Þetta ár hefur verið erfitt og undarlegt fyrir flesta vegna veirufaraldursins, þar á meðal Einar Árna Jóhannsson, þjálfara körfuboltaliðs karla í Njarðvík. Liðið hans hefur ekkert getað spilað síðan í október og óljóst er hvenær keppni getur hafist á ný í Dominos-deildinni.
Þetta ár hefur verið erfitt og undarlegt fyrir flesta vegna veirufaraldursins, þar á meðal Einar Árna Jóhannsson, þjálfara körfuboltaliðs karla í Njarðvík. Liðið hans hefur ekkert getað spilað síðan í október og óljóst er hvenær keppni getur hafist á ný í Dominos-deildinni.
Þetta ár hefur verið erfitt og undarlegt fyrir flesta vegna veirufaraldursins, þar á meðal Einar Árna Jóhannsson, þjálfara körfuboltaliðs karla í Njarðvík. Liðið hans hefur ekkert getað spilað síðan í október og óljóst er hvenær keppni getur hafist á ný í Dominos-deildinni.
Tæpt ár er liðið síðan síðasti nágrannaslagur Njarðvíkur og Keflavíkur fór fram í karlaflokki en margir horfa til þessara leikja með mikilli eftirvæntingu á hverju ári.
Einar Árni er rétti maðurinn til að spyrja út í þessar viðureignir því hann hefur mikla reynslu af því að etja kappi við nágrannana í Keflavík og eru margir leikirnir orðnir sögufrægir. Hann segist finna það á ýmsan máta hversu leikirnir á móti þeim eru á allt öðrum stalli en aðrir leikir í deildinni. Þessir leikir uppfylla sömuleiðis forsendur Viðars Halldórssonar, prófessors í félagsfræði, fyrir góðum nágrannaslag. Iðulega er stutt á milli liðanna í getu, þau eru staðsett á svipuðum stað og einhver söguleg tenging er á milli þeirra.
Einar Árni segir undirbúninginn fyrir leikina gegn Keflavík allt öðruvísi en fyrir aðra leiki og nefnir sem dæmi leik á móti nágrannaliðinu sem var háður á óvenjulegum tíma, eða 30. desember 2005 í Ljónagryfjunni í Njarðvík, sem heitir réttu nafni Njarðtaksgryfjan. Til stóð einmitt til að liðin myndu keppa í deildinni í dag, 27. desember, en því þurfti að fresta af sóttvarnaástæðum.
Fyrir fimmtán árum var Njarðvíkurliðið frekar ungt og æfðu menn „svakalega vel“ dagana fyrir jól og yfir hátíðarnar til að vera sem best undirbúnir fyrir rimmuna.
„Andrúmsloftið á æfingunum í aðdraganda þessa leiks var eiginlega alveg sturlað. Við vorum þarna með Jeb Ivey hjá okkur [Bandaríkjamaðurinn Ivey setti heimsmet með því að skora þriggja stiga körfu í 177 leikjum í röð]. Hann segir við mig eftir eina æfinguna: „Ég hef bara aldrei kynnst svona aðstæðum. Maður er kominn á þann stað að maður er eiginlega hræddur um að meiða sig.“ Þá voru menn bara mjög fastir fyrir,“ segir Einar Árni og nefnir að bakvörðurinn Guðmundur Jónsson hafi tekið hressilega á Ivey á æfingum, auk þess sem Brenton Birmingham hafi fengið að finna fyrir því.
„Við fórum í þennan leik og unnum fantagóðan sigur [108:84] og þetta eru alltaf sætustu sigrarnir, það verður að segjast eins og er. Ég man að Jeb sagði við mig að hann hefði aldrei komið jafnundirbúinn í kappleik og þá því að Keflvíkingarnir þóttu harðir í horn að taka og fastir fyrir og aðferðafræðin þessleg að Siggi Ingimundar [Sigurður Ingimundarson, þáverandi þjálfari Keflavíkur] lét þá dansa á línunni og oft skautuðu þeir yfir hana. Það var einhvern veginn léttvægt fyrir mína menn í þeim leik af því að þeir voru búnir að lemja hvern annan svo hressilega þarna yfir hátíðarnar að það fékk lítið á menn þótt Gunni Einars [Gunnar Einarsson] og einhverjir karlar væru að dangla í þá og beita brögðum þegar það kom í þann slag,“ rifjar Einar Árni upp.
„Það er kannski dæmisaga um það að hugarfarið þegar kemur að undirbúningum fyrir þessa leiki er bara svolítið annað. Menn vita að menn eru að fara í stríð. Menn vita að það er svolítið meira undir. Allt tal um þennan montrétt, ég held að fólk hafi ekki alveg skilning á því fyrr en það er búið að vera í þessum aðstæðum og gerir sér grein fyrir hvernig það er að ýmist standa frammi fyrir því að ganga um bæinn með kassann úti eða boginn í baki og láta lítið fyrir sér fara,“ segir hann.
Hann heldur áfram og minnist tímans þegar bræðurnir Sigurður og Valur Ingimundarsynir áttust við í sitt hvoru liðinu og einnig fleiri kappa sem gáfu ekki þumlung eftir inni á körfuboltavellinum, hvernig svo sem menn hegðuðu sér utan hans.
„Þegar menn voru komnir í húsið var þetta bara stríð. Þetta var bara stríðsástand. Margir af þessum strákum voru fínir félagar utan vallar. Spiluðu saman í landsliðinu og voru duglegir að spila saman á sumrin. En þegar menn fóru í annars vegar grænan og í þá daga hins vegar gulan búning eða bláan þá var stríð. Ég fer ekkert ofan af því,“ segir hann ákveðinn.
Einar Árni, sem er 43 ára, á farsælan þjálfaraferil að baki og hefur þrívegis verið kjörinn þjálfari ársins. Hann hóf feril sinn sem þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur árið 1996 og byrjaði síðan sem aðstoðarþjálfari hjá Friðriki Inga Rúnarssyni hjá karlaliðinu 1997. Þeir störfuðu saman út tímabilið 2000 og urðu Íslandsmeistarar 1998 og bikarmeistarar árið eftir. Einar Árni starfaði sem aðalþjálfari Njarðvíkur 2004 til 2007 og stýrði liðinu til sigurs í bikarnum 2005 og í deildinni ári síðar. Hann er núna á sínu þriðja skeiði sem þjálfari karlaliðs Njarðvíkur eftir að hafa í millitíðinni þjálfað Breiðablik og Þór Þorlákshöfn. Fyrrnefnda liðinu kom hann upp í úrvalsdeild og því síðarnefna í fyrsta sinn í bikarúrslitin 2016 og svo aftur árið eftir.
Aðspurður segir hann auðvelt að undirbúa leikmenn fyrir leikina gegn Keflavík. Það er ólíkt sumum öðrum leikjum að því leyti að engu máli skiptir hver staða liðanna er í töflunni í hvert sinn. „Það eru allir meðvitaðir, það eru allir gíraðir. Erlendu leikmennirnir, með því fyrsta sem þeir vita er að þessar viðureignir eru einstakar. Þarna ertu að fara að mæta í leik sem skiptir bara meira máli. Hann snýst um meira en einhver tvö stig. Ég get sagt það blákalt að sú umræða á sér alltaf stað. Ekki það að ég sem þjálfari þarf að kynna það fyrir erlendu leikmönnunum að þeir þurfi að hafa þetta á bak við eyrað þegar kemur að því að mæta Keflavík. Það fellur í skaut stjórnarmanna, það fellur í skaut samherja þeirra leikmanna, það fellur jafnvel í skaut einhverra stuðningsmanna sem leikmenn kynnast hérna á fyrstu skrefunum. Það sem allir vilja koma til skila er að þú verður að passa þig á því að leikirnir tveir við Keflavík þurfa að vinnast,“ útskýrir hann og telur líklegt að hlutunum sé eins háttað í Keflavík.
Að sögn Einars Árna eru viðureignirnar við Keflavík öðruvísi en til dæmis við annan erkifjanda, KR, að því leytinu til að tengingar fólks eru svo víða í samfélaginu í Reykjanesbæ. Menn búa á sama svæði og vinna jafnvel í sama skóla. Sjálfur var hann enn í fjölbraut þegar hann var aðstoðarþjálfari Friðriks Inga og man hversu stemningin var gríðarlega mikil fyrir Keflavíkurleikina. „Þig langaði ekkert að fara í skólann eftir Njarðvík-Keflavík þegar þú tapaðir. Það hefur ekkert breyst. Maður finnur að mátturinn er svo mikill. Þetta eru ekkert bara þjálfararnir og leikmenn. Þetta eru ekkert bara stjórnarmennirnir. Þetta er hinn almenni stuðningsmaður,“ greinir hann frá og bætir við að erfitt hafi verið að versla í hverfisbúðinni með tap á bakinu. „Það reyndi svolítið á því maður vissi alveg sem væri að maður kæmist ekkert í gegnum það að rúlla í gegnum búðina og komast heim öðruvísi en að taka umræðuna.“
Spurður hvað fólk segir við svona aðstæður úti í búð segir hann miklar tilfinningar vera í spilinu þegar leikirnir við Keflavík tapast. Þannig hafi það ávallt verið þótt eitthvað hafi dregið úr því síðustu ár. „Fólkið vissi alveg sem væri að þetta er það sem bíður okkar, að það verði bankað í okkur næstu daga og vikur og maður finnur það enn þann dag í dag eins og á samfélagsmiðlunum að þegar þessir leikir eru þá fara menn alveg á stjá. Fólk sem er á miðjum aldri í dag það dettur alveg í gírinn og hagar sér eins og ég veit ekki hvað. Þetta hefur ekkert breyst,“ segir hann og hlær. „Það var náttúrulega pundað á mann. Þetta var eitthvað sem átti ekkert að vera til í bókinni að tapa fyrir Keflavík.“
Einar Árni starfar einnig sem grunnskólakennari og segir það ólíkt auðveldara að fara í vinnuna eftir sigurleik á móti Keflavík en tapleik. „Maður er ekkert sérlega spenntur fyrir því að ræða hlutina eftir tapleiki og maður veit sem er að þegar leikur á móti Keflavík tapast þá hafa allir skoðun og það finnst öllum eðlilegt að þú beitir þér með öðrum hætti þegar þú mætir þessum nágranna þínum. Þú átt að vera meira „all out“ og það á að skína meiri ástríða og ákefð í þessum leikjum heldur en gengur og gerist,“ bætir hann við.
Sem dæmi um „trúarhitann“ í kringum viðureignirnar nefnir hann að málaraverktakar, stuðningsmenn Njarðvíkur, sem hafi unnið að verkefni hjá Keflavíkingum hafi komið sér hjá því að klára verkið fyrstu dagana eftir tapleik á móti Keflavík, væntanlega til að komast hjá háðsglósum. „Það hefur verið ofboðslega mikið undir þegar það kemur að þessum bardögum og þetta er eitthvað sem maður ólst upp við. Maður fann það í kringum allt þegar maður var í yngri flokkunum að það var bara annað að fara í þetta einvígi. Þetta finnur maður sem [Manchester] United-maður. Að mæta Liverpool er eitthvað annað en hitt. Það er bara sami pakkinn. Maður nennir ekki að hitta „púlarana“ úti á götu.“
Sjálfur kveðst hann hafa verið lukkulegur því honum hafi gengið vel á Sunnubrautinni, heimavelli Keflvíkinga. Þegar hann þjálfaði Breiðablik í úrvalsdeildinni unnu þeir Keflvíkinga í fyrsta sinn í sögunni á útivelli og jafnframt var þetta stærsti sigur nýliða í úrvalsdeild á þáverandi Íslandsmeisturum. Eitt árið með Þór Þorlákshöfn vann liðið tvisvar í röð í deild og bikar, sem voru fyrstu sigrar liðsins í Keflavík frá upphafi. „Þarna er ég með þrjá sigra sem mér þykir afar vænt um,“ segir hann. „Þó að maður sé Njarðvíkingur og að þjálfa annað félag þá var samt ógeðslega gaman að koma í Keflavík og vinna,“ bætir hann við og hlær.
Einar Árni bendir á að þessi gríðarlegi rígur sem hefur ríkt svo lengi á milli Njarðvíkur og Keflavíkur hafi minnkað, þó svo að hann finni vel fyrir sérstöku andrúmsloftinu í aðdraganda leikjanna. Hann segir menn gera sér grein fyrir því að menn eru að fara í stærra og meira verkefni heldur en gengur og gerist og eru tilbúnir að selja sig dýrt til að ná í sigur.
Hann segir samfélagið hafa breyst eftir því sem fólkinu hefur fjölgað með árunum. „Njarðvíkurnar voru á milli tvö og þrjú þúsund og Keflavíkurbær í kringum kannski sjö þúsund í það að verða núna tæplega 20 þúsund manna sameiginlegt bæjarfélag. Þetta var öðruvísi þegar þetta var minna í sniðum. Þetta var svolítið þannig að allir þekktu alla,“ segir hann og nefnir að varðandi körfuna hafi það helst breyst síðustu fimm til sex árin, án þess að vilja kasta nokkurri rýrð á andstæðinginn, að fáir uppaldir Keflvíkingar hafi spilað með liðinu á síðustu árum. „Þess vegna hefur stemningin líka breyst svolítið. Það er bara staðreynd.“
Þjálfarinn nefnir að í fyrra hafi til dæmis enginn uppalinn Keflvíkingur spilað stórt hlutverk í liðinu. Njarðvík hafi aftur á móti náð að halda í kjarnann í þessum efnum. Hann horfir til baka og minnist áranna í kringum 1990 til 2000 þegar Keflvíkingar voru orðnir öflugir í körfu eftir að hafa unnið sinn fyrsta titil 1989. „Það voru tíu manna hópar og þetta var yfirleitt þannig að það voru átta eða níu heimamenn og svo útlendingur og svo í mesta lagi einhver einn aðkomumaður. Þetta var ekkert mikið meira. Þá má segja að þetta hafi verið svolítið í blóðinu,“ segir hann og á þar við bæði nágrannaliðin.
Lítið hefur verið um að þjálfarar hafi stjórnað báðum karlaliðunum og hvað þá að leikmenn fari þar á milli. Njarðvíkingarnir Friðrik Ingi Rúnarsson og Gunnar Þorvarðarson hafa þjálfað Keflavík á meðan Keflvíkingarnir Hrannar Hólm og Sigurður Ingimundarson þjálfuðu Njarðvík á sínum tíma. „Það er rík hefð fyrir heimamönnum hjá báðum félögum í þjálfarastólnum. Frá þjálfara niður í aftasta mann hafa þetta verið að stórum hluta heimamenn og þeir vita hvað klukkan slær. Þeir vita hvað bíður þeirra þegar vel gengur og sömuleiðis þegar illa fer,“ segir Einar Árni og minnist þess ekki að skærustu stjörnurnar í boltanum hafi farið á milli félaganna. Aðeins örfáir heimamenn hafi yfirhöfuð skipt yfir í annað hvort liðið og varla nokkur síðasta áratuginn. „Fyrir suma af þessum örfáu sem hafa farið hefur það ekki reynst mönnum auðvelt að taka það skref.“ Einnig er afar fátítt að krakkar í yngri flokkunum flakki á milli liðanna tveggja.
Í fótboltanum hafa hlutirnir verið öðruvísi, enda hafa Keflavík og Njarðvík oftast verið að spila í hvort í sinni deildinni og rígurinn minni þar á bæ. Leikmenn hafa verið mun duglegir að fara á milli liðanna og á það bæði við um yngri flokkana og meistaraflokkinn. Sumarið 2018 voru bæði liðin reyndar í fyrstu deild og spiluðu þau þrívegis í deild og bikar. Einar Árni fór á fyrsta leikinn og segist hafa upplifað þar stemningu sem hann hafði ekki áður kynnst á fótboltaleik í Njarðvík. Þarna skipti því höfuðmáli að liðin voru loksins etja kappi í sömu deild.
Spurður hvort það komi til greina að þjálfa Keflavík einn góðan veðurdag, rétt eins og lærifaðir hans Friðrik Ingi hefur gert, segist Einar Árni ekki vilja útiloka það. Hann kveðst hafa fengið boð um að taka við yngri flokkum félagsins og kvennaliðinu en á þeim tímapunkti valdi hann frekar að fara í önnur verkefni. Langt er síðan hann ræddi við Friðrik Inga um að það væri ógjörningur að fara yfir lækinn sem þjálfari og taka við Keflavík. Þá sammældust þeir um að körfuknattleiksdeildin í Keflavík hafi í marga áratugi verið mjög metnaðarfull og að ávallt væri miðað hátt á Sunnubrautinni.
Eftir þetta ákvað Einar Árni að útiloka ekkert lið, enda erfiðara að gera slíkt sem þjálfari heldur en leikmanni þegar horft er á atvinnumöguleika. Síðar flutti Friðrik Ingi sig einmitt um set yfir til Keflavíkur. „Nú er ég bara þjálfari Njarðvíkur og það eina sem ég hef áhuga á gagnvart Keflavík er að mæta þeim í keppni,“ segir hann og vonast til þess að liðin fari að mætast aftur í úrslitakeppninni eftir langt hlé. „Ég held að ef bæjarbúar hefðu kosningarétt myndu þeir kjósa um að þessi lið fengju að mætast í seríu fyrr en síðar því það er stemning sem er einstök.“
Þjálfarinn segir titla og þátttöku í Evrópukeppni standa upp úr á sínum ferli, ásamt öllum leikjunum á móti Njarðvík. „Í sama flokk með þessum tveimur „katagoríum“, Evrópuleikjum og þeirri vellíðan sem fylgir að vinna titla, þá fara á hátindinn á ferlinum allar þessar viðureignir Njarðvíkur og Keflavíkur. Það er ótrúlega sérstök stemning. Fyrir mig sem uppalinn Njarðvíking skiptir engu máli hverjir eru að spila fyrir Keflavík hverju sinni, það er bara gaman að taka þennan slag og maður veit að það er meira undir. Maður á skyldfólk hinum megin við lækinn og það er fjör á svo mörgum vígstöðvum í kringum þetta einvígi.“
Hann nefnir úrslitaleikinn í bikarnum gegn Keflavík 1999 sem einn eftirminnilegasta leikinn en þá var hann aðstoðarþjálfari. Þá vann Njarðvík að lokinni framlengingu eftir ótrúlegar lokamínútur í venjulegum leiktíma þegar Njarðvík vann upp gott forskot Keflvíkinga á lokasekúndunum. Síðar sama ár hefndu Keflvíkingar ófaranna og unnu Njarðvíkinga í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn.
„Ég held að það sé átta frekar en níu stiga munur [87:79 fyrir Keflavík] þegar það eru einhverjar 45 sekúndur eftir og menn farnir að tínast út af í báðum liðum með einhverjar fimm villur og það eru margar sögur til af því að okkar fólk var sumt hvert á leiðinni út úr höllinni og einhverjir komnir út í bíl. Ég heyrði sögu af góðri konu sem er mikill stuðningsmaður sem heyrir svo bara í útvarpinu fregnir af því að Njarðvík leiði í framlengingu. Hún var komin áleiðis út úr borginni þegar hún áttar sig á því að hið ótrúlega hafði gerst,“ rifjar hann upp. „Þetta er sannarlega einn af þeim sætari sem við höfum unnið í sögunni og ég er ekki viss um að hann verði toppaður sem slíkur,“ segir hann.
Eins og sagði í upphafi er óljóst hvenær Dominos-deildin hefst á nýjan leik eftir hið langa og erfiða hlé sem hefur verið frá æfingum og leikjum í innanhússíþróttum vegna kórónuveirunnar. Ástandið hefur haft lamandi áhrif á körfuboltann og til að mynda var enginn meistari krýndur eftir síðustu leiktíð. Leikur Njarðvíkur og Keflavíkur sem átti að fara fram í dag hefði orðið sá fyrsti á milli liðanna í tæpt ár, eða síðan liðin mættust í Ljónagryfjunni 16. janúar síðastliðinn þegar Keflvíkingar unnu frekar öruggan útisigur. Einar Árni segir annars um Dominos-deildina í ár að stutt sé á milli liðanna í getu og erfitt að spá fyrir um hvaða lið verða í toppbaráttu.
Blaðamaður var viðstaddur þennan síðasta nágrannaslag og fóru þrengslin í Ljónagryfjunni ekki framhjá honum. „Við grátum það og höfum gert lengi,“ svarar Einar um húsnæðið og segir löngu kominn tíma á nýja körfuboltahöll. Hann segir aðstöðuna ekki góða almennt í húsinu, auk þess sem félagið verði af miklu fé vegna þess að áhorfendurnir gætu verið mun fleiri. Keflvíkingar hafi forskot hvað þetta varðar. „Ég held að það séu heldur margir Keflvíkingar sem velji sér rúmgóðan sófa heima í stofu frekar en að koma í troðninginn í Ljónagryfjunni,“ bætir hann við en tekur þó fram að stemningin þar sé sérstök. „Ég held að það séu margir sem hafa það á tékklistanum að mæta á þennan leik sem eru hlutlausir og upplifa stemninguna og andrúmsloftið sem er alveg einstakt. Það er staðreynd.“
Stjórn UMFN vill sameina alla starfsemi félagsins undir einu þaki við Afreksbraut eins og lesa má nánar um hér. „Keppnisvöllur félagsins ólöglegur. Áhorfenda aðstaða lítil sem leiðir til tekjutaps í stórleikjum. Enginn aðstaða er fyrir upptökulið eða lýsendur kappleikja,“ segir m.a. í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Capacent skilaði af sér á síðasta ári. Þar kemur einnig kemur fram að húsnæði Keflvíkinga við Sunnubraut sé líka barn síns tíma og að hagkvæmast væri að ráðist yrði í byggingu sameiginlegrar íþróttahallar bæði fyrir Njarðvíkinga og Keflvíkinga. Hvorugir aðilar hafa áhuga á þeirri lausn.
Það er ekki annað hægt en að taka undir að andrúmsloftið í Ljónagryfjunni sé einstakt og vonandi fer ástandið að skána svo að hægt verður að keppa aftur fljótlega í körfunni. Kannski verður það þó ekki fyrr en almenn bólusetning hefur farið fram einhvern tímann á næsta ári. Óskin um eitt stykki jólakraftaverk núna á milli jóla og nýárs er að minnsta kosti komin ofan í skúffu og enn er óvíst hvenær Njarðvík og Keflavík geta barist enn og aftur um montréttinn mikilvæga í Reykjanesbæ.
Þessi umfjöllun er hluti af meistaraverkefni í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.