Sú áskorun sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir í dag er annars eðlis en í fjármálakreppunni fyrir röskum áratug.
Sú áskorun sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir í dag er annars eðlis en í fjármálakreppunni fyrir röskum áratug.
Sú áskorun sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir í dag er annars eðlis en í fjármálakreppunni fyrir röskum áratug.
Aukin tæknivæðing og styrking félagsins í veiðum og vinnslu á bolfiski hefur hjálpað Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði að takast á við áskoranir undanfarinna missera. Tæknin hefur gert starfsemina skilvirkari og bolfiskurinn rennt fleiri stoðum undir reksturinn og gert hann sveigjanlegri.
Þetta segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. „Með tæknivæðingu síðustu þriggja ára höfum við náð að auka afkastagetu bolfiskvinnslunnar um 100% með óbreyttum fjölda starfsmanna og samhliða því styrkt okkur í þorskkvóta. Makríllinn heldur þó áfram að vera mikilvægur fyrir okkur, sem og kolmunni og loðna,“ útskýrir hann.
Síðasta almanaksár var það besta í sögu félagsins og nam LVF þá um tveimur milljörðum króna. „Það ár gekk hér um bil allt upp. Brestur varð í loðnuveiðum en við áttum birgðir af loðnuhrognum frá árinu á undan og vorum þeir einu í heiminum sem gátu þjónað markaðinum. Aldrei hefur fallið úr dagur hjá okkur því bolfiskurinn hefur fyllt upp í skarðið þegar uppsjávartegundirnar skortir,“ segir Friðrik og undirstrikar að það virðist ekki annað ganga í dag en að bæði nýta möguleika tækninnar eins og frekast er unnt og hafa starfsemina fjölbreytta svo að sveiflur innan tegunda og breytilegar aðstæður á erlendum mörkuðum séu auðveldari viðfangs.
„Þetta viðhorf stangast á við það sem markaðssérfræðingar vilja stundum halda fram; að fyrirtæki eigi að sérhæfa sig sem mest og ná sem bestum árangri á afmörkuðu sviði, en í sjávarútvegi þurfa fyrirtæki þvert á móti að vera í sem flestu til að geta mætt sveiflunum,“ segir hann. „Niðurskurður og kjarnastarfsemi eru voðalega flott orð og eiga kannski við í rekstri banka, en ekki í okkar grein.“
Loðnuvinnslan rekur í dag fiskimjölsverksmiðju, síldarsöltun, uppsjávarfrystihús og bolfiskfrystihús og gerir út þrjú skip: flottrolls- og nótaveiðiskipið Hoffell SU 80, togarann Ljósafell SU 70 og línubátinn Sandfell SU 75 en að auki á útgerðin tæpan helmingshlut í krókaveiðibátnum Hafrafelli SU 65. Félagið er það eina á Íslandi sem framleiðir saltaða síld. Mælt í magni er kolmunni fyrirferðarmesta tegundin í starfseminni og hefur LVF á undanförnum árum að jafnaði tekið á móti 30 til 50.000 tonnum af kolmunna til bræðslu ár hvert.
Samanlagt hefur LVF fjárfest í nýjum vinnslutækjum fyrir um það bil milljarð króna á undanförnum þremur árum. Eignaðist fyrirtækið m.a. fullkominn sjálfvirkan pökkunarbúnað og tvær vatnsskurðarvélar frá Völku. Í haust bættust síðan við nýjar flæðilínur.
Friðrik segir að með bættri tækni sé ekki aðeins verið að auka afköst heldur einnig auka gæði og nýtingu. Fullkominn vinnslubúnaðurinn myndgreinir hvert flak og sker af nákvæmni til að búa til bita af þeirri stærð og gerð sem kaupandinn óskar eftir þannig að sem minnst fari til spillis. „Markaðurinn er með alls konar óskir um þykkt, lengd, breidd og þyngd fiskbitanna og hægt að fullnægja öllum þessum þörfum á einfaldan hátt með nýju vélunum.“
Segir Friðrik ekki hægt að segja til um hversu fljótt fjárfestingin borgar sig. „En í okkar geira er ekki hægt að lifa af öðruvísi en að nýta sér nýjustu tækni á hverjum tíma.“
Kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn í daglegri starfsemi LVF og þurfti strax í mars að skipta starfsfólki í aðskildar vaktir. „Þetta voru mjög erfiðir tímar fyrir okkur öll, og gott þegar ástandið varð aftur eðlilegt í júní,“ segir Friðrik.
Á sama tíma urðu sviptingar á mörkuðum og nefnir Friðrik að þegar verst lét hafi orðið 90% samdráttur í sölu á ferskum hnökkum og verð lækkað um 15%. Skýrist það af því að víðast hvar þurftu veitingastaðir að skella í lás og stórmarkaðir lokuðu fiskborðum sínum til að lágmarka snertingu við hráefnið og samgang á milli starfsfólks og viðskiptavina. Hjá LVF varð úr að skipta tímabundið yfir í framleiðslu á lausfrystum bitum enda gaf sá markaður mun minna eftir. Varði sú breyting í fjórar vikur og byrjaði þá ferskfiskmarkaðurinn að taka við sér á ný.
Jafnt og þétt eru kaupendur að braggast og segir Friðrik að undanfarið hafi eftirspurn vaxið og leitað aftur í eðlilegt horf. „Á því eru þó ákveðnar undantekningar, eins og t.d. á markaði fyrir bæði sprautusaltaðan fisk og saltfisk. Þar er allt stopp. Sjófrysti fiskurinn var líka lengi að taka við sér en er nú að mestu kominn til baka.“
Sú áskorun sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir í dag er annars eðlis en í fjármálakreppunni fyrir röskum áratug. Hagkerfi helstu viðskiptaþjóða hafa orðið fyrir skakkaföllum og þykir ljóst að efnahagssamdráttur og mikið atvinnuleysi muni ekki ganga að fullu til baka á allra næstu misserum. „Mikið atvinnuleysi þýðir að kaupmáttur neytenda fer minnkandi og til lengri tíma verðum við aldrei sterkari en viðskiptavinir okkar,“ segir Friðrik og minnir á að í fjármálakreppunni hafi krónan gefið meira eftir svo að dæmið horfði allt öðruvísi við íslenskum útflutningsgreinum þá en í dag.
En Friðrik er ekki á þeirri skoðun að stjórnvöld þurfi að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum eða létta byrðum af greininni. „Þjóðarbúið hvílir á þremur meginstoðum: ferðaþjónustunni, álverunum og sjávarútveginum. Í dag eru álframleiðendur í miklum vanda enda álverð lágt, og ferðaþjónustufyrirtækin í ómögulegri stöðu. Aðstæðurnar eru krefjandi fyrir sjávarútveginn en við klárum okkur og ráðum við þessa tímabundnu erfiðleika. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa enda sýnt það margsinnis í gegnum árin að þau eru ótrúlega fljót að laga sig að breyttum aðstæðum.“
Hins vegar væri það ánægjulegt ef tækist að semja við rússnesk stjórnvöld um að aflétta innflutningsbanni á sjávarafurðum sem nú hefur varað í fimm ár. Eins og lesendur muna spruttu upp deilur á milli Evrópu og Rússlands í kjölfar innrásar Rússa inn á Krímskaga og leiddi m.a. til þess að ráðamenn í Kreml lokuðu á innflutning á evrópsku sjávarfangi. Kom ákvörðun Rússa sérstaklega illa við íslenska viðskiptahagsmuni en olli öðrum Evrópuþjóðum hlutfallslega minna tjóni. „Rússar halda áfram að selja Evrópu eldsneyti og Þjóðverjar halda áfram að selja Rússum bifreiðar, en íslensk sjávarútvegsfyrirtæki misstu marga af sínum mikilvægustu viðskiptavinum.“
Viðtalið við Friðrik Mar var fyrst birt í 2300 mílum, sérblaði Morgunblaðsins um sjávarútvegsmál, 29. ágúst.