„Menn köstuðu upp af spennu“

Nágrannaslagir | 5. desember 2020

Hærra tempó, fleiri tæklingar og meiri barátta

Það er 2. janúar 1989 í Norður-London. Við erum stödd á Highbury, heimavelli Arsenal, og Guðni Bergsson er í byrjunarliði Tottenham. Þetta er þriðji leikurinn hans í enska boltanum eftir að hafa verið keyptur þangað frá Val. Andrúmsloftið er rafmagnað, eins og alltaf þegar þessir fornfrægu fjendur mætast.

Hærra tempó, fleiri tæklingar og meiri barátta

Nágrannaslagir | 5. desember 2020

Guðni Bergsson og Ruud van Nistelrooy í harðri baráttu um …
Guðni Bergsson og Ruud van Nistelrooy í harðri baráttu um knöttinn. Ljósmynd/Gettyimages

Það er 2. janúar 1989 í Norður-London. Við erum stödd á Highbury, heimavelli Arsenal, og Guðni Bergsson er í byrjunarliði Tottenham. Þetta er þriðji leikurinn hans í enska boltanum eftir að hafa verið keyptur þangað frá Val. Andrúmsloftið er rafmagnað, eins og alltaf þegar þessir fornfrægu fjendur mætast.

Það er 2. janúar 1989 í Norður-London. Við erum stödd á Highbury, heimavelli Arsenal, og Guðni Bergsson er í byrjunarliði Tottenham. Þetta er þriðji leikurinn hans í enska boltanum eftir að hafa verið keyptur þangað frá Val. Andrúmsloftið er rafmagnað, eins og alltaf þegar þessir fornfrægu fjendur mætast.

Í framlínu Arsenal eru kappar eins og Alan Smith og Paul Merson en ásamt Guðna eru jaxlar á borð við Gary Mabbutt og Terry Fenwick í vörn Tottenham. 

Beðinn um að lýsa tilfinningunni er hann spilaði þennan nágrannaslag fyrir næstum þremur áratugum segir Guðni: „Það var dálítið sérstakt að vera kominn frá því að spila á Hlíðarenda, eins yndislegur og hann er og góður, að vera nokkrum mánuðum síðar kominn á þetta svið í enska boltanum á Highbury. Þetta var rosalega minnisstæður leikur,“ segir hann og nefnir að hann hafi vel fundið fyrir miklu spennustigi á vellinum. „Það var ekki tomma gefin eftir og það var gríðarlegur stuðningur á báða bóga og aðallega hjá heimaliðinu verandi auðvitað með obbann af stuðningsmönnunum. Þannig að það var algjörlega allt undir.“

Arsenal vann hvítklædda nágrannann þetta kvöld með tveimur mörkum gegn engu. Mörkin skoruðu Paul Merson og Michael Thomas. 

Hér má sjá leikinn í heild sinni, fyrir áhugasama: 

„Ótrúlegt ævintýri“

Guðni heldur áfram: „Það var ótrúleg reynsla fyrir ungan leikmann að vera kominn í enska boltann, sem var ekkert sjálfgefið, verandi varnarmaður frá Íslandi og með takmarkanir á fjölda útlendinga sem máttu þá bara vera tveir í hverju liði. Ég hef þá komið á eftir Ossie Ardiles [Argentínumanninum og heimsmeistaranum knáa], ég veit ekki hvort það hafi verið góð skipti,“ bætir hann við og hlær. „En það sýnir bara að þetta var mjög sérstakt að fá tækifæri í enska boltanum og ef maður lítur til baka var þetta ótrúlegt ævintýri, sérstaklega á þessum árum, að fá að taka þátt í því að spila á þessu sviði enska boltans sem var á þessum árum dálítið fjarlægt okkur hérna uppi á Íslandi.“

Köstuðu upp af spennu

Highbury var lítill völlur á enskan mælikvarða og nálægðin við áhorfendur því mikil. Spurður hvort ekkert hafi verið öskrað á hann til að koma honum úr jafnvægi segist Guðni lítið sem ekkert hafa fundið fyrir nálægðinni. „Maður fær alveg glósurnar og gerði það víðar ef svo bar við en maður er bara svo einbeittur í svona leikjum. Það eru auðvitað mikil læti en maður í sjálfu sér tekur ekki eftir því. Þau eru hluti af þessu en þetta drífur mann áfram og gefur manni kraft. Maður sér það bara líka núna þegar maður er að horfa á þessa leiki án áhorfenda [vegna kórónuveirunnar], að þetta er ekki sami leikurinn. Það er ótrúlegt hvað umhverfið gefur mikla orku og mikinn kraft til leikmanna og þetta voru þannig leikir að tempóið varð aðeins hærra, það var meira um tæklingar og enn meiri barátta. Þetta voru mikil læti og skipst á sókn og vörn. Þetta voru hörku hörku leikir,“ rifjar Guðni upp.

Voru samherjar þínir að gíra sig á sérstakan hátt fyrir þessa leiki?

„Maður fann alveg undirliggjandi spennu og menn voru sumir hverjir stressaðri fyrir þessa leiki en annars og það kom alveg fyrir að menn köstuðu upp af spennu eða þurftu að fara á klósettið, bara til að losa. Það var alveg áþreifanlegt að það var mikil barátta í loftinu og spenna fram undan. Menn höndluðu þetta misjafnlega á sinn hátt eins og gengur.“

Guðni Bergsson og Ian Wright á Highbury 1. desember 1991.
Guðni Bergsson og Ian Wright á Highbury 1. desember 1991. Ljósmynd/Gettyimages

Sterkar rætur í fótboltamenningunni

Þegar Guðni er spurður hvernig hann upplifði ríginn á milli Tottenham og Arsenal, almennt séð, segist hann hafa fundið vel fyrir honum er hann bjó í útjaðri London. „Þetta hafði sér mjög sterkar rætur í fótboltamenningunni og sérstaklega á meðal stuðningsmanna sem ólust upp annaðhvort Tottenham- eða Arsenal-áhangendur. Maður fann mjög sterkt fyrir því sem leikmaður þegar maður kom enda var enski boltinn í lok níunda áratugarins enn þá algjörlega enski boltinn með að lang langmestu leyti breskum leikmönnum eða enskum og við vorum ekki nema þrettán útlendingarnir í allri deildinni samtals,“ greinir hann frá.

Ríginn segir hann vissulega vera enn við lýði í dag. Áður fyrr hafi tilfinningarnar samt verið meiri og leikmenn kannski meðvitaðri í öllum undirbúningnum um að stórleikur væri í uppsiglingu. „Stuðningsmenn vissu af þessu þegar fór að líða að leik og maður fann fyrir því og hvatningu um að við yrðum að gera vel í leikjunum. Síðan var umfjöllun auðvitað meiri í blöðum og sjónvarpi líka og útvarpi. Það var verið að hita vel upp fyrir þessa leiki þessa viku sem var í leik. Það var mikið undir,“ undirstrikar hann og á þar við bæði félögin, stuðningsmennina og leikmenn.

„Við vorum með hörkulið á þessum árum með Gazza [Paul Gascoigne], [Gary] Lineker og sterkan leikmannahóp og auðvitað var Arsenal-liðið líka mjög vel skipað og virkilega öflugt með George Graham í brúnni og Tony Adams, Ian Wright og Paul Merson og þessar gömlu hetjur allar. Þeir urðu meistarar þarna í tvígang á þessum árum og við urðum bikarmeistarar. Þetta voru hörkuleikir.“

Ömurlegustu leikir að tapa

Hver er munurinn á líðan manna eftir sigur eða tap að loknum nágrannaslag?

„Þetta er auðvitað allur skalinn. Þetta eru ömurlegustu leikir að tapa og bestu leikir að vinna. Maður fann mjög sterkt fyrir því,“ segir Guðni. „Þessir leikir eru samtvinnaðir enskri fótboltamenningu og það eru núna frekar kannski stuðningsmenn sem drífa þetta áfram heldur en kannski leikmenn sem eru kannski oft og tíðum í miklum meirihluta erlendir leikmenn sem hafa ekkert alist upp í þessum „kúltúr“,“ bætir hann við og segir heilbrigðan ríg bæði skemmtilegan og nauðsynlegan fyrir fótboltann.

Guðni Bergsson í baráttu við Ray Parlour í leik Bolton …
Guðni Bergsson í baráttu við Ray Parlour í leik Bolton og Arsenal í úrvalsdeildinni. AFP

Komu sér í gírinn með hópslagsmálum

Óheilbrigður rígur á sér aftur á móti stað þegar ofbeldi brýst út á milli stuðningsmanna. Slíkt var nokkuð algengt á Englandi hér á árum áður og setti það svartan blett á deildina. Guðni minnist aðeins á þetta „hooligan element“ sem var við lýði, meðal annars í tengslum við nágrannaslagina við Arsenal. „Maður sá það þegar maður kom í liðsrútunni að það var ótrúlega mikil löggæsla, mikið af lögregluhestum og bara óeirðalögreglu að passa upp á og stía í sundur áhorfendum. Það kom fyrir á þessum árum að stuðningsmenn voru að melda sig á ákveðnum stöðum og slást í tugum talið í hópslagsmálum, bara svona til þess að koma sér í gírinn fyrir leikinn. Það var skrítið að upplifa þetta og finna fyrir þessari spennu og hvað það var mikið undir í þessum leikjum. Það var mjög sérstakt að upplifa það,“ rifjar hann upp.


Hörkurimmur við Blackburn og Man. Utd.

Spurður nánar út í nágrannarimmurnar með Bolton nefnir hann að Blackburn séu næstu nágrannar þeirra. Sömu tilfinningar voru í gangi gegn þeim þótt leikirnir vektu ekki sömu athygli og slagurinn í Norður-London þar sem nánast var óvild við lýði. „Rígurinn var svo mikill á milli Tottenham og Arsenal út af sögunni meðal annars og hann var djúpstæðari einhvern veginn og harðari. En það var vissulega mikill rígur í vöggu fótboltans í norðvesturhluta Englands. Þessir gömlu fornfrægu klúbbar sem voru á meðal 12 stofnenda ensku deildarinnar árið 1888, Bolton og Blackburn, voru næstu nágrannar. Það var mjög stutt þarna á milli og það var líka að sama skapi mikil eftirvænting í bæði félaginu og borgunum þar,“ segir Guðni.

Grétar Rafn Steinsson, Bolton, og Svíinn Marcus Olsson leikmaður Blackburn …
Grétar Rafn Steinsson, Bolton, og Svíinn Marcus Olsson leikmaður Blackburn í nágrannaslag liðanna árið 2012. AFP

„Svo vorum við aftur með stóra risann í Manchester United þar sem var mikill rígur á milli. Ég er ekki viss um hvort United hafi á þessum árum hugsað mikið um þennan ríg en hann var meira frá gömlum tíma þegar klúbbarnir voru í jafnari í stöðu en það var líka mikið sem stuðningsmenn lögðu í og létu leikmenn finna fyrir því að það voru leikir sem þurfti að standa sig vel í,“ segir hann.

„Okkur reyndar gekk ótrúlega vel á móti United á þessum árum í Bolton og náðum að leggja þá tvisvar að velli á Old Trafford tvö ár í röð [2001 og 2002] þegar þeir voru upp á sitt allra besta, sem var manni minnisstætt. Það var gaman að leiða liðið þar út og ná þarna í sex stig. Þá var slegið upp góðu partíi í Bolton um kvöldið, held ég hjá öllum borgarbúum. Það var mikil gleði í kringum það. Þetta voru leikir sem menn horfðu til og hlökkuðu til að taka þátt í. Það var mikið undir að ná að standa sig vel og ná góðum úrslitum í þessum leikjum,“ bætir Guðni við. 

Eftirminnilegasti grannaslagurinn

Blaðamaður minnist þess hve vel Guðna gekk á móti Hollendingnum Ruud van Nistelrooy í umræddum leikjum. Guðni kveðst sammála því að vel hafi gengið á móti þessum mikla markahróki, sem var einn sá besti í deildinni á þessum tíma. Beðinn um að nefna eftirminnilegasta nágrannaslaginn sem hann spilaði á ferlinum, hvort sem það var með Val, Tottenham eða Bolton, bendir Guðni einmitt á leikina við United. „Ég held að það sé það eftirminnilegasta. Það var ekki búist við því að við værum að fara að sækja þarna stig, þannig að það var virkilega ánægjulegt.“ 

Guðni Bergsson í búningi Bolton.
Guðni Bergsson í búningi Bolton. Ljósmynd/Andrew Budd

Ótrúlega mikil breyting

Guðni bendir á að hann hafi verið það lengi í enska boltanum [frá 1988 til 2003 með stuttu stoppi hjá Val] að hann hafi séð hann þróast úr því að vera þessi týpíski enski bolti með öllu sem því fylgdi, eins og baráttunni, tæklingunum og hraðanum, þar á meðal hröðum skiptingum á milli sóknar og varnar, yfir í bolta eins og hann er núna með mun fleiri útlendingum þar sem boltanum er spilað meira með jörðinni. Vellirnir voru líka margir hverjir slæmir á þessum árum yfir háveturinn, öfugt við yfirleitt frábært ástand þeirra í dag.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, á ársþingi sambandsins á síðasta ári.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, á ársþingi sambandsins á síðasta ári. mbl.is/Hari

„Menn voru í stuttermatreyjum og gáfu sig alla í þetta, drifnir áfram af miklum stuðningi áhorfenda. Það var gaman að upplifa þá tíma. Síðan breyttist þetta með tíð og tíma og endaði með því að maður var fyrirliði í liði þar sem það var jafnvel ekki Englendingur í byrjunarliðinu, þannig að það er búin að vera ótrúlega mikil breyting á þessu en þessi nágrannslagskúltúr hann heldur sér að einhverju leyti, aðallega í gegnum stuðningsmennina og það er bara vel. Ég held að leikmenn finni alltaf fyrir því, sérstaklega í þessum stóru nágrannaslögum eins og Tottenham-Arsenal, það er ætlast til að menn stígi upp og gefi sig 100% og gott betur í það,“ segir Guðni.

Guðni Bergsson heldur knettinum á lofti eftir að hann tók …
Guðni Bergsson heldur knettinum á lofti eftir að hann tók við formennsku í KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirtæki með Wright og Ferdinand

Hann segir menn yfirleitt hafa verið góða vini utan vallar þrátt fyrir hatramma bardaga innan hans. Því til undirstrikunar má nefna að hann stofnaði undir lok tíunda áratugarins, eftir að hann hafði skipt yfir í Bolton, tryggingamiðlunarfyrirtæki ásamt tveimur sóknarmönnum sem hann hafði margsinnis kljáðst við inni á vellinum. Annars vegar Arsenal-manninum Ian Wright, sem hann mætti einmitt í einum af sínum fyrstu leikjum, og hins vegar Les Ferdinand, þáverandi sóknarmanni Tottenham. Guðni segir menn almennt hafa borið virðingu hver fyrir öðrum sem atvinnumönnum og það hafi komið fyrir að menn úr mismunandi liðum hafi hist á tilteknum stöðum og spjallað saman í góðu tómi.

„Menn hafa eitthvað sameiginlegt, menn þekkja hvað þarf að fást við, alla pressuna og álagið og gleðina og vonbrigðin og svo framvegis, þannig að menn eru með svipaðan bakgrunn og bera virðingu fyrir hver öðrum, þótt andstæðingar séu og takast auðvitað vel á inni á vellinum. En eftir leiki og eftir ferilinn þá eru menn bara góðir félagar og eru ekki lengur í einhverjum nágrannaslagsgír. Það á allt sinn stað og tíma eins og gengur,“ segir varnarjaxlinn, sem undanfarin ár hefur gegnt embætti formanns Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ.

Ian Wright skömmu fyrir sjónarpsútsendingu fyrir leik Englands og Wales …
Ian Wright skömmu fyrir sjónarpsútsendingu fyrir leik Englands og Wales á Wembley fyrr á þessu ári. AFP

Wright studdi meira að segja framboð Guðna í formannsembættið á Twitter. Hann hlær þegar minnst er á þetta. „Hann er bara góður félagi og skemmtilegur karakter. Ég man að hann greip mig einhvern tímann einhverju hálstaki og ég hélt að hann ætlaði að kyrkja mig þegar ég náði af honum boltanum og við höfum hlegið að því síðan,“ segir Guðni um Wright, sem starfar núna sem sjónvarpsmaður í Bretlandi.

Gaman að etja kappi við Wright

„Hann var gríðarlegur baráttugaur og mjög gaman að etja kappi við hann. Hann gat verið mjög erfiður því hann hætti aldrei, hann var endalaust að gefa sig allan í þetta og með hlaup úti um allt og mikill keppnismaður. Stundum gekk það vel hjá manni en stundum ekki og hann lét mann þá líka heyra það ef hann var ósáttur og ég líka á móti en við vorum og erum bara góðir félagar engu að síður. Það sýnir sig að menn eru góðir félagar utan vallar og bara gaman að því og örugglega ekki algengt að fyrrverandi Tottenham- og Arsenal-leikmenn hafi átt fyrirtæki saman,“ segir Guðni.

Valsmenn fagna marki fyrir tveimur árum.
Valsmenn fagna marki fyrir tveimur árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki sami óvildarstuðullinn hjá Val og KR

Spurður út í tímann er hann lék með Valsmönnum áður en hann samdi við Tottenham segir hann að meiri rígur hafi verið í þá daga á milli Vals og Fram heldur en Vals og KR, enda hafi bæði Valsmenn og Framarar verið með gríðarlega öflug lið á þessum árum og verið að berjast um titlana. KR-ingar hafi á tímabili verið líka með gott lið en ekki var litið eins mikið til þeirra viðureigna sem mikilla grannaslaga á þeim árum.

Harry Kane skorar iðulega í leikjum sínum fyrir Tottenham gegn …
Harry Kane skorar iðulega í leikjum sínum fyrir Tottenham gegn Arsenal. AFP

Guðni viðurkennir þó að rígurinn sé nú almennt meiri á milli Vals og KR. Þannig sé það að minnsta kosti í dag. „Ég held að þessir leikir nái ekki eins sterkum óvildarstuðli og á milli Tottenham og Arsenal,“ greinir hann frá. „Ég skal þó ekki fullyrða um það og ég held að KR-ingar og Valsmenn njóti þess nú alveg að sigra nágranna sína og það er bara skemmtilegt. Þannig á það að vera og það gefur þessu dálítið krydd og er bara skemmtilegt að hafa þennan ríg á milli liða og bæjarfélaga, svo framarlega sem það gangi ekki of langt.“

Áhorfendur mega loksins mæta

Tottenham tekur á móti Arsenal á Tottenham Hotspur Stadium á morgun, sunnudag, og verður þetta fyrsti leikurinn síðan í vor sem áhorfendur geta mætt völlinn vegna kórónuveirunnar. Þeir mega vera tvö þúsund, sem er vitaskuld betra en ekkert þótt ekkert jafnist á við að hafa fulla stúku af áhorfendum eins og Ian Wright talar um í meðfylgjandi myndskeiði

Í þessu samhengi má minnast á nýlegt viðtal undirritaðs við Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, þar sem hann vitnaði í fræðimanninn Karl Marx sem talaði um trúarbrögð sem ópíum fólksins. Þannig væri hægt að líta á íþróttir í formi trúarbragða sem eins konar afþreyingu sem linar þjáningar fólks í hinu hversdagslega lífi.

Hverju sem því líður þá er ljóst að þessar tvö þúsund manneskjur sem mæta á Tottenham Hotspur Stadium munu fá góða útrás og örugglega láta vel í sér heyra eftir þessa allt of löngu bið. Á meðan þurfa allir hinir stuðningsmennirnir að láta sér nægja að fylgjast með leiknum heima í sófa. Verður fólk ekki alveg örugglega í rétta búningnum? 

Þessi umfjöllun er hluti af meistaraverkefni í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

mbl.is