Ástin blómstrar með góðum stjúptengslum

Ástin blómstrar með góðum stjúptengslum

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fé­lags- og fjöl­skylduráðgjafi, segir mikilvægt að stíga varlega til jarðar áður en börn kynnast nýju stjúpforeldri. Það er bara gott barnanna vegna að læra um stjúptengsl þar sem góð stjúptengsl stuðla líka að betra ástarsambandi. 

Ástin blómstrar með góðum stjúptengslum

Valgerður Halldórsdóttir | 28. mars 2021

Valgerður Halldórsdóttir segir góð stjúptengsl mikilvæg.
Valgerður Halldórsdóttir segir góð stjúptengsl mikilvæg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fé­lags- og fjöl­skylduráðgjafi, segir mikilvægt að stíga varlega til jarðar áður en börn kynnast nýju stjúpforeldri. Það er bara gott barnanna vegna að læra um stjúptengsl þar sem góð stjúptengsl stuðla líka að betra ástarsambandi. 

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fé­lags- og fjöl­skylduráðgjafi, segir mikilvægt að stíga varlega til jarðar áður en börn kynnast nýju stjúpforeldri. Það er bara gott barnanna vegna að læra um stjúptengsl þar sem góð stjúptengsl stuðla líka að betra ástarsambandi. 

„Fólki er alveg óhætt að stinga saman nefjum og eiga sitt einkalíf án þess að blanda börnunum í málið. Börn hafa enga þörf fyrir að vera kynnt fyrir kærasta eða kærustu foreldris sem stoppar stutt í lífi þess. Hafi þau til dæmis „misst“ stjúpforeldri sem þeim þykir vænt um eða upplifað að foreldri þess hafi verið í nokkrum sundur-saman-samböndum er óvíst að þau séu fús til að gefa nýjum aðila tækifæri í fyrstu, jafnvel þótt viðkomandi sé hinn eini og sanni eða sanna í huga foreldrisins. Börn með laskað traust hafa sum hver litla trú á að viðkomandi stoppi eitthvað í lífi þeirra. Nú svo getur kærasti eða kærasta óttast það að tengjast barni viðkomandi ef ske kynni að sambandið entist ekki. Það er því nauðsynlegt að gefa sambandi tíma til að þróast án þess að börnin séu kynnt til sögunnar og muna að góðir hlutir gerast hægt,“ segir Valgerður þegar hún er spurð út í það hvenær er best að byrja að kynna börn og stjúpforeldri. 

„Hins vegar er það mjög hjálplegt að huga að stjúptengslum þegar parið finnur að það er alvara í sambandinu. Það er gott að byggja upp tengsl smám saman og byrja áður en sambúið hefst. Að búa með hálfókunnugu fólki reynir bæði á börn og fullorðna. Við erum umburðarlyndari og tilbúnari til að taka leiðsögn frá fólki sem við erum tengd. Svo er þessi tími áður en sambúð hefst mikilvægur til að endurskoða reglur og þess háttar. Við erum oft með eitthvert mynstur á heimili sem hentar ágætlega einhleypu foreldri og barni en þarf ekki endilega að henta þegar nýr aðili kemur inn. Að læra um stjúptengsl hefur reynst fólki mjög vel til að takast á við algengar uppákomur á uppbyggilegan máta. Algengt er að „kenna um“ hvernig gengur í stað þess að átta sig á að dýnamík er sérstök í stjúpfjölskyldum. Sama hegðun barns getur verið dæmd á ólíkan máta eftir því hvort þú býrð með einhleypu foreldri eða báðum foreldrum og svo með stjúpforeldri. Stjúpforeldrar eru líka dæmdir harðar en foreldrar.“

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getur það breytt einhverju fyrir ástarsambandið að stjúptengslin séu í lagi?

„Það er gaman að vinna með pörum í stjúpfjölskyldu og oftast er þau mjög ánægð með sambandið og vilja halda í það. Algengt er að fólk segi: „Við erum mjög góð tvö saman og eini ágreiningurinn snýst um börnin og fyrrverandi.“ En hætta er á að súrefnið í sambandinu minnki verulega sé ekkert að gert komi upp ágreiningur sem fólk veit ekki hvernig á að leysa og áttar sig jafnvel ekki á að hann var nokkuð fyrirsjáanlegur. Í staðinn fer fólk að kenna einum og öðrum um stöðuna og persónugera vandann. Það er ekki eingöngu ástarsambandið sem líður fyrir ástandið, líka mögulega tengsl foreldra og barna, sem bitnar aftur á ástarsambandinu. Það breytir því miklu fyrir ástarsambandið að hlutirnir gangi vel með stjúptengslin. Stjúpfjölskyldur hafa alla möguleika til að vera góðar fjölskyldur og margar eru það. Gagnlegast er að læra um stjúptengsl og upplifa marga litla sigra, hlutirnir eru miklu fyrirsjáanlegri en við höldum. Líði fólki vel eru miklu meiri líkur á að ástin fái að blómstra,“ segir Valgerður að lokum. 

Upplýsingar um námskeið er að finna á Stjuptengsl.is. 

mbl.is