Umhverfis- og auðlindaráðuneytið telur ekki ástæðu til þess að banna útblásturshreinsibúnað skipa sem dælir úrgangi í sjóinn þrátt fyrir að efni sem gæti haft áhrif á heilsu manna brotni síður niður í köldum sjó en í andrúmsloftinu. Ástæðan er sögð vera að við Ísland séu hafstraumar sem leiða burt mengunina sem tryggir minni þéttleika efnanna í hafinu.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið telur ekki ástæðu til þess að banna útblásturshreinsibúnað skipa sem dælir úrgangi í sjóinn þrátt fyrir að efni sem gæti haft áhrif á heilsu manna brotni síður niður í köldum sjó en í andrúmsloftinu. Ástæðan er sögð vera að við Ísland séu hafstraumar sem leiða burt mengunina sem tryggir minni þéttleika efnanna í hafinu.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið telur ekki ástæðu til þess að banna útblásturshreinsibúnað skipa sem dælir úrgangi í sjóinn þrátt fyrir að efni sem gæti haft áhrif á heilsu manna brotni síður niður í köldum sjó en í andrúmsloftinu. Ástæðan er sögð vera að við Ísland séu hafstraumar sem leiða burt mengunina sem tryggir minni þéttleika efnanna í hafinu.
Í fyrra birti breska dagblaðið Guardian upplýsingar úr innanhússskýrslu Alþjóðasiglingamálastofnunar um hugsanlega skaðleg áhrif opinna útblásturshreinsunarkerfa sem losa PAH-efni í sjóinn og hvernig þau gætu haft áhrif á heilsu manna í gegnum fisk og skeldýr. Efnin hafa meðal annars verið talin auka líkur á húð-, lungna-, þvagblöðru-, lifrar- og magakrabbameinum.
Árið 2018 voru reglur um brennisteinsmengun í íslenskri landhelgi hertar og árið á eftir undirritaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, reglugerð um hertar kröfur varðandi eldsneyti í íslenskri landhelgi.
Var reglugerðin sögð í tilkynningu frá Stjórnarráðinu vera í raun bann við notkun svartolíu innan landhelginnar og var liður í að framfylgja aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
Raunar var ekki um bann við svartolíu að ræða heldur var veitt undanþága ef stuðst væri við tæki sem gætu hreinsað útblásturinn. Undanþágan hefur einnig náð til takmarkanna á brennisteini í eldsneyti.
„Reglugerðin á að stuðla að minni loftmengun frá skipum, sem er jákvætt fyrir loftgæði og heilsu fólks, en einnig að virka sem hvati til að draga úr notkun mengandi eldsneytis almennt. Hægt er að uppfylla kröfur reglugerðarinnar með því að nota minna mengandi eldsneyti, en einnig er heimilt að nota viðurkenndar aðferðir til þess að draga úr losun, s.s. að hreinsa brennistein o.fl. mengunarefni úr útblæstrinum með hreinsibúnaði,“ segir í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við fyrirspurn blaðamanns.
Til er þrenns konar hreinsibúnaður og segir í svarinu að opin kerfi séu algengust [á heimsvísu] en við notkun þeirra er „útblásturinn leiddur í gegnum vatnsúða sem tekur upp brennisteininn og er hreinsivatnið síðan leitt í sjóinn. Í hreinsivatnið fara auk brennisteins, agnir, málmar og efni sem myndast við bruna eldsneytisins, þ.e. fjölhringja kolefnissambönd (PAH, polyaromatic hydrocarbons) og köfnunarefnissambönd (NOx). Hætta af þessum völdum fyrir lífríki og heilsu manna er lítil þegar reglum er fylgt.“
Vert er að vekja athygli á að meðal skipa með útblásturshreinsibúnað sem skráð eru hér á landi eru öll fiskiskip með lokað kerfi. Í þessum tilfellum er úrgangi safnað saman og fargað á viðeigandi hátt þegar komið er í land. Hins vegar eru flutningaskip og skemmtiferðaskip sem sigla um Íslandssmið flest með opin hreinsikerfi.
PAH-efnin sem með hreinsibúnaði er dælt í sjóinn eru þó ekki úr sögunni þar sem þessi efni teljast til þrávirkra efna og er sólarljós aðalþáttur í niðurbroti þeirra samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun.
„Hryggdýr geta brotið niður PAH en umbrotsefnin geta verið skaðlegri en PAH-efnin sjálf. PAH-brotna ágætlega niður í andrúmslofti og við súrefnisríkar aðstæður en geta safnast upp í setlögum og súrefnissnauðu vatni ekki síst á köldum svæðum og þar sem lítið er af sólarljósi. PAH eru sérlega hættuleg lífríki í hafi, vatnasvæðum og í seti,“ segir í skýringu stofnunarinnar á takmörkunum á notkun PAH-efna.
„Engar vísbendingar eru um að PAH-efni í hafi við Ísland séu áhyggjuefni varðandi heilsu manna. Matís hefur fylgst með magni óæskilegra efna í sjávarfangi. Í skýrslu Matís frá 2010 kemur fram að PAH-efni hafi ekki fundist í neinum þeirra fisksýna sem mæld voru nema í grálúðu og að þar hafi styrkurinn sem mældist ekki talist hættulegur heilsu,“ segir í svari umhverfis- og auðlindaráðeytisins við fyrirspurn blaðamanns.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið viðurkennir í svari sínu að losun hreinsivatns geti aukið álag á umhverfið þar sem um er að ræða þunga skipaumferð í ám og við strendur þar sem endurnýjun sjávar er lítil.
„Slíkar aðstæður eru t.d. sums staðar við strendur Evrópu, en ekki hér við land. Almennt telst mengun sjávar hér við land lítil, sbr. nýlega samantekt umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. [...] Samkvæmt nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar fyrir árið 2019 var losun PAH-efna á Íslandi 87 kg (miðað við samtölu fjögurra PAH efna). Helstu uppsprettur PAH-efna í umhverfinu voru sorpbrennsla, ál- og járnblendiframleiðsla og bílaumferð. PAH efni berast aðallega í fólk með matvælum. Ógætileg meðferð þeirra, svo sem við reykingu og grillun matar, getur einnig haft áhrif, auk þess sem PAH-efni berast í fólk með tóbaksreyk.“
Í september 2019 var fyrir slysni úrgangi dælt úr hreinisbúnaði Lagarfoss í höfninna í Vestmannaeyjum. Hvatti rannsóknarnefnd samgönguslysa í kjölfarið yfirvöld til að meta hvort ekki sé ástæða til að banna opinn hreinsibúnað við strendur landsins. Taldi Umhverfisstofnun einnig ástæðu til að skoða hvort ætti að endurskoða ákvæði um hreinsibúnað.
„Ráðuneytið hefur farið yfir ábendingar frá Rannsóknanefnd samgönguslysa, en telur ekki ástæðu til að endurskoða reglugerð um eldsneyti í íslenskri landhelgi í kjölfar þeirra. Ráðuneytið tekur undir mikilvægi þess að mengunarvarnarbúnaður sé notaður á réttan hátt þannig að ekki verði losun í sjó í höfnum eins og gerðist í því tilviki sem Rannsóknanefndin hafði til skoðunar.
Ekki er þó ástæða til að ætla að heilsu manna hafi verið ógnað í tilvikinu sem um ræddi og ekki er ástæða til að ætla að vothreinsibúnaður í skipum valdi tjóni fyrir heilsu manna og lífríkis á Íslandsmiðum,“ segir í svari ráðuneytisins.