Rifust eins og hundur og köttur

Nágrannaslagir | 4. desember 2020

Rifust eins og hundur og köttur eftir leiki Arsenal og Tottenham

Hjónin og Skagamennirnir Karvel Lindberg Karvelsson og Hrefna Sigurðardóttir fylgja stífum reglum þegar kemur að nágrannaslögum Arsenal og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Það er ekki að ástæðulausu því fyrsta árið sem þau voru saman áttu þau það til að rífast eins og hundur og köttur eftir leiki og eitt sinn þurfti Hrefna meira að segja að fara heim til mömmu sinnar í uppnámi eftir kröftugt boltarifrildi.  

Rifust eins og hundur og köttur eftir leiki Arsenal og Tottenham

Nágrannaslagir | 4. desember 2020

Hjónin Hrefna Sigurðardóttir og Karvel Lindberg Karvelsson gefa ekkert eftir …
Hjónin Hrefna Sigurðardóttir og Karvel Lindberg Karvelsson gefa ekkert eftir í stuðningi sínum við Tottenham og Arsenal. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin og Skagamennirnir Karvel Lindberg Karvelsson og Hrefna Sigurðardóttir fylgja stífum reglum þegar kemur að nágrannaslögum Arsenal og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Það er ekki að ástæðulausu því fyrsta árið sem þau voru saman áttu þau það til að rífast eins og hundur og köttur eftir leiki og eitt sinn þurfti Hrefna meira að segja að fara heim til mömmu sinnar í uppnámi eftir kröftugt boltarifrildi.  

Hjónin og Skagamennirnir Karvel Lindberg Karvelsson og Hrefna Sigurðardóttir fylgja stífum reglum þegar kemur að nágrannaslögum Arsenal og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Það er ekki að ástæðulausu því fyrsta árið sem þau voru saman áttu þau það til að rífast eins og hundur og köttur eftir leiki og eitt sinn þurfti Hrefna meira að segja að fara heim til mömmu sinnar í uppnámi eftir kröftugt boltarifrildi.  

Svo að því sé haldið til haga þá er Karvel stuðningsmaður Arsenal á meðan Hrefna heldur með Tottenham, nágrannaliðinu í norðurhluta London, en rígurinn á milli liðanna á sér langa sögu. 188. leikur þeirra síðan enska deildarkeppnin hófst árið 1909 fer fram á Tottenham Hotspur Stadium á sunnudaginn.

Horfði á vikugamla leiki í svarthvítu

Þegar þau eru spurð út í aðdáun sína á liðunum segist Karvel hafa byrjað að tippa á Arsenal í 1X2-getraununum í gamla daga þegar vikugamlir leikir voru sýndir í Ríkissjónvarpinu og það í svarthvítu. Hann segist furða sig á því að hafa nennt að fylgjast með boltanum við þessar fábrotnu aðstæður en einhvern veginn hélt hann tryggð við sitt lið, Arsenal. Eftir að hafa dottið út úr enska boltanum í einhvern tíma byrjaði hann aftur að fylgjast með og það af krafti. „Svo maður tali nú ekki um þegar við byrjuðum saman þá gat maður ekkert annað en farið lengst inn í hlutina. Það í rauninni var ekki hægt annað því við vorum bæði kolvitlausar fótboltafríkur þegar upp var staðið,“ segir Karvel og á þar við eiginkonuna Hrefnu sem hann hefur verið kvæntur í 22 ár.

Arsenal og Tottenham etja kappi á Emirates-leikvanginum síðasta haust.
Arsenal og Tottenham etja kappi á Emirates-leikvanginum síðasta haust. AFP

Viðtalið fer fram í gegnum Facetime á milli Reykjavíkur og spænsku borgarinnar Torrevieja þar sem margir Íslendingar búa. Þar dvelja þau hjónin um þessar mundir í leiguíbúð og líkar vel í hitanum en bæði eru þau hætt að vinna. Þau fóru út í byrjun desember í fyrra, sneru heim til Íslands í lok mars þegar ástandið á Spáni var tekið að dökkna vegna Covid-19-faraldursins en flugu svo aftur út í byrjun ágúst. Þau finna fyrir öryggi í Torrevieja, þó svo að eitthvað sé um veiruna í borginni rétt eins og annars staðar. Langútbreiddust hefur hún samt verið í höfuðborginni Madríd.

Elskaði að horfa á Gascoigne

„Frá því ég fór að hafa vit er ég búin að halda með Tottenham,“ útskýrir Hrefna, að sjálfsögðu í hvítu Tottenham-treyjunni á meðan Karvel situr í Arsenal-klæðnaði henni við hlið. Hún nefnir gömlu argentínsku kempuna Ossie Ardiles, markahrókinn Gary Lineker og baráttujaxlinn Paul Gascoigne sem átrúnaðargoð. „Ég elskaði hann þegar hann var að spila,“ segir hún um þann síðastnefnda. „Ég hef bara alltaf haldið með Tottenham og það hvarflaði ekki að mér að breyta þegar ég kynntist Karvel. Það var annaðhvort að taka mér eins og ég er eða sleppa því bara. Hann valdi betri kostinn,“ bætir hún við og hlær dátt.

Í apríl næstkomandi verða liðin 30 ár síðan þau byrjuðu að stinga saman nefjum. Það ár, 1991, er greinilega mikið happaár því það var einnig gjöfult fyrir liðin þeirra. Arsenal varð deildarmeistari á meðan Tottenham vann bikarinn. Þetta ár vann karlalið ÍA einnig næstefstu deild með yfirburðum og lagði grunninn að mikilli sigurgöngu því fimm Íslandsmeistaratitlar í röð fylgdu í kjölfarið.

Hrefna er grjótharður Spursari.
Hrefna er grjótharður Spursari. Ljósmynd/Aðsend

Snarvitlaus fyrir framan sjónvarpið

Karvel segir að á ýmsu hafi gengið hjá þeim hjónum til að byrja með í sambandi við viðureignir Arsenal og Tottenham. „Þegar við vorum að byrja að horfa á leikina þá var það svolítið skrautlegt þegar hún fór til mömmu sinnar á tímabili því við vorum snarvitlaus bæði tvö að horfa. Við fórum jafnvel að rífast eftir leiki um að þetta væri helvítis rugl og kjaftæði hjá dómaranum að gera þetta og hitt,“ segir hann og Hrefna tekur við: „Þetta var eiginlega svoleiðis fyrsta árið. Svo urðum við að taka ákvörðun um að slíðra sverðin aðeins.“

Þau urðu ásátt um að þegar Arsenal spilaði á móti öllum nema Tottenham þá stæði Hrefna með sínum manni. Síðan gerði hann það sama fyrir hana. Fleiri leikreglur voru jafnframt settar. „Þegar leikurinn var flautaður á þá mátti ég drulla yfir Tottenham og bölva mínum mönnum og vera alveg snarvitlaus allan leikinn og hún líka. Svo röfluðum við eitthvað í hálfleik og svo eftir leik tókumst við í hendur og leikurinn er búinn,“ rifjar Karvel upp og segir að með þessum skýru reglum hafi þau getað notið þess mun betur að horfa á leikina og sleppa fram af sér beislinu. „Það endaði með því að við fórum að hafa mjög gaman af því að hafa þetta svona.“

Þessi mynd var tekin á Akranesi. Eins og sjá má …
Þessi mynd var tekin á Akranesi. Eins og sjá má átti Tottenham þarna heimaleik. Ljósmynd/Aðsend

Flögguðu báðum fánunum

Hrefna bætir við að þegar liðin kepptu innbyrðis og Tottenham var á heimavelli fór Karvel út í garð í húsinu þeirra við Skarðsbraut og flaggaði. Tottenham-fáninn var dreginn að húni efst á flaggstöngina og fáni Arsenal var þar fyrir neðan. Það sama gerði Hrefna fyrir Karvel. Þannig voru fánarnir látnir standa langt fram á kvöld eftir að leikurinn var búinn. Ef Arsenal var að spila við annað lið þá flaggaði hann og hún sömuleiðis Tottenham-fánanum þegar hennar menn áttu leik. Höfðu nágrannarnir gaman af þessu, að sögn Karvels, auk þess sem þeir sem gengu fram hjá húsinu brostu oft í kampinn. „Það er alltaf gott að vekja bros hjá einhverjum.“

Hrefna viðurkennir að „ef svo ólíklega fór að Tottenham vann Arsenal“ þá hafi þau tekist í hendur að leik loknum eins og sönnum herramönnum sæmir. Þar með var þó ekki öll sagan sögð. „Ég ætla ekki að ljúga því að ég laumaðist inn í svefnherbergi og tók smá stríðsdans og öskraði aðeins,“ segir hún brosandi. „Ég ætlaði ekki að núa honum um nasir, ég vildi það ekki. Ég hef svo sjaldan tækifæri til þess. Þeir vinna yfirleitt alltaf þannig að...“

Karvel segir það einfaldlega ekki ganga upp að vera óþolandi eftir leiki. Núna séu þau orðin hóflegri á allan hátt. „Þetta er lærdómur. Þegar maður hagaði sér svona þá sá maður afleiðingarnar og þær urðu bara leiðindi,“ segir hann og þau hlæja bæði. „Leikurinn er bara búinn þegar það er búið að flauta af,“ bætir Hrefna við ákveðin og Karvel heldur áfram: „Þá tökumst við í hendur. Við kyssumst ekki eða neitt.“

Það var hiti í mönnum í slag erkifjendanna Arsenal og …
Það var hiti í mönnum í slag erkifjendanna Arsenal og Tottenham fyrir tveimur árum. AFP

Stjana við hvort annað á leikdag

Eru einhverjar fleiri hefðir hjá ykkur á leikdag?

„Ef ég á heimaleik þá eldar hann og ef hann á heimaleik þá elda ég. Sá sem á heimaleik, það er dagurinn hans,“ segir Hrefna og Karvel nefnir að að morgni dags sé farið í búninginn. „Svo náttúrulega eftir leik eru menn misjafnlega hamingjusamir með búninginn eftir því hvort þú hefur unnið eða tapað.“ Hrefna skýtur þá inn í: „En þú klárar kvöldið í búningnum. Það þýðir ekkert að fara úr búningnum þótt þú hafir tapað. Þessi rútína hefur verið hjá okkur undanfarið.“ Á Akranesi sátu þau jafnframt ávallt í sömu Lazy-Boy-stólunum fyrir framan sjónvarpið og átti hjátrúin þar sinn þátt.

Það að hjón haldi hvort með sínu nágrannaliðinu hlýtur að teljast nokkuð óvenjulegt. Spurð hvort þetta sé ekki krydd í tilveruna segjast þau sammála því. „Þegar Arsenal og Tottenham eru að spila hvort á móti öðru þá er þetta frábær dagur. Þetta er bara æðislega gaman og við njótum þess í botn. Við getum orðið alveg kolvitlaus en maður hefur verið mildari í seinni tíð.“

Hrefna: „Um leið og útsendingin byrjar og upphitun hefst þá er verið að „krítísera“ liðsvalið og af hverju þessi er ekki inni á og hinn inni á og helvítis fíflið... Svo kemur viðkomandi leikmaður og á stórleik. Okkur finnst þetta rosalega gaman.“

Glaðbeitt fyrir utan Emirates-völlinn.
Glaðbeitt fyrir utan Emirates-völlinn. Ljósmynd/Aðsend

Gengið misvel að „kristna“ börnin

Karvel og Hrefna eiga samanlagt sex börn, þar af fimm stráka. Sá elsti heldur með Tottenham, næstu tveir með Manchester United og þeir tveir yngstu með Arsenal. Dóttirin heldur ekki með neinu liði, þrátt fyrir að Hrefna hafi reynt hvað hún getur til að „kristna“ hana. Karvel segir að vel hafi tekist upp með þá tvo yngstu. „Þeir eru Arsenal-menn, almennilegir, sjáðu til. Mér tókst að kristna þá,“ segir hann stoltur en kennir því um að hann hafi verið of mikið frá heimilinu vegna vinnu þegar hinir strákarnir voru ungir og því ekki gefist tími til að beina þeim í „rétta“ átt. „Ég ákvað þegar ég eignaðist seinna hollið að gefa þeim tíma og ég gerði það.“ Skilaði það sér sem sagt í góðum og gegnum „nöllum“.

„Þegar við erum úti [í útlöndum] kaupi ég alltaf á barnabörnin Tottenham-búninga. Hann má kaupa Arsenal-búninga og svo ráða bara foreldrarnir í hvorn búninginn þau láta þau,“ greinir Hrefna frá. Mikill Tottenham-áhugi elsta sonarins hefur vitaskuld vakið lukku hjá henni og ekki er það verra að barnabarnið er einnig hvítþenkjandi.

Karvel segir söguna af því þegar feðgarnir, þ.e. nafni hans og sonarsonur, fóru til London á leik í enska boltanum. Komu þeir heim færandi hendi með forláta drykkjarkönnu handa Hrefnu með áletrun til minningar um glæstan samanlagðan sigur Tottenham á Arsenal í deildabikarkeppninni, 6:2. „Hún var óspart notuð en ég held ég hafi rekið mig í hana fyrir slysni einhvern tímann,“ segir hann og brosir. Hrefna setur að vonum spurningarmerki við þessa útskýringu. „Hann sagði að hann hefði óvart rekist í hana, alla vega brotnaði kannan. Honum til mikillar gleði var ekki hægt að drekka úr henni. Hann vildi meina að þetta hefði verið slys en maður veit ekki.“

Fékk illt auga þegar hún ætlaði að fagna

Saman hafa þau hjónin farið á Emirates-völlinn og séð Arsenal taka á móti Tottenham en aldrei hafa þau farið á heimavöll Tottenham, hvorki á gamla völlinn White Hart Lane né nýja leikvanginn Tottenham Hotspur Stadium. Karvel kveðst vissulega skulda Hrefnu ferð á völl erkifjendanna en heldur svo áfram og ræðir um Emirates-ævintýrið árið 2016 þar sem þau sátu í fínni áhorfendastúku. Hrefna hafi verið í Tottenham-búningnum sínum innan undir peysunni. Þegar þeir hvítklæddu jöfnuðu leikinn í 1-1 ætlaði hún að rjúka upp úr sætinu og fagna eins og henni var eðlislægt. „Hún fékk illt auga frá nágrönnunum og ég náði að rífa í hana. Það hefði litið hálfilla út.“

Harry Kane jafnar metin fyrir Tottenham Hotspur gegn Arsenal með …
Harry Kane jafnar metin fyrir Tottenham Hotspur gegn Arsenal með marki úr vítaspyrnu árið 2016. Hrefna ætlaði að fagna markinu vel og innilega en fékk illt auga í Arsenal-stúkunni. AFP

Hrefna lýsir samskiptum sínum við dyravörðinn í stúkunni þegar þau voru að labba þangað inn og segir hann hafa hvatt hana til að renna upp peysunni því þar sé ekki vel séð að klæðast Tottenham-treyju. Hún samþykkti það enda vildi hún ekki breytast í fallbyssufóður þeirra Arsenal-manna. „Þetta eru bara trúarbrögð þarna úti.“ Eftir 1:1 stórmeistarajafntefli á Emirates kíktu þau á pöbbinn eftir leik, skammt frá vellinum. Fyrsta manneskjan sem þau sáu þar fyrir utan var lítill og þéttvaxinn náungi með húfu á höfðinu sem á stóð „I Hate Tottenham“. „Mér þótti þetta brjálæðislega fyndið en Hrefna var ekkert hrifin af þessu,“ segir Karvel og hlær. 

Var ekki Tottenham-búningurinn vel falinn Hrefna?

„Mjög vel, ég þorði ekki öðru. Þetta er svo blóðheitt þetta lið. Maður verður skíthræddur ef maður kemur nálægt þessu.“

Í lestinni á leiðinni til baka á hótelið hittu þau svo tvíbura. Annar hélt með Arsenal og hinn Tottenham. Að sögn Tottenham-stráksins var þetta í fyrsta sinn sem hann fór á Arsenal-leik á Emirates með bróður sínum en þeir voru líkast til á þrítugsaldri. Alvörurígur þar á ferð. Gott að þetta eru ekki samvaxnir tvíburar.

Arsenal-aðdáandinn sem þau Karvel og Hrefna hittu fyrir utan pöbbinn. …
Arsenal-aðdáandinn sem þau Karvel og Hrefna hittu fyrir utan pöbbinn. Hrefnu var ekki skemmt. Ljósmynd/Aðsend

Skapa stemningu í kringum mómentið

Þau Karvel og Hrefna segjast horfa á nánast alla fótboltaleiki sem þau komast yfir, hvort sem það er enski boltinn, spænski, þýski eða sá franski. Engar aðrar íþróttir komast að. Þau segja það sérstaklega ánægjulegt þegar annaðhvort Tottenham eða Arsenal vinnur Liverpool eða Manchester United. „Það eru sérstakir hamingjudagar,“ segir Karvel, sem verður ekki alveg jafn hamingjusamur þegar kemur að Lundúnaliðinu Chelsea þó svo að það sé „mjög fínt“. „En það er einhver afskaplega óstjórnleg gleði þegar Liverpool eða United tapar fyrir liðinu manns.“

Hrefna segir bróður sinn og mág, sem halda með Liverpool, láta hana heyra það grimmt á Facebook ef hún vogar sér að setja eitthvað út á Liverpool. Í framhaldinu heyri hún jafnvel ekki í þeim í einhverja mánuði eftir slíkar aðfinnslur, svo mikill er trúarhitinn þar að baki.

„Það er verið að skapa stemningu í kringum mómentið. Eins og maður þekkir heima, eins og með KR og ÍA. Þetta er alveg jafn yndislegt fólk í KR eins og er í ÍA. En þetta fólk það gerir þessa stemningu og það gerir bara leikinn skemmtilegri. Þá halda hverjir með sínu liði eins og eðlilegt er og þá er þetta bara geggjað,“ segir Karvel og á þar við rimmur Vesturbæjarstórveldisins gegn Skagamönnum í efstu deild sem hafa verið harðar í gegnum árin og áratugina. Svo harðar að ungum knattspyrnumönnum á Skaganum var uppálagt hér á árum áður að hata KR, hvernig svo sem þeim málum er háttað nú til dags. 

Úr leik ÍA og KR á Skaganum í sumar.
Úr leik ÍA og KR á Skaganum í sumar. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Slæmt að geta ekki flaggað á leikdag

Leikur Tottenham og Arsenal á sunnudaginn verður sá fyrsti síðan í vor sem áhorfendur mega mæta á á Tottenham Hotspur Stadium og hvetja sína menn til dáða. Þeir mega þó í mesta lagi vera fjögur þúsund til að forðast útbreiðslu kórónuveirunnar.

Topplið Tottenham hefur farið mun betur af stað í deildinni heldur en Arsenal og þarf síðarnefnda liðið nauðsynlega á sigri að halda til að missa nágrannann ekki ellefu stigum á undan sér, sem yrði mesta hneisa á þeim bænum. Á Spáni hafa þau Karvel og Hrefna ekki getað flaggað á leikdag þar sem engin fánastöng er fyrir hendi, sem er vitaskuld ómögulegt. Karvel vill ráða bót á því og segist hafa verið að líta út undan sér í leit að flöggum þannig að hægt sé að setja sinn hvorn fánann á svalirnar. „Þetta er eiginlega brot ef maður gerir það ekki. Maður verður að vera búinn að redda þessu fyrir leik.“

Hvernig spá þau leiknum á sunnudaginn?

Karvel: 

„Það er ekki bjartsýni í mínum huga fyrir leik Tottenham og Arsenal enda Tottenham í efsta sæti og mitt lið Arsenal í 14. sæti. En fótbolti er alltaf fótbolti og allt getur gerst. Tottenham-liðið hefur sýnt það í undanförnum leikjum að þeir eru vel skipulagðir og vinna vel saman. Það verður því miður ekki sagt um Arsenal, þar sem miðjan er nánast engin og ungu strákarnir ætla allir að gera allt einir. Arteta verður að fara að ná samhljómi í liðið til þess að þetta fari að ganga upp. En maður stendur með sínu liði hvað sem á bjátar og vonar og trúir að nú snúist þetta við. Spái að leikurinn fari 2:3 fyrir Arsenal. Lið konunnar er á heimavelli svo samkvæmt okkar reglum á ég að sjá um eldamennskuna þennan dag og er farinn að kvíða fyrir því. En við munum njóta dagsins frá morgni til kvölds.“

Hrefna: 

„Miðað við stöðuna í deildinni á þetta að verða auðveldur sigur minna manna. Við erum á heimavelli og það ætti að vera með okkur. Liðið hefur verið að spila vel með Højbjerg sem hefur verið frábær á miðjunni og ég tala nú ekki um Song og Kane sem topp framherjapar. Ef Harry Winks kemur ekki við sögu vinnum við leikinn 4:1. Ég ætla að vona að það rætist, alla vega á ég von á dekri frá mínum manni allan sunnudaginn og vonandi hann um kvöldið.“

Tottenham Hotspur Stadium er stærsti völlur félagsliðs í Lundúnum.
Tottenham Hotspur Stadium er stærsti völlur félagsliðs í Lundúnum. Ljósmynd/Getty Images

Hrefna minnir eiginmann sinn loks á gjöfina sem hún á inni hjá honum, þ.e. ef Covid-19 fer einhvern tímann að linna, sem gæti gerst á næsta ári með nýju bóluefni. Hún tekur vitaskuld ekki í mál að fara annað en á heimavöll Tottenham. Emirates Stadium kemur ekki til greina.

Svo mörg voru þau orð og nú er bara að vona að þessi leiðindaveira fari að láta sig hverfa svo Hrefna geti loksins klæðst hvítu treyjunni í London án þess að eiga það á hættu að verða fyrir aðkasti af hálfu eldheitra Arsenal-manna.

Þessi umfjöllun er hluti af meistaraverkefni í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

Gilberto og Dimitar Berbatov berjast um knöttinn í leik Arsenal …
Gilberto og Dimitar Berbatov berjast um knöttinn í leik Arsenal og Tottenham árið 2008.
mbl.is