Albert Eiríksson, matarbloggari og lífskústner með meiru, heldur áfram að bjóða okkur með sér í kaffiboð og í þetta skipti var hann mættur í Þelamerkurskóla í Hörgársveit þar sem móttökurnar létu ekki á sér standa.
Albert Eiríksson, matarbloggari og lífskústner með meiru, heldur áfram að bjóða okkur með sér í kaffiboð og í þetta skipti var hann mættur í Þelamerkurskóla í Hörgársveit þar sem móttökurnar létu ekki á sér standa.
„Í Þelamerkurskóla í Hörgársveit er eitt metnaðarfyllsta föstudagskaffi sem ég hef komist í. Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir skólastjóri, sem nokkrum sinnum hefur komið hér við sögu áður, tók vel í að kanna hjá sínu fólki hvort þau vildu deila herlegheitunum á alberteldar. Þau létu ekki segja sér það tvisvar og úr varð stórglæsilegt föstudagskaffi,“ segir Albert og hér má sjá dýrðina.
Ljósmynd/Albert Eiríksson
Eplanachos
- Epli skorin í skífur, raðað fallega á platta og sítrónu- eða limesafi settur yfir – svo þau haldist fersk.
- Súkkulaði brætt (ég notaði suðusúkkulaði með karmellukurli og sjávarsalti), og möndlusmjöri síðan bætt við það svo það bráðni saman við.
- Súkkulaðinu er svo helt yfir eplin og því næst er kókosi og ristuðum kókosflögum dreift yfir.
- Það er hægt að nota hnetusmjör í staðinn fyrir möndlusmjör og eins er hægt að nota í raun hvaða súkkulaði sem er eða breyta til í því sem dreift er yfir í lokin.
Ljósmynd/Albert Eiríksson
Döðlukaka
- 235 g döðlur
- 1 tsk. matarsódi
- 120 g smjör (mjúkt)
- 5 msk. sykur
- 2 stk. egg
- 3 dl hveiti
- ½ tsk. salt
- ½ tsk. vanilludropa
- 1 ⅓ tsk. lyftiduft
Aðferð:
- Döðlur settar í pott og vatn látið fljóta yfir. Látið suðuna koma upp og leyfið þessu aðeins að malla.
- Láta standa i 3 mín. og bæta þá matarsóda við. Þeyta smjör og sykur vel saman, bæta við einu og einu eggi, svo hveiti, salti og vanilludropum.
- Loks lyftidufti út í ásamt helmingnum af döðlumaukinu fyrst og svo er restin af maukinu sett útí.
- Smyrja vel 24 cm form.
- Bakist við 180˚C í ca 30-40 mín.
Karamellusósa
- 120 g smjör
- 115 g púðursykur
- ½ tsk. vanilludropar
- ¼ bolli rjómi
Allt sett saman i pott og láta suðuna koma upp,lækka og hræra reglulega í pottinum.
Ljósmynd/Albert Eiríksson
Hollar nammikúlur
-Þessar þarf ekki að baka, bara stinga inn í ísskápinn- (sirka 20 stk):
- 2 dl möndlur
- 2 ½ dl ferskar döðlur (eða 10 döðlur – mikilvægt að taka steininn úr! )
- 1 kúffull msk möndlusmjör
- 1 tsk. hlynsíróp eða agave sýróp
- 2 tsk. kakó
- ⅕ tsk. salt
Hjúpur:
- 100 g suðusúkkulaði
- ½ tsk. kókosolía
- saltflögur
Aðferð:
- Settu möndlurnar í matvinnsluvél.
- Hakkaðu möndlurnar þar til þær eru orðnar að kurli.
- Settu döðlurnar (án steina) í matvinnsluvélina og blandaðu.
- Bættu kakó, salti, sýrópi og möndlusmjöri út í og maukaðu vel saman.
- Búðu til litlar kúlur úr deiginu.
Settu kúlurnar á disk og geymdu í ísskáp í 30-60 mín.
Hjúpur:
- Bræddu súkkulaðið og hrærðu kókosolíunni saman við í pottinum.
- Veltu kúlunum upp úr súkkulaðinu og raðaðu þeim á disk.
- Það er gott að setja bökunarpappír undir svo þær festist ekki við diskinn.
- Stráðu saltinu yfir súkkulaðið að lokum.
- Geymdu kúlurnar í ísskáp í allavega 30 mínútur svo súkkulaðið nái að harðna vel.
Ljósmynd/Albert Eiríksson
Frækex RL
- 2 dl sólblómafræ
- 2 dl graskersfræ
- 2 dl hörfræ
- 2 dl sesamfræ
- 2 dl chiafræ
- 2 dl möndlumjöl
- 2 dl Husk
- 4 dl sjóðandi vatn
- ½ dl olía
- ½ tsk salt
Aðferð:
- Öllu blandað vel saman með sleif og þjappað á bökunarplötu. Passa að hafa ekki of þykkt.
- Rifnum osti dreift yfir og því næst grófu salti
- Bakað við 150°C í 40-50 mín. Skellið á undirhita ef osturinn fer að dökkna of mikið.
- Brjótið og njótið
Ljósmynd/Albert Eiríksson
Allra besta hráfæðikakan
- 150 g möndlur
- 20 stk. döðlur, steinlausar
- 2 msk. kókosolía
- 1 tsk. vanilludropar
- 3 msk. sterkt kaffi
- ⅔ dl kókosflögur
- 2 msk. kakó
- salt á hnífsoddi
- 150 g dökkt súkkulaði
Aðferð:
- Byrjið á að rista möndlur í 225°C heitum ofni í um 10 mínútur. Hrærið af og til í blöndunni. Takið út og kælið.
- Setjið döðlur, kókosolíu, kaffi, kakó, kókosflögur, salt og vanilludropa saman í matvinnsluvél og blandið vel saman. Grófsaxið möndlurnar og bætið þeim saman við.
- Mótið kökuna á kökudiski.
- Bræðið súkkulaði og hellið yfir kökuna. Kælið í smá stund.
- Berið fram og njótið!
Ljósmynd/Albert Eiríksson
Huldu súrdeigsbrauð
- ca 250 g volgt vatn
- 150 g súr
- 15 g salt
- 50 g heilhveiti
- 50 g korn
- ca 400 g hveiti
Aðferð:
- Allt sett í sömu skál, blandað saman með sleif. Leyfa því að taka sig á bekknum fram að háttatíma, skella þá í form með bökunarpappír undir, poka yfir og inn í ísskáp. Ekkert flókið við þetta!
- Ég baka brauðið alltaf í lokuðum potti, svona svörtum eins og lærin eru steikt í. Ef þú bakar í ofninum þá hef ég hann ca 200°C heitan. Taka svo lokið af pottinum eftir ca 45 mín og baka áfram þangað til þér líst á brauðið.
Ljósmynd/Albert Eiríksson
Heimagerð rúllupylsa
- Þessi rúllupylsa var gerð úr lambaslögum af lambi úr Hörgársveit. Rifin tekin úr, slagið fituhreinsað, smá salti frá Reykjanesi og hvítum pipar stráð yfir, rúllað upp og sett í net.
- Síðan þarf rúllupylsan að liggja í saltpækli í viku og reykjast í Hörgársveitarkofa í 4 góðar uppkveikjur.
- Svo er pylsan soðin í tæpan klukkutíma, pressuð og hennar notið með góðu brauði eða hún er borðuð eintóm.