Heyrði ásakanir um sifjaspell fyrst í útvarpinu

Jón Baldvin Hannibalsson | 10. febrúar 2021

Heyrði ásakanir um sifjaspell fyrst í útvarpinu

Jón Baldvin Hannibalsson segir að hann hafi í fyrsta sinn heyrt af ásökunum á hendur honum um sifjaspell í „útvarpi allra landsmanna“, í Morgunútvarpinu á Rás tvö. Þá telur hann að ásakanir á hendur honum um kynferðisbrot eigi allar rætur sínar að rekja til haturs Aldísar Schram, dóttur hans, á föður sínum.

Heyrði ásakanir um sifjaspell fyrst í útvarpinu

Jón Baldvin Hannibalsson | 10. febrúar 2021

Jón Baldvin Hannibalsson ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi Vilhjálmssyni í dómsal …
Jón Baldvin Hannibalsson ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi Vilhjálmssyni í dómsal í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Baldvin Hannibalsson segir að hann hafi í fyrsta sinn heyrt af ásökunum á hendur honum um sifjaspell í „útvarpi allra landsmanna“, í Morgunútvarpinu á Rás tvö. Þá telur hann að ásakanir á hendur honum um kynferðisbrot eigi allar rætur sínar að rekja til haturs Aldísar Schram, dóttur hans, á föður sínum.

Jón Baldvin Hannibalsson segir að hann hafi í fyrsta sinn heyrt af ásökunum á hendur honum um sifjaspell í „útvarpi allra landsmanna“, í Morgunútvarpinu á Rás tvö. Þá telur hann að ásakanir á hendur honum um kynferðisbrot eigi allar rætur sínar að rekja til haturs Aldísar Schram, dóttur hans, á föður sínum.

Jón Baldvin segir að varla sé til sú kvenpersóna í fjölskyldu hans sem hann hafi ekki verið sakaður um að hafa kynferðismök við. Hann hafi vissulega heyrt ýmsar ásakanir á hendur sér áður en útvarpsviðtalið fór fram en ekki um sifjaspell.

Hann segist ekki hafa tekið neina ákvörðun um það hvort Aldís yrði nauðungarvistuð vegna geðræns vanda. Hann hafi þó þurft að samþykkja nauðungarvistun vegna mats læknis um að slíkt væri nauðsynlegt.

Þetta er á meðal þess sem Jón Baldvin sagði í skýrslutöku þegar aðalmeðferð í máli hans gegn Aldísi, fjölmiðlamannin­um Sig­mari Guðmunds­syni og Rík­is­út­varp­inu hófst Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morgun. Skýrslutakan er enn í gangi.

Aldís hefur sakað föður sinn um að hafa með ólögmætum hætti farið fram á nauðungarvistun hennar. Í umfjöllun Stundarinnar árið 2019 kom fram að Jón Baldvin hefði sent fjórar beiðnir um nauðungarvistun Aldísar í faxi frá sendiráði Bandaríkjanna. Jón Baldvin sagði að hann hefði vissulega notað bréfsefni sendiráðsins til þess að staðfesta beiðni um nauðungarvistun dóttur sinnar en að beiðni um nauðungarvistun hefði alltaf komið frá læknum. Hann hefði einfaldlega gripið það bréfsefni sem hendi var næst til þess að staðfesta nauðungarvistun.

Það að lögregluyfirvöld hafi ákveðið að skrá staðfestingu hans á beiðnum um nauðungarvistun Aldísar sem aðstoð við erlend sendiráð sagði Jón Baldvin að hafi líklega verið mistök lögreglu. Hann beri ekki ábyrgð á því. 

Segir að ekki hafi verið haft samband

Sum­arið 2019 stefndi Jón Bald­vin Aldísi vegna um­mæla henn­ar í Morg­unút­varp­inu 17. janú­ar sama ár. Jón Bald­vin ger­ir ekki fjár­kröf­ur á hend­ur Al­dísi held­ur krefst þess að um­mæl­in, níu úr Morg­unút­varp­inu og ein af Face­book, verði dæmd dauð og ómerk.

Sig­mari er stefnt fyr­ir fern um­mæli úr þætt­in­um 17. janú­ar en Jón Bald­vin kref­ur hann um 2,5 millj­ón­ir króna.

Í viðtalinu kom fram að ekki hefði náðst í Jón Baldvin áður en viðtalið fór fram. Jón Baldvin segist ekki vita til þess að samband hefði verið haft við hann fyrir fram. Lögmaður Sigmars sýndi þó skjáskot úr síma Sigmars af smáskilaboðum sem hann sendi í sameiginlegan farsíma Jóns Baldvins og eiginkonu hans áður en viðtalið fór fram. Jón Baldvin sagðist ekki hafa séð skilaboðin.

„Margt af því sem þar kom fram var ég að heyra í fyrsta skipti á ævinni,“ sagði Jón Baldvin.  

Spurður af lögmanni sínum um það hvernig honum hafi orðið við sagði Jón:

„Það er eitt alveg sérstakt. Undir lok viðtalsins heyri ég það að ég á að hafa stundað sifjaspell með dóttur minni á fullorðinsárum hennar þegar hún var vistuð á geðdeild. Þetta hafði ég ekki heyrt áður fyrr en í beinni útsendingu hjá RÚV,“ sagði Jón Baldvin.

„Viðbrögð mín þarna voru nánast þau að ég var varnarlaus, orðlaus. Ég trúði varla mínum eigin eyrum.“

Aldís Schram ásamt lögmanni sínum, Gunnari Inga Jóhannssyni.
Aldís Schram ásamt lögmanni sínum, Gunnari Inga Jóhannssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spyr sig hvort lögin hafi skipt máli

Jón Baldvin sagði frelsissviptingu ekki fara fram vegna geðþóttaákvörðunar einhvers úti í bæ. Lög hafi verið í gildi til ársins 2016 sem skuldbundu aðstandendur þeirra sem veikir væru á geði staðfestu framlengingu sjúkrahúsdvalar og eða jafnvel sviptingu sjálfræðis.

Þá sagði Jón Baldvin að hlýtt hefði verið á milli þeirra feðgina áður fyrr en eftir að hann hefði neyðst til þess að samþykkja nauðungarvistun hennar í nokkur skipti hefði hatur Aldísar farið að beinast að honum. Það sagðist hann skilja vel.

„Ég hef oft velt því fyrir mér, ef þessi lög hefðu ekki verið, hvort það hefði breytt einhverju.“

Fleiri ásakanir hafa komið fram

Aldís er ekki eina konan sem sakað hefur Jón Baldvin um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Þannig birtust t.a.m. 23 nafnlausar sögur um kynferðislega áreitni og ofbeldi af hans hálfu frá árinu 1962 til ársins 2018 í febrúarmánuði 2019. Fjórar konur komu fram og sökuðu Jón Baldvin um kynferðislega áreitni og ofbeldi í viðtali við Stundina í janúarmánuði 2019.

Eins og áður segir sagðist Jón Baldvin telja að þessar ásakanir eigi rætur sínar að rekja til haturs Aldísar á honum. Þá sagði hann að „þröngur hópur“ stæði að ásökununum.

Ummæli sem Jón Baldvin fer fram á að dæmd verði dauð og ómerk eru eftirfarandi:

Morgunútvarp, Rás 2, 17. janúar 2019, ummæli viðhöfð af Aldísi:

  1. ... hann fær mig undir fölsku yfirskini að heimsækja afa minn ... mér var haldið inni þarna í mánuð sem sagt ólöglega.
  2.  ... já. Fimm sinnum á næstu 10 árum kastast í kekki milli mín og Jóns Baldvins Hannibalssonar og því lyktaði ávalt með því að [sic] sigaði á mig lögreglu sem handtók mig, hann er náttúrulega utanríkisráðherra ...
  3. Hann gat bara þaðan í frá, þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherra, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin, umsvifalaust í járnum, farið með mig upp á geðdeild ...
  4. ... hann er þá líka að misnota lítil börn.
  5. ... ég neita að skilja þau eftir í umsjón karls sem káfar á litlum stúlkubörnum.
  6.  Og sem sagt 10 mínútum eftir að ég kæri Jón Baldvin þá hringir dyrabjallan. Þar ruddust þarna inn tveir lögreglumenn ef ekki þrír og ég, þegar ég sé það þá reyni ég að loka en auðvitað tókst mér það ekki, þeir ryðjast þá þar með inn og þeir svara mér engu, ryðjast inn í stofu þar sem dóttir mín 5 ára gömul er að lesa og þegar barnið er tekið frá mér þá verð ég æf.
  7. ... það er faðir minn sem stendur fyrir því að hér eigi að loka mig inni.
  8. Fíkn, auðvitað er barnagirnd fíkn, þetta er fíkn.
  9. ... nauðungarvistun án dóms og laga er þá ólögmæt frelsissvipting ...

Facebook, 5. febrúar 2019, höfundur Aldís:

  1. ... og sigra hann og hans barnaníðingabandalag.

Rás 2, 17. janúar 2019, höfundur og flytjandi Sigmar (Aldís til vara):

  1. ... að Jón Baldvin hafi notað aðstöðu sína sem sendiherra til að láta nauðungarvista hana á geðdeild.
  2. Sá fundur Aldísar og Jóns Baldvins segir hún hafa reynst sér örlagaríkur og orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild.
  3. ... að Jón Baldvin hafi sett sig í samband við félagsmálayfirvöld og geðdeild með það fyrir augum að fá hana nauðungarvistaða í enn eitt skiptið.
  4. Þar segir hún einnig að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell þegar hún var fullorðin kona.
mbl.is