Aðstandendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu sem varðar niðurstöðu lögreglurannsóknar vegna listasýningar í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld.
Aðstandendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu sem varðar niðurstöðu lögreglurannsóknar vegna listasýningar í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld.
Aðstandendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu sem varðar niðurstöðu lögreglurannsóknar vegna listasýningar í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld.
Aðstandendurnir, þau Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, segja niðurstöðu lögreglunnar staðfesta að dagbókarfærsla hennar um afskipti lögregluþjóna af fólki í salnum hafi verið efnislega röng.
„Engar ávirðingar um brot á opnunartíma eða fjöldatakmörkunum koma fram í nýfenginni niðurstöðu embættisins vegna málsins. Í niðurstöðunni er aðstandendum safnsins boðið að ljúka máli vegna brots á 4. grein reglugerðar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar með sektargerð,“ segir í yfirlýsingu aðstandendanna.
Umrætt ákvæði snúi að grímuskyldu.
„Önnur brot á sóttvarnareglum voru ekki framin umrætt kvöld, líkt og staðfest er í niðurstöðunni. Niðurstaðan er í samræmi við það sem við höfum bent á allt frá birtingu dagbókarfærslu lögreglu á aðfangadagsmorgun, þar sem fullyrt var að haldið hefði verið samkvæmi, of margir verið á staðnum og lögboðnum lokunartíma ekki sinnt,“ segja Aðalheiður og Sigurbjörn.
„Hið rétta er, líkt og fram hefur komið og staðfest er í niðurstöðu lögreglu, að ekki var um neitt samkvæmi að ræða, heldur árlegu sölusýninguna „Gleðileg jól“. Þá voru reglur um fjöldatakmarkanir ekki brotnar, enda máttu verslanir taka á móti 5 manns á hverja 10 m² en að hámarki 100 manns umrætt sinn. Enn fremur máttu verslanir hafa opið til klukkan 23 á Þorláksmessu, eins og víða var í miðborg Reykjavíkur,“ segir í yfirlýsingunni.
„Við höfum áður gengist við því að ekki var nægilega gætt að því að allir gestir bæru grímu öllum stundum í öllum rýmum listasýningarinnar. Munum við því greiða sektina og ljúka málinu, sem nú hefur verið til rannsóknar í um hálft ár, með þeim hætti.
Rétt er að taka fram að nefnd um eftirlit með lögreglu tók starfshætti lögreglu til skoðunar og hefur gert alvarlegar athugasemdir við háttsemi lögregluþjóna og vinnubrögð embættisins.“