Heitir eftir Etnu og á eldfjalladætur

Barnamenning | 11. apríl 2021

Heitir eftir Etnu og á eldfjalladætur

Rithöfundurinn Sigríður Etna Marinósdóttir sendi í fyrra frá sér barnabókina Hasar í hrauninu. Sagan gerist á svæðinu í kringum Grindavík sem hefur verið áberandi í fréttum að undanförnu vegna tíðra jarðskjálfta og eldsumbrota. Það má segja að jarðhræringar séu endurtekið stef í lífi Sigríðar Etnu. Hún býr í Grindavík auk þess sem hún er nefnd eftir einu þekktasta eldfjalli í heimi, Etnu á Sikiley.

Heitir eftir Etnu og á eldfjalladætur

Barnamenning | 11. apríl 2021

Sigríður Etna ásamt Ingólfi manni sínum og eldfjallasystrunum Ingibjörgu Etnu …
Sigríður Etna ásamt Ingólfi manni sínum og eldfjallasystrunum Ingibjörgu Etnu og Heklu Margréti. Ljósmynd/Aðsend

Rithöfundurinn Sigríður Etna Marinósdóttir sendi í fyrra frá sér barnabókina Hasar í hrauninu. Sagan gerist á svæðinu í kringum Grindavík sem hefur verið áberandi í fréttum að undanförnu vegna tíðra jarðskjálfta og eldsumbrota. Það má segja að jarðhræringar séu endurtekið stef í lífi Sigríðar Etnu. Hún býr í Grindavík auk þess sem hún er nefnd eftir einu þekktasta eldfjalli í heimi, Etnu á Sikiley.

Rithöfundurinn Sigríður Etna Marinósdóttir sendi í fyrra frá sér barnabókina Hasar í hrauninu. Sagan gerist á svæðinu í kringum Grindavík sem hefur verið áberandi í fréttum að undanförnu vegna tíðra jarðskjálfta og eldsumbrota. Það má segja að jarðhræringar séu endurtekið stef í lífi Sigríðar Etnu. Hún býr í Grindavík auk þess sem hún er nefnd eftir einu þekktasta eldfjalli í heimi, Etnu á Sikiley.

Nýja bókin er þriðja bók Sigríðar Etnu og fjallar hún um vini sem þyrstir í ævintýri og ákveða að leika sér í hrauninu í kringum bæinn sinn, Grindavík. Vinirnir kynnast hraunbúum og saman lendir hópurinn í atburði sem leiðir þau í spennandi ferðalag. 

Örnefni sem Íslendingar heyra æ oftar í fréttum koma fyrir í bókinni auk þess sem söguhetjurnar finna fyrir jarðskjálfta. Sagan gæti því varla átt betur við en í dag. 

„Í bókinni fara vinirnir upp á hið umtalaða fjall Þorbjörn en jarðhræringarnar byrjuðu í janúar 2020 þegar land reis við Þorbjörn. Það markaði upphafið að jarðhræringunum sem voru svo í rúmt ár og enduðu með eldgosi í Geldingadölum. Á einni opnu í bókinni finna aðalsöguhetjurnar fyrir hressilegum jarðskjálfta sem ríður yfir svæðið. Það verða allir frekar skelkaðir en láta þó ekki deigan síga og halda áfram ævintýraferð sinni í gegnum hraunið. Ég veit að bókin var vinsæl hjá börnum í Grindavík þegar jarðhræringarnar voru sem mestar hérna í lok febrúar og í mars. Það er svo mikilvægt fyrir börn að geta lesið bækur sem auðvelt er að tengja tilfinningar sínar og upplifanir við.“

Lestrarstund í hrauninu.
Lestrarstund í hrauninu. Ljósmynd/Aðsend

Til þess að kóróna allt heitir þú frægu eldfjallanafni. Hvernig kom það til?

„Elsta alsystir mín fæddist 9. apríl 1981 og þá gaus Hekla. Hún var því skírð Árný Hekla. Tíu árum seinna, 17. janúar 1991, gaus Hekla aftur og ég fæddist daginn eftir, hinn 18. janúar. Þegar mamma kom heim af fæðingardeildinni las hún í Morgunblaðinu að Hekla og Etna væru eldfjallasystur. Þar með var mitt nafn ákveðið. Við alsystkinin erum sex og er ég yngst í hópnum. Við Árný Hekla erum með stærsta skapið af systkinunum þannig að nöfnin passa vel við okkur. Sjálf á ég svo tvær eldfjalladætur, Ingibjörgu Etnu og Heklu Margréti.“

Hvernig er ala upp börn í Grindavík?

„Okkur fjölskyldunni líður vel í Grindavík og hér er gott að búa. Yngri dóttir mín er tveggja ára og er á heilsuleikskólanum Króki. Hún elskar leikskólann sinn, enda frábært fólk sem þar starfar. Eldri dóttir mín er í fyrsta bekk í Hópsskóla og líkar mjög vel. Það er stutt fyrir okkur að labba í báða skólana og íþróttastarfið í bænum er til fyrirmyndar. Nálægðin við náttúruna er mikil og hraunið hér í kring býður upp á mörg ævintýri. Við erum svo heppin að eiga stóra fjölskyldu hér í Grindavík. Það er mikill samgangur og allir hjálpast að.“

Fjölskyldan er ánægð í Grindavík.
Fjölskyldan er ánægð í Grindavík. Ljósmynd/Aðsend

Finnst þér krakkar áhugasamir um jarðhræringarnar á svæðinu? 

„Jarðhræringarnar höfðu vissulega áhrif á mörg börn og fullorðna hér í Grindavík. Í upphafi var þetta smá spennandi, en svo voru flestir orðnir frekar þreyttir á ástandinu. Það sem reyndist erfiðast var að ná heilum nætursvefni og vaknaði eldri dóttir mín stundum nokkrum sinnum hverja nótt og átti erfitt með að festa svefn aftur.

Maður heyrði af börnum sem voru orðin hvekkt eftir stærstu skjálftana. Áttu þá erfitt með að sofna, eða sofa í rúmunum sínum, fara ein á klósettið eða vera ein einhvers staðar á heimili sínu. Fullorðna fólkið var sammála því að börnin í bænum væru mikið í jarðskjálfta- og eldgosaleikjum. En það var eflaust þeirra leið til að ná að vinna úr tilfinningum sínum, í gegnum leikinn. Það var gaman að fylgjast með sumum leikjunum og finna hvernig þeirra upplifun á ástandinu var. Svo var vissulega spennandi hve oft Grindavík kom fyrir í fréttum og fannst dóttur minni gaman að sjá viðtöl við fólk sem býr hér í Grindavík og hún þekkti til.

Heimilislífið varð aðeins öðruvísi þegar jarðhræringarnar voru sem mestar í lok febrúar og í mars. Við reyndum að gera okkur dagamun. Borðuðum yfir sjónvarpinu, vorum dugleg að baka og bjóða fólkinu okkar í matarboð. Þegar mikið gekk á vorum við dugleg að skella í danspartí. Þá hækkuðum við tónlistina í botn og dönsuðum á fullu til að finna ekki fyrir skjálftunum. Allt sem braut upp daginn gerði okkur gott og að vera með fólkinu okkar.“

Af hverju byrjaðir þú að skrifa barnabækur?

„Ég las mikið sem barn og fannst gaman að skrifa sögur. Kennari minn í grunnskóla sagði að ég ætti eftir að verða rithöfundur þegar ég yrði stór. Í framhaldsskóla tók ég áfanga um barnabókmenntir. Eftir það jókst áhugi minn fyrir barnabókum og var ég búin að kaupa ansi margar barnabækur áður en ég átti stelpurnar mínar.

Eldri dóttir mín, sem fæddist árið 2014, fór ekki á leikskóla fyrr en hún var að verða tveggja ára. Við fengum því góðan tíma saman og fórum við mikið vestur á Tálknafjörð til foreldra minna í sveitina þeirra. Það var svo gaman að fylgjast með henni njóta sín í sveitinni og í náttúrunni í kring og mig langaði að leyfa öðrum börnum að njóta þess líka. Þá ákvað ég að láta vaða og skrifa fyrstu barnabókina mína. Það ferli gekk vonum framar og það var erfitt að stoppa. Það er alltaf svo gaman að skapa og láta drauma sína rætast.“

Sigríður Etna áritar Etnu og Enok fara í sveitina. Bókin …
Sigríður Etna áritar Etnu og Enok fara í sveitina. Bókin er fyrsta bókin hennar. Ljósmynd/Aðsend

Færðu á einhvern hátt innblástur frá börnunum þínum?

„Ég fæ innblástur þegar ég les góðar og vandaðar bækur. Bæði barnabækur fyrir stelpurnar mínar og bækur sem ég les sjálf. Það er mikið lesið á okkar heimili. Börn laðast oft að bókum sem þau tengja auðveldlega við. Að hlusta á lestur og skoða myndir af einhverju sem þau þekkja. Einfaldleikinn er oft bestur. Stundum segi ég að hausinn á mér stoppi aldrei og ég leyfi honum að reika. Vandamálið er ekki að fá hugmyndir heldur að finna tíma til að koma þeim niður á blað.“

Sigríður Etna sækir einnig innblástur í sitt nærumhverfi. Hasar í hrauninu gerist á Reykjanesi en sögusvið fyrstu bókar hennar, Etna og Enok fara í sveitina, er Tálknafjörður þar sem foreldrar Sigríðar Etnu búa. Önnur bókin hennar heitir Etna og Enok hitta jólasveinana og kom hún út í lok árs 2019. Núna er fjórða barnabókin hennar komin í prentun en hún heitir Etna og Enok ferðast um Ísland. Freydís Kristjánsdóttir, frænka Sigríðar Etnu, myndskreytti allar bækurnar.

mbl.is