Ofbeldið hófst í móðurkviði

Dauðarefsingar | 12. janúar 2021

Ofbeldið hófst í móðurkviði

Áralöng misnotkun og alvarleg geðræn veikindi valda því að mati lögmanna Lisu Montgomery að hún hafi aldrei verið sakhæf og því hafi ekki átt að dæma hana til dauða líkt og gert var fyrir rúmum 13 árum. Þeir segja að ástand hennar megi rekja allt aftur til þess þegar hún var í móðurkviði.

Ofbeldið hófst í móðurkviði

Dauðarefsingar | 12. janúar 2021

AFP

Áralöng misnotkun og alvarleg geðræn veikindi valda því að mati lögmanna Lisu Montgomery að hún hafi aldrei verið sakhæf og því hafi ekki átt að dæma hana til dauða líkt og gert var fyrir rúmum 13 árum. Þeir segja að ástand hennar megi rekja allt aftur til þess þegar hún var í móðurkviði.

Áralöng misnotkun og alvarleg geðræn veikindi valda því að mati lögmanna Lisu Montgomery að hún hafi aldrei verið sakhæf og því hafi ekki átt að dæma hana til dauða líkt og gert var fyrir rúmum 13 árum. Þeir segja að ástand hennar megi rekja allt aftur til þess þegar hún var í móðurkviði.

Faðir hennar segir að móðir Lisu, Judy Shaughnessy, hafi drukkið ótæpilega alla meðgönguna og dóttir þeirra hafi fæðst með áfengisheilkenni fósturs (fetal alcohol syndrome, FAS) sem er samheiti yfir meðfædd einkenni sem stafa af áhrifum áfengis á fóstur og tengjast því áfengisneyslu móður á meðgöngu.

Einkennin eru meðal annars vaxtarskerðing, þroskaskerðing, hegðunarvandi og útlitseinkenni. Fjölmargar læknisrannsóknir sérfræðinga staðfesta þessa greiningu á Montgomery.

Lögfræðingar Lisu Montgomery hafa tekið um 450 viðtöl við fjölskyldu, vinir, starfsmenn félagsþjónustunnar, lækna og fleiri til að skoða bakgrunn hennar en Montgomery var dæmd til dauða fyrir hrottalegt morð sem hún framdi árið 2004. Taka átti Montgomery af lífi í kvöld og þar með hefði hún orðið fyrsta konan í 68 ár sem er tekin af lífi af bandarísku alríkisstjórninni. Dómari stöðvaði á síðustu stundu aftökuna í gærkvöldi. Aðeins er um frestun að ræða en verjendur hennar hafa óskað eftir því við Donald Trump Bandaríkjaforseta að hann sýni miskunn og hætt verði við aftökuna.

Varað er við því að í greininni er fjallað um hrottalegt ofbeldi og þeim sem eru viðkvæmir ráðlagt að lesa ekki lengra.

Fjölmiðlar víða um heim hafa fjallað um mál hennar undanfarnar vikur enda vakti málið mikla athygli á sínum tíma, ekki síst hversu hrottalegt það var en Montgomery kyrkti unga konu, skar fóstur úr maga hennar og lét sem hún væri móðir barnsins.

Ein þeirra sem hefur tjáð sig er Diane Mattingly, systir Lisu. Hún segir að stundum sé hún þakklát fyrir lífshlaup sitt en um leið full sektar vegna þess að hún lifir tiltölulega eðlilegu lífi á meðan hálfsystir hennar, Lisa Montgomery, bíður örlaga sinna.

Önnur fékk að dafna á meðan hin visnaði 

Mattingly og Montgomery bjuggu á sama heimili þangað til Mattingly var átta ára en systir hennar fjögurra. Þetta var skelfilegt heimilishald segir hún í samtali við BBC. Heimili þar sem líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi var daglegt brauð af hálfu Judy Shaughnessy og sambýlismanna hennar. Mattingly var send í fóstur en Montgomery varð eftir í umsjón móður sinnar. Þær systur hittust næst 34 árum síðar í réttarsal þar sem sú eldri fylgdist með er saksóknarar á vegum bandaríska ríkisins voru að reyna að sannfæra kviðdóm um mikilvægi þess að dæma Montgomery til dauða.

„Önnur systirin er tekin af heimilinu og fer á ástríkt heimili þar sem hún var nærð og fékk tíma til að láta sárin gróa,“ segir Mattingly. „Hin systirin var áfram í þessu ástandi sem versnaði og versnaði. Að lokum var búið að brjóta hana endanlega niður.“

Eitt af því sem lögmenn Lisu halda fram er að hún hafi verið orðin fárveik á geði þegar hún framdi morðið. Undir þetta taka fjölmargir lögmenn, þar á meðal 41 fyrrverandi og núverandi saksóknari sem og mannúðarsamtök.

Mynd af Lisu Montgomery frá 20. desember 2004.
Mynd af Lisu Montgomery frá 20. desember 2004. AFP

Harmleikur

Niðurstaða viðtala lögfræðiteymis hennar er að misnotkun, vanræksla á heimili, vanræksla sérfræðinga, vímuefnavandi, ómeðhöndluð andleg veikindi og óhæf fjölskylda séu skýringar á þessari ákvörðun Montgomery að taka líf annarrar manneskju.

„Saga hennar í heild er harmleikur,“ segir Kelly Henry, sem er einn af verjendum Lisu fyrir alríkinu. En eitt af því sem forsetinn getur sagt við konur sem hafa verið seldar mansali og beittar kynferðislegu ofbeldi – þitt mál skiptir máli, segir hún.

Ekkert hefur heyrst frá Trump varðandi beiðni lögmanna Lisu Montgomery en hann hefur hingað til ekki svarað kalli í málum sem þessum.

Nýleg könnun Gallup leiðir í ljós að stuðningur við dauðarefsingar hefur ekki verið minni meðal Bandaríkjamanna en samt sem áður telja 55% þeirra að það sé eðlilegt að taka fólk af lífi fyrir morð.

Vinkona Bobbie Jo Stinn­ett, sem Montgomery myrti, tekur undir þetta og segir að Bobbie eigi skilið að vera á lífi og að Lisa eigi skilið að greiða fyrir það sem hún gerði. Stinnet var 23 ára göm­ul og nýgift þegar hún var drepin af Lisu Montgomery. 

Naut þess að pynta

Mattingly og Montgomery voru ungar þegar Shaughnessy byrjaði að berja þær og beita þær alls konar refsingum. Svo sem að líma fyrir munn Montgomery eða henda Mattingly nakinni út í snjóinn. Eftir að blóðfaðir þeirra yfirgaf heimilið og skildi þær eftir hjá móður Lisu en stjúpmóður Diane voru þær oftar skildar eftir í umsjón kærasta Shaughnessy og að minnsta kosti einn þeirra hóf að nauðga Mattingly.

„Judy var stjórnsöm og – ég hata að nota þetta orð – illmenni. Hún naut þess að pynta fólkið í kringum sig,“ segir Mattingly.

Eftir að félagsmálayfirvöld tóku Mattingly af heimilinu varð Lisa bráð nýja eiginmanns móðurinnar. Sem samkvæmt vitnisburði barna hans, var ofbeldisfullur áfengissjúklingur sem byrjaði að beita Montgomery kynferðislegu ofbeldi þegar hún var aðeins barn. Fjölskyldan flutti ítrekað en það var í hjólhýsi, heimili þeirra, í Sperry, Oklahoma, þar sem barnaníðið breyttist í eitthvað sem minnti meira á pyntingar að sögn lögmanna Lisu Montgomery.

Seldu aðgang að barninu

Samkvæmt því sem hálfsystkini hennar og aðrir segja sem tengdust fjölskyldunni á þessum tíma byggði stjúpfaðir hennar skýli við hjólhýsið þar sem hann og félagar hans nauðguðu Lisu og börðu. Móðir hennar fór að selja hana, svo sem til iðnaðarmanna eins og rafvirkja og pípulagningarmanna, gegn því að þeir ynnu á heimilinu. Fengu þeir að beita barnið kynferðislegu ofbeldi gegn vinnu.

Þegar Lisa Montgomery var á unglingsaldri greindi hún frænda sínum frá því hvernig mennirnir bundu handa, börðu og jafnvel pissuðu yfir hana eftir að hafa lokið sér af. Frændi hennar, sem er í dag aðstoðarlögreglustjóri, játaði fyrir lögfræðingum Montgomery að hann hefði ekki gert neitt. Í raun hafi hann bara keyrt hana heim í hendurnar á níðingunum.

Kelley Henry segir að eitt af því sem trufli hana mest er að fullorðnu fólki, sem starfaði hjá yfirvöldum, var sagt hvað gengi á en það gerði ekki neitt til þess að bjarga barninu.

Þegar Shaughnessy skildi loks við eiginmann númer tvö báru þær Lisa vitni um kynferðisofbeldið gagnvart Lisu. Dómarinn gagnrýndi móður Lisu fyrir að hafa ekki tilkynnt ofbeldið en gerði ekkert til þess að tilkynna það sjálfur. „Það voru svo mörg tækifæri sem gáfust til að grípa inn og afstýra þessu sem gerðist,“ segir Henry.

AFP

Giftist stjúpbróður sínum 

Þegar Montgomery var 18 ára gömul giftist hún stjúpbróður sínum. Þau eignuðust fjögur börn á fimm árum en sambandið forðaði Lisu ekki frá ofbeldinu því einn af bræðum hennar fann myndbandsspólu á heimilinu þar sem eiginmaður Lisu sést nauðga henni og berja.

„Þetta var ofbeldisfullt og minnti helst á senu úr hryllingsmynd,“ segir hann í yfirlýsingu. „Mér varð ómótt við að horfa á myndskeiðið. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera eða hvernig ég ætti að tala um þetta við systur mína.“

Vinir og fjölskylda Lisu Montgomery fóru að taka eftir því að hún fór ítrekað að hverfa inn í eigin hugarheim og hafði þetta slæm áhrif á börn hennar. Henry segir að þarna hafi hún verið byrjuð að sýna merki um þau geðrænu veikindi sem hún glímir við. Það eru geðhvörf, fjölþætta áfallastreitu, rofinn persónuleiki og heilaskemmdir vegna áverka.

Montgomery skildi að lokum við eiginmanninn og gekk að eiga Kevin Montgomery. Á þessum tíma hélt hún því ítrekað fram að hún væri þunguð þrátt fyrir að hafa farið í ófrjósemisaðgerð eftir að hún fæddi fjórða barnið.

Ein af þeim kenningum sem lögmenn hennar hafa sett fram um hvers vegna hún framdi morð er sú að á þessum tíma hafi Montgomery óttast að fyrrverandi eiginmaður hennar myndi koma upp um lygarnar um að hún væri ófrísk og nota það gegn henni en á þessum tíma fór hann fram á fullt forræði yfir börnum þeirra. Hún hafi á þessum tíma verið orðin gjörsamlega raunveruleikafirrt.

Henry segir að verjendur Montgomery sem hún fékk skipaða eftir handtökuna og þá ákærð fyrir morð hafi gert lítið til þess að styðja við skjólstæðing sinn. Meðal annars rétt minnst á ofbeldið sem hún hafði verið beitt, sálræn áföll og andleg veikindi.

Lögmenn hennar reyndu jafnvel að halda því fram að bróðir Lisu hefði framið morðið þrátt fyrir að vera með fjarvistarsönnun. Ekki var tekið mark á því en Henry segist telja að það hafi haft áhrif á trúverðugleika Montgomery.

Það tók kviðdóm fimm klukkustundir að dæma hana seka og daginn eftir var Lisa Montgomery dæmd til dauða, þremur árum eftir að Lisa Montgomery og Bobbie Jo Stinnett kynntust á netinu vegna sameiginlegrar ástar á hundum.

Þær höfðu spjallað saman vikum saman á hundasíðu og þar sagði Montgomery Stinnett að hún væri einnig þunguð og í kjölfarið fóru þær að skiptast á meðgöngusögum. Í desember 2004 ók Montgomery 281,5 km, frá heimili sínu í Kansas til smábæjarins Skidmore þar sem Stinnett bjó. Þar ætlaði Montgomery að skoða hvolpa í eigu Stinnett.

Stinnett átti von á konu sem hét Darlene Fischer en Fischer var nafnið sem Montgomery hafði notað á netinu þegar hún spjallaði við Stinnett. Þegar Stinnett opnaði útidyrahurðina réðst Montgomery á hana, kyrkti með reipi og skar barnið út úr kvið hennar og skildi Stinnett eftir í blóði sínu.

Rannsakendur komust fljótt að því að Darlene Fischer var ekki til og næsta dag fundu þeir Montgomery í gegnum tölvupóstana og vistfang tölvu hennar. Þegar þeir komu heim til hennar var Lisa með nýfædda stúlku í fanginu sem hún sagðist hafa fætt daginn áður. En það tók stuttan tíma að hrekja allt það sem Lisa sagði sem játaði á sig morðið fljótlega.

Taka átti Lisu Montgomery af lífi í alríkisfangelsinu í kvöld.
Taka átti Lisu Montgomery af lífi í alríkisfangelsinu í kvöld. AFP

Frá árinu 2008 hefur Montgomery afplánað í alríkisfangelsi í Texas fyrir konur með sérstakar þarfir og þar hefur hún fengið aðstoð geðlækna og sálfræðinga. Frá því dagsetning aftökunnar var ákveðin hefur hún verið á sérstakri sjálfsvígsvakt í einangrunarklefa. Til stóð að taka hana af lífi í Terre Haute-alríkisfangelsinu í Indiana í kvöld með banvænni sprautu en fangelsið er eina alríkisfangelsi Bandaríkjanna með aftökuklefa sem er enn í notkun.

Á fimmtudag stendur síðan til að taka Corey Johnson af lífi í sama fangelsi og Dustin Higgs á föstudag. Þeir eru báðir smitaðir af Covid-19 en það hefur ekki orðið til þess að aftökunum hafi verið frestað. Yfir 400 fangar í Terre Haute smituðst af kórónuveirunni eftir síðustu aftökuna í fangelsinu. Þann 19. nóvember var Orlando Hall tekinn þar af lífi en yfirleitt mæta 50-125 manns í tengslum við aftökur og væntanlega hefur einhver þeirra borið smit inn í fangelsið.

BBC
Pro Publica
New York Times
Washington Post
AP
Guardian
Elle

mbl.is