Festivus varð til í skugga veirufaraldurs

Bjórmenning | 10. desember 2020

Festivus varð til í skugga veirufaraldurs

„Það var auðvitað mjög skrítið að geta ekki hist allir í brugghúsinu og átt góðan dag. Það virkaði hins vegar ágætlega að gera þetta í gegnum Zoom og bjórinn er vel heppnaður,“ segir Hilmir Berg Ragnarsson, einn aðstandenda Mono brewing project.

Festivus varð til í skugga veirufaraldurs

Bjórmenning | 10. desember 2020

Bruggarar Mono og Borgar skáluðu fyrir samstarfi sínu - en …
Bruggarar Mono og Borgar skáluðu fyrir samstarfi sínu - en héldu öruggri fjarlægð með stálgrind á milli. Ljósmynd/Hari

„Það var auðvitað mjög skrítið að geta ekki hist allir í brugghúsinu og átt góðan dag. Það virkaði hins vegar ágætlega að gera þetta í gegnum Zoom og bjórinn er vel heppnaður,“ segir Hilmir Berg Ragnarsson, einn aðstandenda Mono brewing project.

„Það var auðvitað mjög skrítið að geta ekki hist allir í brugghúsinu og átt góðan dag. Það virkaði hins vegar ágætlega að gera þetta í gegnum Zoom og bjórinn er vel heppnaður,“ segir Hilmir Berg Ragnarsson, einn aðstandenda Mono brewing project.

Í vikunni kom í vínbúðir bjórinn Festivus sem er afrakstur samstarfs Mono og Borgar brugghúss. Flestir þekkja til hins síðarnefnda enda hefur Borg verið stórtækt á markaði handverksbjóra síðastliðinn áratug. Mono er á hinum endanum; ungt og fremur smátt í sniðum en hefur þótt koma með ferska vinda inn á markaðinn.

Samstarfsbruggið fór fram í gegnum Zoom.
Samstarfsbruggið fór fram í gegnum Zoom.

Flöktandi netsamband en samt stuð

Samstarfsverkefni sem þetta eru algeng í bjórheiminum og fela það jafnan í sér að bruggarar frá tveimur brugghúsum kasta hugmyndum sín á milli og eyða svo degi saman við framleiðsluna. Á tímum kórónuveirunnar er það ekki auðvelt í framkvæmt og því var brugðið á það ráð að samstarfsbruggið færi fram í gegnum Zoom.

„Sambrugg eru stór og mikilvægur partur af þessum handverksbruggaraheimi nútímans auk þess að vera eitt það skemmtilegasta sem maður gerir sem bruggari. Það er alltaf lærdómsríkt og gefandi að skapa með ólíku fólki, skiptast á hugmyndum og reynslusögum og prófa nýja hluti. Í ljósi aðstæðna er óhætt að segja að þetta hafi verið óhefðbundið og þá sérstaklega bruggdagurinn sem var talsvert leiðinlegri en hann hefði getað orðið,“ segir Árni Theodór Long, bruggmeistari hjá Borg. „Flöktandi netsamband og flatleiki samskiptamátans drógu auðvitað talsvert úr lífinu en við gerðum það skásta úr þessu. Og bjórinn er frábær,“ segir Árni.

Tveggja metra reglan var virt þegar bruggararnir fögnuðu afrakstri samstarfsins …
Tveggja metra reglan var virt þegar bruggararnir fögnuðu afrakstri samstarfsins - og rúmlega það. Ljósmynd/Hari

Nafnið vekur mikil viðbrögð

Festivus er svokallaður hveiti IPA og segir Hilmir að hann sé algjör „humlaveisla“. Nafnið á bjórnum vekur óneitanlega athygli og ekki er ólíklegt að margir glotti við tönn þegar rifjað er upp hvert það er sótt. Hilmir segir að þar sem bjórinn kemur í verslanir skömmu fyrir jól en er samt ekki jólabjór hafi auðvitað legið beint við að nafnið endurspeglaði það. Hann fékk þá hugmynd að leita í smiðju hinna goðsagnakenndu sjónvarpsþátta Seinfeld. Þar var í einum þætti fjallað um hátíðina Festivus sem fór fram 23. desember og var eins konar trúlaus mótvægishátíð við jólin.

„Þetta nafn hefur vakið mikil viðbrögð. Það er ótrúlegt að sjá áhugann á þessum þáttum enn þann dag í dag,“ segir Hilmir.

Færeyingar pöntuðu Festivus

„Við byrjuðum á þessu fyrir 3-4 árum síðan,“ segir Hilmir um tilurð Mono. „Fyrst með litlu tilraunabrugghúsi í Grafarvogi en hægt og hægt þróaðist það út í eitthvað meira. Við höfum farið á milli brugghúsa og unnið með öðrum en líka gert okkar eigin bjóra,“ segir Hilmir en bjórar Mono vöktu til að mynda mikla eftirtekt á bjórhátíðum á Kex hostel meðan þær voru og hétu. Eftir það hefur Mono látið til sín taka í brugghúsum á borð við Malbygg, Ölverk, RVK Brewing og Ægisgarði. „Við sjáum það fyrir okkur að fara lengra með þetta í framtíðinni. Það er alltaf eitthvað í gangi hjá Mono,“ segir hann ennfremur.

Festivus er eins og áður segir kominn í sölu í vínbúðum og segir Hilmir að um afar takmarkað upplag sé að ræða. „Þetta á sjálfsagt eftir að fljúga út úr ríkinu. Svo voru Færeyingar eitthvað spenntir fyrir Festivus líka. Það voru víst sendir þrír kútar þangað. Við erum því farnir að brjóta niður landamæri,“ segir hann í léttum tón. 

mbl.is