Þaggað niður og falið í skugga skammar

Sýrland | 4. apríl 2021

Þaggað niður og falið í skugga skammar

Fyrir fimm árum var Honorine að safna eldivið fyrir utan heimabæ sinn, Sange í Austur-Kongó, er tveir vopnaðir menn réðust að henni og nauðguðu. Henni var í kjölfarið útskúfað og hún missti lífsviðurværi sitt. Var við það að gefast upp. Sá ekki ástæðu til þess að lifa lengur. Nú fimm árum síðar, með aðstoð Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), er hún á góðum stað í lífinu.

Þaggað niður og falið í skugga skammar

Sýrland | 4. apríl 2021

Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur starfar sem sendifulltrúi og sérfræðingur hjá Alþjóðaráði …
Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur starfar sem sendifulltrúi og sérfræðingur hjá Alþjóðaráði Rauða krossins í Genf. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fyrir fimm árum var Honorine að safna eldivið fyrir utan heimabæ sinn, Sange í Austur-Kongó, er tveir vopnaðir menn réðust að henni og nauðguðu. Henni var í kjölfarið útskúfað og hún missti lífsviðurværi sitt. Var við það að gefast upp. Sá ekki ástæðu til þess að lifa lengur. Nú fimm árum síðar, með aðstoð Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), er hún á góðum stað í lífinu.

Fyrir fimm árum var Honorine að safna eldivið fyrir utan heimabæ sinn, Sange í Austur-Kongó, er tveir vopnaðir menn réðust að henni og nauðguðu. Henni var í kjölfarið útskúfað og hún missti lífsviðurværi sitt. Var við það að gefast upp. Sá ekki ástæðu til þess að lifa lengur. Nú fimm árum síðar, með aðstoð Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), er hún á góðum stað í lífinu.

Hún fékk fjárhagslegan stuðning í kjölfar þess að konur í sendinefnd ICRC tóku á móti henni og aðstoðuðu hana við að fá læknisaðstoð. Stuðninginn nýtti hún til að stofna sitt eigið fyrirtæki og koma lífi sínu á réttan kjöl. „Án þeirra hefði ég aldrei náð þeim árangri sem ég hef náð.“   

Sjá nánar hér

Sendinefndir Alþjóðaráðs Rauða krossins starfa þar sem neyðarástand ríkir vegna stríðsátaka, annars konar vopnaðra átaka og afleiðinga þeirra. Alls starfa rúmlega 20 þúsund manns fyrir stofnunina í einum 100 löndum.

Alþjóðaráðið á sér stoð í alþjóðlegum mannúðarlögum eða hinum svokölluðu Genfarsamningum og viðaukum þeirra. Stríðandi fylkingum ber skylda til að virða lögin sem lúta fyrst og fremst að vernd almennra borgara, stríðsfanga, særðra og sjúkra hermanna og starfsfólks hjálparsamtaka auk annarra sem eiga ekki beina aðild að átökum. Starf Alþjóðaráðsins hefur frá upphafi byggt á mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði. 

Yfir 100 milljónir jarðarbúa þurfa á vernd og aðstoð að …
Yfir 100 milljónir jarðarbúa þurfa á vernd og aðstoð að halda vegna átaka, ofbeldis, farsótta og loftslagstengdra hamfara samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. AFP

Undanfarin ár hefur ICRC unnið markvisst að því að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi á átakasvæðum og draga úr alvarlegum afleiðingum þess fyrir þolendur. Ein þeirra sem koma að því mikilvæga verkefni er Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur sem starfar nú sem sendifulltrúi og sérfræðingur hjá Alþjóðaráði Rauða krossins í Genf. Hún er hluti af teymi sem vinnur að því að samþætta forvarnir og þolendavæn viðbrögð gegn kynferðislegu ofbeldi inn í starf allra deilda og sendinefnda ICRC á vettvangi. 

„Þetta er búið að vera ótrúlega lærdómsríkt og spennandi að starfa beint að þessum mikilvæga málaflokki fyrir Alþjóðaráðið,“ segir Magnea.

Magnea hefur unnið að jafnréttismálum innan þróunar- og mannúðarstarfa í Afganistan, Bosníu og Hersegóvínu, Kosovo og á hernumdu svæðunum í Palestínu. Hún hefur starfað hjá Alþjóðaráðinu í rúmt ár en verið sendifulltrúi Rauða krossins frá árinu 2005. Staðan er kostuð af Rauða krossi Íslands með stuðningi utanríkisráðuneytisins. 

Átök hafa geisað árum saman í Suður-Súdan.
Átök hafa geisað árum saman í Suður-Súdan. AFP

Hvert er hlutverk Alþjóðaráðsins og hvenær varð baráttan gegn kynferðislegu ofbeldi hluti af starfi þess?

„Alþjóðleg mannréttindalög gilda alls staðar á öllum tímum. Hlutverk Alþjóðaráðsins í hnotskurn er að beita sér fyrir því að virðing sé borin fyrir mannúðarlögum í stríðsátökum og meginreglum mannúðarréttar í annars konar vopnuðum átökum og að veita aðstoð og vernd þeim sem þurfi. Kynferðislegt ofbeldi sem brot á mannúðarlögum var ekki tekið alvarlega í raun fyrr en eftir stríðsátökin á Balkanskaganum og í Rúanda á tíunda áratug síðustu aldar. Var það fyrst og fremst samtakamáttur baráttukvenna víðs vegar um heim, þar með talið fórnarlamba stríðsnauðgana, sem kom því til leiðar,“ segir Magnea og vísar til ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi í því sambandi.

Öfug sönnunarbyrði

Alþjóðaráðið hefur unnið að málaflokknum en það var svigrúm til að gera betur og árið 2013 var baráttan gegn kynferðislegu ofbeldi gerð að forgangsmáli innan stofnunarinnar. Þá varð hin svokallaða „öfuga sönnunarbyrði“ að meginreglu í starfseminni, en hún segir að ekki þurfi að liggja fyrir gögn eða sannanir um að kynferðisofbeldi eigi sér stað til þess að gripið sé til aðgerða enda þekkt hversu ofbeldi af þessu tagi er þaggað niður og falið í skugga skammar.

Ári síðar fór í fyrsta sinn fram sérstök söfnun á vegum Alþjóðaráðsins til að veita auknu fjármagni í aðgerðir gegn kynferðisofbeldi og árið 2015 var fyrsta sameiginlega stefnan um aðgerðir gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi samþykkt á alþjóðaráðstefnu hreyfingar Alþjóðaráðsins, Alþjóðasambands félaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans og landsfélaganna.

AFP

Að sögn Magneu mótaði Alþjóðaráðið sér í kjölfarið sína eigin stefnu sem var innleidd árið 2018. Innan stefnumörkunarinnar eru m.a. kynntar til sögunnar lágmarksaðgerðir sem sendinefndir eiga að innleiða með vísan í „öfugu sönnunarbyrðina“ eins og það að geta veitt þolendum aðstoð eða vísað þeim til annarra sem geta mætt þörfum þeirra með viðeigandi hætti. Jafnframt að samþætta í öll skilaboð ICRC til vopnaðra sveita og yfirvalda stöðuga áminningu þess efnis að kynferðislegt ofbeldi sé alvarlegt brot á mannúðarlögum. Það sé stríðsglæpur, glæpur gegn mannkyninu, pynting eða hluti af þjóðarmorði eftir atvikum.

Notað með grófum og kerfisbundnum hætti

AFP

„Kynferðisofbeldi hefur verið notað með grófum og kerfisbundum hætti til að ná fram hernaðarlegum markmiðum eins og yfirráðum yfir landsvæði þar sem nauðganir framdar af liðsmönnum vopnaðra sveita gera það að verkum að fólk leggur á flótta undan grimmu ofbeldinu. Kynferðisofbeldi viðgengst líka vegna þess að hermenn komast svo auðveldlega upp með það. Það er, því miður, jafnvel framið með þegjandi samþykki herforingja þrátt fyrir að vera formlega bannað. Kynferðislegt ofbeldi gagnvart körlum og strákum á sér einkum stað í tengslum við fangelsisvistun eða annars konar meiri háttar frelsissviptingu.“ 

Með þetta í huga er jafnframt unnið að því að allir hafi sama skilning á ofbeldinu og mismunandi birtingarmyndum þess eins og t.d. nauðungarþungun kvenna eða ófrjósemisaðgerðum að sögn Magneu.

Að deila teppi og nauðgun

„Að sama skapi og við leggjum áherslu á að allir séu á sömu blaðsíðu hvað formlegar skilgreiningar og skilning varðar þá bendum við einnig á mikilvægi þess að sendifulltrúar átti sig á hvaða orð eru notuð almennt í samfélaginu, þ.m.t. meðal hermanna, og menningarbundnu viðhorfunum á bak við þau. Sem dæmi þá er hugtakið „nauðgun“ ekki í notkun alls staðar sem endurspeglar vanalega tilkall karlmanna til líkama kvenna og hversu takmarkaða stjórn þær hafa yfir eigin líkama. Og í staðinn fyrir að tala um „kynlíf“ eða „samræði“ þá er talað um að „deila teppi“ já eða sæng eins og við þekkjum frá Íslandi. Sú orðanotkun gefur til kynna samþykki en síðan koma þolendur og tala um að hafa deilt teppi með manni án þess að tala beint um valdbeitinguna og þá þarf viðkomandi starfsmaður að geta áttað sig á hvað verið er að tala um.“

Samhliða því að stefnan var innleidd 2018 var teymið sem Magnea starfar með formlega sett á laggirnar. Yfirkona teymisins, Sophie Sutrich, var fyrsti starfsmaður þess en núna starfa fimm sérfræðingar í höfuðstöðvunum í Genf og 10 á vettvangi í öllum heimsálfum.  

Flóttafólkið sem býr í Cox's Bazar-búðunum hafa þurft að koma …
Flóttafólkið sem býr í Cox's Bazar-búðunum hafa þurft að koma sér fyrir í nýjum tjöldum eftir mikinn eldsvoða í búðunum í mars. AFP

Hvert er hlutverk teymisins sem þú starfar með?

„Teymið hefur fyrst og fremst það hlutverk að veita sérfræðilega aðstoð og bæta þekkingu og getu starfsmanna Alþjóðaráðsins til að fyrirbyggja og bregðast við kynferðisofbeldi. Aðalaðferðafræðin er samþætting málefnisins inn í starf allra deilda og sendinefnda Alþjóðaráðsins.

Sem dæmi þá er algjör sérstaða Alþjóðaráðsins sú að hafa aðgang að öllum hersveitum og öðrum vopnuðum hópum á átakasvæðum. Til að auðvelda starfsmönnum að vinna að forvörnum með hersveitum voru gerðar leiðbeiningar um hvernig greina megi og flokka vopnaðar sveitir út frá tilteknum viðmiðum sem lúta að innra skipulagi þeirra og stjórnun.

Leiðbeiningar voru unnar í grunninn af teymi Alþjóðaráðsins sem samanstendur af fyrrverandi hermönnum og lögreglumönnum með stuðningi okkar teymis. Þar er að finna grundvallarupplýsingar um kynferðisofbeldi sem brot á mannúðarlögum og ráðleggingar um hvernig megi nálgast mismunandi gerðir hersveita með það að leiðarljósi að auka virðingu þeirra í orði og borði fyrir lögunum.

Til að hersveitir virði lögin skiptir hins vegar ekki eingöngu þekking á lögunum máli heldur ekki síður þau menningarlegu viðhorf og trúarlegu gildi sem viðkomandi aðhyllast og hversu vel þau samræmast lagabókstafnum. Alþjóðaráðið hefur þannig unnið að því að finna samsvörun milli meginreglna mannúðarréttar og gilda sem er að finna innan mismunandi trúarbragða til að nota sem mótrök gegn þeim vígasveitum sem réttlæta brot á mannúðarlögum samanber nauðungarhjónabönd eða öllu heldur kynlífsánauð með vísan í trúna.“

Að hafa aðgang að allri þeirri aðstoð sem þörf er á

AFP

Alþjóðaráðið hefur einnig einbeitt sér að því að geta veitt eða vísað þolendum á viðeigandi aðstoð og þjónustu í samstarfi við önnur mannúðar- og hjálparsamtök eftir aðstæðum og atvikum. Samhliða hefur teymið unnið að leiðbeiningum fyrir starfsmenn, bæði sendifulltrúa og staðbundið starfsfólk.

„Eftir að ég kom til starfa höfum við gefið út leiðbeiningar sem lúta að meginreglum þolendavænnar nálgunar gagnvart fórnarlömbum eða þolendum kynferðisofbeldis. Við höfum einnig gefið út rit um hvernig viðeigandi þjónusta fyrir þolendur geti litið út og tilvísunarkerfi til að tryggja að þau hafi aðgang að allri aðstoð sem þörf er fyrir án þess að þurfa að endurtaka sögu sína mörgum sinnum. Þessu til viðbótar höfum við gefið út vegvísi um hvernig veita megi stuðning í formi peninga og innistæðumiða sem leiðar til að fyrirbyggja og bregðast við kynferðisofbeldi.

Áherslan er á einstaklinga í hættu á kynferðisofbeldi og þolendur sem fá t.d. fjárhagsstyrk til að koma sér í og borga fyrir öruggt húsaskjól og fá að auki gefins innistæðumiða til kaupa á nauðsynlegu lyfi sem jafnframt uppfyllir ákveðin fyrirframgefin gæðaviðmið. Fleiri leiðbeiningar eru í smíðum, s.s. gerð stöðumats og greiningar á kynferðislegu ofbeldi og notkun niðurstaðna til að taka sem bestar ákvarðanir um hvaða nálgun og aðgerðir eru áhrifamestar til að fyrirbyggja ofbeldi og veita aðstoð og vernd.“

Samhliða útgáfunni hefur teymið gert stutt kynningarmyndbönd með skýringum í teiknimyndaformi. Jafnframt eru haldnir kynningarfundir á netinu fyrir starfsmenn Alþjóðaráðsins sem hafa verið vel sóttir. Þá er teymið með sitt eigið vefsvæði þar sem allt efni er aðgengilegt öllum starfsmönnum ráðsins og er svæðið jafnframt vettvangur fyrir fyrirspurnir og umræður að sögn Magneu. 

Annað stórt verkefni sem Magnea hefur haldið utan um og unnið hvað mest að er gerð fjögurra daga grunnnámskeiðs fyrir starfsmenn einstakra sendinefnda. Þar er farið yfir alla þá þætti sem lúta að kynferðislegu ofbeldi í starfsemi hinna mismunandi deilda á vettvangi út frá spurningunni: Hvað getum við hjá Alþjóðaráðinu gert betur til að fyrirbyggja ofbeldi og koma til móts við þarfir þolenda?  

Einskismannsland á árhólma Konarpara

Kort/mbl.is

„Í nóvember sl. héldum við fyrsta námskeiðið fyrir undirsendinefndina okkar í Cox’s Bazar í Bangladess. Fyrir utan þekkingar- og færniuppbyggingu er meginmarkmiðið að byggja upp liðsheild innan sendinefndanna sem taki höndum saman um að vinna gegn kynferðisofbeldi. Þannig er mikið lagt upp úr þátttöku starfsmanna á námskeiðinu og að sérfræðiþekking þeirra á hinum ýmsu sviðum sé nýtt sem best. Námskeiðin eru einnig löguð að aðstæðum á hverjum stað til að gera þau eins hagnýt og mögulegt er fyrir starfsmenn. Til að mynda var í Cox‘s Bazar sjónum beint að þeim fjögur þúsund rohingja-flóttamönnum sem staðsettir eru á árhólmanum Konarpara, einskismannslandi mitt á milli Mjanmar og Bangladess, þar sem engar hjálparstofnanir aðrar en Alþjóðaráðið hafa greiðan aðgang. Útkoman var aðgerðaáætlun sem starfsmennirnir gerðu meðan á námskeiðinu stóð en tilgangurinn með gerð hennar er að tryggja eftirfylgni eftir að námskeiðinu lýkur.“ 

Einn mikilvægur þáttur aðstoðarinnar við þolendur er viðmót þeirra sem veita hana. Leiðbeiningar sem ráðið hefur gefið út um þolendavæn viðbrögð eru bæði ætlaðar starfsmönnum Alþjóðaráðsins og öðrum sem ráðið á samstarf við eins og sjálfboðaliðum landsfélaganna. „Það að sýna þolendum virðingu, sem þeir eiga svo sannarlega skilið, og setja þeirra velferð og öryggi í forgang, er lykilatriði. Það er gert með því að hlusta á þolendur og veita þeim greinargóðar upplýsingar um mögulega aðstoð og mikilvægi þess að leita til læknis innan 72 klukkustunda til að mögulegt sé að gera viðeigandi ráðstafanir til að varna smitsjúkdómum og þungun. Síðast en ekki síst að gæta þess að allt sem er gert til að aðstoða þolendur sé gert með þeirra samþykki. Þetta er mikilvægt vegna þess að sá sem verður fyrir kynferðislegu ofbeldi upplifir algert valdaleysi – að hafa enga  stjórn á aðstæðum – og þegar ráðin eru tekin af þolanda geta þau upplifað það sem endurtekna valdbeitingu þrátt fyrir góðan ásetning. Starfsfólk á að veita upplýsingar en ekki halda að það viti betur en viðkomandi hvað er þeim fyrir bestu,“ segir Magnea. 

„Þetta atriði kringum skýrt samþykki er ein þeirra meginreglna sem Alþjóðaráðið fylgir,“ svarar Magnea spurningu blaðamanns um nauðsyn samþykkis og vísar þar til þess að engum sé vísað áfram eða tilkynnt um mál nema þolandinn samþykki sjálfur að svo sé gert. Afleiðingar þess að fara t.d. með þolanda á sjúkrahús án þess að samþykki liggi fyrir geta verið mjög alvarlegar.

„Sönnum karlmönnum“ er ekki nauðgað

Kynferðislegt ofbeldi sem brot á mannúðarlögum var ekki tekið alvarlega …
Kynferðislegt ofbeldi sem brot á mannúðarlögum var ekki tekið alvarlega í raun fyrr en eftir stríðsátökin á Balkanskaganum og í Rúanda á tíunda áratug síðustu aldar. AFP

Sem dæmi gáfu Alþjóðaráðið og landsfélag Bretlands út skýrslu um lög sem gilda í sumum löndum og kveða á um skyldu starfsmanna þ.m.t. á sjúkrahúsum til að tilkynna kynferðisbrot til lögreglu. Þrátt fyrir að tilgangurinn sé góður er stuðningurinn við þolendur það vanalega ekki, heldur eiginlega þvert á móti. Lögin geta gert það að verkum að þolandinn sækir sér ekki nauðsynlega aðstoð eða er hótað frekara ofbeldi eftir tilkynningu um brotið til lögreglu. Hættan verður þeim mun meiri ef hinsegin sambönd eru saknæm og ráðandi viðhorf er að karlkyns þolandi hljóti að vera hinsegin enda sé „sönnum karlmönnum“ ekki nauðgað.

„Það er því lykilatriði að starfsmenn veiti upplýsingar um hvað lögin kveða á um og þær takmarkanir sem geta átt við um þá aðstoð sem Alþjóðaráðið getur veitt þannig að allar upplýsingar liggi fyrir áður en þolandinn tekur ákvörðun um að þiggja aðstoð. Í sumum tilvikum er ástandið því miður svo slæmt að þú þarft að útskýra fyrir viðkomandi að það er sáralítið hægt að gera. Þú hafir lítil tök á því að aðstoða. Þrátt fyrir að geta vísað á ákveðna þjónustu eða samtök þá er ekki hægt að treysta því að þolandinn fái viðunandi aðstoð.“

Nú er oft talað um hvers vegna þolendur kynferðislegs ofbeldis hafi ekki brugðist við á þennan eða hinn háttinn. Hvernig bregst Alþjóðaráðið við?

Leiðbeiningar snúa einnig að því hvernig megi forðast að ala á þolendaskömm sem getur átt sér stað án þess að starfsmaður ætli sér það í samtali við þolanda sem aftur getur leitt til þess að grafa undan trausti þolenda og annarra til Alþjóðaráðsins.

Magnea segir því mikilvægt að þjálfa sendinefndirnar á vettvangi í hvernig eigi að koma fram við þolendur enda geti hvert orð og líkamstjáning skipt máli. „Ég þekki þetta frá veru minni á Balkanskaganum þar sem nauðgunum var beitt sem vopni í stríðinu og konur voru spurðar: „Af hverju flúðir þú ekki áður en þeir komu eða þegar þeir komu?“ Þar með er gefið í skyn að þeim væri um að kenna að verða fyrir ofbeldinu sem veldur þolendunum aukinni vanlíðan og áfalli.“

Uppræta skaðleg samfélagsleg viðhorf

AFP

Eins og Magnea bendir á byggja þessar spurningar á skilningsleysi, m.a. á því hvernig fólk bregst við ógn. „Þetta er svo mikil ógn að þín fyrstu viðbrögð eru ekki endilega að hlaupa í burtu heldur frýs fólk hreinlega og ef fólk nær að hugsa skynsamlega eða rökrétt þá væri niðurstaðan eflaust sú að ef ég reyni að hlaupa í burtu þá get ég fengið enn verri útreið og jafnvel verið drepin,“ segir hún.

Alþjóðaráðið starfar með landsfélögum á vettvangi og það samstarf er mjög mikilvægt að sögn Magneu enda hafa landsfélögin bæði góða landfræðilega dreifingu og einstakan aðgang að fólki. „Sem dæmi þá var undirritaður samstarfssamningur milli Alþjóðaráðsins í Suður-Súdan og landsfélagsins með áherslu á hvernig samfélagið getur stutt við bakið á þolendum. Um er að ræða aðgerðir sem lúta að því að uppræta skaðleg samfélagsleg viðhorf gagnvart þolendum og veita upplýsingar um hvar þolendur geta fengið aðstoð segir Magnea og hvernig samfélagið geti lagt lið.

„Um er að ræða tilraunaverkefni sem verður framkvæmt á fjórum stöðum og hluti samstarfsins gengur út á þjálfun starfsmanna og sjálfboðaliða landsfélagsins.“ 

Yfir 100 milljónir þurfa á vernd að halda

AFP

Yfir 100 milljónir jarðarbúa þurfa á vernd og aðstoð að halda vegna átaka, ofbeldis, farsótta og loftslagstengdra hamfara samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. Hættulegasti staðurinn í heiminum fyrir almenna borgara er Afganistan líkt og oft áður en þar hefur geisað stríð samfellt í 20 ár. Í Suður-Afganistan, sem hefur alltaf verið höfuðvígi talibana, hafa hersveitir Ríkis íslams hreiðrað um sig. Um helmingur allra íbúa í suðurhluta landsins hefur ekki aðgang að aðstoð þar sem mannúðar- og hjálparsamtök fá ekki aðgang að þeim landsvæðum sem vígasveitirnar stjórna.

Í Sýrlandi hefur nú geisað stríð í tíu ár og þar hefur jafnframt verið erfitt fyrir mannúðarsamtök að fá aðgang að almennum borgurum og veita þeim aðstoð á landsvæðum sem er stjórnað af vígasveitum. Átök hafa geisað í Suður-Súdan í ein átta ár og sex ár í Jemen. Konur og börn eru 75% þeirra sem eru flóttamenn í eigin landi í Jemen.

Nýtt valdarán í Mjan­mar hefur aukið enn á vandann þar í landi. Talið er að að um ein milljón rohingja hafi verið búsett þar í landi á árunum 2016 til 2017 er þjóðarmorðin á rohingjum hófust í Rakhine-héraði. Sameinuðu þjóðirnar áætla að yfir 700.000 flóttamenn hafi flúið yfir til Bangladess á undanförnum árum. Fjölmennustu flóttamannabúðir heims eru í Cox’s Bazar við landamæri Mjan­mar. 

Hversu víðtækt er hlutverk Alþjóðaráðsins á stöðum sem þessum?

AFP

Að sögn Magneu fer það  eftir aðstæðum hversu víðtækt hlutverk Alþjóðaráðsins er þegar kemur að annars konar kynbundu ofbeldi en kynferðislegu. Hún nefnir Konarpara sem dæmi, örlítinn hólma, „einskismannsland“ sem er staðsett úti í miðri á sem rennur meðfram landamærum Mjan­mar og Bangladess. Þar hafast við um fjögur þúsund rohingja-flóttamenn sem komast hvorki lönd né strönd. Fólk sem ekkert ríki vill hýsa.

„Eyjan er nálægt Cox‘s Bazar þar sem fjöldi rohingja-flóttamanna dvelur. Það er brú yfir á eyjuna Bangladessmegin. Alþjóðaráðið er eina alþjóðlega stofnunin sem hefur aðgang að flóttamönnunum. Starfsmennirnir mega þó ekki fara út á eyjuna og flóttamennirnir mega ekki fara yfir á meginlandið heldur verða að mætast á brúnni. Ef flóttafólkið þarf á heilbrigðisþjónustu að halda þarf að sækja sérstaklega um leyfi til yfirvalda í Bangladess til að sækja þjónustu þangað. Í þessum hópi eru að öllum líkendum bæði þolendur kynferðislegs ofbeldis í Mjanmar og kynbundins ofbeldis í flóttamannabúðunum. Það er vel þekkt að ofbeldi í nánum samböndum og annað kynbundið ofbeldi eykst meðal fólks á flótta og sem býr við viðvarandi óöryggi, þröngan kost og erfiðar aðstæður. Það gerir ríkari kröfur til Alþjóðaráðsins að beina sjónum að þolendum kynbundins ofbeldis almennt, ekki eingöngu kynferðisofbeldis, enda geti flóttafólkið ekki sótt stuðning annað.

Það er í anda þeirra skilaboða sem við erum að reyna að koma áleiðis, þ.e. að þrátt fyrir að starfsemi Alþjóðaráðsins beinist fyrst og fremst að kynferðislegu ofbeldi sem er framið í tengslum við vopnuð átök af þeim sem bera vopnin og þrátt fyrir mikilvægi þess að gera greinarmun á kynferðisofbeldi og annars konar kynbundnu ofbeldi leggjum við að sama skapi mikla áherslu á tengslin þarna á milli. Við bendum m.a. á það hversu almennt refsileysi í tilviki kynbundins ofbeldis er, samanber ofbeldi í nánum samböndum og nauðgun innan hjónabands sem og limlesting á kynfærum kvenna og barnahjónabönd sem geta gefið sterklega til kynna hættuna á kynferðisofbeldi í vopnuðum átökum og annars konar brotum á mannúðarlögum.

Við leggjum jafnframt áherslu á að ein skilgreind gerð ofbeldis geti þróast yfir í annars konar skilgreint ofbeldi allt eftir samhenginu. Sem dæmi má nefna barnahjónabönd. Ástæðan að baki þeim getur verið af margvíslegum toga svo sem efnahagslegum auk þess sem þau eru talin veita vernd gegn kynferðislegu ofbeldi eða afleiðingum þess utan hjónabands á sama tíma og það er ofbeldi að gifta stúlkur á barnsaldri. Þegar ungar stúlkur og konur eru hins vegar neyddar í hjónabönd af hermönnum eða vopnuðum uppreisnarmönnum, sem gerist oftar en ekki eftir að þeim hefur fyrst verið rænt, nauðgað eða hvort tveggja, er nauðungar- og barnahjónaband orðið að kynlífsánauð [e. sexual slavery] í skilningi mannúðarlaga og glæp gagnvart mannkyni samkvæmt dómafordæmi frá stríðsglæparéttarhöldunum vegna Síerra Leone,“ segir Magnea.

Tengsl kynferðis- og kynbundins ofbeldis

AFP

Fyrrnefnd áhersla á tengslin milli kynferðislegs og kynbundins ofbeldis er þeim mun mikilvægri í ljósi þeirrar staðreyndar að Alþjóðaráðið starfar í dag ekki eingöngu á svæðum sem falla undir þrönga skilgreiningu hugtaksins stríðsátök heldur í löndum sem takast á við afleiðingar þeirra með því að taka á móti flóttafólki, segir Magnea.

Ráðið starfar einnig á  ófriðar- eða átakasvæðum sem falla ekki undir lagalega skilgreiningu um stríðsátök en þar sem vopnuð átök eiga sér stað engu að síður. Þetta á við sum lönd í Mið- og Suður-Ameríku þar sem vopnuð glæpasamtök ráða lögum og lofum. Eru oft eins konar ríki í ríkinu. Í löndum eins og El Salvador, Hondúras, Gvatemala og Mexíkó býr fólk á sumum stöðum í raun við vopnaða ógnarstjórn glæpahópa sem svífast einskis til að ná sínu fram með alvarlegum afleiðingum fyrir íbúana. Konur og stúlkur verða fyrir kynferðisofbeldi og eru jafnvel þvingaðar í kynlífsánauð og ungt fólk oft neytt til þátttöku í ofbeldisverkum. 

Hluti af ofbeldismenningu

AFP

„Í raun er kynferðisofbeldi hluti af ofbeldismenningu þar sem það þykir sjálfsagt að beita ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til að leysa ágreining eða ná markmiðum. Hlutverk alþjóðlegra mannúðar- og mannréttindalaga er liður í því að uppræta ofbeldismenningu og ógnarstjórn,“ segir Magnea. 

„Hvað aðgerðir Alþjóðaráðsins varðar skipta aðstæðurnar sem um er að ræða máli þar sem mannúðarlög eiga ekki við á öllum ófriðarsvæðum heldur mannréttindalög og meginreglur mannúðarréttar. Það hefur áhrif á það samtal sem á sér stað milli Alþjóðaráðsins og stríðandi fylkinga og yfirvalda en hins vegar er ekki gerður greinarmunur á þeim sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu liðsmanna vopnaðra sveita eða almennra borgara enda er oft ekki vitað hvort er. Ef þolendur leita sér aðstoðar á einfaldlega að veita hana.“

Mikil áhersla er einnig lögð á að verkefni Alþjóðaráðsins skapi ekki hættu á kynferðisofbeldi og áhersla lögð á aðgerðir til þess að koma í veg fyrir það. Nefnir Magnea sem dæmi atvinnuskapandi verkefni fyrir bláfátækt fólk þar sem 20% þátttakenda eru konur. Þá þurfi m.a. að huga að hættunni á að þær verði fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni af hálfu annarra innan hópsins eða þeirra sem stjórna verkefnum og gera viðeigandi ráðstafanir.

Eitt þeirra landa þar sem Alþjóðaráðið starfar er Austur-Kongó (Lýðstjórnarlýðveldið Kongó) en þar leituðu um 65 þúsund konur sér aðstoðar árið 2020 vegna kynferðisofbeldis, samkvæmt opinberum tölum, sem er há tala en því miður eingöngu toppurinn á ísjakanum að sögn Magneu. 

Út frá sjónarmiðum mannlegrar reisnar

AFP

Líkt og fram kom hér að ofan fékk Honorine fjárhagsaðstoð frá Alþjóðaráði Rauða krossins í Austur-Kongó. Eitt af því sem ráðið gerir er að aðstoða fólk sem er í hættu á að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi eða hefur orðið fyrir slíku ofbeldi fjárhagsaðstoð í stað hefðbundins stuðnings í formi t.d. matargjafa.

„Við hjá Alþjóðaráðinu horfum á aðstoðina út frá sjónarmiðum mannlegrar reisnar. Þeim kostum sem fylgja því að veita fjárhagsstuðning  til einhvers tíma þar sem hver og ein(n) hefur val um hvort hann eða hún kaupir mat, lyf, borgar fyrir húsaskjól eða leggur eitthvað til hliðar til að fjárfesta í starfsemi sem veitir hugsanlega lífsviðurværi til framtíðar.

Neyðaraðstoðin kom síðar til sögunnar til að koma betur á móts við þarfir þeirra sem taldir eru vera í bráðri hættu, þar með talið þolendur sem eiga á hættu að verða fyrir frekara ofbeldi og þurfa að komast í öruggt húsaskjól en hafa ekki peninga til að borga fyrir það. Verklagið sem var komið á fót felst í því veita tilteknum starfsmönnum, eins og heilbrigðisstarfsmönnum, umboð til að veita neyðaraðstoð á grundvelli hættumats sem er unnið með hraði af þeim út frá ákveðnum viðmiðum enda getur það skipt sköpum fyrir öryggi einstaklinga og framtíð þeirra að þeir geti t.d. fengið bráðaaðstoð til að koma sér í öruggt skjól,“ segir Magnea. 

AFP

Er ekki hætta á að starfsmenn misnoti sér aðstöðu sína?

„Þegar ég fór að skoða þennan stuðning kviknaði strax hjá mér sú spurning hvort búið væri að skoða hættuna á því að starfsmenn gætu misnotað aðstöðu sína gagnvart þessum einstaklingum sem eru í einkar viðkvæmri stöðu. Í kjölfarið var samþættuð betur inn í þjálfun þeirra sú ábyrgð sem starfsmennirnir hafa með vísan í siðareglur Alþjóðaráðsins sem kveða á um blátt bann við misnotkun á aðstöðu og kynferðislega misnotkun af öllu tagi. Um leið lærðu starfsmennirnir til viðbótarávinnings að koma betur auga á hættuna á misnotkun í störfum sínum.“ 

Hjálparstarf er erfitt á Covid-tímum.
Hjálparstarf er erfitt á Covid-tímum. AFP

Þegar talið berst að Covid-19 staðfestir Magnea að heimsfaraldurinn hafi gert hjálpar- og mannúðarstarf enn erfiðara en oft áður. Hún bendir þó einnig á að eitt af því góða sem fylgi fárinu er að margsvkonar fræðsla fer fram á netinu sem gerir að allir hafa sama eða jafnari aðgang að fræðslu og upplýsingum.

„En því miður hefur ofbeldi aukist í heiminum samfara Covid. Aðgangur fólks að aðstoð og öfugt, það er aðgangur hjálparstarfsmanna að þurfandi fólki, er orðinn mun verri og erfiðari. Reynt er að veita fjarráðgjöf og aðstoð en það er aldrei það sama. Miklu skipti hversu góða vinnufélaga ég á og að samvinna okkar er góð. Það ríkir mikill metnaður og mér þykir gaman að upplifa hversu miklu við höfum komið til leiðar á stuttum tíma,“ segir Magnea sem var sjálf í fjarvinnu á Íslandi um tíma en er nú komin aftur til Genfar þar sem höfuðstöðvar Alþjóðaráðs Rauða krossins hafa verið frá stofnun samtakanna. 

mbl.is