Skúli Þór Gunnsteinsson, formaður eftirlitsnefndar með starfsháttum lögreglu, segir nefndina ekki hafa vitað að lögreglan ætti við upptökur áður en þær bárust nefndinni en hefur fengið skýringu á verklaginu. Hann segir lögreglumenn þurfa að geta setið á sér á vettvangi og ítrekar mikilvægi þess að nefndin hafi aðgang að upptökum úr búkmyndavélum.
Skúli Þór Gunnsteinsson, formaður eftirlitsnefndar með starfsháttum lögreglu, segir nefndina ekki hafa vitað að lögreglan ætti við upptökur áður en þær bárust nefndinni en hefur fengið skýringu á verklaginu. Hann segir lögreglumenn þurfa að geta setið á sér á vettvangi og ítrekar mikilvægi þess að nefndin hafi aðgang að upptökum úr búkmyndavélum.
Skúli Þór Gunnsteinsson, formaður eftirlitsnefndar með starfsháttum lögreglu, segir nefndina ekki hafa vitað að lögreglan ætti við upptökur áður en þær bárust nefndinni en hefur fengið skýringu á verklaginu. Hann segir lögreglumenn þurfa að geta setið á sér á vettvangi og ítrekar mikilvægi þess að nefndin hafi aðgang að upptökum úr búkmyndavélum.
Skúli bendir á að samkvæmt lögreglulögum hafi nefndin rétt á öllum þeim upplýsingum sem hún telur sig þurfa til að sinna starfsskyldum sínum enda sé hún bundin þagnarskyldu um þær upplýsingar. Til að nefndin geti uppfyllt lögbundið hlutverk sitt sé því nauðsynlegt að hafa frumgögn, eins og upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna, en ekki endurrit slíkra gagna.
Málið, sem hefur verið mikið til umræðu síðustu daga og varðar sóttvarnabrotið í Ásmundarsal á Þorláksmessu, varpaði ljósi á að lögreglan eigi þess kost að eiga við upptökur áður en þær berast eftirlitsnefndinni. Þetta kom nefndinni í opna skjöldu og varð til þess að hún fór að skoða mál aftur í tímann enda hafði hún unnið í þeirri trú að hún fengi alltaf í hendurnar frumgögn.
Nefndin hefur því til skoðunar að endurupptaka einstök mál þar sem upptökur eru á einhvern hátt óvenjulegar eða þar sem hljóð vantar. Einnig kemur til greina að biðja aðeins um skýringu á þessu en sleppa því að taka málin upp að nýju.
„Við erum búin að fá upplýsandi og greinargóðar skýringar frá lögreglunni um það hvernig geymslu er háttað á þessum upptökum. Það minnkar líkur á því að við endurupptökum málin,“ segir Skúli og bætir við að nefndin hafi ekki ástæðu til að ætla að lögreglan sé að leyna neinu en að ljóst sé að nefndin hafi ekki verið nægilega vel upplýst um verkferlana.
Að sögn Skúla hefur nefndinni verið boðið að koma og sjá hvernig upptökurnar eru meðhöndlaðar. „Þetta er víst mjög flókið ferli sem margir koma að og þurfa að samþykkja svo það geta ekki einstaka lögreglumenn óskað þess að ákveðnum hlutum sé eytt.“
Varðandi upptökuna í þessu tiltekna máli segir Skúli lögregluna hafa tekið út hljóðið því hún hafi ekki talið það skipta máli fyrir refsimálið sem slíkt. Hann segir misskilninginn liggja í því að nefndin var ekki að skoða refsimálið heldur starfshætti lögreglumannanna á vettvangi.
Landssamband lögreglumanna hefur gagnrýnt harðlega verklag nefndarinnar að taka til skoðunar samtal tveggja lögreglumanna, sem þeir telja til einkasamtals, og gera svo grein fyrir því í ákvörðun sinni.
„Landssambandið er ekki ánægt með okkur. Þeir eru búnir að senda okkur bréf sem hefur verið kynnt nefndinni og við munum bara svara því í rólegheitum,“ segir Skúli. Hann bendir hins vegar á að meðan menn eru í búningi og að hafa áhrif á aðstæður þá eigi þeir ekki að tala með þeim hætti sem lögregluþjónarnir gerðu þetta umrædda kvöld.
Þótt landssambandið telji þetta einkasamtöl þá hafi lögreglumennirnir verið í þannig aðstæðum að einhver hefði getað staðið fyrir aftan þá. „Þeir eru að tala um einstaklinga og velta fyrir sér hvaða leið málið færi í fjölmiðlum.“ Hann bendir jafnframt á að það væri talið álíka ámælisvert ef lögregluþjónar hefðu afskipti af rænulausum manni og væru með yfirlýsingar um þá persónu sem hann hefði að geyma á sama tíma. „Þótt þeir telji sig standa afsíðis og tala saman þá verða þeir bara að sitja á sér.“
Dagbókarfærsla lögreglu sem barst fjölmiðlum daginn eftir var að mati nefndarinnar óvenjuítarleg og samræmdist að nokkru því sem lögreglumenn ræddu á vettvangi. „Lögreglumönnum er að sjálfsögðu frjálst að hafa sínar skoðanir en nefndin álítur að það samræmist ekki starfsskyldum þeirra að láta sínar persónulegu skoðanir í ljós á vettvangi þótt þeim sé ekki beint að þriðja aðila.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, hefur bent á það að engar líkur séu á því að þeir lögregluþjónar sem voru á vettvangi hafi sjálfir skrifað dagbókarfærsluna sem rataði til fjölmiðla. „Lögregluþjónarnir koma niður á stöð og skrifa væntanlega skýrslu. Þótt það sé einhver annar sem setur saman fréttatilkynningu þá tala lögreglumenn alveg saman og geta litast af svona umræðu,“ segir Skúli um þetta.
Varðandi það að samtölin hafi birst orðrétt í ákvörðun nefndarinnar segir Skúli að nefndin hafi rætt það og metið það nauðsynlegt. „Við afhendum bara málsaðilum og lögreglunni þessar ákvarðanir. Menn þurfa að vita hvað er verið að gera athugasemdir við enda er vont að fá ákvörðun og þurfa að giska á hvað var talið ósæmilegt.“
Hann ítrekar að nefndin hafi ekki sjálf birt þessa ákvörðun eða afhent hana fjölmiðlum. Ef það væri venjan þyrfti að afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar og líklega hefði samtalið þá ekki verið birt orðrétt.
Landssamband lögreglumanna ætlar sér að taka málið lengra og þykir illa vegið að persónufrelsi lögreglumanna ef nefndin hefur ótakmarkaðan rétt á upptökum úr búkmyndavélum. „Þeir eiga ekki að hafa svona miklar áhyggjur af þessu, við erum ekki að taka eitthvað fyrir sem tengist ekki hlutunum beint,“ segir Skúli.
Hann segir nefndina oft hafa til hlustað á upptökur þar sem greina megi ýmis samtöl lögreglumanna sem varði persónuleg málefni þeirra eða bara daginn og veginn. „Við höfum heyrt lögreglumenn tala óvirðulega á öðrum stöðum en það kemur þá málinu ekkert við.“
Þessi samtöl skipti ekki máli og nefndin leiði þau bara hjá sér, hafi þau ekkert að gera með málið sem er til meðferðar. Lögreglan tekur að auki út nöfn lögreglumanna þannig að nefndin hefur aðeins lögreglunúmer við vinnslu mála.
Skúli hefur þó engar áhyggjur af því þótt Landssamband lögreglumanna muni kvarta til Persónuverndar. „Ef Persónuvernd telur að við þurfum að gera breytingar þá eru það bara góð rök til að breyta verklaginu,“ segir hann. Ágætt þætti honum að fá álit Persónuverndar á þessu enda sé nefndin ekki óskeikul og það megi ábyggilega bæta verklagið.
Þeirri hugmynd hefur verið teflt fram að lögreglumenn muni slökkva á búkmyndavélum í mótmælaskyni. „Það er galið ef landssambandið ætlar að hvetja lögreglumenn til að hafa slökkt á þessum myndavélum,“ segir Skúli.
Hann bendir á að í langflestum tilfellum hjálpi búkmyndavélin lögreglumönnum og tryggi starfsfrið um þeirra störf. „Við fáum margar alvarlegar kvartanir sem er svo ekkert til í,“ segir hann. Upptökur úr búkmyndavélum hjálpi þannig til við að sía úr, hvaða mál þurfi að taka til skoðunar.
„Án upptakanna værum við endalaust að dæla málum inn til lögregluembættanna. Úr yrði pappírsmylla sem gæti drekkt embættinu enn frekar.“
„Ef þú ert stoppuð af lögreglumanni sem er með allt í upptöku og sendir okkur svo bréf um að hann hafi verið dónalegur og kallað þig öllum illum nöfnum, fáum við upptökuna og sjáum svo kannski að hann var bara mjög kurteis. Svona er þetta oftast,“ segir Skúli en hann telur lögregluna almennt standa sig vel.