Missti lífsviljann vegna ófrjósemi

Ófrjósemi | 19. desember 2020

Missti lífsviljann vegna ófrjósemi

Flugmaðurinn Andri Hrafn Agnarsson og eiginkona hans Sara Petra Guðmundsdóttur eignuðust sitt annað barn í sumar. Það reyndist þeim Andra Hrafni og Söru Petru erfitt að stofna fjölskyldu en Andri Hrafn glímir við ófrjósemi. Andri Hrafn upplifði mikla vanlíðan eftir að hann fékk greininguna en er í dag hamingjusamur tveggja barna faðir óháð genasamsetningu dætra sinna. 

Missti lífsviljann vegna ófrjósemi

Ófrjósemi | 19. desember 2020

Andri Hrafn Agnarsson er faðir tveggja stúlkna í dag. Hér …
Andri Hrafn Agnarsson er faðir tveggja stúlkna í dag. Hér er hann á góðum degi með eiginkonu sinni og eldri dóttur. Ljósmynd/Aðsend

Flugmaðurinn Andri Hrafn Agnarsson og eiginkona hans Sara Petra Guðmundsdóttur eignuðust sitt annað barn í sumar. Það reyndist þeim Andra Hrafni og Söru Petru erfitt að stofna fjölskyldu en Andri Hrafn glímir við ófrjósemi. Andri Hrafn upplifði mikla vanlíðan eftir að hann fékk greininguna en er í dag hamingjusamur tveggja barna faðir óháð genasamsetningu dætra sinna. 

Flugmaðurinn Andri Hrafn Agnarsson og eiginkona hans Sara Petra Guðmundsdóttur eignuðust sitt annað barn í sumar. Það reyndist þeim Andra Hrafni og Söru Petru erfitt að stofna fjölskyldu en Andri Hrafn glímir við ófrjósemi. Andri Hrafn upplifði mikla vanlíðan eftir að hann fékk greininguna en er í dag hamingjusamur tveggja barna faðir óháð genasamsetningu dætra sinna. 

Andri Hrafn hefur í mörg ár talað opinskátt um glímuna við ófrjósemi. Hann segir ítarlega frá sögu sinni í hlaðvarpsþættinum 1 af 6. Sagan sem breytti lífi mínu. Saga Andra Hrafns er mikilvægt innlegg í umræðu sem fylgir oft skömm, sérstaklega á meðal karlmanna.

„Ég veit ekki hvort ég á að kalla þetta tabú, en það er vissulega þannig að við karlmenn viljum síður tala um þessa hluti. Ég skil það mjög vel því mér hefur aldrei liðið jafn illa á ævinni eins og mér leið á þessum tíma. Mér fannst ég ekki þekkja manninn í speglinum, ég þurfti að kynnast sjálfum mér alveg upp á nýtt,“ segir Andri Hrafn um líðan sína áður en hann eignaðist eldri dóttur sína. 

Eldri dóttir Andra Hrafns ber ekki gen hans er það …
Eldri dóttir Andra Hrafns ber ekki gen hans er það skiptir ekki máli. Ljósmynd/Aðsend

Missti tilganginn með lífinu

Árið 2012 fékk Andri Hrafn þær fréttir að hann væri ófrjór. „Ég átti mjög erfitt með allar þær tilfinningar og hugsanir sem ég fór í gegnum. Ég spurði mig stanslaust að því hvers konar karlmaður ég væri. Ég hafði alltaf séð mig fyrir mér sem pabba og aldrei átti ég von á því að það yrði eitthvert vandamál. Ég hugsaði „af hverju ég“ og vorkenndi sjálfum mér alveg rosalega mikið.“

Andri Hrafn skammaðist sín og varð þuglyndur. Honum fannst enginn skilja það sem hann var að ganga í gegnum. Hann forðaðist félagslegar aðstæður og vildi helst bara vera heima. Á þessum tíma gekk hann með flugmannsdraum í maganum en fljótlega fór honum að verða sama. Hann segist hafa misst allan tilgang með lífinu. Vanlíðan Andra Hrafns hafði líka áhrif á samband hjónanna. „Ég var með ofboðslega mikið samviskubit að halda henni í sambandi með mér. Ég vildi slíta sambandinu en hún leyfði því ekki að gerast.“ 

Sæðisgjafi gerði drauminn að veruleika

„Eftir að hafa náð áttum og þegar ég hafði náð að sætta mig við mitt nýja hlutskipti í lífinu tókum við ákvörðun um að eignast barn með gjafasæði. Við ræddum það að ættleiða en okkur langaði bæði svo mikið að upplifa það að Sara Petra yrði ólétt og hvernig það væri að koma barni í þennan heim. Fjárhagslega vissum við að þetta yrði erfitt.“

Það er ekki ókeypis að fara í tæknifrjóvgun og hjónin ekki búin að koma sér eins vel fyrir fjárhagslega og í dag. Á sama tíma missti Andri Hrafn einnig vinnuna svo allt virtist vinna á móti þeim. Eftir að Andri Hrafn talaði opinberlega um ófrjósemi í sjónvarpsviðtali settu vinir þeirra af stað söfnun. Fyrsta tilraunin tókst ekki en sem betur fer gekk allt upp í tilraun tvö og Ísafold Von fæddist sumarið 2014. 

Telpurnar Ísafold Von og Viktoría nótt eru augasteinar föður síns.
Telpurnar Ísafold Von og Viktoría nótt eru augasteinar föður síns. Ljósmynd/Aðsend

Nýja áhyggjur kviknuðu

Þau Andri Hrafn og Sara Petra eignust annað barn sitt í haust en þá þurfti sjö meðferðir til, einnig með gjafasæði. Í dag skiptir það Andra Hrafn ekki máli að dætur hans beri ekki gen hans en honum leið öðruvísi til að byrja með.

„Fyrst um sinn eftir að ég greindist átti ég ofsalega erfitt með þá tilhugsun að ég myndi aldrei geta eignast barn með mínu DNA. Sú skoðun breyttist með tímanum en það tók tíma. Eftir að eldri dóttir okkar fæddist tengdist ég henni strax. Ég sat með hana í fanginu eftir fæðingu og ég grét og grét. Ég var orðinn pabbi. Allt sem ég hafði óskað mér hafði ræst.“

Áhyggjur um að verða ekki pabbi viku fyrir öðrum áhyggjum þegar eldri dóttir þeirra kom í heiminn. Hann fór velta fyrir sér hvaða áhrif þetta hefði á dóttur sína þegar hún yrði eldri. „Ég hreinlega velti því fyrir mér hvort hún myndi jafnvel hafna mér. Mér fannst ég aftur ekki hafa neinn til þess að tala við og upplifði mig algjörlega einan í heimi þegar ég hugsaði um þessa hluti. Þetta olli því aftur að ég fór að verða kvíðinn og leið illa í eigin skinni. Þetta voru ekki stanslausar áhyggjur samt sem áður, þær komu og fóru.“

Í dag skiptir genasamsetning dætra hans engu máli. Því til staðfestingar bendir Andri Hrafn á að þegar þau ákváðu að eignast annað barn var þeim bent á að hann gæti eignast barn með eigin frumum með hjálp nýrrar tækni í Svíþjóð. Andri Hrafn hafnaði því algjörlega og vildi að öll börnin sín væru í sömu stöðu. Sara Petra var alveg sammála eiginmanni sínum.

Hugsuðu ekki um neitt annað á tímabili

Ferðalag þeirra Andra Hrafns og Söru Petru í gegnum frumskóg ófrjóseminnar er átta ára langt. Þrátt fyrir mikla vanlíðan og erfiðleika horfir Andri Hrafn á jákvæðu hliðarnar í dag. Fyrst um sinn gekk illa að njóta lífsins á meðan þau biðu eftir barninu sem þau þráðu. 

„Það breyttist allt í lífi okkar við þessar fréttir og við þetta ferðalag. Þessi lífsreynsla hefur breytt mér og okkur. Það leið ekki dagur þar sem ég hugsaði ekki um þetta. Ég var með endalausar áhyggjur af því að fá kannski aldrei að verða pabbi. Þó svo þunglyndið hafi aldrei tekið mig á þann stað að ég hugsaði um að svipta mig lífi fannst mér tilgangur minn horfinn og mér var í raun alveg sama þó svo ég myndi ekki vakna daginn eftir. Þetta var óbærilegt fyrir konuna mína á tímabili. Þegar við byrjuðum í fyrstu meðferð má segja að tíminn hafi staðið í stað, við hugsuðum ekki um neitt annað og okkur fannst allt vera undir að þetta heppnaðist hjá okkur. Þrá okkar að verða foreldrar var ofar öllu öðru.“

Sara Petra er kletturinn í lífi Andra Hrafns.
Sara Petra er kletturinn í lífi Andra Hrafns. Ljósmynd/Aðsend

Andri Hrafn Hann fullyrðir að svona ferðalag annaðhvort rústi eða styrki sambönd. Í tilviki Andra Hrafns og Söru Petru færðust þau nær hvort öðru og þakkar Andir Hrafn það styrk Söru Petru. 

„Ég vildi að ég hefði getað talað meira um tilfinningar mínar við konuna mína fyrst um sinn en ég bara gat það ekki. Ég var algjörlega ráðalaus og dofinn af sársauka. Ég er búinn að segja það oft. Ég á Söru Petru líf mitt að þakka. Hún bjargaði mér.“

Skammast sín ekki

Hvernig pabbi ert þú?

„Dætur mínar eru mér það allra mikilvægasta í lífinu. Ég mun aldrei gleyma því að það var ekki sjálfsagt að eignast þær. Ég vel það oftast fram yfir allt annað að eyða tíma með þeim. Að fá að vera pabbi þeirra eru án efa mestu forréttindi sem mér hefur verið sköffuð í lífinu og það eitt að fá tækifæri til að skipta á enn einni kúkableyjunni gerir mig hamingjusaman.“

Það er ekki sjálfgefið að eignast börn segir Andri Hrafn.
Það er ekki sjálfgefið að eignast börn segir Andri Hrafn. Ljósmynd/Aðsend

Fólk getur hlustað á ítarlegri sögu Andra Hrafns í sex þáttum í hlaðvarpinu 1 af 6. Sagan sem breytti lífi mínu. 

„Það hefði breytt öllu fyrir mig fyrir átta árum ef ég hefði getað sest niður og hlustað á svona hlaðvarp og tengt við einhvern í sömu sporum. Ég hefði kanski ekki verið jafn einmana og ég var. Mig langar alls ekki að loka á þetta og ég mun aldrei reyna að vera einhver annar en ég er. Það er mér ekkert mikilvægara en að sýna dætrum mínum tveimur að ég skammast mín akkúrat ekki neitt fyrir þetta. Ef ég skammast mín fyrir þetta, af hverju ættu þær þá ekki að gera það?

Ég segi frá öllum þeim tilfinningum sem ég barðist við. Margar tilfinningar sem ég vissi oft og tíðum ekki hvort ég ætti rétt á að finna fyrir. Ég hafði engan til þess að tala við. Ég vil ekki segja að ég voni að fleiri opni sig og ræði ófrjósemi sína því ég veit hversu erfitt þetta er en ég vona að sagan okkar hjálpi einhverjum sem hlustar á hana,“ segir Andri Hrafn um þættina og áréttar að það að eignast barn sé allt annað en sjálfsagt mál. 

mbl.is