Kamilla Sól Viktorsdóttir er tvítug körfuboltakona úr Keflavík. Hún náði aðeins að spila einn leik í haust, rétt eins og restin af liðinu, því Covid-19-smit kom upp hjá liðsfélaga hennar eftir leik KR og Keflavíkur í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar seint í september. Það varð til þess að bæði liðin þurftu að fara í sóttkví. Kamilla Sól var sú eina í Keflavíkurliðinu sem einnig smitaðist af veirunni.
Kamilla Sól Viktorsdóttir er tvítug körfuboltakona úr Keflavík. Hún náði aðeins að spila einn leik í haust, rétt eins og restin af liðinu, því Covid-19-smit kom upp hjá liðsfélaga hennar eftir leik KR og Keflavíkur í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar seint í september. Það varð til þess að bæði liðin þurftu að fara í sóttkví. Kamilla Sól var sú eina í Keflavíkurliðinu sem einnig smitaðist af veirunni.
Kamilla Sól Viktorsdóttir er tvítug körfuboltakona úr Keflavík. Hún náði aðeins að spila einn leik í haust, rétt eins og restin af liðinu, því Covid-19-smit kom upp hjá liðsfélaga hennar eftir leik KR og Keflavíkur í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar seint í september. Það varð til þess að bæði liðin þurftu að fara í sóttkví. Kamilla Sól var sú eina í Keflavíkurliðinu sem einnig smitaðist af veirunni.
Eftir að smitið kom upp í liðinu leið ekki á löngu þar til öllum leikjum í deildinni var frestað vegna hertra sóttvarnareglna og enn er óljóst hvenær hún hefst aftur. Þetta ár hefur því verið ansi strembið fyrir körfuboltafólk því Dominos-deildum karla og kvenna var einnig aflýst í mars vegna kórónuveirunnar, án þess að nokkur Íslandsmeistari væri krýndur þetta árið.
Fyrir utan það að vera efnileg körfuboltakona hefur Kamilla Sól það á ferilsskránni að hafa spilað bæði með meistaraflokki Keflavíkur og erkifjendum þeirra í Njarðvík. Ekki nóg með það því kærastinn hennar, Njarðvíkingurinn Jón Arnór Sverrisson, hefur einnig spilað með báðum liðum, þó svo að hann hafi aðeins verið um skamma hríð á mála hjá Keflavík. Það gerist ekki oft að leikmenn flakka á milli þessara liða og þegar það gerist getur það verið illa séð af eldheitum Njarðvíkingum eða Keflvíkingum sem hafa alist upp við grimmilega nágrannaslagi þessara liða.
Blaðamaður hafði samband við Kamillu Sól í gegnum síma er hún var stödd á heimili sínu í Njarðvík, enda hafa sóttvarnayfirvöld mælt með því að fólk haldi sig sem mest heima við og forðist óþarfa samvistir við aðra til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.
Eftir að kvennalið Keflavíkur hafði lokið sóttkvínni vegna veirusmitsins hófust æfingar að nýju. Spurð hvort hún hafi náð að jafna sig af veikindunum segist hún hafa orðið mun veikari en vinkona hennar í liðinu sem hún smitaðist af. Hún fékk háan hita og beinverki, þá mestu sem hún hefur nokkurn tímann upplifað.
Þegar liðið fór að æfa aftur fundu þær báðar fyrir því hversu mikil áhrif veiran hafði á lungnastarfsemina. „Ég var ekkert rosalega slæm í lungunum þegar ég var veik en svo um leið og maður byrjar að hreyfa sig er eins og maður sé búinn að hlaupa maraþon eftir fimm mínútur,“ greinir Kamilla Sól frá. Fyrst hélt hún að hún myndi sleppa við allar aukaverkanir og gæti byrjað að æfa á fullu á nýjan leik, enda iðulega í góðu formi, en sú varð ekki raunin. Hún þurfti þó ekki að hætta æfingum heldur fór að æfa eins og hún gat í hvert sinn. Hún getur lyft lóðum nokkuð skammlaust og reynir eins og hún getur að hlaupa og hjóla en finnur engu að síður mikinn mun á þolinu. Eftir að sóttvarnareglurnar voru hertar í haust gat liðið ekki lengur æft saman og því hafa leikmenn verið hver í sínu horni með æfingaáætlun frá þjálfaranum.
Kamilla kveðst hafa verið svekkt þegar ákveðið var að flauta síðasta tímabil af vegna veirunnar en skildi ákvörðunina samt vel, enda sjálf hrædd við ástandið og ekkert sérlega spennt fyrir því að hitta marga og keppa við önnur lið. „Það voru allir orðnir svo svakalega hræddir í maí,“ segir hún og telur þetta hafa verið það skynsamlegasta í stöðunni.
Þrátt fyrir að vera mikill körfuboltabær hefur enginn í fjölskyldu Kamillu Sólar spilað með Keflavík og því hvorki hefð né pressa fyrir hendi á heimilinu. Hún byrjaði ekki að æfa körfubolta af alvöru fyrr en hún var komin í fimmta bekk í Heiðarskóla eftir að vinkona hennar dró hana með sér á æfingu. Eftir það varð ekki aftur snúið enda bæði skemmtilegt á æfingum og félagsskapurinn frábær.
Þegar hún er beðin um að nefna átrúnaðargoð sín í æsku segist hún hafa alist upp við að horfa á Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur, Birnu Valgarðsdóttur og félaga þeirra úr Keflavíkurliðinu, sem unnu marga titla á ferli sínum. Mest leit hún upp til Pálínu vegna ástríðu hennar inni á vellinum og varnarleiksins. Sjálf fylgdist Kamilla samt ekki mikið með körfu fyrr en hún byrjaði sjálf að spila með meistaraflokki.
Hún spilaði með Keflavík upp alla yngri flokkana og tapaði ekki leik fyrr en hún var komin í níunda bekk, ótrúlegt en satt! Leikurinn sem tapaðist var bikarúrslitaleikur, sem gerði þetta ennþá meira svekkjandi. Þetta var samheldinn hópur þar sem sömu stelpurnar spiluðu saman ár eftir ár. Innt eftir því hversu margar úr bekknum hennar í Heiðarskóla voru í körfunni nefnir hún töluna átta eða níu. Einhverjar komu svo líka úr Holtaskóla. „Það er magnað hvað maður er búinn að æfa lengi með mörgum af þessum stelpum. Ég er búin að vera að æfa með sumum frá því að ég byrjaði. Það er kannski ástæðan fyrir því að við smellum saman inni á vellinum, að við þekkjum hver aðra ógeðslega vel,“ bendir hún á.
Tímabilið 2018-2019 ákvað hún að söðla um og fara á svokölluðum venslasamningi yfir til Njarðvíkur, sem þá var í fyrstu deildinni, rétt eins og núna. Hún vildi prófa að spreyta sig með öðru liði en einnig spila stærri rullu en áður, enda erfitt að fá mikinn spilunartíma í geysisterku meistaraflokksliði Keflavíkur sem hefur verið í fremstu röð svo áratugum skiptir. Margar uppaldar stelpur voru í Keflavíkurliðinu á sama tíma og erfitt fyrir þær allar að komast að. Úr varð að Kamilla fór yfir í erkifjendurna í Njarðvík.
Hún segir að það hafi vissulega verið mjög skrítið að spila fyrir annað lið en Keflavík en einnig var hún óviss um viðtökurnar sem hún myndi fá, enda „búin að keppa á móti þessum stelpum upp yngri flokka og það er náttúrulega alltaf rosalega mikill rígur, sérstaklega inni á vellinum“, greinir hún frá. „Ég finn alla vega ekki persónulega fyrir neinum ríg utan vallarins en það var smá skrítið að mæta á fyrstu æfinguna. Maður var smá stressaður hvernig yrði tekið á móti sér en svo bara varð það ekkert mál eftir fyrstu æfinguna. Þá var maður strax búinn að venjast þessu þannig séð en það var mjög skrítið að fara í Njarðvíkurbúning. Mér fannst hann ekki alveg jafnflottur og Keflavíkurbúningurinn,“ segir Kamilla og ekki hægt annað en að trúa hverju orði hjá þessum uppalda Keflvíkingi.
Hún kveðst því hafa orðið fyrir litlu aðkasti vegna félagagaskiptanna, sem er ólíkt því sem hún hefur heyrt af sumum öðrum sem hafa farið á milli félaganna tveggja. Einnig segir hún fólk líta það alvarlegri augum ef Njarðvíkingur fer í Keflavík en öfugt. Kærastinn hennar Jón Arnór ákvað einu sinni að breyta til og fara þessa umdeildu leið. Hún segir að fólk hafi verið missátt en alls ekkert brjálað. „Hann varð ekkert fyrir miklu aðkasti þannig séð. Þetta var kannski aðeins alvarlegra áður fyrr.“
Spurð hvort horft sé öðruvísi augum á þessi félagaskipti í karlaboltanum segist hún telja skilninginn vera meiri í kvennaboltanum. Þar skiptir máli að Njarðvík er í fyrstu deildinni í kvennaboltanum á meðan Keflavík er í úrvalsdeildinni og því minni keppni á milli liðanna. „Það er meiri rígur finnst mér í karlaboltanum,“ segir Kamilla.
Það rímar vel við orð Viðars Halldórssonar, prófessors í félagsfræði, sem greindi frá því viðtali við blaðamann að það sem skilgreinir góða nágrannaslagi er meðal annars það að liðin keppa á jafnréttisgrundvelli, þ.e. eru svipuð í getu. Þannig hefur það iðulega verið hjá Keflavík og Njarðvík í meistaraflokki karla en ekki næstum því eins mikið hvað varðar meistaraflokk kvenna þar sem liðin hafa oft spilað í sitt hvorri deildinni.
Fjölskyldu hennar fannst sömuleiðis lítið mál þegar hún skipti úr Keflavík yfir í Njarðvík. „Mamma er úr Njarðvík og pabbi úr Keflavík en þau studdu mig alltaf í þessu. En maður heyrði alltaf svona djók en fólk var ekkert að meina neitt alvöru með því,“ segir hún og bætir við að foreldrum hennar hafi bara fundist skemmtilegt að hún væri að prófa eitthvað nýtt.
Þrátt fyrir að segjast ekki upplifa ríg utan vallar segist hún alltaf vita hver er úr Keflavík og hver er úr Njarðvík. Sjálf fann hún mest fyrir ríg á milli Grindavíkur og Keflavíkur þegar hún spilaði í yngri flokkunum vegna þess að þær voru mjög góðar í hennar árgangi.
Þegar Kamilla spilaði með Njarðvík í fyrstu deildinni var hún enn gjaldgeng í stúlknaflokki í Keflavík og spilaði hún áfram með honum þrátt fyrir að hafa skipt yfir til þeirra grænklæddu. Oft spilaði hún með báðum liðum í sömu vikunni. „Ég var að skipta á milli Keflavíkur- og Njarðvíkurbúnings einu sinni í viku,“ segir hún og nefnir að hún hafi meira að segja spilað á móti liðsfélögum sínum í Njarðvík í stúlknaflokki en flestar úr þeim flokki voru með henni í meistaraflokknum. Hún viðurkennir að þetta hafi verið furðulegur tími þar sem hún lenti einhvern veginn mitt á milli. „Þegar maður er búinn að æfa með Njarðvík og kynnast öllum þessum stelpum og svo allt í einu þarf maður að spila á móti þeim aftur... það var mjög skrítið og ég var mjög stressuð yfir því en það var síðan bara allt í góðu,“ bætir hún við.
Aðspurð segist Kamilla Sól alltaf hafa haft gaman af því að spila í Ljónagryfjunni í Njarðvík vegna smæðar vallarins og hversu nálægt áhorfendurnir eru. Þar er stemningin alltaf góð, að hennar sögn, sama hversu margir eru að horfa. „Þótt ég hafi stundum verið að spila þarna á móti Njarðvík í Keflavíkurbúningi hefur mér alltaf fundist gott að spila þarna og mér fannst það mjög fínn heimavöllur. Mér fannst mjög gaman að spila þarna sem Njarðvíkingur og áhorfendur í Njarðvík eru alltaf mjög mikið að peppa mann,“ greinir hún frá og tekur fram að það hafi verið sérstaklega gaman að spila þar í Njarðvíkurbúningi.
Hún er ánægð með reynsluna sem hún fékk í Njarðvík en þar skoraði hún að meðaltali 17,9 stig í leik. Hún segir engu að síður töluverðan mun vera á milli fyrstu- og úrvalsdeildar. Þegar hún var í Njarðvík var enginn erlendur leikmaður í liðinu og því fengu yngri stelpurnar tækifæri til að láta ljós sitt skína. „Mér gekk alla vega mjög vel á þessu tímabili og ég fann mig alveg mjög vel þarna en mér fannst þetta einhvern veginn aldrei eins og að vera að keppa með Keflavík,“ segir hún og ákvað því að snúa aftur heim. Hún vildi spila með vinkonum sínum sem hún hafði spilað svo lengi með auk þess sem henni leist vel á þjálfarana Hörð Axel Vilhjálmsson og Jón Halldór Eðvaldsson.
„Þegar ég kom til baka fann ég svo mikinn mun á mér, þannig að ég held að þetta hafi gerst svo ótrúlega mikið fyrir mig að hafa farið og prófað eitthvað nýtt. Ég fann svakalega mikinn mun á sjálfstrausti og hvað maður þorði miklu meira þegar maður kom til baka á æfingar. Þetta er alla vega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið og prófað þetta,“ fullyrðir hún.
Nú víkur sögunni aftur að kærasta Kamillu Sólar, honum Jóni Arnóri. Eins og áður sagði ákvað hann fyrir nokkrum árum að skipta úr Njarðvík yfir í Keflavík en fór fljótlega á venslasamning, líkt og hún, yfir til Hamars í Hveragerði. Þar var hann í stærra hlutverki inni á vellinum, naut sín mjög vel og öðlaðist aukið sjálfstraust, að sögn Kamillu. Eftir það fór hann aftur í Njarðvík þar sem hann fékk sífellt stærra hlutverk inni á vellinum. Í haust var hann þó lánaður til Breiðabliks, sem spilar í fyrstu deildinni, og á hann vafalaust eftir að reynast þeim góður liðsstyrkur.
Er ekkert skrítið að þið hafi verið að spila með sitt hvoru liðinu?
„Maður pældi ekkert í því þegar við vorum að kynnast eða neitt þannig en þegar hann hefur keppt á móti Keflavík í meistaraflokki þá veit ég ekki alveg með hverjum ég á að klappa því ég held alltaf með Keflavík en ég held líka með honum þannig að ég er alltaf einhvern veginn að klappa með báðum,“ segir Kamilla, sem hefur greinilega verið á milli steins og sleggju. Hún þarf þó ekki að hafa lengur áhyggjur af því þegar hún fer að horfa á hann spila í búningi Breiðabliks.
Þess má geta að faðir Jóns Arnórs, Sverrir Þór Sverrisson, þjálfaði Kamillu þegar hún kom upp í meistaraflokk Keflavíkur og þær unnu tvöfalt árið 2017. „Við vorum eiginlega nýbyrjuð saman þegar hann tekur við Keflavíkurliðinu 2016 og svo byrja ég í meistaraflokki eftir það. Það var alveg gaman,“ segir hún og hlær en tekur fram að allt hafi gengið vel og tímabilið að sjálfsögðu eftirminnilegt og skemmtilegt með tveimur titlum í húsi.
Sverrir Þór er körfuboltaáhugamönnum annars að góðu kunnur því hann gerði garðinn frægan með Keflavík á sínum tíma og vann með þeim marga stóra titla. Rétt eins og sonur hans spilaði hann einnig með erkifjendunum í Njarðvík, eða í tvö tímabil, án þess þó að vinna stóran titil í grænu treyjunni. Sverrir vann að vísu tvo titla sem þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur árið 2012 þegar það tryggði sér sína fyrstu og einu Íslands- og bikarmeistaratitla til þessa.
Kamilla Sól, sem stundar nám í lífeindafræði við Háskóla Íslands, lítur björtum augum á framtíðina hjá kvennaliði Keflavíkur. Síðasta tímabil sneri hún sig illa og missti töluvert úr en núna ætlar hún að koma sterk inn um leið hún hefur jafnað sig að fullu af kórónuveirunni og deildin getur hafist á nýjan leik.
„Við erum náttúrulega svo ógeðslega margar í þessu liði núna sem erum rosalega ungar. Við erum mjög jafnar, það eru allar sem eru mjög góðar í körfu þannig að maður tekur því ekkert persónulega þó að maður sé ekki í byrjunarliði. Mér finnst vera mikil liðsstemning innan liðsins og ég er bara alltaf bara ánægð fyrir hönd þeirra sem eru að standa sig vel,“ greinir hún frá og vonast vitaskuld til að vinna fleiri titla næstu árin. Ekki skemmir fyrir að yngri stelpur eru farnar að banka á dyrnar suður með sjó. „Við erum að fá upp 16 ára stelpur sem mér finnst vera fáránlega efnilegar. Maður sér að þetta verður svakalega gott lið líka í framtíðinni.“
Sjálf hefur hún spilað með yngri landsliðum Íslands og vonast til að fá einn góðan veðurdag tækifæri með A-landsliðinu. „Það er ógeðslega mikið af góðum stelpum á Íslandi og maður veit ekki hvenær það verður eða hvort en það væri mjög gaman að fá að prófa.“
Þar gæti hjálpað til að hún hefur getið sér gott orð fyrir grimman varnarleik, enda undir áhrifum í æsku frá Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur. Aðspurð segist hún alltaf hafa lagt áherslu á góðan varnarleik því hún hafi ekkert verið sérlega góð í sókninni til að byrja með. Hún segir þjálfarann Jón Guðmundsson hafa lagt sérstaka áherslu á öflugan varnarleik. „Hann peppaði mann mjög mikið í að vera alveg bilaður í vörn og þá kemur allt annað með og ég hef mikið lagt upp úr þessu. En stundum hefur maður alveg dottið í of grófan varnarleik og fengið þrjár villur á fimm mínútum, þannig að þetta hefur sína kosti og galla,“ segir þessi efnilega körfuboltakona og kveður að sinni.
Þessi umfjöllun er hluti af meistaraverkefni í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.