Aðgangur ókeypis á kvikmyndahátíð

BÍó - Kvikmyndahlaðvarp | 14. janúar 2021

Aðgangur ókeypis á kvikmyndahátíð

Reykjavík Feminist Film Festival (Rvk FFF), kvikmyndahátíð helguð femínisma, er umfjöllunarefni kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓs að þessu sinni en hátíðin hefst í dag og stendur út næstkomandi sunnudag. Að þessu sinni verður öllum Íslendingum boðið á hátíðina sér að kostnaðarlausu þar sem hún mun fara fram í streymi á netinu. Heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar í ár er Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarkona sem hefur gert kvikmyndir á borð við Konur á rauðum sokkum og Hvað er svona merkilegt við það

Aðgangur ókeypis á kvikmyndahátíð

BÍó - Kvikmyndahlaðvarp | 14. janúar 2021

Lea Ævars og Nara Walker skipuleggja kvikmyndahátíðina.
Lea Ævars og Nara Walker skipuleggja kvikmyndahátíðina. Ljósmynd/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Reykjavík Feminist Film Festival (Rvk FFF), kvikmyndahátíð helguð femínisma, er umfjöllunarefni kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓs að þessu sinni en hátíðin hefst í dag og stendur út næstkomandi sunnudag. Að þessu sinni verður öllum Íslendingum boðið á hátíðina sér að kostnaðarlausu þar sem hún mun fara fram í streymi á netinu. Heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar í ár er Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarkona sem hefur gert kvikmyndir á borð við Konur á rauðum sokkum og Hvað er svona merkilegt við það

Reykjavík Feminist Film Festival (Rvk FFF), kvikmyndahátíð helguð femínisma, er umfjöllunarefni kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓs að þessu sinni en hátíðin hefst í dag og stendur út næstkomandi sunnudag. Að þessu sinni verður öllum Íslendingum boðið á hátíðina sér að kostnaðarlausu þar sem hún mun fara fram í streymi á netinu. Heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar í ár er Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarkona sem hefur gert kvikmyndir á borð við Konur á rauðum sokkum og Hvað er svona merkilegt við það

„Nú víkkum við sjóndeildarhringinn og bætum við nýju þema. Við ætlum að halda áfram að leggja áherslu á kvenleikstýrur og m.a. halda zoom-umræðupanel tileinkaðan kvikmyndatökukonum. Aðalmarkmiðið í ár er að tengjast Trans Íslandi, Samtökunum '78 og Intersex Íslandi og þar með auka sýnileika LGBTQI+-samfélagsins á Íslandi og erlendis,“ segir í tilkynningu en vegna Covid-19 verður hátíðin á netinu en vel valdir viðburðir þó í boði innan sóttvarnatakmarkana. Helstu styrktaraðilar hátíðarinnar í ár eru Reykjavíkurborg, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, franska sendiráðið og Norræna húsið og myndir hátíðarinnar má nálgast á heimasíðu hennar, www.rvkfemfilmfest.is.

Umræður á zoom

Lea Ævarsdóttir, ein skipuleggjenda Rvk FFF, segir pallborðsumræðum verða streymt á netinu frá Norræna húsinu en í húsinu verði þó aðeins þátttakendur í pallborðinu. Hún segir líka viðburð á dagskrá í samstarfi við Alliance Française en bíða þurfi frekari fyrirmæla sóttvarnayfirvalda hvað hann varðar.

Laugardaginn 16. janúar kl. 13 fara fram pallborðsumræður með yfirskriftinni No Woman Alone sem streymt verður á zoom og verður þar rætt um ofbeldi í nánum samböndum út frá mörgum hliðum. Á sunnudegi, 17. janúar, verður rætt um birtingarmyndir hinsegin samfélagsins í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Einnig verða haldnar pallborðsumræður um kvikmyndatökukonur en dagskrána alla má finna á fyrrnefndri heimasíðu hátíðarinnar. Lea segir að skoðað verði m.a. hvers vegna konur séu ekki fleiri í röðum kvikmyndatökumanna og segir eina af ástæðunum þá að bransinn sé ekki mjög fjölskylduvænn.

Ýmis umfjöllunarefni

Lea er spurð að því hvaða skilyrði myndir þurfi að uppfylla til að komast á hátíðina. „Það verður að vera kvenkyns leikstjóri,“ svarar Lea og bendir á að af þeim kvikmyndum sem nái langt á heimsvísu og/eða falli í meginstrauminn séu aðeins um 10-12% leikstýrt af konum. Lea bætir við að ef leikstjórinn skilgreini sig sem konu sé hann líka gjaldgengur.

Hún segir myndir hátíðarinnar fjalla um allt mögulegt og ekki aðeins feminísk málefni. „Við erum ansi frakkar, sýnum allt svo lengi sem kona leikstýrir,“ segir Lea. Lögð verður áhersla á kvikmyndir sem eru öðruvísi, með fjölbreyttum kvenhlutverkum og -persónum sem gefa áhorfendum tækifæri til að umbylta fyrirsjáanlegum, kynjamiðuðum normum, svo vísað sé aftur í tilkynningu, enda snúist femínismi um jafnrétti fyrir alla, að mati skipuleggjenda.

Lea er spurð að því hvernig hægt sé að bjóða upp á hátíðina gestum að kostnaðarlausu. „Við borgum okkur ekki nein laun, þetta er bara sjálfboðastarf,“ svarar hún, „allur peningurinn fer í að halda hátíðina og sinna henni.“

Falleg opnunarmynd

Þegar viðtalið fór fram voru enn að bætast við myndir á dagskrá hátíðarinnar en þá voru komnar 20 kvikmyndir, stuttmyndir og heimildarmyndir auk sjónvarpsþáttaraðar. Það verður því af nógu að taka í dag og næstu þrjá daga og koma verkin frá ýmsum löndum, m.a. Frakklandi, Þýskalandi, Íslandi, Egyptalandi, Kýpur, Portúgal, Ísrael, Ástralíu og Noregi. Aðalnýjungin í ár er frumsýning á nýrri stuttri sjónvarpsþáttasyrpu, Norms, sem er úr smiðju The Lost Shoe Collective og voru þættirnir teknir upp í Reykjavík og Berlín. Leikstjóri þeirra er Júlía Margrét Einarsdóttir.

Lucie Samcová Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi, mun opna hátíðina í dag með netskilaboðum og verður opnunarmyndin Port Authority eftir leikstjórann Danielle Lessovitz sem sögð er áköf ástarsaga sem eigi sér stað í „kiki ballroom“-senunni í New York. Aðalpersónan, Paul, uppgötvar að Wye, 22 ára stúlka sem hann hefur leitað til og er ástfanginn af, er transkona.

„Þetta er ótrúlega falleg mynd um transstúlku og leikkonan sem leikur hana í myndinni er transkona í alvörunni og það er nú ekki alltaf þannig. Þetta er frábær mynd frá New York og fyrsta kvikmynd Lessovitz í fullri lengd. Þetta er geggjuð mynd, ég er búin að horfa á hana þrisvar,“ segir Lea um myndina.

Raunveruleikinn ekki endurspeglaður í kvikmyndum

Lea ítrekar að ástæðan fyrir því að hátíðin sé haldin sé sú að sýna þurfi veruleikann eins og hann er í raun og veru. Hún vísar í eftirfarandi orð sín í fréttatilkynningu: „Því miður er raunveruleikinn ekki endurspeglaður í kvikmyndum og sjónvarpi heimsins þar sem kvikmyndabransinn er mjög karllægur. Vissulega er þetta að breytast hægt og rólega en eins og staðan er núna er langt í land með að konur, kynsegin fólk og fjölmenning sé sýnd í „mainstream“ miðlum.

Kvikmyndamiðillinn er ótrúlega sterkur áhrifavaldur í lífi fólks og einmitt þess vegna er RVK Feminist Film Festival svo mikilvæg hátíð og með því að auka sýnileika kvikmynda sem endurspegla raunveruleikann erum við að búa til fyrirmyndir og bylta staðalímyndum sem heyra vonandi bráðum sögunni til.“

Þeim sem vilja kynna sér betur dagskrá hátíðarinnar er bent á fyrrnefnda heimasíðu á slóðinni rvkfemfilmfest.is og einnig má finna viðburði hátíðarinnar á Facebook. Hér til hliðar má svo lesa pistil kvikmyndarýnisins Gunnars Ragnarssonar um valdar myndir á hátíðinni.

Hér má finna hlaðvarpsþáttinn:

mbl.is