Auður Arna Arnardóttir, forstöðumaður MBA-náms Háskólans í Reykjavík og dósent í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, er á því að með námi megi ná fram auknum þroska.
Auður Arna Arnardóttir, forstöðumaður MBA-náms Háskólans í Reykjavík og dósent í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, er á því að með námi megi ná fram auknum þroska.
Auður Arna Arnardóttir, forstöðumaður MBA-náms Háskólans í Reykjavík og dósent í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, er á því að með námi megi ná fram auknum þroska.
Auður Arna er eins og svo margir að reyna að skilja betur hvaða áhrif kórónuveiran hefur í för með sér.
„Ég er að reyna að bregðast við þeim síbreytilegu og óvæntu takmörkunum og tækifærum sem kórónuveiran skapar í kennslu, rekstri og persónulega lífinu. Allt háskólanám hérlendis sem erlendis hefur á skömmum tíma þurft að aðlagast þeim nýja veruleika að nám fari fram ýmist rafrænt eða á svokölluðu blönduðu formi, þar sem nemendum er kennt samtímis í kennslustofu eða heima fyrir. Slíkt getur reynst krefjandi en jafnframt lærdómsríkt fyrir nemendur, kennara, sem og þá sem stýra námi. Raunin er sú að aðstæður hafa fleygt okkur af stað í notkun nýrrar kennslutækni sem rafræn kennsla kallar eftir. En þessar sérstöku aðstæður hafa ekki síður leitt til þess að gerðar eru dýpri greiningar og tekin eru mörg gefandi samtöl við ólíka haghafa um hvaða nálgun skilar góðum námsárangri og ánægjulegri upplifun fyrir okkar nemendur. Þetta hefur verið lærdómsferli sem ég veit að gerir sterkt nám enn betra og mun hafa áhrif á væntingar nemenda til náms til frambúðar.“
Eftir að Auður Arna lauk námi við Menntaskólann í Reykjavík hóf hún nám í sálfræði við Háskóla Íslands.
„Ég lauk þaðan grunngráðu sem ég byggði svo ofan á með MS- og Ph.D.-gráðu í ráðgjafarsálfræði frá VCU í Bandaríkjunum. Nokkrum árum síðar lauk ég PLD-gráðu í stjórnarfræðum frá IESE-viðskiptaskólanum í Barcelona. En líkt og margir þá lít ég svo á að hollt sé að læra út lífið, og því hafa ótal ólík námskeið bæst við í gegnum árin. Samnefnari þeirra hefur ekki alltaf verið skýr, en það er samt svo gaman að sjá hvernig þekkingarpúslin raðast saman og í raun gefa manni oft ólíkt sjónarhorn á sama viðfangsefni. Að mínu mati er nauðsynlegt fyrir okkur öll að staðna ekki, heldur sífellt leitast við að fræðast um nýja hluti. Slíkt hefur ávallt opnað augu mín fyrir einhverju nýju og gefið mér aukinn styrk og gleði í leik og starfi.“
Hvað áherslur eru í MBA-náminu í dag?
„Í tæp 20 ár hefur viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík útskrifað MBA-nemendur sem nýtt hafa krefjandi, fjölbreytt og alþjóðlega vottað stjórnunarnám sem stökkpall til spennandi starfa og persónulegs vaxtar. MBA-námið við skólann er alþjóðlegt stjórnunarnám sem veitir nemendum þjálfun á öllum meginsviðum stjórnunar- og viðskiptafræða og leggur sérstaka áherslu á ábyrga stjórnun, sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð, mikilvægi nýsköpunar og að nemendur skilji áhrif alþjóðasamfélagsins og síbreyttrar tækni á rekstur fyrirtækja. Þessar áherslur eru sýnilegar í leiðarljósum námsins, stjórnun-nýsköpun-þroski, og falla vel að stefnu Háskólans í Reykjavík.
MBA-námið er ætlað einstaklingum með háskólapróf af mismunandi fagsviðum sem eru einnig með viðamikla reynslu úr atvinnulífinu. Í námið sækir fjölbreyttur hópur einstaklinga sem allir eru að leita að því að efla eigin leiðtogahæfni, auka við þekkingu sína og færni og efla persónulegan þroska. Námið er hlutanám með vinnu og stendur yfir í fjórar annir. Nám okkar fer fram á ensku í skólastofunni og verkefnaskilum. Þetta hefur reynst okkar nemendum ómetanlegur styrkur í sínum störfum sem sífellt eru í alþjóðlegri tengslum þar sem gott vald á enskri tungu er nauðsyn. En enskan er jafnframt mikilvægt tól í íslensku atvinnulífi þar sem fjölbreytileiki vinnuafls hefur aukist mjög á undanförnum árum.
Styrkleiki MBA-námsins er fjölbreytileiki hóps MBA-nemenda sem hefur nám hjá okkur á hverju hausti. Við viljum fjölbreytileika til að skapa dýnamík í kennslustundum sem á að vera kröftug, frjó og leitandi og þar sem einstaklingar tala út frá sjónarhornum sem aðrir síður sjá eða skilja. Við höfum líka séð að þessi fjölbreytileiki hjálpar nemendum til þess að mynda víðfeðmt tengslanet til framtíðar.
Sérstaða MBA-námsins í Háksólanum í Reykjavík er alþjóðleiki þess og sterk tengsl við atvinnulíf. Kennarar námsins eru fjölbreyttur hópur fólks: Reyndir akademískir kennarar við háskólann og erlendir kennarar frá mörgum bestu viðskiptaskólum heimsins auk sterkra aðila úr íslensku atvinnulífi.
Erlendir kennarar námsins koma beggja vegna Atlantshafsins frá; til dæmis frá IESE og IE á Spáni, London Business School í Bretlandi, BI í Noregi og MIT og UVA í Bandaríkjunum, UBS, Rotham og University of Toronto í Kanada. Þessi fjölbreytta flóra kennara hjálpar nemendum okkar að skilja bæði sérstakar íslenskar aðstæður en jafnframt skilja alþjóðlegar áherslur í viðskiptum. Árið 2019 hófst samstarf MBA-námsins við bæði tækniháskólann MIT í Boston og við flóru íslenskra sprotafyrirtækja. Í lokaverkefnum nemenda okkar vinna þeir að greiningu íslenskra sprotafyrirtækja og nota til þess meðal annars vinnustofur MIT sem kallast DesignX. Þetta samstarf hefur verið einstaklega ánægjulegt.
Í MBA-námi okkar er lögð bæði rík áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir, það er meðal annars kennt með notkun raundæma, raunverkefna meðal fyrirtækja og í auknum mæli með hermileikjum, sem og öflugum tengslum við atvinnulíf. Kennsluaðferðir í MBA-námi veita nemendum tækifæri til mjög mikillar þátttöku í tímum. Hún krefst þess að nemendur geti greint og rætt af skynsemi krefjandi viðfangsefni í rekstri og eflir ábyrga ákvarðanatöku.“
Hverjir eru kostir þess að fara í MBA-nám?
„Nám er ávallt dýrmæt persónuleg fjárfesting og því mikilvægt að hver einstaklingur finni nám við hæfi. Það er fjöldinn allur af áhugaverðum og góðum kostum í boði og því mikilvægt að fólk kynni sér vel þær megináherslur sem lagðar eru í nám sem skoðað er hverju sinni, og hugleiði hvort það styðji við þá framtíðarsýn sem stefnt er að.
Í MBA-nám sækja einstaklingar sem vilja breytingar. Einstaklingar sem oft hafa það að markmiði í upphafi náms að vaxa sem einstaklingar, fá aukna ábyrgð á sínum vinnustað eða þeir sem vilja skapa sér önnur og betri atvinnutækifæri. Sumir búa jafnvel yfir nýsköpunarhugmynd sem þeir vilja sjá hvort raunhæft sé að efla. Allir eiga nemendurnir það sammerkt að sækja í persónulegan vöxt, vilja verða skilvirkari greinendur, liprari í lausn vandamála, betri í að takast á við og leiða breytingar.
MBA-námið í Háskólanum í Reykjavík er alþjóðlega vottað stjórnendanám sem hefur gæði kennslu, alþjóðlega sýn, ábyrga stjórnun og eflingu einstaklinga að leiðarljósi. Námið veitir nemendum aukinn sjálfsskilning, skarpari framtíðarsýn og skapar einstaklingum oft spennandi tækifæri á vinnumarkaði. Við erum stolt af því góða námi sem við bjóðum og gætum að því að leitast sífellt eftir því að styrkja það enn frekar. Ég hvet alla til að skoða nám okkar enn frekar og meta hvort þessi góði valkostur sé kannski sá rétti til að efla þig í leik og starfi.“