Mikill munur á stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga

Kórónukreppan | 20. september 2021

Mikill munur á stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga

Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 254 milljarða króna á síðasta ári. Árið á undan var hann neikvæður um rúmlega 46 milljarða.

Mikill munur á stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga

Kórónukreppan | 20. september 2021

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Staðan í ríkisfjármálum …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Staðan í ríkisfjármálum er verri en stjórnvöld hafa gefið til kynna þegar kemur að opinberum fjárfestingum, eins og segir í Hagsjá Landsbankans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 254 milljarða króna á síðasta ári. Árið á undan var hann neikvæður um rúmlega 46 milljarða.

Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 254 milljarða króna á síðasta ári. Árið á undan var hann neikvæður um rúmlega 46 milljarða.

Afkoma ríkissjóðs er þannig töluvert verri en afkoma sveitarfélaga, eða -27,2% af tekjum ríkissjóðs samanborið við -6,8% hjá sveitarfélögum.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans og þar segir að staðan sé verri hvað varðar opinberar fjárfestingar en stjórnvöld hafa gefið til kynna. 

Þar segir að samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands versnaði afkoma ríkissjóðs verulega á síðasta ári og fór úr -3,5% af tekjum árið 2019 og niður í -27,2%.

Hallarekstur hófst við fall WOW

Einnig segir að bág staða ríkissjóðs sé ekki ný enda hófst hún að mörgu leyti snemma árs 2019 þegar erfiðleikar í ferðaþjónustu blöstu við eftir fall WOW air. Staðan hefur hins vegar versnað síðan þá, enda nam hallinn af tekjum ríkissjóðs um 3,5% í ársbyrjun 2019 en var kominn í 37,5% á öðrum fjórðungi síðasta árs.

Síðan þá batnaði staðan jafnt og þétt og var halli ríkissjóðs af tekjum kominn í 18% á fyrsta fjórðungi þessa árs en síðan versnaði staðan aftur á öðrum ársfjórðungi 2021 þegar halli af tekjum ríkissjóðs nam 33%.

Útgjaldaukning meiri

Þar að auki segir í Hagsjánni að útgjaldaaukning ríkissjóðs hafi aukist umtalsvert eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á, mun meira en t.d. hjá sveitarfélögum. Þannig jókst útgjaldaaukning ríkissjóðs um 11,5% í fyrra samanborið við 6,8% hjá sveitarfélögum.

Einnig lækkuðu tekjur ríkissjóðs í fyrra eða um 9,6% á föstu verðlagi á meðan tekjur sveitarfélaga jukust um 2,5% á sama tímabili. Það hefur því verið mikill munur á tekjuþróun ríkissjóðs og sveitarfélaga, eins og segir í Hagsjánni.

Þá dróst opinber fjárfesting saman um 3,7% á árinu að raunvirði og er það annað árið í röð sem það gerist. Árið 2019 drógust opinberar fjárfestingar saman um 9,1% að raunvirði. Þessar tölur bera vitni um mun lakari niðurstöðu en bæði yfirlýsingar stjórnvalda og samþykktar heimildir hafa gefið til kynna, að því er segir í Hagsjá.

Uppfært kl. 12:29

Upphaflega sagði að Hagsjá Landsbankans segði stöðu ríkisfjármála verri en stjórnvöld gæfu til kynna. Eftir nánari yfirlegu á það aðeins við um opinberar fjárfestingar en ekki ríkisfjármálin í heild og hefur fréttin verið uppfærð miðað við það.

mbl.is