Borgin lokar neyðarskýli fyrir heimilislausar konur

Samfélagsmál | 14. júní 2021

Reykjavíkurborg lokar neyðarskýli fyrir heimilislausar konur

Reykjavíkurborg mun í lok júlí loka neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Úrræðinu var komið á vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar á síðasta ári og hefur það verið framlengt nokkrum sinnum síðan. 

Reykjavíkurborg lokar neyðarskýli fyrir heimilislausar konur

Samfélagsmál | 14. júní 2021

Horft yfir Reykjavík.
Horft yfir Reykjavík. mbl.is

Reykjavíkurborg mun í lok júlí loka neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Úrræðinu var komið á vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar á síðasta ári og hefur það verið framlengt nokkrum sinnum síðan. 

Reykjavíkurborg mun í lok júlí loka neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Úrræðinu var komið á vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar á síðasta ári og hefur það verið framlengt nokkrum sinnum síðan. 

Um er að ræða úrræði á vegum borgarinnar og félagsmálaráðuneytisins til að koma til móts við þarfir heimilislausra kvenna og var þeim komið fyrir í Konukoti og nýja úrræðinu til þess að hægt væri að tryggja tveggja metra regluna. Til stóð að loka úrræðinu síðasta sumar. 

Í yfirlýsingu sem tíu heimilislausar konur sendu frá sér í ágúst á síðasta ári kom meðal annars fram að heimsfaraldur hafi þurft til að aðeins færri yrðu heimilislausir hér á landi. 

„Tíu kon­ur á aldr­in­um 19-60 ára sem all­ar áttu það sam­eig­in­legt að hafa þurft að búa á göt­unni í lengri eða styttri tíma fluttu í þetta tíma­bundna neyðarúr­ræði í lok apríl 2020. Við erum þess­ar kon­ur. Nú þegar Covid-19-smit­um hef­ur fækkað á Íslandi á að loka úrræðinu og henda okk­ur aft­ur út á göt­una,“ sagði í yf­ir­lýs­ing­unni. 

Regína Ásvaldsdóttir, forstöðumaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir að nú sé unnið að því að tryggja þeim konum sem enn búa í úrræðinu langtímabúsetuúrræði, allt frá hjúkrunarrýmum til sjálfstæðrar búsetu með stuðningi. 

Húsnæðið undir neyðarskýlið hafi verið tekið tímabundið á leigu vegna Covid-19. 

„Þetta var hugsað sem sóttvarnaráðstöfun og félagsmálaráðuneytið styrkti verkefnið. Við höfum fengið framlengingu nokkrum sinnum  en sjáum sem betur fer fram á að við séum að ná eins konar hjarðónæmi í samfélaginu og því ekki þörf á úrræði af þessum toga. Við erum að tryggja þeim konum sem búa enn í [neyðarskýlinu] langtímabúsetuúrræði, allt frá hjúkrunarrýmum til sjálfstæðrar búsetu með stuðningi,“ segir Regína. 

Með lokun úrræðisins verður Konukot eina neyðarúræði fyrir heimilislausar konur. 

„Við fylgjumst vel með þróuninni í Konukoti, sem Rótin rekur fyrir Reykjavíkurborg og það er ljóst að ef það verður skortur á plássum í neyðarskýlinu þar, þá þurfum við og munum við bregðast við þeirri stöðu, ótengt húsnæðinu [undir neyðarskýlið],“ segir Regína. 

Upphaflega voru níu gistirými í Skipholti en þau urðu 14 þegar mest lét. 

Allir meðvitaðir um ástandið 

Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona Konukots, segir Konukot vera yfirfullt margar nætur. 

„Það er allt fullt hjá okkur, ekki á hverri nóttu en stundum er yfirfullt. Það fer eftir veðri og vindum. Nýtingin er náttúrulega óstabíl, sumar eru bara eina nótt og sumar eru alltaf og svo skiptast þær út. Það væri algjörlega ótækt að taka við konunum [úr neyðarskýlinu],“ segir Halldóra. 

Tólf gistipláss eru í Konukoti. 

„Það eru allir meðvitaðir um þetta ástand og allir að reyna að leggjast á eitt að það komi ekki til þess að út í það fari,“ segir Halldóra. 

Hún segir að tímabundna neyðarskýlið hafa breytt miklu í málaflokknum. 

„Þegar [neyðarskýlið] opnaði breytti það mjög miklu og tók rosalega mikið álag af okkur. Við erum fyrst og fremst neyðarskýli en erum að sinna miklu meiru en því, það er mikið einstaklingsframtak. Þjónustan er mjög takmörkuð og það er verið að stóla svolítið á að þeir sem eru að þjónusta séu að fara smá fram yfir starfssviðið sitt. Þetta er fyrsti hópurinn til að missa þjónustu og seinasti hópurinn til að fá þjónustu, bara alls staðar,“ segir Halldóra. 

Væri hægt að fyrirbyggja óþarfa álag og uppákomur 

Þá segir hún neyðarskýlið hafa verið mun ákjósanlegra en Konukot. 

„Úrræði eins og [neyðarskýlið] er svo miklu betra. Þar eru einstaklingsherbergi, konur í þessari stöðu með svona gríðarlega áfallasögu og áföllin eru oft tengd hvor annarri, að þurfa að vera í sameiginlegu herbergi, allt sameiginleg rými, það er gríðarlegt áreiti. Aðstaðan veldur oft óþarfa álagi og uppákomum sem væri hægt að fyrirbyggja ef það væri hægt að hafa næði, sem ætti bara að vera mannréttindi,“ segir Halldóra. 

Halldóra telur að vilji til þess að bæta aðstæður heimilislausra kvenna sé til staðar. 

„Það er svo stutt síðan þær urðu sýnilegar, þær voru svo faldar. Ég held að draumurinn hjá Reykjavíkurborg sé að neyðarskýli heyri sögunni til og fólk fái bara úrræði. Ég held að viljinn sé alveg til staðar en þetta snýst alltaf bara um peninga. Þessi hópur er ekkert vanur að hafa forgang þegar það er verið að úthluta almannafé,“ segir Halldóra. 

Hún bendir jafnframt á að neyðarskýlinu hafi verið komið upp vegna þess að það sneri að lýðheilsu: „Það er erfitt að ferðast innanhúss þegar þú átt ekkert hús.“

Þá segir Halldóra að Konukot muni ekki vísa neinum frá. 

„Þær konur sem eru heimilislausar koma til okkar, við erum ekki að vísa þeim frá. Þá verður starfsemin bara löguð að því, hvernig sem við gerum það.“

mbl.is