„Það er búið að gerast mjög margt í því að teikna upp það fyrirtæki sem við sáum fyrir okkur fyrir tveimur árum og ættum að vera mjög vel í stakk búin að þjónusta okkar viðskiptavini á næsta ári,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood.
„Það er búið að gerast mjög margt í því að teikna upp það fyrirtæki sem við sáum fyrir okkur fyrir tveimur árum og ættum að vera mjög vel í stakk búin að þjónusta okkar viðskiptavini á næsta ári,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood.
„Það er búið að gerast mjög margt í því að teikna upp það fyrirtæki sem við sáum fyrir okkur fyrir tveimur árum og ættum að vera mjög vel í stakk búin að þjónusta okkar viðskiptavini á næsta ári,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood.
Hann segir töluverðum árangri náð á árinu bendir á að fyrirtækið hefur samþætt vinnsluna í Bretlandi, styrkt eininguna á Írlandi og stigið síðasta skrefið í samruna Iceland Iberica og Iceland Seafood og með því sameinað alla vinnslu á Spáni á einn stað í Barselóna.
Beðinn um að rýna í mögulega stöðu á mörkuðum á næsta ári svarar hann: „Þetta er eins og flest annað um þessar stundir sveipað mikilli óvissu. Það mun skipta okkur miklu máli hvernig Norðmenn koma inn á markaðinn á vertíðinni í sambandi við verðþróun og annað. Auðvitað horfir maður með bólusetningarbjartsýnisaugum á næsta ár og nú er spurning hvenær en ekki hvort hlutirnir komast í eðlilegt horf.“
Þekkt er að mikilvægt tímabil fyrir íslenskar afurðir í Suður-Evrópu hefst á föstunni auk þess sem páskasalan skiptir verulegu máli. „Tímasetningar bólusetninga á þessum svæðum munu hafa áhrif til skemmri tíma, hvort þetta verður fyrir eða eftir páska,“ segir Bjarni, en ekkert varð af páskavertíðinni í ár vegna kórónuveirufaraldursins.
„Eins og við horfum á þetta núna þá heyrist okkur að þetta hjarðónæmi mun ekki nást fyrr en eftir páska. Þetta hefur alltaf verið að færast framar, það er að segja áætlanir heilbrigðisyfirvalda um bólusetningar, en ég held að við munum ekki sjá breytingu fyrr en lyfjastofnun Evrópu heimilar þessi bóluefni og það koma frekari fréttir um hvenær fyrirtæki geta afhent vörur. En eins og við sjáum í Bretlandi gerast hlutirnir hratt þegar bólusetning fer af stað.“
Iceland Seafood hefur verulega viðveru í Bretlandi og segir Bjarni brexit án samkomulags um tilhögun viðskipta milli Breta og innri markaðar Evrópu hæglega geta skapað erfiðleika í virðiskeðjunni.
„Eitt eru beinar afleiðingar af því að samningar takast ekki. Þá koma á tollar á vöru og þjónustu sem munu riðla markaðnum. Einhverjir munu njóta einhvers góðs af því, en langflestir verða fyrir skaða. Það stafar af því að innviðirnir í Bretlandi virka þá ekki sem skyldi og við erum farin að finna verulega fyrir því eins og í höfninni í Southampton sem tekur við vörum frá Asíu og svo framvegis. Svo eru ýmis atriði sem varða akstur vörubíla, og aðgengi að frystigeymslum er orðið mjög takmarkað.“
„Það er bara orðið þannig í nútímasamfélögum að það er gert ráð fyrir að hlutirnir gangi greiðilega og hratt fyrir sig og svo gerast svona stórir hlutir á pólitískum vettvangi sem breyta leikreglunum og þá verða menn fyrir skaða nánast sama hver útkoman er,“ útskýrir hann.
Við bætast áhrifin sem brexit kann að hafa á starfsemi fyrirtækisins á Írlandi sem er enn innan sambandsins. „Þær hrávörur sem við kaupum þar koma til að mynda frá Skotlandi í um 70% tilfella eða með flutningsleiðum í gegnum Bretland. Þetta eru aðallega ferskar afurðir og það er mjög erfitt að undirbúa þessa þætti fyrir breytinguna. Við höfum reynt að búa til aðrar leiðir til að kaupa vörur en þetta helst í hendur við breytingar á flutningsleiðum og það er ekki hægt að skipuleggja langt fram í tíma nema leggja í það töluverða fjármuni og þá verða menn ósamkeppnishæfir. Maður vonar bara að það verði fundnar einhverjar lausnir sem búa ekki til öngþveiti.“
Bjarni segir fiskvinnslu í Bretlandi hafa dregist aftur úr. „Það sem gerst hefur þar er að vinnslueiningar hafa flust til Austur-Evrópu og umsvifin minnkað í Bretlandi sjálfu. En með aukinni sjálfvirknivæðingu og betri vinnsluferlum, eins og er að gerast á Íslandi, er hægt að gera hlutina ódýrari og betri. Við ákváðum að taka þessar tvær vinnslur sem við erum með í Bradford og Grimsby og fjárfesta í einni stórri vinnslu. Þetta verður með stærri vinnslum í Bretlandi og okkar markmið er að ná hundrað milljón punda veltu í þeirri vinnslu á næsta ári.“
„Við erum að reyna að laga okkur að því að fullvinna vörur eins nálægt áfangastað og hægt er, hvort sem varan er frá Indlandi eða Kína. Við teljum að í þessu brexit-ástandi tryggjum við betur afhendingaröryggi viðskiptavina okkar í Bretlandi sem eru þessar stóru smásölukeðjur. Við hyggjumst sömuleiðis sækja fram í hótel- og veitingageiranum, en það hefur verið ákveðin eyðimerkurganga á þessu ári,“ segir Bjarni og vísar til lokunar stórra kúnna svo sem Ikea og stórra kráarkeðja.
Fyrirtækið hefur fjárfest töluvert á Írlandi undanfarin ár og þjónustar nú allar smásölukeðjurnar þar í landi. Þá sé Iceland Seafood nú langstærsti aðilinn sem þjónustar smásölugeirann þar í landi með sjávarafurðir að sögn Bjarna. „Þar erum við að meðhöndla um 60 mismunandi fisktegundir og er um helmingur magnsins lax og fjórðungur þorskur.“
Hann segir mikinn styrk fyrir samsteypuna að vera með framleiðslu sem stýrt er sérstaklega inn á smásölumarkaðinn. „Við keyptum nýverið fyrirtæki sem er í laxareykingum og rækjukokteilagerð. Þetta skapar gott jafnvægi fyrir samsteypuna því þarna erum við alfarið í ferskum og reyktum vörum og erum mun meira kaupendamegin en seljendamegin. Alfarið inni á smásölu – þar hefur gengið mjög vel í þessu Covid-ástandi. Eins og við þekkjum hefur neysla færst af veitingastöðum inn í smásöluna og fólk gerir meira vel við sig heima.“
„Það er mikilvægt fyrir okkur innan Iceland Seafood-fjölskyldunnar að það séu einingar sem geti gengið vel á meðan öðrum gengur illa og öfugt. Þannig að áhættustýringarlega séð er þetta mikilvægt og írski markaðurinn er áhugaverður til lengri tíma litið. Líka áhugavert að sjá hvaða árangri þeir hafa náð í lífrænt ræktuðum laxi, því meira en tvöfalt hærra verð fæst fyrir þær afurðir í dag en hefðbundar afurðir.“
Viðtalið við Bjarna var fyrst birt í sérblaði 200 mílna sem dreift var með Morgunblaðinu 12. desember.