Grillað lambalæri er hin fullkomna grillmáltíð því vel eldað lambakjöt er eins og við vitum – algjört sælgæti.
Grillað lambalæri er hin fullkomna grillmáltíð því vel eldað lambakjöt er eins og við vitum – algjört sælgæti.
Að grilla lambalæri er fremur einfalt, þá ekki síst ef heimilið býr svo vel að eiga kjarnhitamæli. Meðlætið er eins einfalt og hugsast getur. Grillkartöflurnar leika þar stórt hlutverk og ekkert verið að flækja einfaldan hlut. Með kartöflunum er svo löguð einföld sósa úr sýrðum rjóma og steinselju. Grillaður maís og síðan plómur sem búið er að skera í helminga og setja hunang yfir. Punkturinn yfir i-ið eru síðan portobello-sveppirnir sem búið er að fylla með frönskum camembert-osti.
Grillað lambalæri eins og það gerist best
- Grilllæri frá Hagkaup sem búið er að marinera með íslenskum kryddjurtum.
- Bökunarkartöflur
- Ferskur maís
- Plómur
- Hunang
- Piparostasósa
- BBQ-sósa: Famous Dave Texas Dip
Dressing:
- Sýrður rjómi
- Fersk steinselja
Aðferð:
- Hitið grillið upp í miðlungshita og setjið lærið á það. Æskilegt er að kjötið sé við stofuhita þegar það fer á grillið.
- Snúið lærinu reglulega (á 15-20 mínútna fresti) uns kjarnhitinn er kominn upp í 65 gráður. Penslið reglulega með BBQ-sósu.
- Á sama tíma skal byrja að grilla kartöflurnar en gott er að forbaka þær í ofni þar sem þær þurfa töluvert langan tíma til að verða gegneldaðar.
- Hreinsið maísinn og sjóðið í nokkrar mínútur til að hann þurfi styttri tíma á grillinu. Setjið því næst á grillið.
- Hreinsið stilkinn og skafið innan úr sveppunum. Skerið ostinn í sneiðar og raðið inn í sveppinn.
- Skerið plómurnar í tvennt. Fjarlægið steininn og hellið hunangi yfir.
- Hitið sósuna upp í potti.
- Setjið maísinn, sveppina og plómurnar á grillið og grillið uns tilbúið.
- Takið af grillinu, gott er að láta kjötið hvíla um stund áður en það er borið fram en hér er öllum matnum raðað á eitt fat og borið fram þannig.
- Afar einföld en algjörlega frábær máltíð.
Allir grilla er samstarfsverkefni Matarvefs mbl.is og Hagkaups.