„24.nóvember 2020 var komið að þessu. Það var milliuppgjör hjá Greenfit.
„24.nóvember 2020 var komið að þessu. Það var milliuppgjör hjá Greenfit.
„24.nóvember 2020 var komið að þessu. Það var milliuppgjör hjá Greenfit.
Ég var búin að bíða eftir þessum degi með kvíðablandinni eftirvæntingu. Þetta var ekki ósvipað og stressið fyrir lokaprófið. Þú ert búin að læra vel alla önnina en stundum koma samt spurningar sem þú varst ekki búin að undirbúa. Ég var búin að gera allt rétt og samt var þessi undirliggjandi efi. Hvað ef. Hvað ef allt sem ég hef gert virkar ekki og ég er ennþá með öll innri gildi í tómu tjóni,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli:
Ég viðurkenni að það var stressandi því ef ég kæmi mjög illa út þá væri líklega næsta mál á dagskrá að hringja í heimilislækninn og setja mig á lyf og sætta mig við að þetta væri jú aldurinn og genin sem stjórnuðu ferðinni. Alveg sama hvað ég myndi gera, breyta og bæta það hefði ekkert að segja. Nógu margir voru búnir að nefna þetta við mig og kannski höfðu þeir rétt fyrir sér. Mig grunaði reyndar að það væri einhver bæting. Ég fann það á sjálfri mér. Mér leið miklu betur, ég hafði betra úthald og svaf miklu betur en ég var vön. Ég ákvað samt að lífið væri langhlaup og ég yrði sátt við hversu litlar breytingar sem ég sæi.
Ég byrjaði á því að fara í blóðrannsókn um morguninn. Ég mætti á fastandi maga sem var lítið mál þar sem síðustu 3 mánuði hef ég gert miklar breytingar á mataræðinu og ein breyting sem ég hef orðið vör við er að þessi gífurlega morgunsvengd sem ég fann alltaf fyrir var horfin.
Svo fór ég í efnaskiptapróf hjá Greenfit og kl. 15:00 átti ég svo tíma í álagsprófinu.
Niðurstaðan úr efnaskiptaprófinu:
Í fyrra prófinu voru efnaskiptin mín 63% fita og 37% kolvetni. Í seinna prófinu voru efnaskiptin 90% fita og 10% kolvetni. Þessi skilaboð fylgdu með:
„Ég verð að segja að þetta eru alveg frábær efnaskipti og með því betra sem við sjáum. Þannig virkilega vel gert og klárt mál að þetta sem þú hefur verið að gera undanfarið er að skila sér margfalt. Til hamingju með allan árangurinn.“
Það var ekkert minna en stórkostlegt að lesa þessa kveðju. Í gegnum tíðina hefur ítrekað verið sagt. Það hægir á efnaskiptum þegar fólk eldist og þetta er hluti af lífinu. Þarna er ég 3 mánuðum eldri en í fyrra prófinu og er komin með frábær efnaskipti. Ætli það sé eitthvað fleira sem sé ekki alveg meitlað í stein?
Niðurstaðan úr álagsprófinu:
Þegar ég tók fyrra prófið þá kom ég gífurlega illa út varðandi öndun. Það kom mér svosum ekki á óvart þar sem ég mæddist mjög hratt þegar ég fór í fjallgöngur og það háði mér aðeins. Ég átti von á bætingu þarna þar sem ég fann að síðast þegar ég fór á Úlfarsfellið þá var það miklu léttara en áður og þess vegna var ég mjög spennt að sjá súrefnismælingarnar.
Þær fóru fram úr mínum villtustu draumum.
Fyrra prófið: „your breathing is problematic.“
Seinna prófið: „Your breathing is optimal.“
Á 3 mánuðum fer ég úr problematic í optimal. Ég hlustaði á bækurnar Breath eftir James Nestor og the Oxygen Advantage eftir Patrick McKworn og í báðum bókum eru ákveðnar öndunaræfingar. Næsta verkefni hjá mér er að setja inn öndunaræfingar og bæta öndunina ennþá betur.
Álagspúlsinn minn: Þegar ég hleyp rólegu neföndunarhlaupin mín þá hleyp ég á svokölluðu Zone 2 álagi. Í fyrra prófinu var Zone 2 með álagspúls 99-147. Nýji æfingapúlsinn minn er 159-167. Ég hlakka til að fara að tækla nýjar áskoranir þó að það þýði mögulega tímabundið að ég muni taka styttri hlaup þar sem þau eru erfiðari en það er í góðu lagi. Róm var ekki byggð á einum degi.
Ég fór út að hlaupa í morgun. Ég hljóp 6,82 km á nýja æfingapúlsinum á 48,2 mínútum. Ég skoðaði hlaup á gamla æfingapúlsinum. Þá hljóp ég 6.39 km á 58,11 mínútum. Auðvitað tók nýji púlsinn meira á en þetta er samt zone 2 púls ekki hámarkspúls og mér leið vel eftir hlaupið.
Öndunarprófin mín:
Respiratory fitness fór úr 45% í 69%.
Breathing and mobility fór úr 41% í 80%.
Breathing and cognition fór úr 41% í 80%.
Fat burning effiency fór úr 69% í 90%.
Það voru 2 gildi sem lækkuðu.
Metabolic efficiency fór úr 40% í 20%
Cardio fitness fór úr 100% í 87%.
Fékk þessi skilaboð frá Greenfit
„You did it. Virkilega vel gert!!“
Metabolic efficiency fer niður í 20% en þetta er ekki endilega slæmt, þetta þýðir bara að líkaminn er orðinn sparneytnari á orku þannig þú sparar kaloríurnar meira á efforti. Við sjáum þetta oft samfara betri fitubrennslu.
Öndunin, öndunin, þvílíkar bætingar!! Geggjað að sjá þetta.
Cardio fitness fer niður í 87% úr 100% en þetta er vegna þess að nú er öndunin orðin það góð að hún er ekki eins mikill hamlandi factor lengur og því sjáum við núna tækifæri til að bæta pumpuna aðeins líka, sem er akkurat í takt við það sem við ræddum um í síðasta testi.
Fitubrennsla upp í 90%. Sæll. Vel gert.
Næstu verkefni sem bíða eru því að bæta öndunina ennþá meira og læra að hlaupa á meira álagi með neföndun og bæta úthaldið. Þetta er gífurlega spennandi vegferð og ég hlakka til að sjá smábætingar hér og þar.
Blóðrannsóknin:
Þetta var niðurstaðan sem ég var spenntust fyrir og ástæðan fyrir því að ég lagði upp í þessa vegferð. Við Lukka settumst yfir gildin mín eftir álagsprófið. Niðurstaðan var lækkandi á öllum stöðum þar sem ég var um og yfir hækkumörk.
Kólesteról og blóðsykur: Þegar ég fór í fyrra prófið þá var kólesterólið út úr kortinu í orðsins fylstu merkingu. Ég mældist með 8,0 og kortið náði upp í 7,76. Hæst mældist ég í blóðsykri 5,7 sem er yfir mörkum. Ég var með 88% líkur á því að greinast með sykursýki 2 einhvern tímann á ævinni og 53% að fá hjartasjúkdóm ef ég héldi áfram á þeirri braut sem ég var. Í næstu mælingu reyndist kólesterólið vera komið niður í 6,70 (sem sagt komin á kortið) og blóðsykurinn komin niður í 5,40. Það sem er þó áhugaverðast við þetta allt saman er að ef ég held áfram á þessari nýju braut þá er ég búin að minnka líkurnar á því að fá sykursýki 2 úr 88% í 31% og hjartasjúkdómum úr 53% í 47%.
Einnig minnkuðu bólgurnar gífurlega mikið í líkamanum. Þetta stemmdi við það sem sjúkraþjálfarinn sagði við mig. Í heilt ár hef ég farið tvisvar í mánuði í sjúkraþjálfun þar sem ég finn stundum fyrir óþægindum í hnjánum. Hann hefur alltaf sagt að ef ég nái að minnka bólgurnar í líkamanum þá minnki þörfin á sjúkraþjálfun. Þennan dag var fyrsti dagurinn sem hann notaði ekki nálar. Hann sagði að ég væri miklu betri, væri mýkri og ekki eins stíf og þyrfti þess ekki.
Kaupa small í 17:
Mjög skemmtileg aukaverkun síðustu 3 mánuði er að ég er búin að léttast helling áreynslulaust. Ég lagði ekki upp í þessa vegferð til að missa kíló. Gat alveg hugsað mér það en fókusinn var á að lækka slæmu gildin og bæta úthaldið og öndunina. Á 3 mánuðum er ég búin að missa tæp 9 kg. Öll fötin mín eru of stór og ég er aðeins byrjuð að endurnýja fataskápinn. Kannski er það grunnhyggið en ég fékk mikið kikk út úr því að kaupa mér peysu í small í 17. Það sem ég sé helstan mun á er að ég hef alltaf verið með þrútinn maga, líka þegar ég var yngri og léttari. Núna er hann að gefa gífurlega mikið eftir. Ég ræddi þetta við Lukku. Mér líður eins og ég sé að svindla. Hvernig get ég lést svona áreynslulaust? Ég hleyp hægar, ég anda með nefinu og borða gífurlega góðan mat og borða mig alltaf sadda. Ég tel hvorki hitaeiningar né vigta matinn og veit ekkert hvert hlutfall fitu, kolvetna eða próteina er. Lukka sagði að um leið og bólgurnar minnka getur líkaminn unnið betur úr fæðunni sem ég borða sem hefur þessar skemmtilegu aukaverkanir.
Mataræðið:
Mörgum finnst mataræðið mitt gífurlega strangt. Ég hef hreinlega aldrei borðað svona góðan mat. Ég borða 3-4x á dag. Mataræðið samanstendur af því sem vex, hleypur og syndir. Ég sleppi mjólkurvörum, kornvörum og mjög sætum ávöxtum. Reyndar mun ég líklega setja inn eitt og annað smátt og smátt s.s. döðlur og mangó. Ég hef alltaf verið nammigrís og mikill nartari en ég hef enga löngun í nart lengur. Mig langar að halda áfram á þessu mataræði amk næstu 3 mánuði en þá fer ég í næsta test hjá Greenfit. Það verður spennandi að sjá hvernig gildin halda áfram að breytast og hvernig litlar breytingar yfir lengri tíma verða að stórum breytingum. Margir eru forvitnir hvað ég borða og því set ég megnið af mínum máltíðum í story á Instagram og þar er hægt að fá fullt af hugmyndum.
Burstar þú tennurnar?
Ég fæ mikið af spurningum um þennan gífurlega sjálfsaga sem margir eru sannfærðir að ég búi yfir. Það séu fáir sem geti gert þetta þar sem ég er svo öguð og skipulögð. Okkar á milli er það engan veginn rétt. Mér finnst þetta ekkert mál. Mér finnst ég ekki í átaki. Ég er einfaldega að borða mjög góðan mat sem vill svo heppilega til að er mjög hollur og fallegur. Ég hreyfi mig hægar en ég gerði og ég anda með nefinu. Ég vel að gera þetta því ég er að hugsa um framtíðar mig. Hugsa um Ásdísi þegar hún verður 70 ára og 80 ára. Þetta er ekkert ósvipað og að bursta tennurnar. Allir sem ég þekki bursta tennurnar og flestir 2var á dag. Sumir nota líka tannþráð og jafnvel munnskol. Hvers vegna eru allir með þennan járnaga þegar kemur að því að bursta tennurnar. Jú er það ekki vegna þess að það er verið að fyrirbyggja tannskemmdir? Hvers vegna hugsum við þá minna um innviðina? Það skiptir kannski ekki öllu máli þó að ein og ein tönn skemmist. Hvað ef þetta eina hjarta sem við eigum skemmist. Hvað þá?
Horft til baka:
Þegar ég horfi til baka síðustu 3 ár þá er ég gífurlega stolt af mér að hafa lagt upp í þessa vegferð. Það voru alls ekkert allir sammála mér og ég hef fengið töluverða gagnrýni fyrir að vera manísk, nokkuð geðveik á köflum og öfgafull. Þegar ég var að taka mín fyrstu skref þá var erfitt að standa með sjálfri mér. Það er gífurlega mikið átak að skipta um lífstíl og þegar þú færð líka gagnrýni að þú sért að gera allt vitlaust þá er oft erfitt að hunsa þessar óumbeðnu ráðleggingar.
ÞÚ VAKNAR OF SNEMMA!
ÞÚ SEFUR OF LÍTIÐ!
ÞÚ ÆFIR OF MIKIÐ!
ÞÚ LÉTTIST OF MIKIÐ!
Við alla sem eru að stíga sín fyrstu skref eða eru á sinni vegferð þá vil ég segja þetta. Þetta er þitt líf og þínar ákvarðanir. Þegar upp er staðið þá stendur þú og fellur með þínum ákvörðunum. Ég vil ekki líta til baka og sjá eftir öllu sem ég gerði ekki afþví að einhverjum fannst það asnalegt. Stundum þarf hreinlega að skipta út vinum. Ég er svo heppin að ég er búin að eignast gífurlega mikið af góðum vinum sem deila sömu sýn og ég. Eitt sem ég hef áttað mig á er að þeir sem eru betri en þú eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða og hjálpa þér. Þeir segja ekki þú getur ekki - þeir segja þú gætir prófað þetta.
Þakklætið:
Ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag ef ég hefði ekki haft góðan stuðning. Hilda vinkona á svo mikið í þessum árangri. Ég hefði ekki komist í gegnum Landvættina án hennar. Hún var minn stuðningur. Hún er stútfull af fróðleik og aldrei meira en eitt símtal í burtu ef mig vantar eitthvað. Það ættu allir að eiga eina Hildu í sínu lífi. Hún gerir lífið auðveldara. Ég byrjaði meira að segja ekki almennilega á neföndun fyrr en hún byrjaði. Hún er minn áhrifavaldur.
Landvættir, Þríþrautadeild Breiðabliks, hjólreiðadeild Breiðablik, Garpasund Breiðabliks og Greenfit. Þau hafa öll hjálpað mér svo gífurlega mikið að komast á þann stað sem ég er á í dag. Þarna er samankomnir aðilar sem eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða og miðla til þeirra sem á þurfa að halda.
Krakkarnir og kærastinn. Ég er svo heppin að Axel Valur elsti sonur minn býr hjá mér. Hann er listakokkur og þegar ég byrjaði að borða hreint þá sá hann alfarið um að elda. Mér fannst svo drepleiðinlegt að elda. Ég hefði ekki náð þessum árangri nema afþví að hann sá um þetta algjörlega til að byrja með og ég er núna í æfingabúðum hjá honum til að verða sjálfbær áður en hann flytur að heiman. Besta við þetta allt saman er að ég er farin að hafa mjög gaman af því að elda.
Það er ekki sjálfgefið að krakkarnir styði þig 100%. Þau hafa borðað Clean með mér í 3 mánuði. Þau sakna aðeins gamla matarins þannig að við ætlum að fara að hafa þetta bland í poka og þá elda ég Clean fyrir mig.
Kærastinn á líka hrós skilið. Hann styður mig fullkomlega og kippir sér ekkert upp við það þó að ég vakni kl. 5 á morgnana til að fara út að hlaupa.
Smartland á líka hrós skilið fyrir að birta pistlana mína. Ég fæ almennt góð viðbrögð við þeim og mér þykir gífurlega vænt um skilaboð sem ég fæ frá öðrum sem eru að byrja sína vegferð.
Hvað er framundan?
Ég ætla að halda mínu striki og bæta mig smátt og smátt. Ég geri mér grein fyrir því að ég mun ekki ná sömu bætingum í næstu mælingum. Á meðan ég sýni framfarir þá er ég sátt. Þessir 3 mánuðir hafa liðið áfram á ógnarhraða.
Hvað með aðventuna Ásdís, á ekki að tríta sig smá? Ég hugsaði þetta einmitt eftir prófið. Ég bakaði 5 sortir af smákökum og hugsaði að ég ætti skilið að fá mér smákökukaffi eftir prófið. Hins vegar langaði mig ekki í þær. Þetta var meira af vana heldur en löngun. Það er jú að detta í aðventu og það verður nú aðeins að tríta sig. Þegar ég sá hversu vel prófin mín komu út þá datt niður öll löngun í smákökur. Eitthvað sem ég hef verið að gera í gegnum tíðina hefur ekki haft góð áhrif á líkamann og ég held að ég þurfi ekki að vera sérfræðingur til að vita að jólasmákökur eru sannarlega ofarlega á þeim lista. Það sem ég heyri sjálfa mig segja núna. Ef ég náði þessum árangri á 3 mánuðum hvar verð ég þá stödd eftir 3 ár?
Í dag er ég gífurlega fegin hvað fyrra prófið kom illa út því það neyddi mig til að bregðast við. Ef ég hefði komið sæmilega út hefði ég mögulega sagt. Þetta er ekkert svo slæmt svona miðað við konu á mínu aldri. Þetta er alveg nógu gott. Sæmilegt er ekki nógu gott þegar þú getur verið frábær. Ég hefði svo haldið áfram að fálma í myrkrinu í staðinn fyrir að leita allra leiða til að bæta heilsuna og hefði aldrei náð þessum árangri sem ég náði með Greenfit. Það eru forréttindi að geta bætt heilsuna og ómetanlegt að geta fengið faglega aðstoð hjá Greenfit. Núna veit ég betur, ég veit að sæmilegt er engan veginn ásættanlegt. Frábært er nýja viðmiðið.
Þetta er einfalt. Lífið og heilsan er í okkar höndum. Við ráðum ferðinni, ekki talan í kennitölunni okkar sem segir hversu gömul við erum og ekki heldur genin okkar. Þetta er undir okkur komið og engum öðrum.
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: