Aftöku frestað á elleftu stundu

Dauðarefsingar | 12. janúar 2021

Aftöku frestað á elleftu stundu

Dómari í Indiana hefur frestað aftöku Lisu Montgomery á elleftu stundu en til stóð að hún yrði tekin af lífi síðar í dag og um leið fyrsta konan sem tekin er af lífi af bandarísku alríkisstjórninni í 68 ár.

Aftöku frestað á elleftu stundu

Dauðarefsingar | 12. janúar 2021

AFP

Dómari í Indiana hefur frestað aftöku Lisu Montgomery á elleftu stundu en til stóð að hún yrði tekin af lífi síðar í dag og um leið fyrsta konan sem tekin er af lífi af bandarísku alríkisstjórninni í 68 ár.

Dómari í Indiana hefur frestað aftöku Lisu Montgomery á elleftu stundu en til stóð að hún yrði tekin af lífi síðar í dag og um leið fyrsta konan sem tekin er af lífi af bandarísku alríkisstjórninni í 68 ár.

Montgomery, sem er 52 ára gömul, hefur setið í fangelsi í 16 ár eftir að hún drap þungaða konu til að stela ófæddu barni hennar. Aftakan átti að fara fram í kvöld að bandarískum tíma í alríkisfangelsinu Terre-Haute í Indiana þar sem flestar aftökur fara fram um þessar mundir. 

Lisa Montgomery.
Lisa Montgomery. AFP

James Hanlon, dómari við Southern District of Indiana, ákvað í gærkvöldi að fresta aftökunni að beiðni lögmanna Montgomerys sem segja að hún sé of veik á geði til þess að vera tekin af lífi. Hún hafi fæðst með heilaskaða og verið beitt hryllilegri misnotkun í barnæsku og á unglingsárum.

Hanlon segir í úrskurðinum að gögn sem lögð voru fyrir dóminn bendi mjög til þess að andleg heilsa Montgomery sé þannig að hún geri sér enga grein fyrir raunveruleikanum og geti alls ekki gert sér grein fyrir réttlætingu ríkisstjórnarinnar fyrir því að taka hana af lífi. Hagsmunir bæði stjórnvalda og þolenda glæpsins eru mikilvægir þegar kemur að því að framfylgja dómi en það er líka almannahagur að það sé tryggt að stjórnvöld taki ekki af lífi fanga sem skilur ekki, vegna geðheilbrigðis, ástæðu þess að dómnum sé framfylgt. 

Hanlon segir að dómurinn muni ákveða hvenær fjallað verður um sakhæfi Montgomery. 

Montgomery, sem gat ekki eignast börn, komst í kynni við Bobbie Jo Stinnett á netinu árið 2004 undir því yfirskini að hún vildi kaupa hvolp. Stinnett var 23 ára gömul og þunguð.  Montgomery kom á heimili Stinnett og kyrkti hana. Síðan skar hún barnið út úr kviði hennar og skildi Stinnett eftir látna í blóðpolli. Árið 2007 var hún dæmd til dauða fyrir morðið.

Engin kona hefur verið tekin af lífi á vegum alríkisstjórnarinnar síðar 1953. Án þess að reyna að draga úr alvarleika glæpsins sem hún framdi þá sóttu lögmenn hennar eftir því við Donald Trump Bandaríkjaforseta að hann sýndi henni vægð í síðustu viku. Trump hefur ekki brugðist við beiðni þeirra en hann er mikill stuðningsmaður dauðarefsinga. 

Frá því í sumar hafa tíu Bandaríkjamenn verið teknir af lífi með banvænni sprautu í Terre-Haute-fangelsinu. Síðar í vikunni á að taka tvo til viðbótar af lífi. Svo getur farið að Montgomery verði ekki tekin af lífi þar sem Joe Biden tekur við embætti forseta eftir átta daga og hann er eindreginn andstæðingur dauðarefsinga. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem aftöku Montgomery er frestað því það var gert í nóvember eftir að lögmenn hennar greindust með Covid-19.

mbl.is