Juan Carlos Suarez Leyva segist hafa verið svarti sauðurinn í samfélagi byltingarsinna, Kúbverjar séu margir með tvöfalt siðferði en nú sé þeim ofboðið. Honum þykir sárt að geta ekki tekið þátt í mótmælunum á Kúbu með vinum sínum en telur að með því að halda áfram með ferðalög sín til Kúbu fyrir Íslendinga, geti hann haldið áfram að hjálpa fólki.
Juan Carlos Suarez Leyva segist hafa verið svarti sauðurinn í samfélagi byltingarsinna, Kúbverjar séu margir með tvöfalt siðferði en nú sé þeim ofboðið. Honum þykir sárt að geta ekki tekið þátt í mótmælunum á Kúbu með vinum sínum en telur að með því að halda áfram með ferðalög sín til Kúbu fyrir Íslendinga, geti hann haldið áfram að hjálpa fólki.
Juan Carlos Suarez Leyva segist hafa verið svarti sauðurinn í samfélagi byltingarsinna, Kúbverjar séu margir með tvöfalt siðferði en nú sé þeim ofboðið. Honum þykir sárt að geta ekki tekið þátt í mótmælunum á Kúbu með vinum sínum en telur að með því að halda áfram með ferðalög sín til Kúbu fyrir Íslendinga, geti hann haldið áfram að hjálpa fólki.
Juan bjó á Kúbu þar til hann varð 26 ára gamall. Hann flutti til Íslands árið 2009 og hefur, ásamt Guðna Kristinssyni, rekið ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í ferðum til Kúbu.
Juan fer með í allar ferðirnar og eru þær með öðru sniði en hefðbundnar Kúbuferðir þar sem hann reynir að sniðganga ríkið og sýna íslenskum ferðalöngum hina einu sönnu Kúbu.
Juan segist fyrst hafa séð Kúbu almennilega eftir að hann flutti þaðan. Þá hafði hann getað komið aftur sem ferðamaður, leigt bíl sem hann hafði ekki haft efni á sem Kúbverji, og keyrt um landið.
Vanalega er flogið frá Kanada og svo tekur á móti hópnum bílstjórinn Yandri sem Juan þekkir. Juan vill sniðganga ríkið eins mikið og hægt er en „ríkið er allsstaðar.“ Þess vegna gistir hann með hópana sína á gistingum sem Kúbverjar reka inn á heimilum sínum. Einnig borðar hann aðeins á veitingastöðum sem eru heima hjá Kúbverjum. Allt er borgað í reiðufé til þess að peningurinn komist örugglega til fólksins. „Þannig hjálpum við fólkinu,“ segir Juan.
Eftir tíu daga dvöl hjá Kúbverjum í fátækum hverfum enda ferðalögin á þriggja daga dvöl á ríkisreknu hóteli. Juan segist gera þetta til þess að sýna Íslendingum hvernig Kúba fyrr ferðamenn er á skjön við Kúbu sem Kúbverjar þekkja. „Ríkið byggir glæsileg hótel meðan göturnar eru ónýtar, vatn skilar sér ekki inn á heimilin og rafmagnið er stopult,“ segir Juan.
Kúba er með tvo gjaldmiðla, einn fyrir ferðamenn, annað fyrir heimamenn og svo einnig svartan markað til hliðar við hagkerfin tvö. Hagkerfi Kúbu byggir að mestu leyti á ferðamönnum og því hefur Covid leikið Kúbverja grátt þar sem landamæri hafa verið lokuð. Ferð sem Juan og Guðni höfðu skipulagt fyrir Nóvember á þessu ári mun til að mynda falla niður af þeim sökum.
Í ljósi ástandsins sem ríkir í Kúbu vegna mótmælanna sem hafa staðið yfir síðustu daga gegn ríkisstjórninni segist Juan búinn að vera á báðum áttum með hvert framhald ferðanna verði.
„Fyrstu viðbrögð mín voru að hætta ferðunum því ég vil ekki styðja ríkið með neinum hætti. Svo hugsaði ég það lengra. Við erum að hjálpa fólkinu meira en við hjálpum ríkinu. Bílstjórinn okkar er til að mynda búinn að ná að byggja hús fyrir fjölskyldu sína bara vegna peninganna sem hann fær frá íslenskum ferðamönnum.“
Juan mun þó ekki skipuleggja ferð fyrr en hann er viss um að hægt sé að tryggja öryggi ferðamannanna. Hann kemst ekki til Kúbu núna en vildi óska að hann væri þar og á götunum að mótmæla með fólkinu sínu.
„Ég er fyrst og fremst Kúbverji. Ég flutti frá Kúbu því ég á mér drauma og það er ekki pláss fyrir drauma í kommúnísku þjóðfélagi,“ segir Juan. „Fidel Castro drap drauma Kúbverja með því að láta þá bara hugsa um mat. Fólk getur ekki hugsað um pólitík þegar það er alltaf svangt.“
Hann ólst upp við aðgengi að bandarísku sjónvarpi því hann bjó við ströndina sem barn og faðir hans var vanur að beina loftnetinu í átt að höfn Bandaríkjanna. Hann segist alla tíð hafa verið uppreisnarseggur, svarti sauðurinn í samfélagi byltingarsinna.
Juan segir frá því að í skóla eigi börnin að koma fram fyrir kennarann og segja „Ég vil vera eins og Che Guevara,“ einn af hershöfðingjum Fidel Castro sem leiddi kommúnísku byltinguna á Kúbu. Þegar Juan neitaði að gangast við þessu var haft samband við foreldra hans. „Auðvitað vildi ég ekki vera eins og maður sem myrti fjölda fólks og beitti ofbeldi, ég vildi bara vera ég sjálfur.“
Juan bendir á að þótt Kúba sé eyja í miðju hafinu með góð fiskimið, sérstaklega humar, þá megi Kúbverjar ekki borða fisk. „Við megum ekki veiða, ekki einu sinni nokkra metra út frá ströndunum. Höfnunum er stjórnað af ríkinu,“ segir hann og bætir við að ef maður er staðinn að því að veiða humar verði hann sendur í fangelsi. „Fólkið sem hefur svo leyfi til að veiða verður að afhenda ríkinu fiskinn.“
Í Kúbu hvílir herskylda á öllum drengjum eftir 16 ára aldur og Juan sinnti henni eins og aðrir. „Ef þú ferð ekki í herinn má drepa þig fyrir að vera svikari.“
Juan segir frá því að á Kúbu hafi lengi verið skólar sem börn á aldrinum 12 – 16 ára voru send í, 25 daga í senn. Fyrir hádegi var bóklegur lærdómur og eftir hádegi var líkamleg vinna. „Kennararnir þarna voru að nauðga stelpunum að staðaldri og ekkert að fela það, ég kom mér heim með því að segjast vera veikur.“
Juan segir að Kúbverjar séu með tvöfalt siðferði, til að komast af. Á götunum segist þeir vera byltingarsinnar en innst inni hati þeir stjórnvöld í landinu. „Sumir finna sig tilneydda til að játa ást sína gagnvart einhverjum túrista bara til þess að komast af landi brott og öðlast betra líf.“
Nú sé fólkið komið með nóg. Juan telur stærstu mistök ríkisstjórnarinnar hafa verið að gera nettengingu aðgengilega almenningi, þó það hafi verið háð takmörkunum.
„Það eru mótmæli um allt land. Enginn veit hvernig fólkið er að eiga samskipti. Enginn veit hvort þetta sé skipulagt. Þetta byrjaði í Havana og telur nú þúsundir manns í hverri einustu borg.“
Hann vísar í gamalt kúbverskt slagorð „landið okkar eða dauði“ sem átti að ramma inn styrk byltingarinnar, að fólkið var reiðubúið að deyja fyrir hana. „Við viljum ekki deyja við viljum lifa. Landið okkar og lífið!,“ segir Juan en það eru þau einkunnarorð sem komu mótmælaöldunni af stað.
Hingað til segir juan að Kúba hafi notað svokölluð þrýstipottaáhrif (e.pressure pot effect) til þess að halda fólkinu góðu. „í hvert sinn sem Kúbverjar verða mjög reiðir þá slakar ríkisstjórnin aðeins á einhverjum stöðum og herðir svo bara á öðrum og leysa það þannig.“
Juan telur að það muni ekki duga núna. Þetta sé byrjunin á nýrri byltingu. „Ég er ekki viss um að ríkisstjórnin falli í dag eða á morgun. Öll bylting tekur tíma.“
Hann segist hafa neyðst til að slíta sambandi við tvær aldraðar frænkur sínar fyrir nokkrum dögum því þær séu svo heilaþvegnar af ríkinu. „Frænka mín á ekki neitt, húsið hennar er hrunið. Sonur hennar hefur ekki fengið neina almennilega menntun eða vinnu. Hún sagðist samt þurfa að fara út á götu að verja byltinguna. Byltingu sem færði henni ekkert.“