3 þúsund myndu greinast daglega

Kórónuveiran Covid-19 | 15. október 2020

3 þúsund myndu greinast daglega

Allt að 3.000 einstaklingar á Íslandi myndu greinast með Covid-19 daglega seinni hluta nóvembermánaðar ef engar sóttvarnaaðgerðir væru í gangi hér á landi.

3 þúsund myndu greinast daglega

Kórónuveiran Covid-19 | 15. október 2020

Víðir Reynisson, Alma D. Möller og Þórólfur Guðnason.
Víðir Reynisson, Alma D. Möller og Þórólfur Guðnason. Ljósmynd/Lögreglan

Allt að 3.000 einstaklingar á Íslandi myndu greinast með Covid-19 daglega seinni hluta nóvembermánaðar ef engar sóttvarnaaðgerðir væru í gangi hér á landi.

Allt að 3.000 einstaklingar á Íslandi myndu greinast með Covid-19 daglega seinni hluta nóvembermánaðar ef engar sóttvarnaaðgerðir væru í gangi hér á landi.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Ölmu D. Möller landlæknis, Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns í Fréttablaðinu í dag.

Þar rökstyðja þau núverandi aðgerðir og taka fram að heilbrigðiskerfið myndi engan veginn ráða við fjöldann ef veiran fengi að geisa óáreitt á Íslandi. 

660 gætu látist

„Smitstuðull veirunnar er talinn vera 2,5-6. Ef hann er 2,5 þurfa 60% þjóðarinnar að smitast til að ná hjarðónæmi, ef smitstuðull er 6, þá 83%. Ef 60% þjóðarinnar (219.000 manns) sýkjast þá gætu 7.000 einstaklingar þurft innlögn á sjúkrahús, um 1.750 innlögn á gjörgæsludeild og 660 látist, miðað við hlutfallstölur frá fyrstu bylgju.

Ef veiran fengi að ganga nokkuð óáreitt er augljóst að heilbrigðiskerfið myndi engan veginn ráða við fjöldann og að þessar tölur yrðu mun hærri.

Í nýju, finnsku spálíkani er gert ráð fyrir 88 þúsundum smita næstu tvo og hálfan mánuð hérlendis, ef engar sóttvarnaaðgerðir væru í gangi og myndu allt að 3.000 einstaklingar greinast daglega seinni hluta nóvember. Hafa þarf þetta í huga þegar sóttvarnaráðstafanir verða ákveðnar næstu mánuði.

Auk áhrifa á heilbrigðisþjónustu vegna COVID-19 yrði ekki hægt að halda uppi heilbrigðisþjónustu vegna annarra sjúkdóma. Besta leiðin til að geta veitt þá heilbrigðisþjónustu sem landsmenn þurfa er að halda smiti niðri í samfélaginu. Enn fremur myndi leið hjarðónæmis valda miklum usla í samfélaginu almennt; erfitt yrði að tryggja nauðsynlega innviði og þjónustu ef stór hluti landsmanna væri veikur. Þetta sást skýrt í þeim löndum sem urðu harðast úti í byrjun faraldursins,“ segir í grein þríeykisins.

Þau fjalla meðal annars um yfirlýsingu sem kennd er við Great Barrington í greininni en hún hefur verið nokkuð til umræðu.

Minnst 20% Íslendinga í áhættuhópi eða aldraðir

„Þar er gengið út frá því að mjög harðar sóttvarnaaðgerðir, það er útgöngubönn og lokanir skóla, kæmu illa niður á lýðheilsu ef þeim væri viðhaldið þar til bóluefni er fram komið. Þar er því mælt með að farin verði leið hjarðónæmis. Lögð yrði áhersla á að vernda þá eldri og fólk í áhættuhópum eins og kostur væri með því að láta fólk sem þegar er með ónæmi sinna hinum eldri, með tíðum skimunum og lítilli starfsmannaveltu. Eldra fólk fengi heimsendingu af vörum og héldi sig almennt til hlés. Vert er að nefna að líklega eru aldraðir og áhættuhópar minnst fimmtungur Íslendinga, lauslega áætlað.

Í þessari nálgun væri gert ráð fyrir að ungt fólk fengi að lifa eðlilegu lífi. Það gætti einstaklingsbundinna sóttvarna, skólar yrðu opnir og íþróttir leyfðar. Veitingahús og öll þjónusta sem og menningartengdir viðburðir héldu áfram. Óumdeilt þykir að harðar sóttvarnaaðgerðir geta verið skaðlegar og því hefur verið áhersla á að hafa sóttvarnaaðgerðir sem mildastar hérlendis. Þannig var lífið í landinu með næsta eðlilegum hætti áður en þriðja bylgjan hófst og grípa þurfti til hertra aðgerða til þess að fletja kúrfuna vegna álags á heilbrigðiskerfið. Það er vísbending um að leið Great Barrington-hópsins kunni að vera nánast óframkvæmanleg, ef vilji er til þess að halda innviðum heilbrigðiskerfisins starfandi.“

Greinina er hægt að lesa hér í heild

Stjórnsýslufræðingurinn Haukur Arnþórsson fjallaði meðal annars um þetta í aðsendri grein í Morgunblaðinu í síðustu viku.

Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur.
Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þann 4. október sl. gáfu þrír fremstu faraldsfræðingar heimsins, prófessorar við Harvard-, Oxford- og Stanford-háskólana (Kulldorff, Gupta og Bhattacharya) út yfirlýsingu kennda við Great Barrington í Bandaríkjunum. Fjöldi prófessora og faraldsfræðinga hefur undirritað yfirlýsinguna. Þar segir:

Við höfum „...alvarlegar áhyggjur af því líkamlega og andlega tjóni sem ríkjandi COVID-19 stefnumörkun veldur, og mælum með nálgun sem við köllum markvissa vernd... Verði þessum aðgerðum haldið til streitu uns bóluefni er tiltækt valda þær óafturkræfu tjóni, sem einkum bitnar á lægri lögum samfélagsins.“

Markviss vernd felst í grófum dráttum í því að „...ná hjarðónæmi [með] jafnvægi milli áhættu og árangurs. Þannig ætti að leyfa þeim sem eru í minnstri lífshættu að lifa eðlilegu lífi í því skyni að auka ónæmi gagnvart vírusnum – ónæmi sem er náð með náttúrulegu smiti. Á sama tíma á að verja þá sem eru í mestri áhættu.“ Lokaorðin eru:

„Þeim sem ekki eru í áhættuhópi ætti án tafar að heimila að snúa aftur til eðlilegs lífsmynsturs. Einfaldar varúðarráðstafanir, s.s. handþvottur og að dvelja heima í veikindum, þyrftu allir að viðhafa til að lækka hjarðónæmisþröskuldinn. Skólar og háskólar ættu að kenna með staðnámi. Annarri virkni, s.s. íþróttum, ætti að halda áfram. Ungt fólk í lágmarksáættu ætti að vinna áfram með óbreyttu lagi, frekar en frá heimilum sínum. Veitingahús og aðrir í viðskiptum ættu að halda opnu. Listir, tónlist, líkamsrækt og önnur menningarstarfsemi ætti að halda áfram. Fólk í aukinni áhættu má taka þátt að vild, á meðan samfélagið sem heild verndar viðkvæma með skjóli þeirra sem mynda hjarðónæmi.“

Tegnell leiddi Svía nokkurn veginn til hjarðónæmis í þessum anda í vor (komið í maílok), þannig að faraldurinn veldur ekki alvarlegu tjóni þar aftur. Svíar eru eina þjóðin sem er frjáls.

En hér á landi birtist skuggahlið „íslensku leiðarinnar“.

Sérstakar aðstæður

Íslendingar höfðu allt að 40% þjóðartekna sinna af ferðamennsku áður en faraldurinn braust út. Efnahagslega höggið er mikið meira hér en í öðrum Norður-Evrópuríkjum. Faraldurinn þurfti því að ganga strax yfir og hjarðónæmi að fást. Ef sænska leiðin hefði verið farin hefði það nást í maílok og ferðamennskan hafist aftur.

Alvarlegustu áhrif íslensku leiðarinnar eru efnahagsleg og félagsleg. Það stefnir í fjöldagjaldþrot fyrirtækja sem varða ferðaþjónustu, stórfelldan hallarekstur ríkis og sveitarfélaga og samdrátt þjóðartekna um allt að 40%, sem eykur nýgengi fátæktar stórfelldlega og útburð og gjaldþrot hinna atvinnulausu þegar þeir geta ekki greitt af lánum sínum. Gert er ráð fyrir að atvinnulausir verði yfir 20 þús. um áramót, það varðar afkomu 50-60 þús. m anns, barna og fullorðinna.

Seinna í vetur getur örvænting hafa gripið um sig meðal tugþúsunda Íslendinga með tilheyrandi pottaglamri á Austurvelli. Þrengist þá fyrir dyrum stjórnmálanna. 

Brotið á almenningi og fyrirtækjum

Íslenska leiðin hefur byggst á mannréttindabrotum og ólögum. Hér á ég við að ferðafrelsi, samkomufrelsi og tjáningarfrelsi (gagnrýnisraddir á íslensku leiðina hafa verið þaggaðar) hefur verið aflagt og lögreglu- og eftirlitsríki sett á laggirnar.

Lokun landamæranna er mál sem gæti gert ríkið skaðabótaskylt. Hún á sér enga réttlætingu en barði niður þá litlu ferðaþjónustu sem fór af stað í sumar. Minnt skal á að stjórnvaldsaðgerðir þurfa að standast almennar kröfur, svo sem réttmætisreglu og meðalhófsreglu. Ef sýkingar í nágrannaríkjum eru svipaðar og hér breytir það engu um sýkingarhættu hér heima að hleypa ferðamönnum inn í landið (íslenskum eða erlendum) og ef sýkingarhættan er meiri hér en í nágrannaríkjunum, eins og staðan er núna, minnkar sýkingarhættan hér innanlands með opnun landamæra. 

Dýr í tilraunabúri nútímatækninnar

Í faraldrinum hefur varkár stefna yfirvalda í persónuvernd vikið fyrir ofsagræðgi í gögn sem ganga eins nálægt almenningi og mögulegt er. Rakningarappið ogferðaappið (sem er óheiðarlegt að nota í þessum tilgangi) hlera allar myndir, hljóð, staðsetningu og hverjir eru nálægir í símum landsmanna, brotist er inn í færslur kreditkortafyrirtækja til að elta fólk og lífsýni eru tekin í stórum stíl. Lífsýni eru nýjasta og stórfelldasta persónuverndarhættan og hvorki fyrirséð hvernig þau verða notuð eða af hverjum. Allt er þetta gert án upplýsts samþykkis þjóðarinnar. Þetta mál þarf að gera upp, t.d. af eftirlitsnefnd Alþingis, og eyða gögnunum,öppunum og síðast en ekki síst lífsýnunum. Hvað tefur Persónuvernd? 

Guðlegur máttur

Sóttvarnayfirvöld láta sem þau geti ráðið því hvaða afbrigði veirunnar komi til landsins og gert landið veirulaust. Annaðhvort ætla sóttvarnayfirvöld að mynda norðurkóreskt ríki sem er útilokað frá umheiminum – eða þau halda að þau geti sigrað náttúruöflin (veiruna). Þá hafa þau tekið sér stöðu Guðs.

 Hvað ber að gera?

Tækifærið sem Svíar notuðu í vor til að láta faraldurinn ganga yfir – það er liðið hjá. Í ljósi þess að veruleg bið getur orðið á bóluefni hlýtur sú krafa að koma upp að sóttvarnayfirvöld láti faraldurinn ganga yfir, nú þegar hann er kominn aftur: með því skipulega undanhaldi gagnvart honum sem Svíarnir hafa sýnt okkur að er rétta leiðin. Þá ætti hjarðónæmi að vera komið hjá skemmtanaglaðasta, félagslyndasta og yngsta hluta þjóðarinnar í janúar-febrúar 2021 – sem gæti bjargað því sem bjargað verður.

Verði þetta ekki gert munu spár hagfræðinga bankanna um glæsilega endurreisn íslensks efnahagslífs á árinu 2021 verða áramótaskaup. En hagfræðingar Háskólans sem hafa reiknað út hagnaðinn af algerri lokun landsins munu vafalítið hefja kennslu í Norður-Kóreu. 

Lokaorð

Fram undan er erfiður vetur, hvað sem gert verður. Fái faraldurinn að ganga yfir í haust opnast þó von – en ef íslenska leiðin verður áfram ofan á og framkvæmist út árið 2021 skapast hér á næsta ári efnahagslegt, félagslegt og menningarlegt hörmungarástand sem á sér ekki hliðstæðu í sögu síðustu áratuga – eða hjá nágrannaríkjunum. Enginn vill bera ábyrgð á slíku ef til kosninga kemur.

Ég hvet menn til að svara þessari grein ekki með skinhelgi. Það er ekki hægt að berja sér á brjóst sem mannvinur, en drepa síðan þjóð sína í dróma.“

mbl.is