Tónlistarmaðurinn og ímyndarskaparinn Klaus Nomi er samkvæmt mínu áliti sú manneskja í tískusögunni sem best hefur tekist að skapa sér stórkostlegt og einstakt útlit.
Tónlistarmaðurinn og ímyndarskaparinn Klaus Nomi er samkvæmt mínu áliti sú manneskja í tískusögunni sem best hefur tekist að skapa sér stórkostlegt og einstakt útlit.
Tónlistarmaðurinn og ímyndarskaparinn Klaus Nomi er samkvæmt mínu áliti sú manneskja í tískusögunni sem best hefur tekist að skapa sér stórkostlegt og einstakt útlit.
Bæði persónulegur stíll hans og list eru í algeru samræmi hvort við annað og fullkomlega einstakt án þess að vera hluti af einhverri kynslóð eða ákveðinni jaðarmenningu sem deila sömu fagurfræðilegu áherslum. Það var og er einfaldlega enginn eins og hann.
Sögu hans eru gerð góð skil í heimildarmyndinni „The Nomi Song“ sem vanalega finnst á YouTube og ég mæli eindregið með. Sjaldan hefur saga einhvers og áhrifavaldar kristallast jafn vel í verkum listamanns og útliti eins og saga Nomis.
Hann ólst upp í Þýskalandi eftir stríð en flyst síðan til New York-borgar á sjöunda áratugnum. Mömmu hans dreymdi um að hann yrði óperusöngvari og var hann í klassísku söngnámi sem barn en hann sjálfur var meira að hlusta á þýskt rafpopp. Hann vann þó fyrir sér með því að syngja í minni hlutverkum í óperuhúsum í Þýskalandi áður en hann flutti til Bandaríkjanna.
Hann þróaði með sér einstakt útlit en hann notaði búninga og farða til þess að þróa stíl og persónu. Hann líktist helst geimveru en hann sjálfur skilgreindi sig sem slíka.
Hann skildi ekki mikið eftir sig af tónlist en saga hans og persónulegur stíll eru hárbeitt og í algjöru samræmi við listina sem hann bjó til. Svipað samræmi finnst ekki oft en ef ég á að nefna aðra listamenn sem að mínu mati hafa skapað eitthvað svipað get ég helst nefnt myndlistarkonuna Fridu Kahlo og Björk Guðmundsdóttur.
Síðustu árin í lífi sínu, sem því miður varð ekki mjög langt, lagði hann meiri áherslu á óperusöng og er myndbandið við lagið „Cold Song“ að mínu mati ákveðinn hápunktur á ferli hans, án þess að vilja gera lítið úr laginu og myndbandinu „A Simple Man“, sem er frábært.
Senan í New York á þessum tíma var mjög skapandi og suðupottur alls konar listafólks sem þar var samankomið, þar á meðal myndlistarmennirnir Basquiat, Keith Haring, söngkonan Madonna og auðvitað Andy Warhol, sem þá var aðalmaðurinn. Nomi vakti fyrst athygli þegar hann kom fram í hinum þekkta Mudd Club og sýndi þar gjörning sem var mjög annars heims, bæði fatnaður og tónlist, og talar fólk um, sem sá þetta atriði, að það fái gæsahúð í hvert sinn sem það hugsar um það.
Hann kom fram í glærri skikkju og lauk atriðinu með því að hverfa á braut eins og hann væri að fara til síns heima úti í geimi. Eftir þetta fer hann að koma fram á ýmsum stöðum og meðal annars réð David Bowie hann sem bakrödd og dansara þegar hann kom fram í hinum vinsæla þætti Saturday Night Live árið 1979. Nomi náði þó aldrei að verða þekktur meðal almennings en það var líklega aldrei ætlunin.
Nomi var einn af fyrstu listamönnunum sem greindust með eyðni og lést hann árið 1983 á spítala í New York úr þeim sjúkdómi. Þetta var á þeim tíma þegar ekkert var vitað um AIDS og allir voru hræddir við að smitast. Þess vegna kom enginn að heimsækja hann á dánarbeðinn.
Hann var og er mikill áhrifavaldur í listum en á eftir honum komu „The NY Club Kids“, sem talin er vera síðasta „analog“-jaðarmenningin, en það má leiða líkum að því að Nomi hafi verið fyrirmynd þeirra og áhrifavaldur.