í gang eftir kórónukreppuna. 

Leiðtogar Evrópusambandsríkja komust nú undir morgun að sögulegu samkomulagi um tilhögun 750 milljarða evra björgunarsjóðs sambandsins sem ætlað er að koma efnahagslífinu í gang eftir kórónukreppuna. 

Björgunarsjóðurinn verður tvískiptur: 360 milljarðar evra verða veittar ríkjum að láni en 390 milljarðar í styrki. Um er að ræða umtalverða málamiðlun frá upphaflegum tillögum framkvæmdastjórnarinnar, sem gerðu ráð jafnstórum björgunarpakka, en þar af 500 milljarðar í styrki og 250 milljarðar að láni.

Fénu verður úthlutað til allra aðildarríkja, en styrkjunum verður þó helst varið til þeirra ríkja sem verst hafa farið út úr kórónuveirufaraldrinum. Framkvæmdin er söguleg fyrir þær sakir að aldrei áður hafa Evrópusambandsríki sammælst um útgáfu sameiginlegra skuldabréfa að þessari stærðargráðu.

„Þetta er söguleg breyting fyrir Evrópu,“ sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti við blaðamenn að fundi loknum. Segja má að samkomulagið sé sigur fyrir Macron sem hefur, frá því hann komst til valda árið 2017, einsett sér að styrkja Evrópusambandið og auka veg þess.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, lagar grímuna.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, lagar grímuna. AFP

Eintómar málamiðlanir

Stífar viðræður hafa farið fram síðustu fimm daga um hvort tveggja: sjö ára fjárhagsáætlun sambandsins og björgunarsjóðinn. Hópur fjögurra ríkja, Svíþjóðar, Danmerkur, Austurríkis og Hollands, sem hefur gengið undir viðurnefninu „hin fjögur sparsömu“ (e. frugal four) höfðu lagst gegn því að svo stór hluti fjárins yrði veittur í styrki og hafði Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sem fór fyrir hópnum sett 375 ma. sem hámark, en önnur aðildarríki á borð við Spán og Ítalíu ekki viljað fara neðar en 400 ma.

Svo tilfinningaþrungnar voru viðræðurnar að Emmanuel Macron Frakklandsforseti er sagður hafa barið í borðið á einum tímapunkti og hótað að slíta viðræðunum vegna þvermóðsku „hinna sparsömu“. 

Þrír hinna sparsömu: Löfven frá Svíþjóð, Kurtz frá Austurríki og …
Þrír hinna sparsömu: Löfven frá Svíþjóð, Kurtz frá Austurríki og Mette Frederiksen frá Danmörku ráða ráðum sínum. AFP

Sérhvert aðildarríki hefur neitunarvald gagnvart fjárútlátum til sambandsins og því kallaði samkomulagið á umtalsverðar málamiðlanir. Til að koma til móts við ríkin var samið um mikilvægar kvaðir á ráðstöfun peninganna. 

Framkvæmdastjórn sambandsins mun hafa yfirumsjón með úthlutun styrkjanna og fylgjast með að ráðstöfun þeirra sé í samræmi við markmið samkomulagsins um að endurræsa hagkerfi sambandsins. Þá verður gert að skilyrði fyrir úthlutun að ríki hafi undirgengist markmið Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi árið 2050. Aukinn meirihluti Evrópusambandsríkja mun einnig geta stöðvað styrkveitingar til einstakra ríkja ef þær þykja ekki í samræmi við skilyrðin.

 Sem fyrr segir var einnig samið um sjö ára fjárhagsáætlun sambandsins, þeirrar fyrstu eftir að Bretar gengu úr sambandinu. Útjöld sambandsins á árunum sjö nema 1.074 milljörðum evra og er um töluverðan samdrátt frá fyrri áætlun. Til að koma til móts við „hin sparsömu ríki“ þurfti að skera niður á ýmsum sviðum. Má segja að stærsti taparinn sé loftslagssjóður sambandsins (Just Transition Fund) sem fær 10 milljarða evra til úthlutunar, en ekki 40 milljarða líkt og áætlanir framkvæmdastjórnarinnar gerðu ráð fyrir. Þykir það til marks um það hve neðarlega málefni umhverfisins voru á endanum í forgangsröðun aðildarríkjanna. Þá er rannsóknarverkefnið Horizon Europe meðal þeirra verkefna sem bíður niðurskurður.

mbl.is