Landssamband lögreglumanna hefur sent erindi til Persónuverndar og nefndar um eftirlit með störfum lögreglu, vegna úrskurðar nefndarinnar um störf lögreglu í kringum sóttvarnabrot sem framin voru í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Landssamband lögreglumanna hefur sent erindi til Persónuverndar og nefndar um eftirlit með störfum lögreglu, vegna úrskurðar nefndarinnar um störf lögreglu í kringum sóttvarnabrot sem framin voru í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Landssamband lögreglumanna hefur sent erindi til Persónuverndar og nefndar um eftirlit með störfum lögreglu, vegna úrskurðar nefndarinnar um störf lögreglu í kringum sóttvarnabrot sem framin voru í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Í úrskurðinum tók nefndin til umfjöllunar einkasamtal tveggja lögreglumanna fyrir utan salarkynnin og kvað upp að það fæli í sér „ámælisverða framkomu“.
Formaður sambandsins, Fjölnir Sæmundsson, sagði í síðustu viku að sambandið væri búið að ráða lögmann til að fara yfir möguleg úrræði og réttarstöðu lögreglumannanna í tengslum við meðferð upptaka úr búkmyndavélum.
„Við erum að vonast til þess að fá svör við því hvort nefndin hafi gengið of langt í störfum sínum, og fá einhvers konar línu um það hvað er rétt að skoða í upptökum,“ segir Fjölnir í samtali við mbl.is í dag.
„Lögreglumenn eru auðvitað í upptökum allan daginn þannig að við viljum fá línu um það hvort það sé í lagi að fara yfir persónuleg samskipti lögreglumanna og leggja svo til að þeir verði síðan áminntir fyrir það.“
Fjölnir bendir á að hann hafi komið strax fram og fordæmt hvernig nefndin hefði farið út fyrir valdsvið sitt að hans mati í úrskurðinum.
„Mér finnst hún komin á hálan ís og ég var að benda á það að þetta tilheyrði ekkert málinu. Það hefur ekkert verið sett út á vinnubrögð lögreglumannanna í málinu. Þess vegna sendum við nefndinni bréf og erindi til Persónuverndar því okkur finnst nefndin hafa gengið of nærri persónufrelsi þessara einstaklinga, þessara lögreglumanna,“ segir Fjölnir.
Samskipti lögreglumannanna tveggja voru eftirfarandi, samkvæmt upptöku:
„Hvernig yrði fréttatilkynningin [...] 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar [...] er það of mikið eða?“
Þá svaraði hinn lögregluþjónninn: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það.“
Og einnig: „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálfstæðis [...] svona [...] framapotarar eða þú veist.“
Fjölnir segir það persónulegt mat hvers og eins hvort ummælin lýsi einhverjum fordómum.
„En mér finnst þetta ansi hart gengið fram og vegið ansi nálægt persónufrelsi lögreglumannanna. Það er eins og það sé verið að reyna fylgjast með hugsunum þeirra.“
Mér finnst það mjög skrýtið og það er það sem við spyrjum nefndina um, hvernig þetta atvikaðist. Þau setja í sína skýrslu persónurekjanlegar upplýsingar, bæði lögreglunúmerið og svo orðrétt hvað þau segja. Okkur finnst það skrýtið.“
Spurður út í þær aðfinnslur nefndarinnar, að hún hafi í fyrstu ekki fengið upptökurnar með öllu óbreyttar, segir Fjölnir:
„Eins og ég skil þetta þá var ekki búið að breyta þeim. Hjá þessum lögreglumönnum sem eru búnir að vinna allan daginn eru kannski átta klukkustundir af upptöku. Það er ekki verið að senda allt á nefndina sem kemur einhverju allt öðru fólki við, og kannski persónugreinanlegar upplýsingar um fólk sem var ofurölvi svo ég taki dæmi. Nefndin hlýtur að gera sér grein fyrir því að það þarf að klippa þetta eitthvað til.
En svo skilst mér reyndar að það hafi ekkert verið sent, þetta sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taldi bara einkasamtal – það er ekki sent á nefndina fyrr en þessi lögmaður fer fram á það.“
Stundin greindi frá því í vikunni að eigendur Ásmundarsalar hefðu vitað af ummælum lögreglumannanna á undan nefndinni.
Spurður um þetta bendir Fjölnir á að eigendur salarins hafi verið teknir til yfirheyrslu fyrir sóttvarnabrotið.
„Þá er væntanlega spiluð upptaka frá kvöldinu til að sýna sóttvarnabrotið. Þá finnst mér mjög líklegt að þetta hafi verið inni á þeirri upptöku eða eitthvað slíkt, án þess að ég viti það. Ég hef í raun ekki skýringar á því af hverju þau vissu af þessu á undan nefndinni.“