Tungumál samúræja og teiknimyndasöguhetja

Menntun er máttur | 2. september 2021

Tungumál samúræja og teiknimyndasöguhetja

Hinum megin á jarðkringlunni er að finna merkilegt land með óvenjulega siði og framandi tungumál. Sennilega er ekki hægt að finna land sem er ólíkara Íslandi en engu að síður fellur margur Frónbúinn kylliflatur fyrir Japan og þeirri hrífandi menningu og samfélagi sem landið býr yfir.

Tungumál samúræja og teiknimyndasöguhetja

Menntun er máttur | 2. september 2021

Sumi Gohana.
Sumi Gohana.

Hinum megin á jarðkringlunni er að finna merkilegt land með óvenjulega siði og framandi tungumál. Sennilega er ekki hægt að finna land sem er ólíkara Íslandi en engu að síður fellur margur Frónbúinn kylliflatur fyrir Japan og þeirri hrífandi menningu og samfélagi sem landið býr yfir.

Hinum megin á jarðkringlunni er að finna merkilegt land með óvenjulega siði og framandi tungumál. Sennilega er ekki hægt að finna land sem er ólíkara Íslandi en engu að síður fellur margur Frónbúinn kylliflatur fyrir Japan og þeirri hrífandi menningu og samfélagi sem landið býr yfir.

Sumi Gohana kennir byrjendanámskeið í japönsku hjá Mími auk þess að vera stundakennari við Háskóla Íslands. Hún segir áhugann á japönskunámi vaxa jafnt og þétt og sérstaklega ánægjulegt hvað unga fólkið er forvitið um japanskt mál og menningu: „Þegar ég byrjaði fyrst að kenna japönsku hjá Mími var hinn dæmigerði nemandi á þrítugs- eða fertugsaldri og stundum að slæddust með eldri nemendur. En í dag fáum við oft til okkar unglinga og ég verð vör við að börn allt niður í 10 ára aldur dauðlangar að læra japönsku.“

Teiknimyndir og poppstjörnur

Finna má ýmsar skýringar á Japansáhuga Íslendinga og nýtur t.d. japönsk dægurmenning mikilla vinsælda á Vesturlöndum um þessar mundir. „Sumir hafa uppgötvað japanska popptónlist eða dottið ofan í japanskar teiknimyndir og teiknimyndasögur og langar að skilja þessi verk á frummálinu. Má heldur ekki gleyma þeim sem hafa gaman af japönskum tölvuleikjum og kvikmyndagerð,“ segir Sumi.

Aðrir vilja læra japönsku til að standa betur að vígi í starfi og viðskiptum enda Japan land tækifæranna og eitt öflugasta hagkerfi heims. „Sumir nemendurnir eiga þegar í einhverjum viðskiptum við japanska aðila og vilja ná betri tökum á málinu af þeim sökum. Svo eru ófáir sem hyggja á ferðalag til Japans og vilja getað lesið skilti og átt einfaldar samræður við afgreiðslufólk.“

Tungumál sem kallar á aga

En hversu krefjandi er japanskan og hvað er hægt að komast langt á stuttu byrjendanámskeiði? Sumi segir það kalla á töluverðan aga að ná tökum á rituðu máli en Japanir nota þrenns konar ritmál: hiragana, katakana og kanji sem hvert hafa sinn tilgang og sérkenni.

„Byrjendanámskeiðið er átta kennslustundir og ef nemendur sinna heimavinnunni samviskusamlega eiga þeir að geta lesið og skrifað hiragana og katakana og t.d. beðið um vörur í matvöruverslun eða pantað rétt á veitingastað,“ útskýrir Sumi.

Það má svo bæta ofan á inngangsnámskeiðið hjá Mími en þar er boðið upp á framhaldsnámskeið fyrir byrjendur. Einnig bendir Sumi á að japanska er í boði sem valfag hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð auk þess að vera í boði sem aðal- eða aukafag hjá Háskóla Íslands. „Það er mjög einstaklingsbundið hve lengi fólk er að ná góðum tökum á japönsku en ég veit t.d. um marga sem hafa dvalið í Japan í eitt ár og lært að tala japönsku nokkuð vel á þeim tíma.“

Kurteisi fléttuð saman við málið

Til viðbótar við að þurfa að ná tökum á framandi ritmáli og tileinka sér nýjan orðaforða þurfa japönskunemendur líka að ná tökum á sérkennum japanskrar málnotkunar. Er það eitt af sérkennum japönsku að nota þarf t.d. sérstök „kurteisisorð“ þegar talað er til fólks sem vegna stöðu sinnar eða aldurs verðskuldar sérstaka virðingu. Er t.d. ekki sama hvernig nemandi ávarpar kennara sinn á japönsku, hvernig undirmaður talar til yfirmanns eða hvenig barn ávarpar ömmu sína og afa. „Þetta flækist stundum fyrir Íslendingum enda vanir meira frjálslyndi í samskiptum, og gaman að því hvernig yngstu nemendurnir spyrja oft hreint út hvers vegna í ósköpunum þurfi að ávarpa kennarann með tilteknum hætti, og hvers vegna það virki mjög dónalegt á japönsku að biðja um hlutina í boðhætti. Til að fyrirbyggja allan misskilning leggjum við ríka áherslu á það á byrjendanámskeiðinu að nemendur læri kurteisan talsmáta strax í byrjun,“ segir Sumi.

Á móti kemur að japönsk málfræði er tiltölulega einföld í samanburði við mál eins og íslensku. „Setningagerð er ekki flókin og japanskan er laus við kyn og fallbeygingar, og framburðurinn ekki svo snúin fyrir íslenskumælendur.“

Sumi segir vissara að stíga a.m.k. fyrstu skrefin í japönskunáminu undir leiðsögn kennara en eftir það geta áhugasamir t.d. stundað sjálfsnám á netinu og reynt að bæta hjá sér orðaforðann með því að sökkva sér ofan í japanska menningu. „Þarf þá helst að gæta að því að velja rétta efnið og er t.d. talsmátinn í japönskum teiknimyndum ekki alltaf líkur þeim talsmáta sem Japanir nota dags daglega. Hins vegar er það betra en ekkert að horfa og hlusta á japanskar teiknimyndir til að venjast málinu og bæta skilninginn smám saman.“

mbl.is