Rimmur Njarðvíkinga og Keflvíkinga í meistaraflokki karla í körfubolta eru fyrir löngu orðnar frægar. Kappar á borð við Rondey Robinson, Teit Örlygsson, Jón Kr. Gíslason og Guðjón Skúlason fóru mikinn á sínum tíma, gáfu ekki þumlung eftir á vellinum og allt var á suðupunkti, hvort sem keppt var á heimavelli Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni eða við Sunnubraut í Keflavík.
Rimmur Njarðvíkinga og Keflvíkinga í meistaraflokki karla í körfubolta eru fyrir löngu orðnar frægar. Kappar á borð við Rondey Robinson, Teit Örlygsson, Jón Kr. Gíslason og Guðjón Skúlason fóru mikinn á sínum tíma, gáfu ekki þumlung eftir á vellinum og allt var á suðupunkti, hvort sem keppt var á heimavelli Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni eða við Sunnubraut í Keflavík.
Rimmur Njarðvíkinga og Keflvíkinga í meistaraflokki karla í körfubolta eru fyrir löngu orðnar frægar. Kappar á borð við Rondey Robinson, Teit Örlygsson, Jón Kr. Gíslason og Guðjón Skúlason fóru mikinn á sínum tíma, gáfu ekki þumlung eftir á vellinum og allt var á suðupunkti, hvort sem keppt var á heimavelli Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni eða við Sunnubraut í Keflavík.
Um tveggja áratuga skeið skiptust þessi lið á því að vinna Íslands- og bikarmeistaratitlana, eða á tíunda áratugnum og fyrsta áratug þessarar aldar. Svo miklir voru yfirburðirnir að einungis þrjú önnur lið fengu að leggja fingur sína á Íslandsbikarinn eftirsótta á þessu langa tímabili frá árinu 1991 til 2010.
Aðeins Grindavík og Snæfell (einu sinni hvort) og KR (þrívegis) náðu að skáka veldi Suðurnesjaliðanna en samanlagt unnu Njarðvík og Keflavík fimmtán Íslandsmeistaratitla af þeim tuttugu sem voru í boði.
Þegar bikarkeppnin er annars vegar unnu þessi fræknu lið svo níu titla af tuttugu.
Í þessari upptalningu má ekki gleyma níunda áratugnum. Hann höfðu Njarðvíkingar meira og minna út af fyrir sig. Fyrsti stóri titill þeirra leit dagsins ljós árið 1981, átta árum á undan Keflvíkingum (ekki eru taldir með titlar ÍKF á sjötta áratugnum). Áður en þeir síðarnefndu komust á bragðið höfðu grænklæddu nágrannarnir þegar tryggt sér átta stóra titla, þar af sex Íslandsmeistaratitla.
Eftir að Keflvíkingar fögnuðu sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli eftir sigur á KR-ingum árið 1989 má segja að rígurinn á milli félaganna hafi hafist af fullri alvöru. Keflavík var ekki lengur litli bróðir sem engin ástæða var fyrir Njarðvíkinga til að taka alvarlega heldur lið sem gat veitt þeim alvöru samkeppni.
Á árunum 1991 til 2010 áttust liðin þrívegis við í úrslitarimmu deildarinnar og þar af unnu Njarðvíkingar tvisvar sinnum. Fjórum sinnum tókust liðin á í bikarúrslitunum í Laugardalshöllinni á þessu tímabili og skiptu þau titlunum bróðurlega á milli sín.
Ef horft er á fjölda Íslands- og bikarmeistaratitla liðanna frá árinu 1982, þegar Keflavík var að spila sitt fyrsta tímabil í úrvalsdeild, og til dagsins í dag standa Njarðvíkingar framar Keflvíkingum. Þeir fyrrnefndu hafa náð 12 Íslandsmeistaratitlum (fyrir utan fyrsta titilinn sem vannst 1981) og 8 bikarmeistaratitlum, eða 20 samanlagt frá 1982, á meðan þeir síðarnefndu hafa náð 9 Íslandsmeistaratitlum og 6 bikarmeistaratitlum, eða 15 í heildina.
Njarðvík vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil árið 1987 en Keflavík árið 1993.
Teitur Örlygsson, körfuboltagoðsögn úr Njarðvík sem er stigahæstur í nágrannaslögunum við Keflavík frá 1982 til 2008, segist vera í góðum samskiptum við fyrrverandi andstæðinga sína úr Keflavík þrátt fyrir að þeir hafi att kappi í fjölda nágrannslaga á sínum tíma þar sem hart var tekist á. „Þetta var rosalegur rígur en svo eru þetta mjög góðir félagar manns í dag þessir strákar. Maður varla talaði við þá á þessum árum, maður var svo grimmur. Svo þroskast maður og fattar að þetta er bara fólk,“ segir Teitur og hlær.
Fékk golfboltann beint í lærið
Í samhengi við þetta rifjar hann upp atvik frá því í sumar þegar hann var að spila golf með Fal Harðarsyni og Alberti Óskarssyni, fyrrverandi leikmönnum Keflavíkur, og Falur sló boltann með drævernum rakleiðis í löppina á Teiti af nokkurra metra færi. „Ég stóð til hliðar við hann og hann hitti hann svona hryllilega. Það sér ennþá á mér, ég fékk hann bara beint í lærið,“ segir hann. Í framhaldinu fóru þeir félagar að tala um rimmur þeirra í gamla daga og sagðist Teitur hafa haldið að menn væru vaxnir upp úr svona löguðu. Albert dekkaði Teit iðulega í þessum nágrannaslögum þar sem ekkert var gefið eftir. „Maður hélt að maður væri búinn með þennan pakka að fá hnéð í lærið frá Alla Óskars viljandi.“
Að öllu gamni slepptu segist Teitur halda „rosalega mikið“ með Njarðvík, sérstaklega á móti Keflavík. „En persónulega er þetta alveg búið hjá mér. Manni er ekki illa við einn eða neinn mann,“ bætir hann við og á þar við óvildina í garð leikmanna Keflavíkur.
Vildi fara heim að sofa eftir sigurinn
Spurður út í eftirminnilegustu nágrannarimmuna nefnir hann úrslitaseríuna árið 1991 þegar Njarðvík vann Keflavík í oddaleik í Ljónagryfjunni. „Þá var þetta stutt á milli leikja og menn voru nánast í einhverju spennumóki og þú komst ekkert í burtu frá því, þetta var svo stórt atriði í bænum. Tvö félög í sama bænum og það var alveg sama hvert þú fórst, það voru alltaf sömu spurningarnar. Það var ekki hægt að fela sig neitt frá þessu,“ greinir hann frá.
Teitur segist muna eftir því hversu mikið hann spilaði í einvíginu, nánast hverja einustu mínútu og hversu „ofboðslega líkamlega þreyttur“ hann var líka að henni lokinni. „Svo man ég þegar síðasti leikurinn var búinn og við unnum, þá var maður úrvinda. Þú gast ekkert einu sinni fagnað þessu. Maður var bara ánægður að þetta var búið, spennufallið var svo mikið. Ég vildi bara fara heim að sofa, þetta var rosalega skrítin tilfinning,“ rifjar hann upp.
Ef meistaraflokkur kvenna er skoðaður er sagan önnur því þar hafa yfirburðir Keflavíkur verið algjörir þegar kemur að titlasöfnun liðanna tveggja frá upphafi. Keflavíkurkonur hafa unnið sextán Íslandsmeistaratitla, síðast árið 2017, á meðan Njarðvík hefur aðeins unnið einn, eða árið 2012 eftir sigur á Haukum. Einn Íslandsmeistaratitill vannst hjá Keflavík eftir sigur á Njarðvík í úrslitum, eða árið 2011.
Til marks um yfirburðina vann meistaraflokkur kvenna í Keflavík alls 12 Íslandsmeistaratitla af þeim 18 sem voru í boði á árunum 1988 til 2005.
Þegar kemur að bikartitlum hefur Keflavík unnið fimmtán sinnum (þar af árin 1996 og 2018 eftir sigur á Njarðvík) á meðan Njarðvík hefur sömuleiðis aðeins einu sinni unnið. Það var árið 2012 þegar liðið vann tvöfalt.
Vert er að nefna að Njarðvík hefur spilað einhver ár í næstefstu deild á meðan Keflavík hefur iðulega verið í toppbaráttunni í þeirri efstu. Nágrannaslagirnir í kvennaflokki hafa því ekki verið jafn áberandi og í karlaflokki í sögulegu samhengi. Viðar Halldórssonar, prófessor í félagsfræði, greindi einmitt frá því viðtali við blaðamann að í týpískum nágrannaslögum keppa liðin meðal annars á jafnréttisgrundvelli, þ.e. eru svipuð í getu. Þannig hefur það iðulega verið hjá Keflavík og Njarðvík í meistaraflokki karla en ekki næstum því eins oft í tilfelli meistaraflokks kvenna, eins og ofangreind tölfræði ber vott um.
Þegar viðureignir Njarðvíkur og Keflavíkur í deildar- og úrslitakeppni karla frá 1982 til dagsins í dag eru skoðaðar eru Njarðvíkingar með naumt forskot. Þeir hafa unnið 65 leiki, þar af 39 á heimavelli, á meðan Keflvíkingar hafa unnið 60, þar af 38 á heimavelli. Ef sigrar í úrslitakeppninni eru eingöngu skoðaðir þá hafa Keflvíkingar aftur á móti unnið fleiri leiki, eða 21, á meðan Njarðvíkingar hafa unnið 18.
Hvað bikarkeppnina varðar hafa liðin unnið sitt hvora 9 leikina innbyrðis frá árinu 1987 til 2020. Athygli vekur að Njarðvík vann 8 af fyrstu 10 viðureignum liðanna á þessu tímabili á meðan Keflavík hefur unnið síðustu fimm leiki.
Þó svo að rígurinn á milli Suðurnesjaliðanna tveggja sé enn til staðar er svo komið að enginn Íslandsmeistaratitill hefur unnist hjá þeim í karlaflokki í tólf ár, eða síðan Keflvíkingar unnu Snæfell árið 2008. Enginn bikartitill hefur heldur unnist í átta ár, eða frá því að Keflavík vann Tindastól 2012 og ljóst að margir eru orðnir langeygir eftir breytingu þar á (Reykjanes)bæ. Það sem meira er þá eru liðin átján ár síðan félögin áttust síðast við í úrslitum deildarinnar í karlaflokki og sextán síðan þau öttu kappi í bikarúrslitunum. Hvað veldur þessari lægð er erfitt að segja til um en KR-ingar hafa að minnsta kosti einokað sviðið undanfarin ár þegar kemur að Íslandsmótinu.
Reykjanesbær stendur betur að vígi í kvennaflokki því eins og áður sagði eru aðeins þrjú ár liðin síðan síðasti Íslandsmeistaratitill vannst þar. Þá bar Keflavík sigurorð af þáverandi meisturum Snæfelli eftir að hafa unnið þrjár úrslitaviðureignir og tapað einni. Sömuleiðis eru aðeins tvö ár síðan síðasti bikarmeistaratitill vannst eftir nágrannarimmu Keflavíkur og Njarðvíkur.
Þessi umfjöllun er hluti af lokaverkefni í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.