Mikil reiði er meðal Kúrda í Tyrklandi vegna heimsóknar Róberts Spanó, forseta mannréttindadómstóls Evrópu, til Tyrklands þar sem hann var sæmdur heiðursnafnbót af hálfu Recep Erdogan, forseta Tyrklands. Tyrkneskur Kúrdi sem er fulltrúi við Evrópuráðið fyrir hönd minnihlutaflokks í Tyrklandi kallar eftir afsögn Róberts.
Mikil reiði er meðal Kúrda í Tyrklandi vegna heimsóknar Róberts Spanó, forseta mannréttindadómstóls Evrópu, til Tyrklands þar sem hann var sæmdur heiðursnafnbót af hálfu Recep Erdogan, forseta Tyrklands. Tyrkneskur Kúrdi sem er fulltrúi við Evrópuráðið fyrir hönd minnihlutaflokks í Tyrklandi kallar eftir afsögn Róberts.
Mikil reiði er meðal Kúrda í Tyrklandi vegna heimsóknar Róberts Spanó, forseta mannréttindadómstóls Evrópu, til Tyrklands þar sem hann var sæmdur heiðursnafnbót af hálfu Recep Erdogan, forseta Tyrklands. Tyrkneskur Kúrdi sem er fulltrúi við Evrópuráðið fyrir hönd minnihlutaflokks í Tyrklandi kallar eftir afsögn Róberts.
„Forseti sjálfstæðs dómstóls sem skipaður er til þess að standa vörð um mannréttindi fólks á ekki að þiggja heimsókn manns sem gagnrýndur er af alþjóðasamtökum fyrir tilraunir sínar til þess að gera lýðræðisríki að einræðisríki sínu,“ segir Fayik Yagyzay, fulltrúi tyrkneska lýðræðisflokksins HDP við Evrópuráðið, í samtali við mbl.is.
Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarið bæði hérlendis og erlendis fyrir að þiggja boð Erdogan, forseta Tyrklands, um heimsókn til landsins. Hann var svo sæmdur heiðursnafnbót við ríkisrekinn háskóla þaðan sem 192 fræðimenn voru reknir úr starfi eftir misheppnað valdarán í Tyrklandi árið 2016.
Einhverjir hafa þó tekið sig til og varið ákvörðun Róberts að þiggja boð Erdogan forseta. Þar á meðal Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem sagði í viðtali við RÚV að heimsókn Róbert hefði verið réttlætanleg. Ekki megi mismuna eftir aðildarríkjum dómstólsins og að Róbert hafi nýtt sér þennan vettvang til þess að minna á mikilvægi skoðanafrelsis.
Fayik er á öðru máli og gagnrýnir Róbert fyrir að hafa einungis heimsótt og rætt við Tyrki sem styðji Erdogan forseta. Hann hafi einnig átt að hlusta á þá sem verða fyrir mannréttindabrotum í sínu eigin landi af hálfu tyrkneskra stjórnvalda.
„Það er alveg sama hvort hann hafi nýtt þennan vettvang til þess að minna á mikilvægi skoðanafrelsis eða hvaðeina. Forseti sjálfstæðs dómstóls um mannréttindi hefði átt að sjá sóma sinn í því að þiggja ekki boð Erdogan eða þá að minnsta kosti hlusta einnig á raddir þeirra sem tyrknesk stjórnvöld brjóta á ítrekað.“
Fayik segir að ekkert annað ríki hafi eins mörg mál til skoðunar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og Tyrkland. Blaðamenn, fræðimenn og pólitískir andstæðingar Erdogan forseta hafa verið handteknir svo þúsundum skipti á undanförnum árum.
„Forseti dómstóls á ekki að heimsækja forseta ríkis sem sakað er um mannréttindabrot við þennan sama dómstól. Hornsteinar þessa dómstóls eru lýðræði, réttarríkið og mannréttindi og hann fer og heimsækir mann sem vinnur baki brotnu að því að grafa undan þessum gildum. Róbert Spanó á að segja af sér og ákall um slíkt heyrist frá mun fleira fólki en bara mér og öðrum Kúrdum.“
Fayik, sem er Kúrdi, hefur verið ofsóttur fyrir stjórnmálaþátttöku sína í Tyrklandi og flúði til Frakklands. Flokkur hans, tyrkneski lýðræðisflokkurinn, vinnur náið með stjórnmálaflokki Kúrda í Tyrklandi DBP. Fayik hefur um árabil talað máli Kúrda við hinar ýmsu alþjóðastofnanir í Evrópu og einna helst við Evrópuráðið.
Níu þingmenn úr sama flokki og Fayik hafa verið handtekin og sett í fangelsi af tyrkneskum stjórnvöldum fyrir glæpi sem Fayik segir enga stoð fyrir í raunveruleikanum.
Hann kom hingað til lands í fyrra og hélt erindi á ráðstefnu í Safnahúsinu um stríðsglæpi og mannréttindabrot gegn Kúrdum í Tyrklandi.
Fayik kom á framfæri við blaðamann þessu opna bréfi sem blaðamaður tyrkneska fréttamiðilsins Ahval sendi Róberti Spanó í dag. Miðillinn gefur sig út fyrir að vera frjáls og óháður miðill sem veiti tyrknesku þjóðinni ómengaðar upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda í landinu.